Pappakassar stór hluti af íslenskri menningu

Pappakassar stór hluti af íslenskri menningu

Pappakassar stór hluti af íslenskri menningu

Tvíburasysturnar Maria og Natalia Petschatnikov héldu sýninguna „Learning to read Icelandic patterns“ í Gallerí Úthverfu á Ísafirði seint á síðasta ári. Maria og Natalia dvöldu vikurnar fyrir sýninguna í gestavinnustofum ArtsIceland á Ísafirði og var sýningin byggð á upplifun og rannsóknarvinnu þeirra á Vestfjörðum yfir þann tíma. Maria og Natalia eru fæddar í St. Petersborg í Rússlandi. Þær fluttu til New York þegar þær voru 17 ára en búa í dag í Berlín, þar sem þær eru með stúdíó og setja reglulega upp sýningar með abstrakt málverkum og innsetningum. Blaðamaður artzine settist niður með þeim systrum yfir kaffibolla og spjall um upplifun þeirra af Íslandi og hvernig sýningin þeirra varð til.

„Við vildum ekki hafa einhverja fyrirfram ákveðna hugmynd um hvað við ætluðum að gera, við vildum nota tækifærið og fá innblástur héðan. Við byrjuðum á að gera litlar teikningar sem leiddu okkur í ýmsar áttir. Þaðan komu hugmyndirnar, með lítilli rannsóknar- og þemavinnu sem var í raun endurvarp á hinu magnaða landslagi allt í kring. Sem dæmi um þetta var ýmislegt sem við sáum á ferðalagi okkar, myndir af fjöllum í gegnum bílglugga þegar það rigndi, þannig að rigningin og regndroparnir urðu hluti af verkunum.“ segja Maria og Natalia og segjast hafa óttast í raun að geta ekki endurvarpað þessari nátturlega fegurð í verk sín. Þess vegna hafi þær frekar reynt að finna leið til að færa fegurðinni nýja vídd.

Getur ekki verið venjulegur maður*
Heimsókn þeirra systra á ákveðinn bóndabæ í nágrenni Ísafjarðar leiddi svo til sýningarinnar sem þær settu upp. „Það var eiginlega tilviljun að svo varð. Það er heit laug þar hjá bænum og Elísabet (Elísabet Gunnarsdóttir hjá Gallerí Úthverfu) fór með okkur þangað einn daginn. Er við sátum í lauginni þá sáum við bóndann á bænum, hann Finnboga, skyggnast út um gluggann. Það var ákveðin upplifun að sjá þennan skeggjaða mann í glugganum, einn í þessu húsi sem er umvafið stórfenglegri náttúru. Við töluðum ekki við hann í þessari heimsókn, en okkur langaði að fara aftur þangað og kynnast honum.“ Í huga þeirra systra var öruggt að um merkilegan mann væri að ræða. Einhver sem býr aleinn, umkringdur þessum fjöllum, getur ekki verið venjulegur í þeirra huga. Þær segja þessa upplifun hafa verið afar óraunverulega því í borgarumhverfi sem þær eru vanar þá er mikið af fólki en mjög lítil náttúra, en þarna var bara ein manneskja en öll þessi náttúra.

Það var svo í næstu heimsókn þeirra á bóndabæinn sem þær töluðum við Finnboga. „Fyrir heimsóknina höfðum við lesið bæklinga um sauðfé til að geta átt einhverjar samræður við hann! Honum leið nú ekkert vel með að tala ensku en við fengum með okkur í heimsóknina hana Heiðrúnu sem vinnur hjá ArtsIceland og hún þýddi fyrir okkur. Hún sagði jafnramt að íslenskan hans Finnboga væri líka sérstök, að hann talaði með einstökum hætti. Hann var nú ekki mjög málglaður en hann sýndi okkur bæinn sinn, gaf okkur kaffi og við gáfum honum rússneskt sælgæti. Hann sýndi einnig list okkar áhuga sem við skoðuðum saman í bæklingi sem við tókum með okkur í heimsóknina. Svo sýndi hann okkur einnig gamla húsið sitt, þar sem hann fæddist og sagði okkur að þar byggi huldufólk og að það væri ástæða þess að hann slæi ekki grasið þar.“ segja Maria og Natalia.

Þegar þær systur fóru svo að huga að sýningunni sjálfri þá voru þær ekki ennþá ákveðnar hvað þær vildu gera. Þær settu upp litlar teikningar sem þær höfðu gert en þeim fannst þær þurfa eitthvað meira. „Galleríið er lítið rými og okkur fannst við á einhverju að halda sem myndi gera það algjörlega að okkar rými. Við óskuðum eftir pappakössum í verslunum á Ísafirði og fengum nokkra. Okkur til mikillar ánægja var liturinn vel við hæfi, þessi brúni litur. Pappakassar eru svo stór hluti af Íslandi og íslenskri menningu vegna alls þess innflutnings sem á sér stað hér. Þannig að við þöktum gólfið og veggina í galleríinu með þessum brúna pappa, það varð striginn okkar. Og við byrjuðum að mála, við máluðum Finnboga sem varð að fjalli með sauðfé í. Þetta var tilraunakennt, gróft og óklárað, unnið með stórum bursta beint úr fötu! Svo bættum við litlu teikningunum við.“ segja þær systur og það vottar á glampa í augum þeirra er þær rifja upp uppsetningu á sýningunni.

Of mikil örvun
Þær segja að það sé mjög erfitt að verða ekki fyrir áhrifum af Vestfjörðum. „Allt sem þú sérð er svo sérstakt, þú vilt taka það allt upp, festa á filmu eða mála það. Og stóra spurningin er hvernig á maður svo að túlka svona lagað? Þetta er gott dæmi um of mikla örvun, stundum þarf maður bara að draga djúpt andann, þetta er allt svo spennandi! Fólkið sem býr hérna tekur örugglega ekki eins mikið eftir þessu og upplifir þetta ekki eins. Það er mikil orka allt í kring og við erum afar þakkláta að hafa möguleikann að halda sýningu til að vinna úr þessari upplifun.“ Maria og Natalia segjast hafa velt fyrir sér hvernig það sé ef maður fer til Íslands með skemmtiferðaskipi í einn eða tvo daga, hvað maður eigi að gera við alla þá upplifun eftir svo stuttan tíma. Að þeirra sögn hefði upplifunin einfaldlega verið of mikil ef þær hefðu ekki haldið sýningu til að vinna úr henni. Auk þess segja þær að þær hafi stöðugt spurt sjálfa sig hvort landslagið væri raunverulegt eða tölvugert?

Þær systur segjast nota rýmin mikið þar sem sýningarnar þeirra eru settar upp. Að þeirra sögn eru rýmin ekki hlutlaus og vilja þær nota sögu staðarins og vera sjálfar hluti af upplifun fólks af sýningunni. Þess vegna þurfi þær að skilja aðstæður og staðinn sjálfan. „Sem dæmi um þetta þá er það pappinn sem við unnum með í Úthverfu. Okkur fannst hann minna okkur á bárujárn sem finna má í svo mörgum húsum á svæðinu. Öll gömlu húsin sem hafa verið máluð margsinnis og endurgerð og fólk hefur lent í vandræðum með veðráttuna hér. Það er líka ein ástæða þess að við völdum að vinna með pappann!“

Þær Maria og Natalia segja að lokum að það sé mjög mikilvægt fyrir listamenn og heimafólk að listasýningar séu settar upp í litlum þorpum á landsbyggðinni. Með því fái listafólkið tækifæri til að kynnast heimamönnum og skilur aðstæður þeirra betur og heimamenn fá tækifæri til að sjá list og sjá hvernig ókunnugt fólk sér heimahagi þeirra. „Það er líka mikilvægt að gera list sem allir geta skilið, ekki bara einhver elíta. Það geta allir skilið list og talað um list. Það setur manni alltof miklar skorður ef listafólk reynir að gera bara list fyrir aðra listamenn eða gagnrýnendur.“

Aron Ingi Guðmundsson


Myndir: Maria og Natalia Petschatnikov

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest