Ljósmyndir og lyfseðlar í Listastofunni við Hringbraut

Ljósmyndir og lyfseðlar í Listastofunni við Hringbraut

Ljósmyndir og lyfseðlar í Listastofunni við Hringbraut

Listastofan er listamannarekið rými í JL húsinu, en þar hafa staðarhaldarar rekið sameiginlegt listamannarými, galleríi og myrkrakompu fyrir listamenn frá 2015. Nú er sýningunni Emilie eftir ljósmyndarann Emilie Dalum að ljúka, en síðasti sýningardagurinn verður á miðvikudaginn 19. apríl. Emilie verður á staðnum á venjulegum opnunartíma gallerísins milli kl. 13-17 en býður svo upp á opið spjallkvöld um sýninguna og verkið milli kl 17-19.

Eins og titillinn gefur til kynna snýr Emilie linsunni að sjálfri sér. Í upphafi árs 2016 var hún greind með eitilfrumukrabbamein sem er einnig þekkt undir nafninu Hodgkins sjúkdómur. Á sýningunni sést hún sjálf á ýmsum stigum ferlisins meðan á krabbameinsmeðferðinni stóð. Ein mynd sýnir þegar hún fer inn í jáeindarskanna á sjúkrahúsi í Danmörku, önnur þar sem sést í tvö ör sem hún hlaut við sitt hvort viðbeinið; annað eftir skurðaðgerðina sem átti að fjarlægja æxlið, og hitt eftir lyfjabrunninn sem hún fékk fyrir lyfjagjöfina. Það er kostur falinn í því að þetta er ekki í síðasta skipti sem Emilie kemur til með að sýna þessar myndir, þannig að hægt verði að fylgjast áfram með framvindu verksins, og þá hennar bataferli. Að eigin sögn vinnur hún þessa sýningu eins og meðferðarúrræði í gegnum krabbameinsmeðferðina.

Hér sést í bæði örin sem Emilie hlaut eftir skurðaðgerðina og lyfjabrunninn.
Á annarri mynd liggur Emilie í sjúkrarúmi, en í bakgrunni sést í manneskju með græna hárkollu. Hann heitir Michael og er vinur Emilie. Hún hefur, og er enn að vinna ljósmyndaseríu út frá hans lífi.
Emilie liggur í sjúkrarúmi. Vinur hennar Michael er í bakgrunni.

Á prenti er Emilie titluð sem ljósmyndari. Hún fór í nám í einum þekktasta ljósmyndaskóla Danmörku, Fatamorgana The Danish School of Art Photography, og hefur unnið með miðilinn á margvíslegan hátt, og þá sérstaklega til að skrásetja sögur og fólk sem henni er umhugað um. Þessi sýning hér í Listastofunni er titluð sem ljósmyndasýning, en eftir óskráðu forsniði listformanna er fylgt eftir, sem er oft til óþurftar notað til þess að staðsetja verk eða listamenn á einni eða annarri hlið ósýnilegra landamæra listformanna, þá er eftir vill hægt að segja að sýningin sé komin út á einhvers konar jaðar.

Emilie sýnir til dæmis ekki aðeins ljósmyndir, en það fyrsta sem mætir gestum þegar gengið er inn í sýningarsalinn er borð úttroðið af lyfjaumbúðum, kvittunum eftir læknisheimsóknir, bréfum frá vinum og öðrum persónulegum hlutum sem tengjast krabbameinsmeðferðinni. Þar voru líka tveir latex hanskar sem höfðu verið blásnir upp og skreyttir með pennastrikum og fígúrum, líklega til þess að drepa tímann í langvarandi sjúkrahúslegum meðan á rannsóknum eða lyfjagjöfum stóð. Á öðrum stöpli standa hárkúlur sem Emilie safnaði af hausnum á sér eftir að lyfin fóru að hafa þau áhrif sem eru ef til vill það sem flestir kannast við og óttast.

Lyfjabrunnurinn sem var græddur undir öxl Emilie.

Með sýningunni sýnir Emilie ótrúlegt hugrekki með því að opna fyrir samtal um ferli sem er líklega það erfiðasta sem hún hefur þurft að ganga í gegnum. Hún sagði mér að þegar hún fór á endurhæfingarfundi fyrir krabbameinsgreinda gat hún séð hversu misjafnlega fólk af mismunandi kynslóðum var tilbúið að opinbera sitt eigið ástand. Eldri konurnar komu á fundina málaðar og með hárkollur á meðan þær yngri voru greinilega opnari fyrir því að sýna líkamleg einkenni sjúkdómsins.

Emilie fór að missa hárið vegna lyfjameðferðarinnar.

Á síðasta ári sýndi hún myndirnar á hópsýningu í Ólafsvík, en hér í Listastofunni var komin ný mynd á sýninguna. Hún hafði bætt við einni ljósmynd ásamt því að sýna aðra hluti, eins og hárlokkana, lyfseðlana og aðra hluti sem tengjast ljósmyndunum.

Eins og áður kom fram verður lokadagur sýningarinnar í Listastofunni nú á miðvikudaginn. En þar mun ferlinu ekki ljúka. Verkið verður einnig sýnt í Ljósmyndasafni Reykjavíkur um haustið 2018 (9. ágúst – 9. október 2018. Þar verður vonandi búið að bæta enn meira við þetta upplýsandi verk um viðkvæmt málefni sem er nú til sýnis í einu af virkari grasrótargalleríum Reykjavíkur í dag.

Höfundur: Viktor Pétur Hannesson

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest