Outsider Art! 2. hluti / Ísland – lærðir og leiknir

Outsider Art! 2. hluti / Ísland – lærðir og leiknir

Outsider Art! 2. hluti / Ísland – lærðir og leiknir

Verk eftir listakonuna Erlu Björku Sigmundsdóttur

sem er listamaður Listar án landamæra árið 2016

Á Íslandi er varla hægt að segja að hugtakið ,,outsider“ list sé til á þann hátt að fullur skilningur sé fyrir því hvað í hugtakinu felst. Í inngangi að sýningarskrá sýningarinnar „Yfir bjartsýnisbrúna“, sem haldin var í Listasafni Reykjavíkur árið 2003, skrifar Eiríkur Þorláksson listfræðingur að á 20. öld hafi miklar hræringar orðið og bæði samruni og sundrung á milli listgreina. Það hafi hins vegar ekki tekist að brúa bilið á milli menntaðra og ómenntaðra listamanna. Hann ritar:

Þetta er gjáin á milli þeirra sem hafa lagt stund á formlegt listnám og hinna, sem ekkert slíkt nám hafa að baki. Það hefur ekki reynst auðvelt að skilgreina muninn: hinir fyrri hafa verið nefndir lærðir listamenn, menntaðir, akademískir, ,,alvöru“ á meðan hinir síðarnefndu hafa kallast leiknir, naívir, einfarar í listinni, utangarðs-, frístunda- eða alþýðulistamenn (Yfir bjartsýnisbrúna, 2003, bls. 5).

Eiríkur orðar vel hvernig staðan er á íslenskum listvettvangi þar sem gjáin á milli tækifæra þeirra sem tilheyra almennu fagurlista ,,senunni“, menntaðra og viðurkenndra listamanna, og hinna ómenntuðu er sannarlega til staðar. Sýningin „Yfir bjartsýnisbrúna“ var samstarfsverkefni á milli Safnasafnsins og Listasafns Reykjavíkur og var yfirlýstur tilgangur með sýningunni að brúa bilið á milli lærðra og leikinna listamanna og setja verk listafólksins fram á grundvelli jafnræðis og án sérstakra formerkja (Yfir bjartsýnisbrúna, 2003).

Safnasafnið (e. The Icelandic Folk and Outsider Art Museum) er eina safnið á Íslandi sem markvisst safnar alþýðulist og „outsider“ list. Safnasafnið var stofnað árið 1995 og er staðsett við Svalbarðsströnd í Eyjafirði. Í safneigninni eru verk eftir 323 sjálmenntaða og lærða listamenn en í heild telur safneignin um 6.000 listaverk. Innan safnsins er einnig sérstök safndeild, Kikó Korriró-stofa, en þar eru varðveitt um 120-130.000 verk eftir Þórð Guðmund Valdimarsson (Kíkó korriró, 1922-2002).
Á safninu er „outsider“ list sem og framsækin nútímamyndlist sýnd án aðgreiningar, eins og segir á heimasíðu safnsins. Sú stefnumörkun sem safnið setur sér snýst um gæði og einlægni (Safnasafnið e.d.). Níels Hafstein, sem ásamt Magnhildi Sigurðardóttur stofnaði Safnasafnið, skrifar í sýningarskrá sýningarinnar „Yfir bjartsýnisbrúna“ um vandræðagang í orðræðu og skilgreiningu á list jaðarhópa, hinna ómenntuðu, og um að finna viðeigandi safnheiti sem næði yfir ólík tilbrigði skilgreindra listforma. Hann nefnir sem dæmi, alþýðulist, naíva list, frumstæða list, skrautlist, utangarðslist, ,,art brut“, veggjalist, ,,visionary“ list og list fanga og skilgreiningar sem gera tilraun til að: … lýsa list sem ekki fellur afdráttarlaust undir fagurfræði og rannsóknir og er kölluð nútímamyndlist (Yfir bjartsýnisbrúna, 2003, bls. 7).

Í sýningarskrá segir að sýningin „Yfir bjartsýnisbrúna“ gæti verið sú fyrsta þar sem gerð er tilraun til þess að brúa bilið á milli meginstrauma og jaðarsins í listum með nákvæmlega þeim formerkjum (Yfir bjartsýnisbrúna, 2003).

Árið 2003, sama ár og sýningin „Yfir bjartsýnisbrúna“ var opnuð, var Evrópuár fatlaðs fólks. Af því tilefni var blásið til listahátíðar hér á landi undir merkinu List án landamæra. List án landmæra, sem síðan hefur verið haldin árlega, er grasrótarhátíð sem varð til fyrir tilstilli skapandi fólks. Einn af stofnendum hátíðarinnar er Friðrik Sigurðsson, framkvæmdastjóri Landssamtakanna Þroskahjálpar, en hann ásamt fulltrúum frá Fjölmennt, símenntunarmiðstöð, Átaki, félags fólks með þroskahömlun og Hinu húsinu, miðstöð ungs fólks, mynduðu stjórn um hátíðina fyrir hönd sinna félaga. Seinna bættust Öryrkjabandalag Íslands og Bandalag íslenskra listamanna í stjórn hátíðarinnar.

List án landamæra er hátíð margbreytni og tækifæra fyrir alla eins og segir á heimasíðu hennar. Eitt af aðalmarkmiðum hennar er að stuðla að auknum tækifærum fatlaðs listafólks með því að koma því og list þess á framfæri og koma á samstarfi milli lærðs og leikins listafólks. Áhersla er lögð á sýnileika og þátttöku, bæði í samfélaginu og í samfélagsumræðunni, því sýnileikinn og þátttaka hefur bein áhrif á jafnrétti á öllum sviðum. Hátíðin hvetur til og stuðlar að fjölbreytni, aðgengi og jafnrétti í menningarlífinu. Á dagskrá hátíðarinnar ár hvert eru fjöldi viðburða og þátttakendur eru mörg hundruð um allt land. Á hátíðinni rúmast listviðburðir sem má meta á faglegum grunni í samstarfi við viðurkenndar liststofnanir sem og viðburðir eins og opnar vinnustofur á starfstöðum fatlaðs fólks (List án landamæra e.d.).

Þorvaldur Þorsteinsson listamaður skrifar inngang í dagskrá Listar án landamæra árið 2006 og fjallar um landamæri í huglægum og eiginlegum skilningi. Hann skrifar:

Þau landamæri menningar og viðhorfa sem vísað er til í yfirskrift þessarar ágætu hátíðar eru um margt snúnari að kljást við en hin opinberu mörk sem skipta landsvæðum í pólitískar, trúarlegar eða efnahagslegar heildir. Hin hefðbundnu landamæri hafa þann kost að vera sýnileg og skýrt afmörkuð. Þar fer sjaldnast milli mála hvar línan er dregin og í hvaða tilgangi og því auðvelt að greina við hvað er að eiga, reynist á annað borð ástæða til að véfengja skiptinguna (List án landamæra, 2006, bls. 5).

Hugleiðingar Þorvalds undirstrika orð þeirra Eiríks og Níels svo og skrif Rögnu Sigurðardóttur rithöfundar og listgagnrýnanda. Í grein í Morgunblaðinu árið 2007, „List hinna“,  skrifar Ragna:

List samtímans er iðulega skipt niður í margar greinar, oft er skiptingin tilefni til vangaveltna. Í myndlistinni getur áhugafólki reynst flókið mál að greina á milli listar áhugafólks og atvinnumanna (Ragna Sigurðardóttir, 2007).

Ragna skrifar einnig inngang í dagskrárbækling hátíðarinnar árið 2008 og kemur með frekari vangaveltur inn í umræðuna. Hún telur að þrátt fyrir að list jaðarhópa hafi orðið sýnilegri á 20. öldinni hafi það frekar verið í formi þess að listamenn nýttu sér þætti úr listsköpun utangarðslistamanna í eigin list og líkir því við að nýlenduherrar hafi nýtt sér náttúruauðlindir nýlenda sinna (List án landamæra, 2008). Skrif Rögnu má tengja við uppruna skilgreiningar á ,,art brut“ þegar súrrealistar sækja í brunn listamanna úr hópi ,,art brut“ listamanna Debuffets.

Ragna, Eiríkur og Níels hafa öll orð á ákveðnum skilgreiningarvanda og eiga það sameiginlegt með fleirum sem mikið hafa skrifað um „outsider“ list. Listfræðingurinn Tansella (2007) bendir á það í rannsókn sinni, ,,The long and winding journey of Outsider Art. A historical perspective“, að erfiðleika skilgreininga megi finna í því að engin stefnuskrá eða „manifesto“ sé til um „outsider“ list og enga eiginlega félagaskrá sé að finna þar sem fólk sem tilheyri hópi „outsider“ listafólks sé sjálft ekki að fást um það. Skilgreiningin sé bundin við fólkið sem skapi listina og stöðu þeirra, listaverkið er þar ekki sjálfstætt og óháð heldur metið af því hver skapari þess er.

Margrét M. Norðdahl

Heimildaskrá:

List án landamæra. (2008). [Sýningarskrá]. List án landamæra.

List án landamæra. (e.d.). Listahátíðin List án landamæra. Sótt af http://www.listin.is/

List án landamæra.. (2006). [Sýningarskrá]. List án landamæra.

Ragna Sigurðardóttir. (2007, 4. maí). List hinna. Morgunblaðið. Sótt  af http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1143312/

Safnasafnið. (e.d.). Söfnunar og sýningarstefna Safnasafnsins. Sótt af http://www.safnasafnid.is/is/page/sofnunar-_og_syningarstefna

Safnasafnið. (2016). [Sýningarskrá]. Safnasafnið

Tansella, C. (2007) The long and winding journey of Outsider Art. A historical perspective. Epidemiologia e Psichiatria Sociale, 16 (2), bls. 133-138 Sótt af http://www.psychiatry.univr.it/page_eps/docs/2007_2_Tansella_Carole.pdf

Yfir bjartsýnisbrúna. (2003). [Sýningarskrá]. Listasafn Reykjavíkur.

 

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest