Svif, tóm, hreyfing, mýkt

Svif, tóm, hreyfing, mýkt

Svif, tóm, hreyfing, mýkt

Í Hverfisgalleríi stendur yfir sýning Hrafnkels Sigurðssonar, Upplausn, unnin upp úr ljósmynd af himingeimnum. Hrafnkell er þekktur fyrir einstök ljósmyndaverk sín, myndraðir þar sem hann varpar nýju og persónulegu ljósi á ólíkustu viðfangsefni. Tjöld á hálendinu, vinnuklæðnaður sjómanna, skaflar og ruðningur, sorp og plast og svo mætti áfram telja, öðlast nýtt líf á myndum hans, birtist jafnvel í nær óþekkjanlegri mynd sem varpar ljósi jafnt á eðli þess sem myndað er, á stærra samhengi hlutanna, en ekki síst á persónulega sýn listamannsins. Það sama er óhætt að segja um myndirnar á sýningunni Upplausn, en hér rennur saman hið smæsta og hið stærsta, sem og hugur listamanns og ímyndunarafl áhorfandans. Þessar vikurnar á Hrafnkell síðan einnig verk á sýningunni Ýmissa kvikinda líki, Íslensk grafík sem stendur yfir á Listasafni Íslands fram í september, og ljósmyndaverk í glugga að Laugavegi 41, sem er hluti af Listahátíð 2018. artzine hitti Hrafnkel í spjalli um sýninguna og þessi verk, en saman mynda þau eins konar þríhyrning í borgarlandslaginu.

Eins langt og ég kemst

„Ég vissi aldrei hvernig þetta myndi enda,“ segir Hrafnkell um hugmyndirnar að baki sýningarinnar Upplausn. „Þetta þróaðist smátt og smátt út frá mjög óljósri hugmynd. Var í langan tíma að gerjast, út frá hugmyndum um eitthvað eins og „noise“, eða pixil, mónókróma svarta mynd með einhverju „noise“, sem myndi líka innihalda óendanleika, tóm.
Ég fór af stað og gerði mynd sem var bara einn pixill, svartur ferningur, og var bara nokkuð sáttur með það verk. Síðan fór ég að vinna meira og meira í áferðinni. Hvað gerist ef ég stækka pixilinn enn meira upp? Fer inn í pixilinn, hvað gerist ef ég held áfram, hvað gerist ef ég fer bara eins langt og ég kemst, hvað er innst inni í pixlinum?
Fyrst ætlaði ég mér að taka pixil úr himninum, þar er ekkert, bara tóm, en ákvað svo að nota Hubble-sjónauka myndina af öllum vetrarbrautunum. Þar tóku þeir mynd af svörtum bletti á milli stjarnanna, þar sem þeir héldu að ekki væri neitt, en þegar þeir stækkuðu hana upp komu í ljós þúsundir vetrarbrauta. Ég beindi athyglinni að svörtum bletti á milli vetrarbrautanna og stækkaði hann upp, ég notaði sömu aðferð og vísindamennirnir nota til þess að fara út í geiminn, það er leikurinn, þannig séð. Svo hélt ég bara áfram.“

Ragna: Hvernig gerir þú þetta, tæknilega séð?

„Þetta er gert í myndvinnsluforriti, þetta er leikur að forritinu, ég stækka upp aftur og aftur og leita að einhverju sem ég get sett í form, eða unnið með áfram. Ég nota áhald sem kallað er töfrasproti, ég sveifla töfrasprotanum inn í myrkrið og þá birtast einhverjar línur og þá er ég byrjaður að vinna með eitthvað óvænt. Byrjaður að veiða eitthvað úr tóminu, form og línur. Þannig spinn ég þetta áfram. Ég hamast í tökkum og fikta þar til eitthvað óvænt gerist. Það þýddi aldrei fyrir mig að reyna að sjá fyrir mér aðferð eða mynd. Það sem rak mig áfram var að finna eitthvað spennandi og furðulegt. Það var kannski margra vikna vinna að leita að einhverju og síðan tók við annað eins við að koma því í form. Ég gat aldrei gert meira en eitt verk í einu. Þegar ég fór að gera annað verk þurfti ég að bakka og fara síðan í aðra átt og reyna að finna aðra möguleika. Inntak myndanna er leit.
Sumar þeirra eru flatar, ein er til dæmis svolítið eins og teppi, en mig langaði líka að gera þær þrívíðar og ég reyndi það. Stundum var ég algjörlega týndur og gat ekki haldið áfram, hver mynd tekur mörgum umbreytingum. Ég nota töfrasprotann og renni til hue-sleðanum, ég bætti aldrei litum við mynd, heldur vann ég heildrænt með þá liti sem birtust.
Í upphafi vissi ég ekkert hvernig ég ætlaði að hafa framsetninguna. En þegar á leið sá ég að myndirnar þurftu að vera stórar til að geta tekið á móti manni, til að skapa rými sem maður getur dottið inn í.“

Sýning sem snýst um áhorfandann

„Frá upphafi vildi ég tengja myndirnar inn í okkar rými, ég vissi ekki hvernig. Ég hugsaði um svif, tóm, hreyfingu, mýkt sem skapar eins og skugga, spor, tengingu milli veruleika. Ég vildi teikna upp þetta rafræna inn í okkar veruleika. Hér skapast líka svona hringhreyfing, – þetta er í raun sýning sem snýst um áhorfandann
Ein þessara mynda fékk mig líka til þess að líða eins og ég væri kominn inn í æskuminningu, út í móa, mér fannst ég ferðast eins langt og ég komst og aftur til baka. Ég fór inn í eigin hugarheim, mætti sjálfum mér. Þetta rennur allt saman í eitt, óendanleikinn, maður sjálfur og rafheimurinn, skáldskapurinn í lífinu.
Mér fannst mjög áhugavert að fara í þetta ferðalag sem er frekar vélrænt og vísindalegt, þessi ferð inn í pixilinn, og áfram og áfram. Ég setti mér það að fara eins langt og ég gæti, fara alla leið. Það var uppgötvun að upplifa þessa tengingu, að trúa því að maður sé á ferðalagi, en finna hvernig skilin milli ímyndunaraflsins og veruleikans runnu saman, það var stórt augnablik fyrir mig.“

Ragna: Síðan er þessi bjarta mynd, fimmta myndin. Hún er svolítið öðruvísi.

„Þetta er síðasta verkið, þarna er ég kominn að upphafinu, að mikla hvelli. Hinar unnust allar í átt að því að vera dökkar, ég hafði enga stjórn á því. En ég vildi hafa þessa ljósa. Í tölvunni er einfalt að velja svarta litinn og ýta á einn takka, „delete“. Slökkva á myrkrinu. Þegar ég var að gera þetta, var ég að lesa bók sem heitir Alheimur úr engu, og þar segir frá ljóshveli, – í upphafi var miklihvellur og síðan liðu þrjú hundruð þúsund ár, þá varð efnið til og ljósið. Þarna er talað um ljóshvel, eins konar rafgasvegg. Og þá hugsaði ég já, þetta er rökrétt. Ég er búinn að ferðast alla þessa leið og nú er ég kominn að rafgasveggnum. Og þar fer ekkert í gegn, samkvæmt þessu.
Í þessari síðustu mynd, þegar ég var búinn að stara inn í pixlana tímunum saman, kom óvænt augnablik þegar ég sá auga. Lifandi auga sem starði á mig. Ég hrökk við. Og ég var mjög ánægður með þetta, að ég skyldi ná að sjokkera sjálfan mig á þennan hátt. Mér fannst þetta vera til merkis um að það væri eitthvað í þessari mynd, eitthvað sem ég var að leita að. Eitthvað rétt. Og svo var annað – þetta var síðasta verkið sem ég var að klára, – ég sá augað, hrökk við, og hugsaði með mér að ég ætlaði ekkert að vinna meira í þessu heldur sjá til næsta morgun. Síðan þegar ég ætlaði að halda áfram með myndina daginn eftir eins og ég var vanur, var eins og eitthvað stöðvaði mig, hendurnar frusu fyrir ofan lyklaborðið. Það fannst mér annað merki um að myndin væri bara tilbúin. Þessi mynd kom sjálfum mér á óvart. Sú staðreynd að þetta gerðist í ferlinu, sannfærði mig um að sýna hana.
Þessi mynd snýst um að fara inn í sköpunina og nálgast upphafið, tengja við eigin sköpun, skynja sjálfan sig sem hluta af sköpuninni og gera sér grein fyrir að við erum bara framhald af þessari sprengju í upphafi alls.“

Ragna: Nú vinnur þú venjulega í seríum og viðfangsefnin eru ýmiss konar. Er einhver rauður þráður sem tengir á milli – eitthvað sem einkennir sköpunarferlið?

„Það sem er sameiginlegt með þessum og fleiri verkum er þessi óljósa tilfinning sem er upphafið. Þetta er aldrei hrein og klár hugmynd heldur koma margar hugmyndir saman yfir langt tímabil. Stundum er ég löngu búinn að gera verkin þegar þegar ég finn kannski tíu ára gamla skissu og átta mig á að ég hef pælt í hugmyndinni lengi án þess að gera mér grein fyrir því. Ég reyni að leyfa innsæinu að lifa. Þessi verk minna mig líka á verk sem ég gerði í kringum 1990, sem voru myndir af landslagi, unnar með samsetningu á pixlum. Þannig að þetta er kannski að einhverju leyti afturhvarf til upphafsins. En í rauninni langar mig alltaf að gera eitthvað sem er gjörólíkt, langar að koma sjálfum mér á óvart.“

Ragna: Finnst þér vera tilhneiging hjá þér til að nota andstæður í verkum þínum, – hér eru fjórar dökkar myndir og síðan ein ljós, og þú minntist á altaristöflurnar sem þú gerðir með myndum af himni og sorpi, sem fela þannig í sér andstæður?

„Nei, í raun og veru ekki. Hér gerðist þetta svona og mér fannst það algjörlega passa. Ef ferðalagið heldur áfram, lengra og lengra, í átt að upphafinu, þá endar þú í ljósi, sem er fyrsta ljósið. Það gerist bara. Þá komum við aftur að því að setja eigin langanir eða hugmyndir í samband við vísindalegar uppgötvanir. Þetta er ekki rannsókn, frekar rannsóknarefni. Þetta er ferðalag, leikur, sköpun.“

Ragna: Hvernig myndirðu vilja að fólk sæi þessar myndir?

„Ég vona bara að fólk geti einhvern veginn skynjað vitundina í gegnum þær. Vitundin er alls staðar. Þetta eru vitundarverk.“

Ragna: Nú ertu á sama tíma og þessi sýning stendur yfir hér í Hverfisgalleríi, með verk á samsýningu á Listasafni Íslands, og síðan verk í tengslum við Listahátíð uppi á Laugavegi 41. Geturðu sagt eitthvað frá þessum verkum? Hvað með verkið á Listasafni Íslands?

„Það er mjög gömul aðferð að prenta með höndunum. Ég byrjaði á þessu 2007, þegar ég sýndi grafík í Suðsuðvestur Gallerí í Reykjanesbæ, það voru fingraför á pappír. Þegar verið var að setja upp grafíksýninguna á Listasafninu spurðu þau hvort ég vildi gera verk á vegg á staðnum. Einhvern veginn lá þá beint við að setja þetta á hurðirnar. Ég hafði áður gert verk fingraför á vegg sem litu út eins og tvöföld hurð. Þau voru gerð með báðum höndum og tengjast þannig líkamanum. Verkin voru eins og hlerar sem opnast. Þannig að mér fannst tilvalið að setja þau hér beint á gler, þar sem tvöfaldar hurðir opnast. Síðan eru fingraförin hvít, það er ekki lengur tilfinning fyrir einhvers konar gruggi. Þau umbreytast í eitthvað tærara eins og snjó eða fjaðrir, það er bjartara yfir þeim svona. Samt koma þau frá líkamanum. EIns og ljós sem líkaminn lýsir frá sér og varpar á þessar dyr sem gengið er í gegnum.

Í þessum verkum er þetta sambland af því að nota einfalda, tæknilausa aðferð, sleppa myndavélinni, sleppa prentinu og prenta beint með likamanum, en samt er aðferðin vélræn.
Þegar maður stendur fyrir framan þetta verk og horfir í gegnum hurðirnar, þá skapast ákveðin þysjunaráhrif, sem koma líka fram í þessu verki sem við sjáum hér í galleríinu, þessu bjarta verki. Þar er ákveðin tenging.“

Ragna: Á Laugavegi 41 er síðan verk sem er hluti af Listahátíð. Þar eru ljósmyndir sem áhorfandinn sér í gegnum gluggana.

„Þegar mér var boðið að taka þátt í því verkefni sendi ég inn tillögu þar sem ég sagði frá hugmyndunum hér í Hverfisgalleríi og sá fyrir mér að geta gert eitthvað í framhaldi af því. Síðan fæddist svona hliðarverk, ég ákvað að nota sömu aðferð, stækka pixilinn, nema ég fór inn í íslenskt landslag. Ég hugsaði með mér, hvað gerist? Í þeirri barnslegu trú að ef ég geti stækkað upp pixil á ljósmynd, þá leynist eitthvað þar.

Eitthvað við þessa vinnuaðferð minnir á ósjálfráða skrift, ég hamast í tölvutökkunum, ég get ekki einbeitt mér of mikið og finnst eiginlega best ef einhver er að trufla mig á meðan. Þarna mynduðust síðan form sem voru eins og verur. Einhvers konar ljósverur. Mér fannst þetta mjög athyglisvert. Mér fannst líka eitthvað magnað við þetta, ég var búinn að vera þarna úti í geimnum og þær hafa annað hvort fylgt mér til baka – nú tek ég fram að ég er enginn áhugamaður um geimverur – eða þetta eru einhvers konar náttúruandar, að minnsta kosti koma þær innan úr pixlum sem teknir eru úr landslaginu. Það forvitnilega er að verurnar líkjast mjög mikið þessum verum sem Kjarval málaði, þetta eru eins og línur, segulsvið.
Þær birtust bara og þær ráða ferðinni. Nú eru þær komnar þarna út í glugga og þær ætla sér eitthvað. Ef maður tekur myndband af þeim á símann og horfir síðan á það, þá gerist eitthvað. Það kom á óvart. Það er eitthvað að gerast, það er einhver orka í þeim.

Það kom sjálfum mér mjög á óvart að ég skyldi gera þessi verk. Ég stóð bara svolítið til hliðar og sagði, ókei, komið þá bara. Það fannst mér skemmtilegt. Ég kalla þær Kyrrverur, Still Beings. Þessar verur eru í flötum veruleika, sem er raunveruleiki innan eðlisfræðinnar. Eins og þær séu í annarri vídd. Þær koma úr annarri vídd en vísa til sögu álfa og náttúruvætta. Minna líka á útlínur teikninga Erlu Stefánsdóttur. En ég er sjálfur hissa á því að þær skuli koma í gegnum þetta hjá mér. Mér líður eins og ég opni gátt, með þessari aðferð, með þessum tólum og tækjum. Ég hef líka hug á því að prófa þessa aðferð á fleiri hluti. Ætli það sé hægt að fanga kjarna veruleikans innst inni í pixli?“

Þríhyrningur í borginni

„Mér finnst þessi þríhyrningur spennandi, sem teiknast svona upp milli þriggja punkta í borginni. Í tengslum við þessi fyrirbæri, eins og augað, og rafgasið – mér finnst áhugavert að þetta sé hérna á sama tíma og tengist. Verkið á Listasafni Íslends er ákveðin athöfn. Það verður til með höndunum og síðan er eins og verið sé að opna – þú nemur á dyrnar og opnar inn í heima. Þá tekur við það sem er að sjá hér í galleríinu og loks verurnar uppi á Laugavegi.“

Ragna: Það er mjög merkilegt og sérkennilegt, þetta ferðalag í huganum.

„Já, þetta er ferðalag í huganum, en þú færð stuðning af veruleikanum til að komast áfram. Síðan þegar maður er kominn nógu langt, þá er maður einhvern veginn frjáls. Ég held að þó að þessari sýningu ljúki þá sé þetta ekki búið. Ég er viss um að ég á eftir að hræra meira í þessu. Þegar maður horfir á þessi verk er augljóslega nýtt og nýtt ferðalag í hverju verki, þau eru öll mjög ólík. Verkin fara hvert í sína áttina en að baki hverju þeirra gæti verið annað verk. Kannski er ég að sýna hérna fimm seríur, nema það er bara eitt verk úr hverri. Ég vildi sprengja þetta í allar áttir.“

Ragna Sigurðardóttir


Ljósmyndir af verkum: Vigfús Birgisson. Aðalmynd með grein: Helga Óskarsdóttir

Vefsíða Hrafnkells: www.hrafnkellsigurdsson.com

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest