Myndlistarrannsókn og tilraun vinnur Kvikmyndahátíðina í Berlín

Myndlistarrannsókn og tilraun vinnur Kvikmyndahátíðina í Berlín

Myndlistarrannsókn og tilraun vinnur Kvikmyndahátíðina í Berlín

Kvikmyndahátíðin í Berlín er fyrsta alþjóðlega kvikmyndahátíðin í A flokki á hverju ári. Í ár átti hún sér stað 15. til 25. febrúar. Ef dæma á af myndum og umfjöllun í meginstraumsfjölmiðlum mætti halda að hátíðin snerist um töfraljóma rauða teppisins. Það er hinsvegar ekki málið fyrir fagfólk og áhugafólk um kvikmynda- og myndbandslist. Hátíðin er mikilvæg miðstöð á þýsku og alþjóðlegu senunni um myndabands- og kvikmyndalist myndlistarmanna.

Kvikmyndirnar í aðalkeppninni um Gullbjörninn taka mjög mismunandi afstöðu gagnvart miðlinum og hægt er að líta á þær að hluta sem sýnishorn af hinum fjölmörgu flokkum hátíðarinnar. Í ár vann tilraunakennd rannsóknarmynd sem auðveldlega væri hægt að segja að sé fulltrúi Forum flokksins. Forum gæti útleggst á íslensku sem opinn samræðuvettvangur. Það var mynd leikstýrunnar og myndlistarkonunnar Adina Pintilie ‘Touch Me Not’ sem vann. Það má ekki horfa framhjá því að þessi ákvörðun hefur mikið menningarlegt og pólitískt mikilvægi. Hún er afgerandi yfirlýsing hinnar alþjóðlegu dómnefndar um hvert þau vilja að hátíðin stefni eftir að stjórnandi hennar Dieter Kosslick hættir árið 2019.

Þetta er yfirlýsing sem er mjög mikilvæg fyrir myndlistarmenn í kvikmyndagerð, sérstaklega í ljósi opinbers bréfs sem margir af helstu leikstjórum Þýskalands skrifuðu undir síðastliðinn nóvember og sem kallaði á áherslu á stærri nöfn og meiri töfraljóma frekar en áherslu hátíðarinnar á rannsókn á mismunandi afstöðum og möguleikum kvikmyndanna. Formaður dómnefndar, Tom Tykwer, skýrði ákvörðun dómnefndar með því að þau vildu ekki verðlauna það sem kvikmyndalistin gæti þegar gert vel heldur mikið frekar hvert kvikmyndalistin gæti farið í framtíðinni. Hann er að tala um möguleika kvikmyndarinnar. Stefnan er í átt tilraunarinnar.


Frá innsetningunni ‘A Mechanism Capable of Changing Itself’. Frá vinstri til hægri: ‘Strange Meetings’ eftir Jane Jin Kaisen, ‘Pink Slime Ceasar Shift’ eftir Jen Liu og ‘Café Togo’ eftir Musquiqui Chihying og Gregor Kasper.

Þetta eru ekki ný átök eða umræður. Tilraunaflokkur hátíðarinnar, Forum, var upprunalega stofnaður sem ‘Hinn alþjóðlegi umræðuvettvangur um nýja kvikmyndalist’ á umrótsárunum í lok 7. áratugarins, sem mótvægi við Kvikmyndahátíðina í Berlín. Stofnhópurinn sem síðar varð að Arsenal, þýsku stofnuninni um kvikmynda- og myndabandslist, vildi umbreyta kvikmyndalistinni í vettvang uppbyggilegrar menningarlegrar umræðu og skoðanaskipta. Það var svo árið 1970, í kjölfar mikilvægra breytinga á Kvikmyndahátíðinni í Berlín, sem Forum flokkurinn var innlimaður í hátíðina sem vettvangur fyrir kvikmyndir sem eiga heima á mörkum myndlistar og kvikmyndalistar og þar sem heimildarmyndir og skáldaðar myndir eru metnar á jafnræðisgrundvelli. Frá upphafi vildi Forum flokkurinn standa utan við keppnisandann og er ekki með nein opinber verðlaun. Hinsvegar eru fjöldinn allur af sjálfstæðum verðlaunum. Í ár voru kvenleikstjórar mjög sigursælar í flokknum.

Forum flokkurinn er hinsvegar aðallega helgaður myndum í fullri lengd og það var árið 2006 sem stjórnarformaður Arsenal stofnunarinnar, Stefanie Schulte Strathaus ásamt sjálfstæða kvikmynda- og myndlistar sýningarstjóranum Anselm Franke, stofnaði ‘Forum Expanded’ undirflokkinn – hinn útvíkkaði umræðuvettvang. Þar fá styttri myndir og einrása myndbandsverk að taka þátt ásamt innsetningarverkum og gjörningum. Afstaða Forum Expanded er að bjóða upp á gagnrýni og útvíkkaða skynjun á fyrirbærinu kvikmynd.


Stilla úr ‘Today Is 11th June 1993’ eftir Clarissa Thieme.

Þessi rýni tekur á sig form hópsýningar á innsetningaverkum ásamt röð kvikmyndasýninga í hefðbundnum kvikmyndasal. Forum hefur frá upphafi verið helgað tilraunakenndum frásagnarleiðum, óháð tegundaflokkunum, þar sem meiri áhætta hefur verið tekin en í öðrum flokkum hátíðarinnar og áhersla hefur verið á annars konar valmöguleika eða sýn á annars samþykktri kvikmyndasögu. Það sem gerir hinn útvíkkaða undirflokk sérstakan er að hann er vettvangur þar sem heimildarmyndir, skáldað efni, tilraunaefni, blendingar, einrása og margrása verk og innsetningar, kvikmynda- og myndbandsverk eru flokkuð saman og skoðuð í samhengi við hvort annað. Vettvangurinn er ekki bara einstakur, í sambandi við að horfa framhjá hefðbundnum tegundaflokkunum og merkimiðum eftir sýningarsniði, heldur er hann einnig einstakur að því leiti að í honum taka sýningastjórarnir ákveða afstöðu eða réttara sagt leggja í ákveðinn rannsóknarleiðangur með ákveðið sýningarheiti eða spurningu að leiðarljósi. Í þeirri rannsókn rúmast bæði heimsfrumsýningar á verkum og mikilvæg eldri verk ásamt nýlegum verkum af tvíæringum og öðrum sýningum. Í flokknum eru engin verðlaun.


Kvikmyndagerðar og myndlistakonan Clarissa Thieme.

Árið 2018 er Forum Expanded ennþá rekið í samstarfi Kvikmyndahátíðarinnar í Berlín og Arsenal stofnunarinnar með Stefanie fremsta í flokki jafningja en Anselm Franke er meira á hlíðarlínunni þar sem hann er í dag yfirmaður kvikmynda- og myndlistardagskrá Húss Menninga Heimsins (‘Haus der Kulturen der Welt’) í Berlín. Auk Stefanie stendur að baki sýningunni 2018 sýningarstjórateymi sem samanstendur af sýríska kvikmynda og myndbandslistamanninum Khaled Abdulawahed, þýska tilraunakvikmynda sýningarstjóranum Ulrich Ziemons og listakonunni, sýningarstjóranum og einum af stofnanda ‘Contemporary Image Collective’ í Kairó, Maha Maamoun. Saman skipa þau teymi sem segir sögu af áherslunni á fjölbreytilega afstöðu í menningarpólitík Þýskalands.

Þetta árið var heiti sýningarinnar bein tilvitnun í spássíunótu Maya Deren frá 1947 um eiginleika Marxisma: ‘Kerfi sem er fært um að breyta sjálfu sér’ (‘A Mechanism Capable of Changing Itself’) og vísar í tilfelli sýningarinnar til kvikmyndalistarinnar sem er ekki aðeins fær um að koma af stað breytingum eða breytast heldur hefur einnig í sér getuna til að skapa ný skynjunarform. Samkvæmt Stefanie vísar heitið auk þess í stofnanarammann sjálfan sem verkin eru sýnd í. Kvikmyndafræðingurinn Ute Holl hélt ræðu á opnun Forum Expanded sýningarinnar um kenningalegan bakgrunn rannsóknarspurningarinnar og titilsins. ‘‘Eins og Maya Deren gerði ráð fyrir að sérhvert móttökuform kvikmyndarinnar umbreytti líka viðtakendum á sama tíma þá lýsir hugmynd hennar um kvikmyndalistina samáhrifum stýrikerfis þar sem tæknilegir, félagslegir og fagurfræðilegir þættir ásamt skynþáttum eru í stöðugu umbreytingarferli sem á sér stað á gagnkvæman hátt: ‘Kerfi sem er fært um að breyta sjálfu sér’,“ hélt Ute fram og hélt áfram: “Það var ósk Maya Deren að kvikmyndalistin myndi staðsetja okkur í sambandi við hið óþekkta frekar en að færa okkur undir stjórn hins staðlaða eða dæmigerða‘.’ Þetta er viðhorf sem bergmálar ekki aðeins í sýningarstjórninni á Forum / Forum Expanded í ár heldur er einnig hvatinn á bakvið ákvörðun hinnar alþjóðlegu dómnefndar sem veitti Gullbjörninn.

Eins og undanfarin ár átti sýningin sér stað bæði sem hópsýning í Akademie der Künste eða Akademíu listarinnar við Hansetenweg í Berlín og sem kvikmndasýningar þar og í Arsenal stofnunni við Potsdamer Platz. Í sýningunni virðast sýningarstjórarnir, eins og hin alþjóðlega dómnefnd, vera að leita að nýrri sýn á fortíðinni og leið til að umbreyta henni í nýja sýn á möguleikum framtíðarinnar þar sem lykilinn er áhersla á framtíðarmöguleika kvikmynda- og myndbandlistarinnar frekar en að verðlauna þaulreyndar aðferðir. Listamönnunum sem var boðið eru 58 talsins. Ný verk voru vanalega eftir yngri kynslóðina á meðan eldri verk voru valin úr sögu avant-garde kvikmyndagerðar, vanalega frá miðbiki 20. aldarinnar í Bandaríkjunum. Þegar litið er á afrekaskrá yngri listamanna kemur í ljós að þeir hafa flestir tekið virkan þátt í starfi mikilvægra þýska eða berlínskra liststofnanna, ýmist með því að sýna verk, taka við styrk, verið í námi eða eru á skrá hjá belínsku eða þýsku gallerí. Fáein verk koma úr stórum tvíæringum á síðasta ári.


Anouk de Clercq ásamt kollegum sínum fyrir utan Akademie der Künste.

Einn listamannanna er hin þekkta myndbandslistakona Anouk de Clercq sem heimsfrumsýndi nýjasta verk sitt ‘It’ í kvikmyndasal í Arsenal stofnuninni. Verkið er samstarfsverkefni með ljósmyndaranum Tom Callemin.’It’ eins og fyrri verk Anouk tekur sér sterka fagurfræðilega stöðu á milli myrkurs og ljóss og kannar hvað gerist þar á milli. Anouk, sem búsett er í Berlín, er mjög sýnileg í belínsku senunni en á sama tíma var hún að sýna myndbandsverk á tveim öðrum virtum sýningarstöðum í Berlín: í Künstlerhaus Bethanien í Kreuzberg og ACUD gallerí í Mitte hverfi. Einhverjir á Íslandi þekkja e.t.v. til verka Anouk en hún var handhafi SIM vinnustofudvalar árið 2006 og tók þátt í sýningu í Safni á Laugavegi undir sýningarstjórn Birtu Guðjónsdóttur. Síðan þá hefur Anouk ferðast átta sinnum til Íslands og jafnvel búið til verk sem eru innblásin af tíma hennar og ferðalögum á landinu.

Anouk er ein af stofnendum Auguste Orts, belgísks framleiðslu- og dreifingarfyrirtækis fyrir hljóð-og myndverk myndlistarmanna sem falla á milli flokkunarkerfa tegunda og forma. Verk Anouk eru framleidd af þessu fyrirtæki og fjármögnuð af flæmska Hljóð-og myndverkasjóðnum og einnig af rannsóknarsjóði Listaháskólans í Ghent en Anouk er með rannsóknarstöðu við þann skóla. Ég hitti hana stuttlega daginn fyrir frumsýninguna og spurði hana hvað vettvangurinn Forum Expanded þýddi fyrir hana sem listamann: “Það er algerlega frábært að sjá verk samferðamanna í listinni í sýningarstjórnuðu samhengi, sem er mjög sjaldgjæft fyrir stórar hátíðir. Venjulega einblína hátíðir á það nýjasta af því nýjasta, frumsýningar os.fr.v en hér blanda þeir nýju efni við eldri verk og leita eftir flæði í hverjum dagskrárlið. Og svo má nefna að vinir mínir og samferðamenn í kvikmyndalistinni búa út um allan heim og hérna fáum við tækifæri til að hittast aftur og skiptast á skoðunum um myndirnar sem við höfum séð, myndirnar sem við erum að undirbúa, o.sfr.v.’‘ Tilfinningin um að búa í tveim aðskildum heimum er eitthvað sem allir listamenn sem vinna með kvikmyndir og myndbönd þurfa að fást við. Það er mismunur á fjármögnun, tegundaflokkun, samhengi, umræðu og væntingum.

Ég spyr Anouk hvernig það hefur verið fyrir hana að tilheyra tveim mismunandi heimum: “Ég byrjaði bæði í myndlistarheiminum og í kvikmyndaheiminum á sama tíma: þessir tveir heimar mættust sjáldan. Á síðustu tveim árum eða svo hefur orðið til merkimiði fyrir það sem ég og samferðamenn mínir gera: ‘kvikmyndir myndlistarmanna’ (‘artist film’) eða hreyfimyndir myndlistarmanna (‘artist moving image’) þannig að flæðið á milli þessara tveggja heima hefur orðið betra. Það hefur orðið til sena sem er stöðugt að styrkjast og senan er með fótinn inn fyrir dyrnar bæði í kvikmynda- og myndlistarheiminum.


Sýningarstjórateymi Forum Expanded 2018. Frá vinstri til hægri: framkvæmdastjórinn Stefanie Schulte Strathaus, sýningarstjórinn og með-stofnandi  ‘Contemporary Image Collective’ í Kaíró, Maha Maamoun, Sýrlenski kvikmyndagerðar/video-listamaðurinn Khaled Abdulawahed og þýski tilraunakvikmynda sýningarstjórinn Ulrich Ziemons.

Söfn hafa orðið opnari og forvitnari um kvikmyndir og myndbönd, kvikmyndahátíðir eru að leita eftir nýjum leiðum í kvikmyndagerð og þannig komu þær auga á kvikmyndagerð myndlistarmanna. Það virðist vera að þessi sena af myndlistarmönnum sem eru að gera kvikmyndir, virki æ meir eins og brú á milli þessara tveggja heima.’

Anouk hefur sjálf verið virk í að brúa bilið en á árunum 2015 – 2017 skipulagði Auguste Orts verkefnið ‘On and For Production’ eða ‘Um og fyrir framleiðslu’, frumkvöðlaverkefni sem samanstóð af röð funda víðsvegar um Evrópu þar sem málefni tengd framleiðslu og fjármögnun á kvikmyndagerð myndlistarmanna voru rædd með þátttöku leiðandi fagfólks og fjármögnunaraðila úr báðum heimum. Christina Nord, fyrrverandi kvikmyndarýnir hjá ‘die tageszeitung’ dagblaðinu í Berlín og núverandi yfirmaður í menningardagskrárdeild Goethe stofnunarinnar, skrifaði grein um blendingsmyndir í sýningarskrá Forum / Forum Expanded, þar sem hún vitnar í orð kvikmyndagerðamannsins Marcin Malaszczak varðandi þetta: “Fyrir kvikmyndagerðamenn, fyrir verkið sjálft, skipta tegundaflokkaskipanir ekki máli. Þessar tegundaflokkanir eru aðeins nauðsynlegar þegar verið er að sækja um styrk, þegar þú vilt vinna í kerfinu. Þá þarf að stimpla allt. Sama á við um flestar hátíðir.“ Þetta er hvatinn á baki verkefni Anouk að færa saman fjármögnunaraðlia í myndlistar- og kvikmyndaheiminum til að hefja samræður og skoðanaskipti, til að brúa þessa tvo heima.


Akademie der Künste – einn af stöðunum þar sem Forum Expanded á Berlinale Film Festival fór fram.

Annar listamaður sem heimsfrumsýndi einrása verk í kvikmyndasal Akademíunnar er þýska tilraunakvikmyndagerðakonan Clarissa Thieme, fyrrverandi aðstoðarprófessor við Listaháskólann í Berlin og nýlega handhafi rannsóknarstöðu við berlínsku rannsóknarmiðstöðina fyrir æðri rannsóknir í listum og vísindum (‘BAS’). Myndin hennarToday Is 11th June 1993′ var þróuð í ramma myndlistarrannsóknarstyrks við stofnunina sem Clarissa hefur fengið til að rannsaka myndbandsupptökur úr myndbandssafni Hamdija Kresevljakovic í Sarajevo.

Myndin er fyrsta listræna niðurstaðan úr rannsóknarverkefninu en meira er á leiðinni fljótlega, gjörningur og myndbandsinnsetning. Myndbandssafnið samanstendur af upptökum sem teknar voru á meðan á fjögurra ára umsátri um Sarajevo stóð yfir, og var tekið bæði af Kreševljakovic bræðrum og safnað frá frá fólki sem bjó í borginni á þessum tíma. Í mynd Clarissu situr þýðandi í lokuðum bás fyrir framan vörpun á myndbandsupptöku úr safninu sem sýnir heimagerða vísindaskáldsögu þar sem hópur af ungu fólki ímyndar sér að flýja umsátrið með hjálp tímavélar. Þetta er einhvers konar framtíðarútópíu ímyndunarfantasía og þess vegna frumlegt efni til að nota fyrir pólítíska og félagslega umræðu.

Í Spurningum&Svörum eftir sýninguna benti Clarissa á að safnið sýnir sjónarhorn sem er mjög ólíkt umfjöllun meginstraumsfjölmiðla frá þessum tíma og geti það því þjónað sem einskonar gluggi aftur í þennan tíma. Hvernig eigi að sýna og upplifa efni úr söfnum er ríkt svið til að gera tilraunir með og Clarissa gerir þetta á mjög áhugaverðan hátt með þvi að búa til brú á milli þá og nú með því að endurtaka í bergmáli fyriráætlanir hinna upprunalegu kvikmyndagerðamanna.

Myndin, sem virðist í fyrstu vera einföld sviðsetning á efninu, er marglaga og kveikir á hugrenningum og tengingum hjá áhorfandanum, ekki aðeins um hvernig umsátrið um Sarajevo var sett fram með almennum stöðluðum hætti árið 1993 og síðar, heldur einnig um hvernig umsátur í samtímanum eru sýnd í meginstraumsfjölmiðlum dagsins í dag. “Forum Expanded er blendingsvettvangur þar sem kvikmyndalist og myndlist mætast. Og það lýsir mjög mínu eigin starfi. Á mjög áhugaverðan hátt þá er vettvangurinn listræn tilraun í sjálfu sér sem spyr spurninga um merkingu kvikmyndalistar í samtímanum og hvað hún gæti orðið. Spurningar vaknar ekki einungis vegna verkanna sem sýnd eru heldur einnig vegna áhorfenda. Þetta er mjög dýrmætur hugsunartankur og rannsóknarstofa“, svarar Clarissa þegar ég spyr hana af hvað það sé sem gerir það mikilvægt að sýna verkið hennar á hátíðinni. “Mér finnst það mjög áhugavert að Forum / Forum Expanded sé staðsett sem flokkur í Kvikmyndahátíðinni í Berlín, kvikmyndahátíð í A-flokki með svo marga aðra flokka og með evrópska kvikmyndamarkaðinn í Martin Gropius Bau safninu sem er með þúsundir mynda sem eru ekki einu sinni á lista í sýningarskrá hátíðarinnar.

Á vissan hátt eru Forum Expanded og evrópski kvikmyndamarkaðurinn á sitthvorum enda ‘öfganna’. Með mjög mikilli einföldun má auðvitað segja að þar sé að finna muninn á milli myndlist og söluvænna kvikmynda. Ég held að við getum ekki litið framhjá þeirri staðreynd að mismunandi dreifingar- og fjármögnunarleiðir hafa mikil áhrif á verkin okkar. Ég sé þetta ekki svona svart og hvítt. Ég hef til dæmis mikinn skilning á dreifingu í kvikmyndaheiminum sem hefur það að markmiði að eins margt fólk og mögulegt er sjái verkið. Þetta er mjög ólík þeirri einkaréttar nálgun sem felst í að búa til aðeins fimm eintök sem seld eru sem listaverk. Það eru jákvæð og neikvæð áhrif sem koma úr báðum þessum áttum að mínu viti. Mér finnst gott að skoða þetta mjög gaumgæfilega. Oftast höfum við ekki algerlega frjálst val hvernig við framleiðum og sjósetjum verkin okkar. En auðvitað sem myndlistarmaður eða kvikmyndagerðamaður þá þarftu að þekkja vel hinar ólíku leiðir til þess að geta stefnt að því sem er best fyrir verkið sem þú ert að vinna að á hverri stundu. Segjum að það séu mjög ólíkir kvikmyndaheimar undir þaki Kvikmyndahátíðarinnar í Berlín. Í tíu daga þá segir fólk þér að það geri kvikmyndir og þau gera það líka öll. En þetta er eins og hittingur mismunandi vetrarbrauta. Þar sem ég nýt skoðanaskipta í fremstu röð og þar sem þú finnur í sérhverjum þessara mismunandi kvikmyndaheimum fólk sem sannarlega elskar kvikmyndir og myndlist og brennur fyrir því sem það gerir, þá nýt ég þess mjög að Forum / Forum Expanded sé staðsett innan Kvikmyndahátíðarinnr í Berlín og finnst vettangurinn veita bæði innblástur og koma stöðugt á óvart.“

Hulda Rós Guðnadóttir


Aðalmynd með grein: Frá innsetningunni ‘A Mechanism Capable of Changing Itself’. 2-rása video innsetning ‘Third Part of the Third Measure’ eftir The Otolith Group.

Ljósmyndir: með leyfi höfunds greinarinnar og listamanna.

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest