Díana að eilífu: Prinsessa, goðsögn, fórnarlamb

Díana að eilífu: Prinsessa, goðsögn, fórnarlamb

Díana að eilífu: Prinsessa, goðsögn, fórnarlamb

Nýverið opnaði sýning í tilefni þess að tuttugu ár eru liðin frá dauða Díönu prinsessu af Wales og er titill sýningarinnar, Díana, að eilífu eða Diana, Forever. Sýningin er haldin annarsvegar í Gallerí Port að Laugavegi 23b og hinsvegar í Ekkisens sem er staðsett að Bergstaðastræti 25b. Blaðamaður artzine hitti sýningarstjórana og listamennina Auði Lóu Guðnadóttur og Starkað Sigurðarson og spurði þau um um sýninguna.

Starkaður Sigurðarson, Andrea Arnarsdóttir og Auður Lóa Guðnadóttir

Fjórtán listamenn á öllum aldri taka þátt í sýningunni og varpa, með fjölbreyttum listaverkum, ljósi á samband sitt við viðfangsefnið. Hugmyndin kviknaði þegar Auður Lóa var að leita að myndefni af rómversku gyðjunni, Díönu, að baða sig. „Sagan segir að veiðimaður hafi komið að Díönu berskjaldaðri að baða sig og að hún hafi breytt honum í hjört svo veiðihundar hans snerust gegn honum og drápu hann. Þegar ég var að leita að tilvísunum í eldra myndefni af þessu á Google fann ég fullt af flottum olíumálverkum, en sirka fimmta hver mynd var ljósmynd af Díönu prinsessu að sóla sig á snekkju, í túrkíslituðum 90’s sundbol“.

Við frekari leit fann Auður dýpri tengingu á milli gyðjunnar Díönu og prinsessunnar Díönu. Því ákvað hún að samtvinna goðsögnina við líf Díönu prinsessu, sem virðist að mörgu leiti hafa verið „nútímalegur harmleikur“, sviðsettur af fjölmiðlum.

Auður Lóa Guðnadóttir, Gallerí Port.

Auður Lóa Guðnadóttir, Gallerí Port.

Una Sigtryggsdóttir og Svein Steinar Benediktsson, Gallerí Port.

Andrea Arnarsdóttir, Ekkisens.

Starkaður Sigurðarson, Ekkisens.

Starkaður bætir við að það sem almenningur veit um Díönu prinsessu kemur að mestu leiti úr myndefni frá slúðurblöðum og fjölmiðlum. „Við erum strax komin með fyrsta lagið sem aðskilur okkur frá henni. Verkin fjalla um hugmyndir okkar um Díönu frekar er manneskjuna sjálfa: mynd af myndgerðri ímynd af óraunverulegri manneskju. Díana verður þannig nostalgísk, jafnvel goðsagnarkennd persóna. Hún á sér margar hliðar og þess vegna er hún áhugavert viðfangsefni í myndlist.“

Verkin sýna ýmsar ólíkar birtingarmyndir Díönu prinsessu. „Sýningin er svolítið ‘Díana og ég’. Nálgun hvers og eins listamans verður mjög persónuleg,“ segir Auður. „Alls voru þrjú verk til áður en ferlið hófst en öll hin verkin voru sérstaklega gerð fyrir sýninguna.“

Gjörningakvöld var haldið í Mengi í tengslum við sýninguna þar sem tveir gjörningar voru fluttir. Annar þeirra, Royality vs. Reality, fluttur af Rúnari Erni Marínóssyni og Berglindi Ernu Tryggvadóttur, tók á sig form listræns fyrirlesturs á meðan seinni gjörningurinn, Díana undir rós, saminn af Guðrúnu Heiði Ísaksdóttur og Maríu Worms, var eilítið leikrænni.

Frá gjörningakvöldi í Mengi

Rúnar Örn Marínósson og Berglind Erna Tryggvadóttir voru með listrænan fyrirlestur.

Berglind Erna Tryggvadóttir

Rúnar Örn Marínósson og Berglind Erna Tryggvadóttir.

Seinni gjörningurinn, fluttur af Maríu Worms, Auði Lóu og Starkaði Sigurðarsyni, var eilítið leikrænni.

Auður Lóa.

Auður Lóa og María Worms.

Auður Lóa og María Worms.

Verkin á sýningunni eru fjölbreytt og einkennast helst af málverkum, teikningum og skúlptúrum, auk hreyfi- og ljósverka. Hvert verk virðist spegla líf Díönu á sinn hátt. Verkin fjalla meðal annars um útlit hennar; ástina, kynið og goðsögnina; hlutgervinguna, ímyndina og fórnarlambið.

„Það er dálítil tvíræðni í öllum verkunum. Tvíræðnin er líka það sem gerir Díönu áhugaverða.“ segir Starkaður. „Það veit náttúrlega enginn okkar hvernig Díana var í raun og veru,“ bætir Auður við. „Því væri hægt að segja að allar framsetningarnar séu í raun ósannar. En svo er sannleikurinn náttúrlega bara það sem við trúum að sé satt. Ef ég tryði því að Díana væri lauslát væri það sannleikur fyrir mér, eins ef hún væri dýrlingur. Díana var ein þeirra fyrstu sem var elt uppi af fjölmiðlum og slúðurblöðum. Hún náði reyndar að nota það sem tól seinna meir og olli þannig miklum viðhorfsbreytingum í bresku samfélagi og heiminum öllum. Ég held að Díana hafi undir lokin verið manneskja sem vildi bara vera elskuð. Hún fékk ekki ástina eða lífið sem hún þráði þegar hún giftist Karli bretaprins, nítján ára, en ástina fékk hún frá almúganum sem virtist dýrka hana þá og virðist enn gera það í dag.“

Þáttakendur í verkefninu eru: Andrea Arnarsdóttir, Auður Lóa Guðnadóttir, Berglind Erna Tryggvadóttir, Guðrún Heiður Ísaksdóttir, Helga Skúladóttir Thoroddsen, Magnús Gestsson, María Worms, Rúnar Örn Marinósson, Sigrún Hlín Sigurðardóttir, Snorri Ásmundsson, Starkaður Sigurðarson, Steingrímur Eyfjörð, Sveinn Steinar Benediktsson, Una Sigtryggsdóttir.

Lokahóf sýningarinnar verður 25. Nóvember í Ekkisens. Við hvetjum fólk eindregið til að nýta tækifærið og skella sér á hina margbrotnu og litríku sýningu, Díana að eilífu.

Sólveig Eir Stewart


Ljósmyndir af verkum: Starkaður Sigurðarson (Ekkisens) Helga Óskarsdóttir (Gallerí Port)
Frá gjörningakvöldi í Mengi: Laufey Elíasdóttir

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest