Valtýr og félagar

Yfirlitssýning á verkum Valtýs Péturssonar í Listasafni Íslands , 24.9.2016 – 26.03.2017.

Sýningin er samstarfsverkefni Listasafns Íslands og Listaverkasafns Valtýs Péturssonar sem var stofnað eftir að hann lést.  Á vef Listasafns Íslands kemur fram að síðasta yfirlitssýning á verkum Valtýs hafi verið haldin árið 1986, fyrir 31 ári síðan, og sé „því löngu tímabært að kynna þennan fjölhæfa myndlistarmann fyrir nýjum kynslóðum og veita þeim sem eldri eru tækifæri til að endurnýja kynnin, en margt í verkum Valtýs kallast á við samtíma okkar og gefur tilefni til að skoða þau í nýju ljósi“.

Valtýr var í hópi íslenskra listamanna á eftirstríðsárunum sem hrundu af stað formbyltingu í málverkinu hér á Íslandi. Ásamt nokkrum félögum sínum í stéttinni byggði hann brú áhrifatenginga milli Evrópu og Íslands með óhlutbundnum myndflatarrannsóknum og litatilraunum. Hann var bæði listmálari og gagnrýnandi, en í bók sem var gefin út með sýningunni er ferill hans rakinn ítarlega.

Sýningin sjálf er sett upp á nokkuð hefðbundinn hátt, í anda klassískra listasögusýninga: Sýningarveggirnir skiptast í tímabil eða einhver konar þemu og verk Valtýs sett í sitt sögulega samhengi. Ferill listamannsins var mjög fjölbreytilegur þar sem hann reyndi fyrir sér í margvíslegum stílum, allt frá strangflatarverkum til litríkra mósaíkmynda. Hefðinni samkvæmt er Valtýr settur í samhengi við samtíma sinn þannig að hann er dreginn fram sem fulltrúi síns sviðs og skrifaður inn í svokallaða kanónu íslenskrar listasögu sem frumkvöðull og meistari.

Fyrstur Íslendinga?

Eftir upplýsingum á veggtexta sýningarinnar var Valtýr fyrstur Íslendinga til að bera fyrir augu samlanda sinna málverk í svokölluðum geometrískum abstraktstíl, eða „reglustikumálverk“ svo vitnað sé í hans orð. Í textanum kemur fram að árið 1951 hafi hann fyrstur Íslendinga sýnt „hrein geómetrísk abstraktmálverk í takt við það sem þá var efst á baugi í París“.

Sú fullyrðing virðist vera fengin úr fyrsta kafla bókarinnar um Valtý, sem Anna Jóhannsdóttir skrifar. Þar vísar hún í þriðja bindi íslensku listasögunar þar sem Hanna Guðlaug Guðmundsdóttir vitnar í og túlkar orð Harðar Ágústssonar, samferðamanns Valtýs og félaga, þar sem Hörður segir að málverkið Á svörtum grunni (sem var sýnt á Septembersýningunni 1951 og er einnig sýnt hér í Listasafni Íslands) væri greinilegur „boðberi hinnar hreinu óhlutlægu listar” [1]. Ef rýnt er betur í þessa tilteknu heimild er margt sem bendir til þess að ekki sé hægt að taka hana upp sem sögulega staðreynd, eins og virðist vera gert hér á veggnum.

Árið 1953 skrifaði Hörður grein í tímaritið „Vaki“ þar sem hann tók saman yfirlit um myndlistasýningar sem voru haldnar í Reykjavík yfir veturinn 1952-1953. Í því yfirliti nefndi hann þó umrætt verk eftir Valtýr, sem hann hafði einnig birt mynd af í grein sinni um söguleg tildrög íslenskrar myndlistar, sem kom út ári fyrr í sama tímariti.

Yfirlýsing hans um þetta verk er þó greinilega ekki byggð á sterkari rökum en persónulegu áliti hans á samtíma sínum, þar sem hann viðurkenndi sömuleiðis að hafa ekki einu sinni séð þessa „umdeildu sýningu“. [5] Hins vegar eru þessi orð Harðar túlkuð þannig að Valtý er veittur sá heiður að vera „fyrstur íslendinga“ að bera fram á strigann hreint og óhlutbundið myndmál.

Önnur atriði er hægt að nefna sem veikja enn fremur þessa staðhæfingu sem hefur verið prentuð í Listasögu Íslands. Til að mynda má sjá í sýningarskrá Septembersýningarinnar 1951 þeim félögum Valtý og Þorvaldi Skúlasyni stillt upp saman á sömu opnu. Þar virðist myndmál þeirra vera á mjög svipuðum slóðum. Að vísu eru línurnar í verki Þorvaldar nokkuð frjálslegri heldur en Valtýs, en þó er greinilegt að þeim tveimur ber af í óhlutlægum myndrannsóknum, ef litið er á myndir annarra þátttakenda á sýningunni. Í sömu grein eftir Önnu Jóhannsdóttur er reyndar tekið upp eftir Valtý að þeir Þorvaldur hafi verið einu Íslendingarnir sem væru „alveg abstrakt“. [3]

Í fórum Listasafns Háskóla Íslands eru þó nokkur verk í geómetrískum stíl eftir Þorvald frá árinu 1951; bæði málverk og teikningar. Einnig er til skissa eftir Þorvald sem svipar mjög til þeirrar myndar sem endaði á sýningarskrá Septembersýningarinnar 1951. Sú teikning er mjög stílhrein og geómetrísk, þó hún sé ekki endilega teiknuð upp með hjálp reglustikunnar, líkt og með málverkið.

Þorvaldur Skúlason, teikning, 1951, Listasafn Háskóla Íslands
Ef til vill er hægt að rökræða um það hvenær og hvernig gemóetrían eigi að teljast sem hreinust. Vissulega formuðu listamennirnir bæði hér á Íslandi og erlendis ýmis konar regluverk í kringum málarastílinn þar sem til dæmis náttúrulegum litum var afneitað. Samt sem áður er skilgreiningin á geómetrískri abstraktlist of afstæð til að geta eignað einum listamanni heiðurinn af þeim stíl- „innflutningi“ til landsins.
Þorvaldur Skúlason. Skissa fyrir sýningarskrá, Septembersýningin 1951. Listasafn Háskóla Íslands.
Forsíða sýningarskráarinnar fyrir Septembersýninguna 1951.

Hér er ekki verið að gera lítið úr þrautseygju og elju Valtýs í sínu starfi. Þvert á móti er það á hreinu að hann, ásamt Þorvaldi og öðrum í September hópnum hafi unnið mjög mikilvægt starf í þágu myndlistarinnar hér á Íslandi, innleitt stílbrigði frá listalífi meginlandsins og gert að sínu. Hins vegar velti ég því fyrir mér hvort það skipti einhverju máli að eigna einhverjum einum heiðurinn að þessum tiltekna áfanga. Hægt er að líta á þetta sem tímabil þar sem margir einstaklingar með hugsjónir komu saman og formuðu sameiginlegt myndmál þar sem innlegg allra sem pensli eða meitli gátu valdið höfðu áhrif sín á milli. Spurninginni um það hver fór fyrstur yfir marklínu strangflatarmálverksins á Íslandi er allavega erfitt, jafnvel óþarft að svara.

Seinna í bókinni um Valtý Pétursson nefnir Jón B.K. Ransú einmitt að í stefnuyfirlýsingum konkretlistamanna í Evrópu hafi þeir gengið „í berhögg við snilligáfuna,“[4] sem líka er hægt að tengja við andúð á hinu svokallaða frumleikakapphlaupi.

Valtý er veittur heiðurinn „að vera frumkvöðull hinna nýju viðhorfa í málverkinu“, og Þorvaldur ekki einu sinni nefndur til samanburðar. Ef verk þeirra eru borin saman er reyndar greinilegt að Valtýr hafi komist mun hraðar á lagið með að vinna sig beint inn í þessi „hreinu“ geómetrísku verk. Línurnar eru hreinni og „reglustikaðri“. Samt sem áður eru þeir félagar algjörlega á pari í sínum óhlutlægu rannsóknum.

Það hefði í það minnsta verið æskilegt að stíga varlega til jarðar í stað þess að taka Valtý svona kyrfilega út fyrir sviga í nýútgefinni listasögunni, og byggja það á skoðun eins manns sem sá ekki einu sinni téða sýningu. Auk þess virðist fullyrðingin gera lítið annað en að þjóna úr sér genginni listpólitískri orðræðu í frumleikakapphlaupi listasögunnar.

Í skrifum um myndlist virðist vera til staðar viss hefð að slá upp einstaklingsmiðuðum hetjumyndum af listamönnum sem allir syntu þó í sömu „bóhem – súpunni“ og nutu góðs af samneyti hvors annars. Umfjöllunin verður einstaklingsbundnari en raunveruleikinn hafði kannski upp á að bjóða. Vissulega voru og eru listamenn að einhverju leyti einyrkjar sem eyða löngum stundum í einmannalegum vinnustofum sínum. En neisti áhrifanna kviknar ekki upp úr einmannaleikanum, heldur samverunni og samtölum sem þessir kyndilberar myndmálsins áttu sín á milli. Ef til vill byggist þetta á því hvernig skrifað var um listamenn á þessum tíma, en áfram er vitnað í orð og skoðanir þeirra sem nægilegan sannleik til að setja fram sögulegar staðreyndir.

Eins og fram kom hér í upphafi, þá stendur í kynningartexta um sýninguna að það sé löngu kominn tími á að kynna Valtý fyrir nýjum kynslóðum, og að skoða hann í nýju ljósi. Þessi orð gætu ekki verið sannari, bæði um Valtýr og samferðamenn hans. Á annars glæsilegri og áhugakveikjandi sýningu er erfitt að sjá hvar nýja ljósið skín, hvorki hvaðan né hvert. Allavega finnst það ekki í kanóniseruðum veggtextunum sem hefðu mátt fara í gegnum staðreyndapróf. Kannski mætti dreifa út geislum ljóskastarans og varpa ljósi á víðara samhengi þessa tímabils í stað þess að halda áfram gamalgróinni orðræðunni um frumleikakapphlaup og sjálfsprottna snilligáfu einyrkjanna.

Höfundur: Viktor Pétur Hannesson


[1] Hanna Guðlaug Guðmundsdóttir. „Formbylting“, Íslensk listasaga frá síðari hluta 19. aldar til upphafs 21. aldar, . bindi: Abstraktlist, bls. 68.

[3] Anna Jóhannsdóttir. „Um listarinnar höf – Siglingar í lífi Valtýs Péturssonar“. Valtýr Pétursson. Ritstj. Dagný Heiðdal. Listasafn Íslands, Reykjavík 2016.  bls. 32.

[4] Jón B.K. Ransú, „Þjóðlegir Tónar um alþjóðlega strauma“, Valtýr Pétursson, bls. 62.

[5] Hörður Ágústsson, 1953: „Listsýningar veturinn 1952-1953″, Vaki, 1. tbl. 2. árg., bls. 55-61 ( bls. 58).

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest

Share This