Um þrettán hundruð orð: Jóna Hlíf í Listasafninu á Akureyri

Um þrettán hundruð orð: Jóna Hlíf í Listasafninu á Akureyri

Um þrettán hundruð orð: Jóna Hlíf í Listasafninu á Akureyri

Ég heyrði einu sinni um ljósmyndara, erlendis frá, sem kom til Íslands í frí. Hann var spurður, eftir að hafa horft hér um, skoðað þetta land, séð fjöll, heiðar, berg, strandir, sjó og fólk, hvort hann hafði tekið einhverjar myndir, hvort hann vildi ekki taka einhverjar ljósmyndir hér. Hann sagði nei, alls ekki. Það er ekki hægt að taka myndir hér, ómögulegt. Af því hvert sem ég lít, hvert sem ég beini vélinni, er fullkomin ljósmynd. Þetta er það sem Jóna Hlíf er að reyna að gera á sýningunni sinni Meira en þúsund orð. Að skoða eitthvað, setja nafn á, sýna okkur eitthvað sem við höfum öll séð áður. Eitthvað sem við höfum verið að horfa á í þúsund ár. Eitthvað sem, í sjálfu sér – ósnert – virðist fullkomið, stórkostlegt eins og landslag, eitthvað sem yfirbugar vélina sem við reynum að nota til að skoða það.

Að reyna að taka mynd af og setja nafn á þessa hugmynd af hinu íslenska. Það er erfitt, flókið. Vélin sem við notum við það þarf að standa af sér viss þyngsli. En vélin hér er mikilvæg. Það sem við erum að skoða þegar við skoðum þetta landslag og þessa hugmynd er líka þessi mynd sem hefur orðið að því sem við köllum íslenskt. Landið er eitt, myndin af því er annað.

Ljósmyndarinn gat ekki tekið mynd af fossinum, bóndabænum, hestinum, hverinum, stuðlaberginu, öskunni, lögin af öskunni, mosanum, bláa hafinu, bláa himninum, af því hann væri að taka mynd af einhverju sem, á sama tíma, er ekki hægt að fanga á mynd og sem allir hafa nú þegar tekið mynd af. Við vitum öll hvað við erum að tala um. Af því það sem við köllum íslenskt er líka íslensk klisja. Það sem við sjáum á samfélagsmiðlum, sem við miðlum á milli okkar næstum ósjálfrátt, sem við sjáum í kennslubókum, í tónlistarmyndböndum, mynd sem hefur undanfarin ár verið miðlað, varpað, út um allan heim á mjög ákveðinn hátt, og síðan af ferðafólki sem greinilega þyrstir í þetta landslag.

Jóna Hlíf sýnir okkur hér myndir og orð og efni og liti sem eiga að lýsa okkur sjálfum. En í dag, þegar klisjan er sú að börn fara ekki lengur í sveit, að fólk sjái þessar myndir, þetta land, nærri því eingöngu um sumar, í fríi jafnvel, sem afþreying, ekki sem heimili, land til að lifa af á, sinna og leigja (sjaldnast að eiga); þegar samband fólksins við sjálft landið og svo myndirnar af því er orðið allt annað, jafnvel rofið á einhvern hátt frá því sem það var áður; þegar allt sem birtist á þessum myndum, heysláttur, saltfisksflak, kind, hefur tekið á sig aðra þýðingu, þá kemur í ljós að við vitum kannski ekki alveg hvað þessi klisja þýðir.

Fyrsta setningin sem Jóna Hlíf birtir í sýningartextanum, á vegg áður en komið er inn á sýninguna, er eftir W.H Auden: This is an island and therefore Unreal. Auden skrifar þetta þegar hann og Louis MacNeice ferðuðust um Ísland árið 1936. Þetta hefur alltaf verið satt, allavega fyrir þann sem sér Ísland sem utanaðkomandi. Ævintýraeyja, hinstu mörk veraldarinnar, hlutur sem fólk annars staðan frá á auðvelt með að breiða sínum eigin hugmyndum og hneigðum yfir. Auden segir samt, annars staðar, að þetta gildi um allar eyjur – að á eyjum gildi annarskonar reglur. Á eyju eru ekki landamæri eins og á milli Frakklands og Þýskalands. Engin nágrannaþjóð til að bera sig við, hlægja að, með, eða hata. Eyja á úthafi er óraunverulegur staður ef hún er borin saman við meginland eða metrópólis. Hugsanlega vildi Auden sækja þetta hingað, óraunveruleika, kyrrð, eitthvað annað en hans England. Setningin sem kemur einmitt á undan þessari setningu sem Jóna Hlíf notar er: Europe is absent.

Auden sá Ísland sem langt í burtu frá öllu, frá meginlandinu, frá stigmagnandi óróleika millistríðsáranna, frá sinni eigin sögu. Europe is absent. This is an island and therefore Unreal. Hér var mögulegt fyrir eitthvað annað að vera til, önnur mynd, einfaldari og hugsanlega fullkomnari mynd. Eða hvað?

Í næsta versi ljóðsins lýsir Auden tveim elskendum sem geta fundið hina tæru ást, ein í eyðimörk þessarar eyju. En svo spyr hann strax: Can they? Getur þetta verið, að hér, langt í burtu á meðal óspilltrar þjóðar geti fundist eitthvað fullkomið? Nei. Annars staðar í bókinni lýsir hann rútuferð til Mývatns þar sem ferðast með þeim hópur af nasistum. Íslenska klisjan var auðvitað þeirra draumur líka. Ísland er óraunverulegt bara ef við leyfum myndunum af Íslandi að vera óraunverulegar, ef við leyfum þeim að vera bara klisjur. Ef við spyrjum klisjuna ekki spurninga.

Auden leitaði hugsanlega að einsemd, stórkostlegri náttúru, bláa hafinu og bláa himininum, frelsi frá gangi sögunnar, en sá líka fljótt að það er ekki hægt að finna það neins staðar. Þó hefur Ísland óneitanlega aðra upplifun af 20. öldinni en England, en Frakkland, en Þýskaland. Seinna stríð bjó til störf hér, vegi, nælonsokkabuxur, Ísland uppgvötvaði heiminn. Helförin var annars staðar. Þetta var tímabil sem mótaði að miklu leyti þessa næstum útópísku mynd sem varð til af Íslandi.

Jóna Hlíf spyr: ef við vitum ekki alveg hvað þessi klisja þýðir í dag, hver erum við þá? Hvað finnum við þegar við skoðum þessar myndir?

Af því þegar við köllum eitthvað Íslenskt, íslensk angist, íslensk auðmýkt, íslenskur ótti, þá erum við líka að bera það íslenska saman við eitthvað annars staðan frá. Hvað er sérstaklega íslenskt við íslenska gleymsku? Er hún eins og bandarísk eða malavísk? Ef það var ekki hægt að komast í burtu frá raunverulega heiminum hinum megin við hafið árið 1936 þá er það alls ekki hægt í dag. Hvað það er að vera íslendingur ræðst að miklu leyti af því hvernig samband Íslands er við umheiminn.

Þannig er eitthvað kalt og jafnvel óþægilegt við hvernig myndirnar og formin og efnið og textarnir á sýningunni mynda heild. Maður sér hversu mikil foréttindi íslensk forréttindi eru. Að vera þessi klisja eru foréttindi. Sérstaklega þegar Ísland hefur orðið að eftirsóttum ferðamannastað (fólk jafnvel tilbúið að ferðast hingað á tímum COVID-19, fólk jafnvel að berjast fyrir því að fá að ferðast hingað þrátt fyrir heimsfaraldur). Það er ekki erfitt að sjá afhverju. Við erum exótísk en það er hreint hjá okkur líka; það er stutt að fljúga hingað en samt erum við einangruð og lengst í burtu; við virðumst alhvít og nógu lík hinum vestræna efri-millistéttamanni til að ögra ekki. Það er auðveldara að vera þessi klisja heldur en einhvernvegin raunveruleg.

Þannig sjáum við á sýningunni mosatorfu, svartan sand, nokkra íslenskulega steina, viðbúinn efnivið í íslenskri sýningu. En svo tekur maður eftir því að stöplarnir sem þetta efni situr á eru valtir. Þeir standa á löngum, mjóum fótum úr ódýru timbri. Þeir gætu á hverri stundu, auðveldlega, dottið eða fallið saman, þeir þola ekki hnjask, jafnvel ekki sýningargesti. Þá tekur maður líka eftir þykkblöðungi, einhverskonar, í potti á einum stöplinum og það getur verið leið út. Við vitum að Íslenska klisjan stendur á völtum fæti, að hún er pappírsþunn, líka að það getur auðveldega orðið klisja að gera myndlist um það að vera Íslendingur – en það er nauðsynlegt. Það er nauðsynlegt að skoða þessar myndir af okkur og hvernig þessi saga hefur verið sögð. Það er nauðsynlegt að koma með fleiri myndir, fleiri efni, fleiri hluti (hvernig á þykkblöðungur í potti heima á þessari sýningu?) inn í þessa hugmynd um hið íslenska. Það er nauðsynlegt að ögra og taka í sundur þessa alltaf endurfæddu klisju.

Yfir einum glugganum í sýningarsalnum hefur Jóna Hlíf sett bláa filmu. Þegar skín í gegnum hana kemur inn blátt ljós yfir sýninguna, tiltekinn blár litur sem við höfum ákveðið sé íslenskur. Ef við ætlum okkur að skoða og túlka og reyna að komast að því hvað er íslenskt þá þurfum við að vita að við gerum það alltaf í gegnum einhverja filmu, einhverja vél, að vélin litar okkur. Hvort sem sú vél er myndlistarsýning, orðaforði samtíma okkar, eða hvort það sé ódýrt að fljúga til íslands eður ei, þá þurfum við að skoða þessar myndbirtingar vel – hvernig við birtumst á mynd, hvernig við tölum um okkur – að túlka og endurtúlka hvað íslenskt þýðir. Við gerum ekki nógu mikið af því.

Starkaður Sigurðarson


Ljósmyndir: Vigfús Birgisson

Díana að eilífu: Prinsessa, goðsögn, fórnarlamb

Díana að eilífu: Prinsessa, goðsögn, fórnarlamb

Díana að eilífu: Prinsessa, goðsögn, fórnarlamb

Nýverið opnaði sýning í tilefni þess að tuttugu ár eru liðin frá dauða Díönu prinsessu af Wales og er titill sýningarinnar, Díana, að eilífu eða Diana, Forever. Sýningin er haldin annarsvegar í Gallerí Port að Laugavegi 23b og hinsvegar í Ekkisens sem er staðsett að Bergstaðastræti 25b. Blaðamaður artzine hitti sýningarstjórana og listamennina Auði Lóu Guðnadóttur og Starkað Sigurðarson og spurði þau um um sýninguna.

Starkaður Sigurðarson, Andrea Arnarsdóttir og Auður Lóa Guðnadóttir

Fjórtán listamenn á öllum aldri taka þátt í sýningunni og varpa, með fjölbreyttum listaverkum, ljósi á samband sitt við viðfangsefnið. Hugmyndin kviknaði þegar Auður Lóa var að leita að myndefni af rómversku gyðjunni, Díönu, að baða sig. „Sagan segir að veiðimaður hafi komið að Díönu berskjaldaðri að baða sig og að hún hafi breytt honum í hjört svo veiðihundar hans snerust gegn honum og drápu hann. Þegar ég var að leita að tilvísunum í eldra myndefni af þessu á Google fann ég fullt af flottum olíumálverkum, en sirka fimmta hver mynd var ljósmynd af Díönu prinsessu að sóla sig á snekkju, í túrkíslituðum 90’s sundbol“.

Við frekari leit fann Auður dýpri tengingu á milli gyðjunnar Díönu og prinsessunnar Díönu. Því ákvað hún að samtvinna goðsögnina við líf Díönu prinsessu, sem virðist að mörgu leiti hafa verið „nútímalegur harmleikur“, sviðsettur af fjölmiðlum.

Auður Lóa Guðnadóttir, Gallerí Port.

Auður Lóa Guðnadóttir, Gallerí Port.

Una Sigtryggsdóttir og Svein Steinar Benediktsson, Gallerí Port.

Andrea Arnarsdóttir, Ekkisens.

Starkaður Sigurðarson, Ekkisens.

Starkaður bætir við að það sem almenningur veit um Díönu prinsessu kemur að mestu leiti úr myndefni frá slúðurblöðum og fjölmiðlum. „Við erum strax komin með fyrsta lagið sem aðskilur okkur frá henni. Verkin fjalla um hugmyndir okkar um Díönu frekar er manneskjuna sjálfa: mynd af myndgerðri ímynd af óraunverulegri manneskju. Díana verður þannig nostalgísk, jafnvel goðsagnarkennd persóna. Hún á sér margar hliðar og þess vegna er hún áhugavert viðfangsefni í myndlist.“

Verkin sýna ýmsar ólíkar birtingarmyndir Díönu prinsessu. „Sýningin er svolítið ‘Díana og ég’. Nálgun hvers og eins listamans verður mjög persónuleg,“ segir Auður. „Alls voru þrjú verk til áður en ferlið hófst en öll hin verkin voru sérstaklega gerð fyrir sýninguna.“

Gjörningakvöld var haldið í Mengi í tengslum við sýninguna þar sem tveir gjörningar voru fluttir. Annar þeirra, Royality vs. Reality, fluttur af Rúnari Erni Marínóssyni og Berglindi Ernu Tryggvadóttur, tók á sig form listræns fyrirlesturs á meðan seinni gjörningurinn, Díana undir rós, saminn af Guðrúnu Heiði Ísaksdóttur og Maríu Worms, var eilítið leikrænni.

Frá gjörningakvöldi í Mengi

Rúnar Örn Marínósson og Berglind Erna Tryggvadóttir voru með listrænan fyrirlestur.

Berglind Erna Tryggvadóttir

Rúnar Örn Marínósson og Berglind Erna Tryggvadóttir.

Seinni gjörningurinn, fluttur af Maríu Worms, Auði Lóu og Starkaði Sigurðarsyni, var eilítið leikrænni.

Auður Lóa.

Auður Lóa og María Worms.

Auður Lóa og María Worms.

Verkin á sýningunni eru fjölbreytt og einkennast helst af málverkum, teikningum og skúlptúrum, auk hreyfi- og ljósverka. Hvert verk virðist spegla líf Díönu á sinn hátt. Verkin fjalla meðal annars um útlit hennar; ástina, kynið og goðsögnina; hlutgervinguna, ímyndina og fórnarlambið.

„Það er dálítil tvíræðni í öllum verkunum. Tvíræðnin er líka það sem gerir Díönu áhugaverða.“ segir Starkaður. „Það veit náttúrlega enginn okkar hvernig Díana var í raun og veru,“ bætir Auður við. „Því væri hægt að segja að allar framsetningarnar séu í raun ósannar. En svo er sannleikurinn náttúrlega bara það sem við trúum að sé satt. Ef ég tryði því að Díana væri lauslát væri það sannleikur fyrir mér, eins ef hún væri dýrlingur. Díana var ein þeirra fyrstu sem var elt uppi af fjölmiðlum og slúðurblöðum. Hún náði reyndar að nota það sem tól seinna meir og olli þannig miklum viðhorfsbreytingum í bresku samfélagi og heiminum öllum. Ég held að Díana hafi undir lokin verið manneskja sem vildi bara vera elskuð. Hún fékk ekki ástina eða lífið sem hún þráði þegar hún giftist Karli bretaprins, nítján ára, en ástina fékk hún frá almúganum sem virtist dýrka hana þá og virðist enn gera það í dag.“

Þáttakendur í verkefninu eru: Andrea Arnarsdóttir, Auður Lóa Guðnadóttir, Berglind Erna Tryggvadóttir, Guðrún Heiður Ísaksdóttir, Helga Skúladóttir Thoroddsen, Magnús Gestsson, María Worms, Rúnar Örn Marinósson, Sigrún Hlín Sigurðardóttir, Snorri Ásmundsson, Starkaður Sigurðarson, Steingrímur Eyfjörð, Sveinn Steinar Benediktsson, Una Sigtryggsdóttir.

Lokahóf sýningarinnar verður 25. Nóvember í Ekkisens. Við hvetjum fólk eindregið til að nýta tækifærið og skella sér á hina margbrotnu og litríku sýningu, Díana að eilífu.

Sólveig Eir Stewart


Ljósmyndir af verkum: Starkaður Sigurðarson (Ekkisens) Helga Óskarsdóttir (Gallerí Port)
Frá gjörningakvöldi í Mengi: Laufey Elíasdóttir

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest