Samtal í vatni og litum

Samtal í vatni og litum

Samtal í vatni og litum

Það var árið 1996 sem Gjörningaklúbburinn kom með látum inn í íslenska myndlistarsenu með gjörningaverkið ‘Kiss’ – koss sem er aðeins lengri en venjulegur vinakoss en aðeins styttri en koss elskenda – sem fluttur var í þá geysivinsælum Dagsljósarþætti Ríkissjónvarpsins. Gjörningurinn endaði með að þáverandi meðlimur Gjörningaklúbbsins Sigrún Hrólfsdóttir kyssti alla þjóðina með því að kyssa linsu myndavélarinnar. Þannig má segja að ástarsamband Gjörningaklúbbsins við kvikmyndaformið hafi hafist og þær rutt brautina fyrir gjörningakvikmyndaverkum í íslensku myndlistarsenunni. Gjörningurinn var saminn fyrir myndavélina og virkaði vegna hennar.

Rúmum tuttugu árum og nokkur hundruð sýningum seinna ákváðu núverandi meðlimir Gjörningaklúbbsins Eirún Sigurðardóttir og Jóní Jónsdóttir að búa til nýtt verk þar sem þær sæktu innblástur í líf og list Ásgríms Jónssonar. Afraksturinn er verkið ‘Vatn og Blóð’ sem sýnt hefur verið sem einkasýning Gjörningaklúbbsins í Sal 2 í Listasafni Íslands frá því snemma í nóvember 2019 og lýkur núna 1. mars.

Fyrir þá sem ekki eru með á hreinu hver Ásgrímur Jónsson var þá var hann impressjónískur vatnslita-landslagsmálari sem uppi var á áratugunum sitthvoru megin við aldamótin 1900 og var einna fyrstur íslenskra myndlistarmanna til að starfa eingöngu að listinni. Það er ekki sjálfgefið að gjörninga og vídeó kollektíf sem starfar á 21. öldinni og er skipað konum eingöngu finni snertifleti við lífshlaup eða list slíks manns. Í sýningarskrá minnast Jóní og Eirún á að þeim finnist þær tengjast Ásgrími ‘…blóðböndum í gegnum sköpunarkraftinn, innsæið og náttúruna.’

Við frekari eftirgrennslan kemur í ljós að eins og svo margir aðrir eru þær aldnar upp með eftiprentanir af vatnslitamálverkum Ásgríms á veggjum æskuheimilisins. Í báðum tilfellum voru verkin af heimasveit og því þekktu þær fyrirmyndina vel og verkin höfðu mikil áhrif á þær sem börn og síðar sem listnema. Jafnframt sjá þær tengingu í vatninu sem er undirstaða í vatnslitum en þær telja vatn sameiningartákn þeirra beggja, Ásgríms og Gjörningaklúbbsins en þær hafa unnið með vatnsliti á táknrænan hátt, til dæmis í verkinu Aqua Maria. Vatn skipti þær miklu máli enda séu líkamar okkar 75% vatn. Sýningin verður í raun samtal milli Gjörningaklúbbsins sem hefur verið starfandi frá 1996 og Ásgríms Jónssonar sem hóf sinn ferill í byrjun 20. aldar.

Áður en gengið er inn í salinn er gengið framhjá gjörningabúningsskúlptúrum við innganginn. Form og efni eru kunnugleg þeim sem þekkja til verka Gjörningaklúbbsins. Vakti það sérstaka athygli að búið var að taka náttúrugerðar bláskeljar með og sauma þær af mikilli útstjónarsemi inn í búningana/skúlptúranna. Gaf það tóninn fyrir blámann sem er þráður út í gegnum sýninguna. Salurinn sjálfur er svo tvískiptur. Fyrri salurinn er dimmur kvikmyndasalur sérgerður fyrir innlifun á kvikmyndaverki og seinni salurinn er upplýstur salur fyrir skúlptúra og veggverk.

Þungamiðja sýningarinnar er nýtt 25 mínútna kvikmyndaverk sem sýnt er í myrkaða salnum og liggur áhorfandinn líkt og sjónvarpsáhorfendur heima í stofu á vatnslituðum tungusófa en ólíkt því sem gerist í heimastofunni er áhorfandi umlukinn fimm hljóðrásum eins og í dolby-kvikmyndasal og upplifun áhorfandans verður kannski meira í ætt við að vera í lúxus sal sem tekinn hefur verið alla leið. Áhorfandinn sekkur inn verkið og gleymir sér í andrúmsloftinu sem af því stafar. Kvikmyndaverkið líkt og innsetningin sjálf er unnin á mjög faglegan hátt þar sem hugað er að hverju smáatriði. Fagmenn hafa verið fengnir til að nota sérþekkingu sína til að þjóna hugmynd Gjörningaklúbbsins. Kvikmyndataka, klipping, lýsing, hljóðhönnun, tónlist, búningar og föðrun mynda saman sterkan merkingarheim sem drífur samtalið áfram, bæði innan myndarinnar sjálfrar og í gegnum þræðina sem liggja út í salinn.

Kvikmyndaverkið er einskonar skrásetning á undirbúningsferli sýningarinnar þar sem miðill var fenginn til aðstoðar til að tengja konurnar í Gjörningaklúbbnum við Ásgrím á fyrrum heimili hans og vinnustofu á Bergstaðastrætinu og fá Ásgrím til að ræða tengingar þeirra í milli. Miðillinn sjálfur var ekki á staðnum og því var stuðst við facetime og snjallsíma til að miðillinn gæti skynjað andann á Bergstaðastrætinu. Þessa aðferð sem Gjörningaklúbburinn notar núna í annað sinn kalla þær miðill-miðill. Aðrar senur í kvikmyndaverkinu sýna þær Gjörningaklúbbskonur út í náttúrunni og við vatn þar sem þær blanda vatnsliti og fremja aðra vatnstengda rítúala. Litir koma endurtekið við sögu og markvisst notaðir í frásögninni.

Til dæmis er myrkaði salurinn sem umlykur kvikmyndaverkið litaður með dökkbláum lit en ekki svörtum en það skiptir máli fyrir heildarmerkingu. Litahönnunin er gerð með lýsingu í senum teknum í kvikmyndastúdíói þar sem dansarar fremja trylltan óreiðukenndan trans á hvítum blöðum í senu sem kviknar í vinnustofurými Ásgríms á efri hæð hússins. Hvítu blöðin krumpuð í hamaganginum birtast síðan í salnum sjálfum í öðru afmörkuðu rými sem er innan af myrkaða rýminu og eru þar orðin að pappísskúlptúr lituðum af penslum kvikmyndaformsins, lýsingunni, líkt og í kvikmyndinni áður.

Áhorfandi fer ósjálfrátt að bera saman vatnslitanotkun og notkun á lýsingu til að lita. Þetta er síðan undirstrikað á veggnum fyrir ofan þar sem stillt er upp bút úr kvikmyndaverkinu sem sýnir hreyfimynda sjálfsmynd af Gjörningaklúbbskonum með vatnslituð andlit stillt upp við hliðina af innrammaðri vatnslita-sjálfsmynd Ásgríms sjálfs. Samtalshringnum sem hófst við hringborð miðilsins er lokað.

Hulda Rós Guðnadóttir

Hin náttúrulegu og manngerðu tilvistarstig svampa

Hin náttúrulegu og manngerðu tilvistarstig svampa

Hin náttúrulegu og manngerðu tilvistarstig svampa

Anna Rún Tryggvadóttir myndlistarkona hefur undanfarin misseri dvalið í vinnustofudvöl við Künstlerhaus Bethanien (KB) í Berlín en íslenska ríkið hefur eins og mörgum er kunnugt nýlega gert samning við stofnunina um að styrkja fimm listamenn til vinnustofudvalar á jafn mörgum árum. Áður hafa íslensku listamennirnir Egill Sæbjörnsson, Erla Haraldsdóttir, Ólafur Ólafsson/Libia Castro, Sveinn Fannar Jóhannsson og nú síðast Hulda Rós Guðnadóttir starfað undir verndarvæng stofnunarinnar með hjálp frá hollenskum sænskum, norskum og íslenskum listasjóðum og einkaaðilum. Anna Rún sem útskrifaðist með M.A. gráðu frá Concordia University í Montreal í Kanada árið 2014 flutti til Berlínar ásamt fjölskyldu sinni árið 2016 og þekkti því ágætlega til Berlínar áður en hún hóf dvöl sína. Þann16. janúar síðastliðinn opnaði síðan einkasýning Önnur Rúnar An Ode – Poriferal Phases’ í sýningarstjórn Birtu Guðjónsdóttur en Birta er einn af þeim fjölmörgu alþjóðlegu sýningarstjórum sem heimsækja vinnustofu listamannana stofnunarinnar með reglulegu millibili.

Innsetningin ‘An Ode – Poriferal Phases’ frá 2019 á sýningu í Künstlerhaus Bethanien í Berlín

undanförnu hefur Anna Rún unnið mikið með mótóra sem knúa fram hringsnúning og er það einnig í ‘An Ode – Poriferal Phases’. Í rúmum 100 m2 sýningarsal KB snýst fjöldi höggmynda rangsælis á hraða sem rétt svo er skynjanlegur. Anna Rún bendir á að Vesturlandabúar upplifa tíma línulegan en það samsvari sig ekki við virkni vistkerfisins sem gangi í hringi. Með því að ganga þvert á það og búa til línulegan tíma eins og Vesturlandabúar hafa gert þá höfum við hætt að hugsa um okkur sem hluta af stærra samhengi, lengri tímahringjum. Í stuttu spjalli á uppsetningartíma sýningarinnar bendir Anna Rún á vitleysuna sem felst í því að við vörpum gangi hinnar manngerðu klukku á skynjun okkar og tölum um að það sem gangi réttsælis sé leið inn í framtíðina en það sem gangi rangsælis sé leið tilbaka í fortíðina. Viðhorfið endurspeglast í orðunum sjálfum, rétt og rangt, fortíð og framtíð, andstæður á línulegum ás.


Vídeóheimild af mótorhringsnúning á sýningunni.

Það er ekki einungis snúningur verkanna sem vekur upp spurningar. Í efnisnotkun og samsetningu verkanna er telft saman iðnaðarframleiddum polyurethane svömpum og náttúrulegum svömpum. Þó svo verkið beri titilinn óður er hér ekki um vegsemd á náttúrunni að ræða heldur er verið að sýna það sem er til og er að gerast í veröldinni, bæði manngert og náttúrusprottið. Anna Rún bendir á mikilvægi þess að taka ábyrga afstöðu út frá því að horfast í augu við það sem við erum að gera. Sjálf segist hún þverstæðuna í ástandi heimsins vera að finna í hennar eigin nálgun. Hún sé jafn sek í ágangi sínum á náttúruna og hver annar. Það sé mikilvægt að hafa í hug að enga galdralausn sé að finna.

Höggmynd úr innsetningunni ‘An Ode – Poriferal Phases’. Hinu manngerða og náttúrsprottna teflt fram. Grjót frá Skandinavíu sem fært hefur verið til Þýskalands af náttúrunnar hendi.

Anna Rún telur að spurningin um hið náttúrlega annars vegar og hið manngerða hins vegar sé ein af mikilvægustu spurningum framtíðarinnar. Að tefla saman náttúrunni og hinu manngerða sem andstæðum er hluti af gamalli vestrænni tvíhyggju og mun áhugaverðara sé að skoða þessi fyrirbæri út frá því að mörkin séu mun óskýrari. Hvenær hættir eitthvað efni að vera náttúrulegt? Ef efninu er skilað aftur eftir manngerðar breytingar á því verður það þá aftur náttúra? Er það sem mennirnir gera ekki hluti af náttúrunni? Erum við ekki náttúruleg? Anna Rún veltir þessum spurningum upp í ljósi þess að undanfarið hafa breytingar auðvitað gerst mjög hratt. Við búum á tímum sem nefndir hafa verið ‘Tími hröðunar’ þar sem hoppað er í stórum skrefum. Í þannig aðstæðum verður íhlutun mannanna afdrífaríkari. Hlutirnir fái ekki að gerast á sínum hæga hraða þar sem allir aðilar geti aðlagast. Anna Rún telur að mannkynið hafi verið fast í því hugarfari að við getum gert allt sem okkur dettur í hug og sjáum svo bara til hvað gerist. Það sé hinsvegar mikilvægt að skoða allar hluti til enda og hvaða afleiðingar gjörðir okkar hafa. Þessar pælingar Önnu Rúnar sjást vel í verkinu. Höggmyndirnar eru flestar að ganga í gegnum hægar breytingar þar sem allt getur gerst og útkoman er óviss. Saltvatn er látið leka hægt á hlutina og storkna. Mjúkir svampar verða harðir eins og grjót. Sjálf segir Anna Rún að verkin séu að fremja efnislegan gjörning. Þetta séu í raun og veru gjörningahöggmyndir.

Höggmynd úr innsetningunni ‘An Ode – Poriferal Phases’.

Annað efni sem hefur verið ríkjandi í verkum Önnu Rún er grjót ýmiskonar. Henni finnst mikilvægt að nota grjót sem hefur öðlast menningarlegt gildi í því samhengi sem hún er að vinna og sýna hverju sinni. Að þessu sinni er hún að sýna í Þýskalandi og því valdi hún grjóthnullunga sem finnast víða um norðurhluta Þýskalands og hafa verið fyrir bændum þegar þeir búa til tún. Þeim er því safnað saman á grjóthnullungaruslahauga þar sem Anna Rún sótti sitt grjót. Það sem er áhugavert við þetta grjót er að hér er um granít að ræða sem rutt var fram við lok síðustu ísaldar en á uppruna sinn í norðri sem nú kallast Skandinavía. Hér er því fyrirbæri á ferð sem oft kemur til tals í sambandi við hið manngerða en það er spurningin um hvað sé staðbundin og hvað tilheyri öðrum stað. Hér hefur náttúran sjálf verið að verki og flutt efni sem á heima í Skandinavíu til meginlands Evrópu þar sem það finnst ekki fyrir og birtist eins og aðskotahlutur. Þetta gerist á allt öðrum og hægari tímaskala en á þeim tíma hröðunar sem við upplifum í dag þegar gjörðir mannanna eru að hafa mikil áhrif á stuttum tíma.

Höggmynd úr innsetningunni ‘An Ode – Poriferal Phases’. Náttúran færð inn í hús.

Vídeóverk og höggmynd úr ‘An Ode – Poriferal Phases’. Myndbandsverk sem sýnir íhlutun listamanns í náttúrunni.

Þyngdarpunktur sýningarinnar er 5 metra langur trjábolur sem snýst rangsælis í hringi og blasir við áhorfendum þegar þeir ganga inn í salinn. Til mótvægis sýnir myndbandsverk svipaðan gjörning framkvæmdan út í náttúrunni þar sem hringlaga gras snýst á sama hátt. Listamaðurinn hefur þarna átt við náttúruna. Hún er óhrædd við að grípa inn í og gerir sér grein fyrir að náttúran er sífellt að taka breytingum. Náttúran er þannig ekki eilíf, alla vega ekki í sömu mynd. Hún er ekki hið ægifagra óbreytanlega í andstöðu við dauðleika manns og dýra. Sýningarstjórinn Birta Guðjónsdóttir bendir á í texta sínum um sýninguna að með því að koma með náttúruna inn í hús sé listamaðurinn að velta fyrir sér hvað það sé í okkur mannfólkinu sem geri það að við viljum vera umlukin náttúru. Á sama tíma erum við haldin ‘náttúrulegri’ þörf til að leika okkur í henni og með hana. Spurningin er ef til vill á hvaða tímaskala það er gert og hvaða afleiðingar það hafi. Hér er ekkert svart og hvítt, neikvætt eða jákvætt. Íhlutun, hvort sem eitt náttúrulegt efni eða atburður hlutast í við annað á sjálfsprottinn hátt eða fyrir tillstilli dýra eða manna, er það sem gerist í sífellu á öllum punktum í hringferð tímans.

 

Hulda Rós Guðnadóttir

 

Cover picture: Anna Rún Tryggvadóttir. Mynd eftir Sögu Sigurðardóttur.

Photo Credit: Anna Rún Tryggvadóttir and Saga Sigurðardóttir.

About the exhibition: https://www.bethanien.de/en/exhibitions/anna-run-tryggvadottir/

Hulda Rós Guðnadóttir wins the 2019 Guðmunda S. Kristindóttir Award

Hulda Rós Guðnadóttir wins the 2019 Guðmunda S. Kristindóttir Award

Hulda Rós Guðnadóttir wins the 2019 Guðmunda S. Kristindóttir Award

In a seminar at the Academy of Fine Arts in Reykjavik, Hulda Rós Guðnadóttir explains in her terms that art creates questions for the audience, it does not provide answers for them. This is how most of Hulda Rós Guðnadóttir’s work meanders. A visual artist, with experience in film making and a cultural anthropology, Hulda Rós has been working with connecting her past memories and present experiences, exploring the social evolution of “Icelandicness”. Two exceptional artworks that Hulda Rós has made are The Cornershop or Kjötborg (2008), a film in collaboration with Helga Rakel Rafnsdóttir – that has been multi-awarded in Iceland and abroad – and her later work Keep Frozen (2016), which had an equally resounding mass appeal in festivals and was widely nominated on an international scale.

The Cornershop or Kjötborg is a film that every local enjoys: it shows life in Reykjavik as we remember it before the mass technological blast of production, before internet and the general globalisation of consumerism. Daily life, when people would still walk in a snowstorm in Vesturbær, in Reykjavik, to buy milk and two tomatoes, not three because the money was perhaps not enough. A time when the bill was not a printed digital number, but a hand-written paper of the local seller. When there was a strong feeling of neighbourhood and when the local stores or in Icelandic Sjoppan were meeting points. However, Hulda Rós’ approach is not judgemental.
Her work feels like an unexpected hug from an old school friend. It is something that we appreciate in its wholeness. Kjötborg doesn’t criticise the biggest stores or capitalism in a profound way. It does remind us though, all the small good things that we experience when interacting with smaller shops, a sincere góðan daginn instead of the fast automatic „beep“ in a supermarket that costs 346 ISK less, for instance. Kjötborg reminds us that a human being is a social being. That allows us to open a space in our head to think of how we can keep all the good in this developing society. Hulda’s work reports to the audience how things were in the past and how they are now, as entities that both exist in our memories. She explores these changes and the way we experience them, capturing and reanimating our memories, as in a parallel universe of what is today and what has remained from yesterday.

The Cornershop / Kjötborg (2008) poster.

In Keep Frozen (2016), Hulda Rós examines the contemporary dock workers by the port in Reykjavik. Docks are an architectural spot and emblem of Iceland, which is a fishing country. Everyone in Iceland at some point knew someone or had a family member working within the fishing industry. Or even further, they walked by the port to look at the sea and play. Many, there, found out how seagulls sound.
Today, though the scenery has been altered due to the development of tourism in the country, the docks have become a touristic destination where often new big hotels are built and dock workers have become latent in their own working space. Furthermore, one can say that docks have become a sort of safari location and the workers the object of observation, of what is need to be deposited in mind as Icelandic.
In Keep Frozen one can understand what is art as research and helps us come to the realisation that things are to be observed and researched. As a dock worker existed in our memory -perhaps of a grandpa we didn’t meet or the contemporary evolution of the viking that lives within the Icelandic vision- so they do exist today, in the same location with a changed socioeconomic perspective of the scene. They exist and still have a difficult job to execute, but are also performers for the eyes that look at them and coexist with them today.

Still from Keep Frozen (2016). The documentary Keep Frozen was very successful. It was nominated to dozen of international prizes during its film festival circulation that included A-level film festivals. Afterwards it was distributed in art house cinemas in Germany and in 2018 received an honor of becoming the content of Guðnadóttir´s first solo exhibition in a museum in Germany when it was shown as part of the 12 x 12 immersive screening program at Berlinische Galerie in Berlin.
See: http://www.huldarosgudnadottir.is/keepfrozendocumentary

Still from Material Puffin. HD, 00:06:28, 16:9 single-channel video loop, 2014. Original sound piece by Gudný Gudmundsdottir.
See: http://www.huldarosgudnadottir.is/materialpuffin

Hulda Rós does not only deserve the Guðmunda S. Kristinsdóttir Award as a female artist. She deserves it for her ability to grasp the anthropological evolution of this “Icelandicness” within a specific location of immense architectural and cultural exporting spot of Iceland. Hulda’s work takes us on a trip in Reykjavik, of what it was before and where we have come to be today, within the frame of social reforms and changes of the city through the years. Her work constitutes a thoughtful documentation of the Icelandic society’s evolution, the economy of Reykjavik and the still existing occupations such as the dock workers, which might serve as witness for the future generations. For the time being, húrra Hulda Rós for your work you gave us!

 

Rúrí Sigríðardóttir

 


Keep Frozen was completed with a very well designed book which can be found at: http://www.huldarosgudnadottir.is/keep-frozen-book

Those who would like to explore to extend Hulda’s researching work and up and coming projects please visit: http://www.6x6project.com/ and http://www.multis.is/

Photo Credits: Courtesy of the artist.
Cover Picture:  Tides team, artist Hulda Rós Guðnadóttir with her collaborators behind the winning proposal for art in public space at Reykjavik harbor in 2017. Link to the project: http://www.huldarosgudnadottir.is/tides-tidir. From left to right: Hildigunnur Sverrisdóttir architect, Hulda Rós Guðnadóttir artist and Gísli Pálsson archeologist. Photo Credit: Maria Runarsdottir

Plánetugarðurinn.: Í rækt eða órækt?

Plánetugarðurinn.: Í rækt eða órækt?

Plánetugarðurinn.: Í rækt eða órækt?

Fyrir þá sem ekki þekkja til er Manifesta evrópski ferða-tvíæringurinn sem haldinn er í nýrri evrópskri borg annað hvert ár. Í ár opnaði hann laugardaginn 16. júní undir heitinu ‘A Planetary Garden: Cultivating Coexistence’ (‘Plánetugarðurinn: Ræktun Sambúðar’) á mörkum Evrópu, Afríku og Miðausturlanda á eyjunni Sikiley í Miðjarðarhafi. Staðsetningin var álitin hvorki meira né minna en sjálf miðja jarðar í þeirri heimsmynd sem ríkti þegar hafið hlaut nafn og saga og lýðfræði eyjunnar markast mjög af miðjusetningunni.

Borgarstjóri Palermo, Leoluca Orlando, kallar borgina ‘borg farandsfólks’ og staðsetur borgarpólitíkina í kjarna átakanna á Ítalíu, og Evrópu í víðara samhengi, um flóttamannabátana sem leita um þessar mundir vinveittra hafnaborga. Á meðan að Ítalía sjálf hefur lokað á báta arkar Orlando niður að höfn og heilsar fólki á flandri með handabandi. Þetta minnir á gamla tíma í Reykjavíkurhöfn þegar farþegabátum var fagnað eins og þjóðhátíð væri. “Hér í Palermo – og þetta er óbreytanleg ákvörðun okkar – eru engir innflytjendur. Þeir sem koma til borgarinnar verða Palermobúar. Yfirlýsingin ‘Ég er manneskja’ er hluti af stjórnarskrá Palermoborgar og krefst viðurkenningar á rétti fólks til alþjóðlegs hreyfanleika sem grundvallarmannréttindi’, segir Orlando í texta sýningarskrárinnar. Við hefðum átt að setja svipaða málsgrein í okkar reykvísku stjórnarskrá á meðan tækifæri gafst og bátakomur vöktu fögnuð.

Titill sýningarinnar er fenginn úr smiðju franska landslagsarkitektsins Gilles Clément sem notaði hugtakið plánetugarðurinn til að lýsa mannkyni sem garðyrkjumönnum jarðarinnar. Hugtak Clément er innblásið af þekktu 19. aldar málverki sikileyska málarans Francesco Lojacono sem sýnir grasagarð borgarinnar þar sem allar tegundirnar eru aðfluttar og þykir verkið og garðurinn vera myndlíking fyrir lýðfræði og sögu borgarinnar. Þessi saga einkennist af reki fólks og plantna með bátum hvaðanæva að og þar sem Palermo hefur haft það hlutverk að vera festi fyrir fólk og plöntur á reki. Það var einmitt mikill áhugi blaðamanns á garðyrkju og reki og festu fólks og plantna að hún dróst að Manifesta í ár. Áhuginn vaknaði við að hafa unnið að vinningstillögu samkeppni Faxaflóahafna um útilistaverk við miðbæjarhöfnina – villigarði á mörkum sjávar og lands, festi fyrir reka á beinan en einnig táknrænan hátt. ‘Garden of Flows’ (‘Flæðisgarðurinn’) er eitt af þrem þemum tvíæringsins í ár.

Annað þema er ‘Out of Control Room’ (‘Stjórnlausa Rýmið’) sem vísar í staðsetningu eyjarinnar og þátttöku í þeim landfræðilegu og pólítísku breytingartímum sem við lifum í dag. Þriðja þemað er ‘City on Stage’ (‘Borg sem Svið’) og byggir á forrannsókn sem hátíðarstýran Hedwig Fijen pantaði af hollenska arkitektafyrirtækinu ‘Office for Metropolitan Architecture (OMA)’ (‘Skrifstofa Stórborgar Arkitektúrs’) á menningarlegum, félagslegum, landfræðilegum og pólitísku flækjustigi borgarinnar og sem skapar ramma tvíæringsins. Sýningarstjórarnir fjórir tóku sér þessa rannsókn sem upphafspunkt en einn þeirra er einmitt sikileyski arkitektinn Ippolito Pestellini Laparelli sem búsettur er í Rotterdam og er meðeigandi í OMA arkitektafyrirtækinu. Metnaðarfullt markmið Orlando borgarstjóra andar þarna sterkt inn en það takmarkast ekki við að setja á svið nokkra mánuði af listviðburðum heldur lítur hann á tvíæringinn sem tæki til að breyta borginni sjálfri og þróa með menninguna að vopni. Þó falleg sé og sjarmerandi er borgin augljóslega að mörgu leiti í niðurníðslu.


What Is Above Is What Is Below. ‘Cooking Sections’ í Giardino dei Giusti garðinum. ‘Garden of Flows’ hluti tvíæringsins.

Áður en farið er nánar út í það er vert að fjalla aðeins um aðaláhugamál blaðamanns, garðyrkjuhlutann. Með þá reynslu í farteskinu að hafa búið um hríð í Norður-Afríku varð blaðamanni það ljóst frá fyrstu mínútu að kerfisbundið áhorf og skipulögð rýni væri ekki möguleg í Palermo heldur væri málið að fylgja flæðinu og sjá hvað kæmi í fangið. Þetta reyndist mjög árangursrík aðferð og í takt við flæðisgarðinn sem líkt og plöntur og menn jarðar og reyndar tvíæringurinn sjálfur flæddi yfir borgina á mjög lýðræðislegan hátt með enga sérstaka aðalsýningu á einum stað. Fyrir þá sem þekkja ekki til er eitt aðalvandamál Sikileyjar þurrkur sem er afleiðing þess að undir lok 30 ára stríðsins í Þýskalandi 17. aldar þá var fólki gefið leyfi til að leggja undir sig aukið landsvæði til ræktunar og búsetu til þess að fjármagna stríðsreksturinn.

Límónutré ‘performerar’ í verkinu What Is Above IS What Is Below úr ‘Garden of Flows’ hluta tvíæringsins.

Eitt af þessum landsvæðum var Sikiley og skóglendi var rutt til að koma fyrir kornökrum. Þetta, og síðari tíma þróun, olli því að rakinn sem trjáræturnar héldu í jörðu hefur horfið mikið til. Það var því áhugavert að skoða innsetningar og gjörningaverk lúndunarbúanna Alon Schwabe og Daniel Fernández Pascual ‘Cooking Sections’ (‘Eldunar Hlutar’) en það fólst í tilraun til að rækta tvö límónutré í garðinum á Chiesa di S. Maria dello Spasimo höllinni án þess að vökva þau með því að festa raka í terra cotta múrsteinum sem umluktu tréin og vökvuðu þau með nærveru sinni. Önnur tilraun í Giardiono dei Giusti garðinum var að festa raka í fiskinetum sem umluktu hávaxinn tré sem þar voru fyrir. Tvíæringurinn er stútfullur af fleiri áhugaverðum verkum sem rýna í, bregðast við eða kallast á við staðbundinn og oft á tíðum um leið hnattrænan veruleika.

Af þáttöku Íslendinga var það helst að frétta að menningarfrömuðurinn Sara Löwe Daðadóttir tók þátt í 5 x 5 hliðardagskránni en 5 galleríum í Evrópu sem starfa á jaðri þess að vera verkafnamiðuð frekar en hrein sölugallerí var boðið að taka þátt í dagskrá sem stóð yfir á foropnunardögum og opnunarhelgi hátíðarinnar. Þátttaka Söru var hluti af dagskrá berlínska gallerísins Exile á Balero markaðnum og fólst í útgáfu ‘Utopian Union’ (‘Útópíu Samtökin’) á ‘Year one (1)’ (‘Ár eitt (1)’) heimildarbókinni. Íslendingar þekkja vel ‘Utopian Union’ sem m.a. tók þátt í Cycle listahátíðinni í Kópavogi á síðasta ári með hlutverkaleik. Útgáfan var í nafni Reflektor M, netvettvangs fyrir samtímalist sem staðsettur er í Munich og er undir stjórn María Inés Plaza Lazo sem einnig er annar stjórnanda Exile gallerís.

5 x5 var ný hliðardagskrá á Manifesta í ár. Fimm galleríum var boðið að koma til Palermo og vera í samtali við fagfólk úr lista- og menningarheimi borgarinnar með því að setja um ‘pop-up’ sýningar. Galleríin voru aðallega frá Ítalíu en einnig var Annet Gelink í Hollandi og Exile í Berlín boðið að taka þátt. Exile valdi að vera með ‘sumarbúðir’ á Balero markaði borgarinnar á foropnunardögum og opnunarhelgi tvíæringsins. Hér sérst Sara Löve Daðadóttir undirbúa bókaútgáfu ‘Utopian Union’ og ‘Reflektor M’ á Balero markaðnum.

Í bókinni er farið yfir atburði sem ‘Utopian Union’ hefur haldið á Feneyjartvíæringnum í tengslum við þýska sýningarskálann; stórfund listamanna, Rojava búa og fleiri í Berlín á síðasta ári; vinnustofu í Kaupmannahöfn; hlutverkjaleiki á vegum UU; og margt fleira. Annað verkefni sem Sara tekur þátt í sem skipuleggjandi var einnig á markaðnum á vegum Exile en það var verk pólsku listakonunnar Kinga Kielczynska sem fjallar um afdrif síðustu leifa hins upprunalega Evrópuskóglendis, Bialowieza skógarins, sitthvoru megin við landamæri Póllands og Hvíta Rússlands. Kinga var með staðbundna innsetningu samansettri af gróðurafskurði úr grasagarði borgarinnar troðnum inn í bíl en einnig af teikningum annars staðar á markaðnum sem kölluðust á við nýlega sýningu hennar í Exile.

Verk pólsku listakonunnar Kinga Kielczynska á vegum Exile gallerí á Balero markaðnum.

Viðamesta verkefnið tengt Íslandi á tvíæringnum er án efa verkefni íslensk/svissneska listamannsins Christoph Büchel sem haldið er samsíða tvíæringnum. Þátttaka hans er viljandi gerð mjög óræð en hvergi er minnst á nafn hans í sýningarskránni eða á korti hátíðarinnar. Orðrómur um þátttöku ásamt nafni hans á taupoka hátíðarinnar er eina sem gefur til kynna að verk hans sé einhvers staðar á eyjunni. Það var fyrir tilviljun að fyrsta manneskja sem blaðamaður rakst á eftir að hafa stigið út úr rútunni frá Catania flugvelli var Nína Magnúsdóttir sýningarstjóri og skipuleggjandi með meiru. Hún var stödd á dæmigerðu Palermortorgi ásamt Úu dóttur sinni að safna stuðningsundirskriftum fyrir verkefnið ‘Barca Nostra’ (‘Skipið Okkar’). Verkefnið snýst um að flytja skipsflak frá Palermo til Brussel til heiðurs frelsis mannkyns til hreyfanleika og reisa úr skipinu ‘Minnismerki um Evrópusambandið’.

Skipið sjálft fórst með þúsund flóttafólk innbyrðis árið 2015 og verkefnið er kynnt sem frumkvæði fólks á flandri og hvergi er minnst á nafn forsprakkans sjálfs Christoph Büchel. Undirskriftarborðið er látlaust og ekki merkt á Manifesta kortið og söfnunin lítur ekki út fyrir að hafa neitt með tvíæringinn að gera. Ruglaðar raddir á foropnunardögunum hvísluðu sín á milli “Hvar er verkið hans Christophs?“ Að rugla í fólki á þennan hátt virtist vera hluti af verkinu og gengið var ennþá lengra með skipulagðri heilsdagsferð ‘Dream in Progress’ (‘Draumur í Framförum’) á ‘Manifesto Gibellina Nuova‘ upp í fjöllum Sikileyjar. Prentaður bæklingur sem fylgdi var alveg laus við nafn Christophs og fáir voru tilbúnir að treysta því að ferðin, sem leit út fyrir að vera túristaferð svipaðri kanarískri grísaveisluferð, væri verkið.

Miði í ferðina Manifesto Gibellina Nuova upp í fjöll Sikileyjar.

Blaðamaður artzine ákvað að fara að ráðleggingum Nínu og fara í ferðina, sleppa hræðslunni við að missa af að sjá lykilverk í Palermo, treysta á flæðið og skella sér út í óvissuna. Eftir að hafa misst af moskunni í Feneyjum var ekki málið að missa af uppátækjum Christophs á Manifesto í Trapani héraði í Sikileyjarfjöllum.

Ferðafélagar í ‘Dream in Progress’ ferðinni klóra sér í hausnum í rústum bæjarins sem lagðist í eyði í jarðskjálftunum 1968. Fyrir miðju er leiðsögumaður úr héraði. 

Eins og Manifesta þá deildi Manifesto sér niður í þrjú meginþema: ‘Archaeology of the future – collateral damage’ (‘Fornleifafræði framtíðarinnar – tryggt tjón’) sem rannsakar hið ókláraða og í rústum í hnattrænu flæði samtímans með því að heimsækja rústir bæja sem orðið höfðu illa úti í jarðskjálfta árið 1968 en einnig veigamikið landslistaverk ítalska listamannsins Burri sem gleypt hefur rústir eins þorpsins undir nafninu ‘Cretto’.

Ferðafélagar djúpt í iðrum Cretto landlistaverks Burri sem staðsett er yfir þeim stað sem bærinn Gibellina var áður. Fremst á myndinni er Nína Magnúsdóttir sýningarstjóri að ræða við ferðafélaga.

Form og línur Cretto kallast ekki einungis á við sprungumálverkin sem listamaðurinn er þekktur fyrir heldur einnig ‘arkitektúr’ í landslagi landbúnaðahéraðsins í kring.

Sýn hins mikla listamanns er fyrirferðarmikil og verkið var sett upp á sínum tíma í óþökk syrgjandi þorpsbúanna sem töpuðu þarna áttum í gamla heimabænum sem steypt hafði verið yfir. Annað þema var ‘Concrete Utopia’ (‘Steypt Útópía) og einblíndi á samband lista og arkitektúrs og samtal þessa greina við bæinn Gibellina Nuova, samfélög innan þess, hefðir og almenningsrými. Gibellina Nuevo er bær sem byggður var til að hýsa íbúanna 2000 sem lifðu af jarðskjálftanna í bænum sem landslagsverk Burri hefur gleypt. Hin nýja Gibellina er byggð með framtíðina í huga eða margfalt stærri íbúafjölda og var á 9. áratugnum fyllt af tugum risastórra vanræktra útilistaverka og ókláraðra stórmenningarbygginga undir stjórn stórmennis bæjarins sem hafði þá framtíðarsýn að byggja stórbæ á grundvelli listar og arkitektúrs. Í dag er mjög eyðilegt um að litast á tómum torgunum og í kringum verkin sem mörg hver eru börn síns tíma. Enginn veit hver borgaði fyrir þetta allt saman.

Ókláruð risastór glæsibyggingin sem átti að vera leikhús bæjarins minnir helst á martröð um ofvaxið bílastæðahús í Reykjavík. Þriðja þema Manifesto er ‘Uncultivated garden of coexistence – the third landscape’ (‘Óræktaði garður sambúðar – þriðja landslagið’) og kjarnast um heimsókn í grasagarð Gibellina Nuova, risastórt moldarflæmi sem kallast á við óhirt listaverkin og ókláruðu byggingarnar í bænum en einnig við titil og um leið langtíma ásetning Manifesta tvíæringsins sjálfs.

Arkitekt OMA tekur hér mynd af ókláraðri leikhúsbyggingu Gibellina Nuova.

I Feneyjum tókst Christoph að ganga inn í kjarna goðsögunnar um hið frjálslynda verslunarsamfélag og um leið ganrýna afstöðu samtímalistasenunnar. Það varð ekki bara allt vitlaust á borgarskrifstofum Feneyjaborgar heldur lokuðu líka áhrifamiklir listamenn, hér heima og alþjóðlega, á umræðu í kringum verkið. Christoph hafði hitt á marga viðkvæma punkta en hafði ekki gerst sekur um framandgeringu né að skreyta sig með menningu annarra á óviðeigandi hátt. Hann var í góðu og miklu samstarfi við íslamska samfélagið á Íslandi og í Feneyjum og það skilaði sér í umræðu á þeim vettvangi, sem og á fræði- og pólitískum vettvangi á alþjóðavísu, varðandi vaxandi íslamafóbíu og fleira, þó aðilar í samtímaheiminum sem ekki vildu rugga bátnum hefðu þagnað eða reynt að þagga niður. Verk í íslenska skálanum hefur sjaldan haft jafn mikið vægi alþjóðlega eða sett íslenska myndlistarsenu jafn rækilega á kortið.

Á Manifesto vinnur Christoph aftur í beinu samstarfi við ákveðinn samfélagshóp sem hefur verið jaðarsettur og vanræktur. Í þessu tilfelli eru það íbúar í Trapani landbúnaðarhéraðinu á Sikiley. Að vera íbúar í gleymdu héraði eða svæði er reynsla sem íbúar margra héraða Evrópu eiga sameiginlegt og því hefur samstarfið víðtækari vísun. Á Sikiley stofnar Christoph til kjarnyrts samtals og leggur fram gagnrýna spurningu við yfirlýst markmið Manifesta í Palermo og borgaða þátttöku hollenska arkitektafyrirtækisins OMA til að stunda rannsóknir á veruleika Palermo. Falið undir fallegum ásetningi í texta sýningaskrárinnar er sú staðreynd að rannsóknin gefur OMA mikilvægt forskot þegar útboð hefjast í þeirri langtíma framfarauppbyggingu sem Orlando borgarstjóra sér sem framtíð borgarinnar.

Með því að sýna bæinn Gibellina í nýrri og eldri gerð undir upprunalegri ferðamannaleiðsögn fólks á staðnum tekst Christoph að leggja fram metarýni á fyrirbærið tvíæringa í sjálfu sér og sérstaklega Manifesta í Palermo en engin fordæmi eru fyrir slíkri forrannsókn arkitektafyrirtækis. Í ljósi þess að Hedwig Fijen hefur lýst yfir að slík forrannsókn arkitektafyrirtækis sé framtíð Manifesta fær verk Christops aukna vigt. Það verður hrifnæmum nauðsynlegt til að halda sér á jörðinni nálægt því sem er.


Ferðafélagar á torgi fyrir framan borgarskrifstofur Gibbelina Nuova. Á myndinni sást brot af stórum og vanræktum útilistaverkum bæjarins og einnig aðkeyptum arkitektúr.

Þegar Manifesta var næstum því haldin á Íslandi

Manifesta sem ferða-tvíæringur getur sannarlega virkað sem tæki til að flýta fyrir heldrunarferli í höndum réttra aðila hvort sem þeir gera það af góðum ásetningi eða til þess að hagnast eða eru ómeðvitaðir um hver kostnaðurinn er. Í þessu samhengi er gott að rifja upp hvernig Manifesta varð næstum því haldið á Íslandi undir lok síðasta áratugar. Um miðjan áratuginn var þýska sýningarstjóranum Christian Schöen falið það verkefnið að stofna íslenska kynningarmiðstöð myndlistar og koma myndlistarmálum í faglegan jarðveg. Um svipað leiti árið 2005 var haldin Listahátíð í Reykjavík sem beindi sjónum að íslenskri myndlist á hátt sem ekki hafði þekkst áður.

Mikilvægt fólk úr miðju listheimsins flyktist til landsins og var flogið á milli myndlistarsýninga Listahátíðar í öllum landshlutum. Þetta var hátíðin sem kom íslenskri myndlist á kortið. Christoph Büchel var hluti af þessari bylgju sem myndaðist í kjölfarið og sem listamannavinnurýmið Klink og Bank var miðlægt í. Nína Magnúsdóttir var einmitt stjórnandi Klink og Bank á þessum tíma og lykilmanneskja í tengslanetamyndun í kringum það.

Christian var mjög metnaðarfullur fyrir hönd íslenskrar myndlistar og vildi nýta þetta tækifæri sem athyglin á Listahátið 2005 var. Hann notaði tengsl sín við stjórnanda Berliner Liste listamessunnar til að Klink og Bank yrði boðin þátttaka þar og vann einnig nótt og dag við að sannfæra áhrifafólk í íslenskum nefndum um að það væri málið að styrkja íslenska listamenn eins og Egil Sæbjörnsson til vinnustofudvalar í Künstlerhaus Bethanien í Berlín. Christin fylgdi svo athyglinni eftir með því að bjóða hópi af Manifesta sýningarstjórum til Íslands með það í huga að undirbúa jarðveginn fyrir það að Manifesta yrði haldin fljótlega á Íslandi.

Hedwig Fijen var mjög hrifin af þeirri hugmynd og lagði sérstaka áherslu á að sýningarstjórarnir færu til Íslands til að velja íslenska listamenn til þáttöku á Manifesta. Það varð úr að listamennirnir Margrét Blöndal, Ragnar Kjartansson og Ólafur Ólafsson/Libia Castro tóku þátt árið 2008. Íslenska ríkið tók líka vel í hugmyndina og samningur um að hýsa Manifesta lá á borði Mennta- og menningarmálaráðherra til undirskriftar þegar Lehmann bræður urðu gjaldþrota. Þegar Ísland varð síðan nær gjaldþrota í kjölfarið stóð valið á milli þess að heiðra tvo samninga sem lágu á borðinu og heiðursþátttaka Íslands í bókamessunni í Frankfurt varð ofan á.

Eftir langt ferli og uppbyggingu til að koma þessum mikilvæga atburði til Íslands þá voru þetta að sjálfsögðu mikil vonbrigði. Reykjavíkurborg og íslenska ríkið höfðu vissulega ekki sömu sýn á myndlistarviðburð sem eitthvað sem hægt væri að byggja á eins og Orlando borgarstjóri Palermo gerir í dag eða stórhugar 9. áratugarins gerðu í Gibellina Nuova. Heldrunarferli er flókið og marglaga fyrirbæri sem eins og nýlenduferlið kjarnast um að einn þjóðfélagshópur tekur yfir rými annars og því fylgir umbreyting á fagurfræði og ásýnd og margt fleira. Ákveðnir hópar hagnast og hagur þeirra vænkast á meðan aðrir hópar eru jaðarsettir.

Myndlistarheimurinn er ekki laus við að vera staðsettur í þessari hringrás og hafa ákveðið hlutverk. Oft bætist hagur myndlistarsenu í upphafi slíks ferils, húsnæði býðst til dæmis á góðum stað á góðu verði, en á síðari stigum kemur oft annar hópur og tekur yfir og myndlistarsenunni er ýtt út á jaðarinn. Þetta er ákveðinn mekanismi sem hefur sinn ryðma, sín tannhjól, sem þarf að gefa gaum í umhverfi sem gefur sig út fyrir að vera gagnrýnið. ‘Follow the money’, hvíslar Nína að mér og horfir kíminn á einn þátttakanda í Draumaframfaraferðinni, arkitekt frá OMA sem virðist ekki gera sér neina grein fyrir gagnrýnu viðhorfi verksins til hans eigins fyrirætlanna og sjónarmiða. Blaðamaður er á báðum áttum. Vissulega yrði það stórkostlegt tækifæri fyrir íslenska myndlistarsenu að fá Manifesta til Íslands en ljóst er að mikilvægt er að vera meðvitaður um hver séu helstu tannhjólin og hverju sé verið að fórna og hverjir séu að hagnast þegar rætt er um samspil heldrunarferils, fasteigna- og borgarþróunar og myndlistar- og menningaratburða.

Hulda Rós Guðnadóttir

 


Ljósmyndirnar í greininni eru birtar með leyfi Huldu Rósar Guðnadóttur, mynd af miða er birt með leyfi Fondazione Manifesto

Hlekkir sem tengjast efni greinarinnar:

http://m12.manifesta.org

www.cooking-sections.com

www.fondazionemanifesto.org

http://oma.eu/

http://exilegallery.org/

http://www.utopianunion.org/

http://www.kingakielczynska.com/

https://barcanostra.eu/

Grein í New York Times: Italy’s New Populist Government Turns Away Ship With 600 Migrants Aboard

Myndlistarrannsókn og tilraun vinnur Kvikmyndahátíðina í Berlín

Myndlistarrannsókn og tilraun vinnur Kvikmyndahátíðina í Berlín

Myndlistarrannsókn og tilraun vinnur Kvikmyndahátíðina í Berlín

Kvikmyndahátíðin í Berlín er fyrsta alþjóðlega kvikmyndahátíðin í A flokki á hverju ári. Í ár átti hún sér stað 15. til 25. febrúar. Ef dæma á af myndum og umfjöllun í meginstraumsfjölmiðlum mætti halda að hátíðin snerist um töfraljóma rauða teppisins. Það er hinsvegar ekki málið fyrir fagfólk og áhugafólk um kvikmynda- og myndbandslist. Hátíðin er mikilvæg miðstöð á þýsku og alþjóðlegu senunni um myndabands- og kvikmyndalist myndlistarmanna.

Kvikmyndirnar í aðalkeppninni um Gullbjörninn taka mjög mismunandi afstöðu gagnvart miðlinum og hægt er að líta á þær að hluta sem sýnishorn af hinum fjölmörgu flokkum hátíðarinnar. Í ár vann tilraunakennd rannsóknarmynd sem auðveldlega væri hægt að segja að sé fulltrúi Forum flokksins. Forum gæti útleggst á íslensku sem opinn samræðuvettvangur. Það var mynd leikstýrunnar og myndlistarkonunnar Adina Pintilie ‘Touch Me Not’ sem vann. Það má ekki horfa framhjá því að þessi ákvörðun hefur mikið menningarlegt og pólitískt mikilvægi. Hún er afgerandi yfirlýsing hinnar alþjóðlegu dómnefndar um hvert þau vilja að hátíðin stefni eftir að stjórnandi hennar Dieter Kosslick hættir árið 2019.

Þetta er yfirlýsing sem er mjög mikilvæg fyrir myndlistarmenn í kvikmyndagerð, sérstaklega í ljósi opinbers bréfs sem margir af helstu leikstjórum Þýskalands skrifuðu undir síðastliðinn nóvember og sem kallaði á áherslu á stærri nöfn og meiri töfraljóma frekar en áherslu hátíðarinnar á rannsókn á mismunandi afstöðum og möguleikum kvikmyndanna. Formaður dómnefndar, Tom Tykwer, skýrði ákvörðun dómnefndar með því að þau vildu ekki verðlauna það sem kvikmyndalistin gæti þegar gert vel heldur mikið frekar hvert kvikmyndalistin gæti farið í framtíðinni. Hann er að tala um möguleika kvikmyndarinnar. Stefnan er í átt tilraunarinnar.


Frá innsetningunni ‘A Mechanism Capable of Changing Itself’. Frá vinstri til hægri: ‘Strange Meetings’ eftir Jane Jin Kaisen, ‘Pink Slime Ceasar Shift’ eftir Jen Liu og ‘Café Togo’ eftir Musquiqui Chihying og Gregor Kasper.

Þetta eru ekki ný átök eða umræður. Tilraunaflokkur hátíðarinnar, Forum, var upprunalega stofnaður sem ‘Hinn alþjóðlegi umræðuvettvangur um nýja kvikmyndalist’ á umrótsárunum í lok 7. áratugarins, sem mótvægi við Kvikmyndahátíðina í Berlín. Stofnhópurinn sem síðar varð að Arsenal, þýsku stofnuninni um kvikmynda- og myndabandslist, vildi umbreyta kvikmyndalistinni í vettvang uppbyggilegrar menningarlegrar umræðu og skoðanaskipta. Það var svo árið 1970, í kjölfar mikilvægra breytinga á Kvikmyndahátíðinni í Berlín, sem Forum flokkurinn var innlimaður í hátíðina sem vettvangur fyrir kvikmyndir sem eiga heima á mörkum myndlistar og kvikmyndalistar og þar sem heimildarmyndir og skáldaðar myndir eru metnar á jafnræðisgrundvelli. Frá upphafi vildi Forum flokkurinn standa utan við keppnisandann og er ekki með nein opinber verðlaun. Hinsvegar eru fjöldinn allur af sjálfstæðum verðlaunum. Í ár voru kvenleikstjórar mjög sigursælar í flokknum.

Forum flokkurinn er hinsvegar aðallega helgaður myndum í fullri lengd og það var árið 2006 sem stjórnarformaður Arsenal stofnunarinnar, Stefanie Schulte Strathaus ásamt sjálfstæða kvikmynda- og myndlistar sýningarstjóranum Anselm Franke, stofnaði ‘Forum Expanded’ undirflokkinn – hinn útvíkkaði umræðuvettvang. Þar fá styttri myndir og einrása myndbandsverk að taka þátt ásamt innsetningarverkum og gjörningum. Afstaða Forum Expanded er að bjóða upp á gagnrýni og útvíkkaða skynjun á fyrirbærinu kvikmynd.


Stilla úr ‘Today Is 11th June 1993’ eftir Clarissa Thieme.

Þessi rýni tekur á sig form hópsýningar á innsetningaverkum ásamt röð kvikmyndasýninga í hefðbundnum kvikmyndasal. Forum hefur frá upphafi verið helgað tilraunakenndum frásagnarleiðum, óháð tegundaflokkunum, þar sem meiri áhætta hefur verið tekin en í öðrum flokkum hátíðarinnar og áhersla hefur verið á annars konar valmöguleika eða sýn á annars samþykktri kvikmyndasögu. Það sem gerir hinn útvíkkaða undirflokk sérstakan er að hann er vettvangur þar sem heimildarmyndir, skáldað efni, tilraunaefni, blendingar, einrása og margrása verk og innsetningar, kvikmynda- og myndbandsverk eru flokkuð saman og skoðuð í samhengi við hvort annað. Vettvangurinn er ekki bara einstakur, í sambandi við að horfa framhjá hefðbundnum tegundaflokkunum og merkimiðum eftir sýningarsniði, heldur er hann einnig einstakur að því leiti að í honum taka sýningastjórarnir ákveða afstöðu eða réttara sagt leggja í ákveðinn rannsóknarleiðangur með ákveðið sýningarheiti eða spurningu að leiðarljósi. Í þeirri rannsókn rúmast bæði heimsfrumsýningar á verkum og mikilvæg eldri verk ásamt nýlegum verkum af tvíæringum og öðrum sýningum. Í flokknum eru engin verðlaun.


Kvikmyndagerðar og myndlistakonan Clarissa Thieme.

Árið 2018 er Forum Expanded ennþá rekið í samstarfi Kvikmyndahátíðarinnar í Berlín og Arsenal stofnunarinnar með Stefanie fremsta í flokki jafningja en Anselm Franke er meira á hlíðarlínunni þar sem hann er í dag yfirmaður kvikmynda- og myndlistardagskrá Húss Menninga Heimsins (‘Haus der Kulturen der Welt’) í Berlín. Auk Stefanie stendur að baki sýningunni 2018 sýningarstjórateymi sem samanstendur af sýríska kvikmynda og myndbandslistamanninum Khaled Abdulawahed, þýska tilraunakvikmynda sýningarstjóranum Ulrich Ziemons og listakonunni, sýningarstjóranum og einum af stofnanda ‘Contemporary Image Collective’ í Kairó, Maha Maamoun. Saman skipa þau teymi sem segir sögu af áherslunni á fjölbreytilega afstöðu í menningarpólitík Þýskalands.

Þetta árið var heiti sýningarinnar bein tilvitnun í spássíunótu Maya Deren frá 1947 um eiginleika Marxisma: ‘Kerfi sem er fært um að breyta sjálfu sér’ (‘A Mechanism Capable of Changing Itself’) og vísar í tilfelli sýningarinnar til kvikmyndalistarinnar sem er ekki aðeins fær um að koma af stað breytingum eða breytast heldur hefur einnig í sér getuna til að skapa ný skynjunarform. Samkvæmt Stefanie vísar heitið auk þess í stofnanarammann sjálfan sem verkin eru sýnd í. Kvikmyndafræðingurinn Ute Holl hélt ræðu á opnun Forum Expanded sýningarinnar um kenningalegan bakgrunn rannsóknarspurningarinnar og titilsins. ‘‘Eins og Maya Deren gerði ráð fyrir að sérhvert móttökuform kvikmyndarinnar umbreytti líka viðtakendum á sama tíma þá lýsir hugmynd hennar um kvikmyndalistina samáhrifum stýrikerfis þar sem tæknilegir, félagslegir og fagurfræðilegir þættir ásamt skynþáttum eru í stöðugu umbreytingarferli sem á sér stað á gagnkvæman hátt: ‘Kerfi sem er fært um að breyta sjálfu sér’,“ hélt Ute fram og hélt áfram: “Það var ósk Maya Deren að kvikmyndalistin myndi staðsetja okkur í sambandi við hið óþekkta frekar en að færa okkur undir stjórn hins staðlaða eða dæmigerða‘.’ Þetta er viðhorf sem bergmálar ekki aðeins í sýningarstjórninni á Forum / Forum Expanded í ár heldur er einnig hvatinn á bakvið ákvörðun hinnar alþjóðlegu dómnefndar sem veitti Gullbjörninn.

Eins og undanfarin ár átti sýningin sér stað bæði sem hópsýning í Akademie der Künste eða Akademíu listarinnar við Hansetenweg í Berlín og sem kvikmndasýningar þar og í Arsenal stofnunni við Potsdamer Platz. Í sýningunni virðast sýningarstjórarnir, eins og hin alþjóðlega dómnefnd, vera að leita að nýrri sýn á fortíðinni og leið til að umbreyta henni í nýja sýn á möguleikum framtíðarinnar þar sem lykilinn er áhersla á framtíðarmöguleika kvikmynda- og myndbandlistarinnar frekar en að verðlauna þaulreyndar aðferðir. Listamönnunum sem var boðið eru 58 talsins. Ný verk voru vanalega eftir yngri kynslóðina á meðan eldri verk voru valin úr sögu avant-garde kvikmyndagerðar, vanalega frá miðbiki 20. aldarinnar í Bandaríkjunum. Þegar litið er á afrekaskrá yngri listamanna kemur í ljós að þeir hafa flestir tekið virkan þátt í starfi mikilvægra þýska eða berlínskra liststofnanna, ýmist með því að sýna verk, taka við styrk, verið í námi eða eru á skrá hjá belínsku eða þýsku gallerí. Fáein verk koma úr stórum tvíæringum á síðasta ári.


Anouk de Clercq ásamt kollegum sínum fyrir utan Akademie der Künste.

Einn listamannanna er hin þekkta myndbandslistakona Anouk de Clercq sem heimsfrumsýndi nýjasta verk sitt ‘It’ í kvikmyndasal í Arsenal stofnuninni. Verkið er samstarfsverkefni með ljósmyndaranum Tom Callemin.’It’ eins og fyrri verk Anouk tekur sér sterka fagurfræðilega stöðu á milli myrkurs og ljóss og kannar hvað gerist þar á milli. Anouk, sem búsett er í Berlín, er mjög sýnileg í belínsku senunni en á sama tíma var hún að sýna myndbandsverk á tveim öðrum virtum sýningarstöðum í Berlín: í Künstlerhaus Bethanien í Kreuzberg og ACUD gallerí í Mitte hverfi. Einhverjir á Íslandi þekkja e.t.v. til verka Anouk en hún var handhafi SIM vinnustofudvalar árið 2006 og tók þátt í sýningu í Safni á Laugavegi undir sýningarstjórn Birtu Guðjónsdóttur. Síðan þá hefur Anouk ferðast átta sinnum til Íslands og jafnvel búið til verk sem eru innblásin af tíma hennar og ferðalögum á landinu.

Anouk er ein af stofnendum Auguste Orts, belgísks framleiðslu- og dreifingarfyrirtækis fyrir hljóð-og myndverk myndlistarmanna sem falla á milli flokkunarkerfa tegunda og forma. Verk Anouk eru framleidd af þessu fyrirtæki og fjármögnuð af flæmska Hljóð-og myndverkasjóðnum og einnig af rannsóknarsjóði Listaháskólans í Ghent en Anouk er með rannsóknarstöðu við þann skóla. Ég hitti hana stuttlega daginn fyrir frumsýninguna og spurði hana hvað vettvangurinn Forum Expanded þýddi fyrir hana sem listamann: “Það er algerlega frábært að sjá verk samferðamanna í listinni í sýningarstjórnuðu samhengi, sem er mjög sjaldgjæft fyrir stórar hátíðir. Venjulega einblína hátíðir á það nýjasta af því nýjasta, frumsýningar os.fr.v en hér blanda þeir nýju efni við eldri verk og leita eftir flæði í hverjum dagskrárlið. Og svo má nefna að vinir mínir og samferðamenn í kvikmyndalistinni búa út um allan heim og hérna fáum við tækifæri til að hittast aftur og skiptast á skoðunum um myndirnar sem við höfum séð, myndirnar sem við erum að undirbúa, o.sfr.v.’‘ Tilfinningin um að búa í tveim aðskildum heimum er eitthvað sem allir listamenn sem vinna með kvikmyndir og myndbönd þurfa að fást við. Það er mismunur á fjármögnun, tegundaflokkun, samhengi, umræðu og væntingum.

Ég spyr Anouk hvernig það hefur verið fyrir hana að tilheyra tveim mismunandi heimum: “Ég byrjaði bæði í myndlistarheiminum og í kvikmyndaheiminum á sama tíma: þessir tveir heimar mættust sjáldan. Á síðustu tveim árum eða svo hefur orðið til merkimiði fyrir það sem ég og samferðamenn mínir gera: ‘kvikmyndir myndlistarmanna’ (‘artist film’) eða hreyfimyndir myndlistarmanna (‘artist moving image’) þannig að flæðið á milli þessara tveggja heima hefur orðið betra. Það hefur orðið til sena sem er stöðugt að styrkjast og senan er með fótinn inn fyrir dyrnar bæði í kvikmynda- og myndlistarheiminum.


Sýningarstjórateymi Forum Expanded 2018. Frá vinstri til hægri: framkvæmdastjórinn Stefanie Schulte Strathaus, sýningarstjórinn og með-stofnandi  ‘Contemporary Image Collective’ í Kaíró, Maha Maamoun, Sýrlenski kvikmyndagerðar/video-listamaðurinn Khaled Abdulawahed og þýski tilraunakvikmynda sýningarstjórinn Ulrich Ziemons.

Söfn hafa orðið opnari og forvitnari um kvikmyndir og myndbönd, kvikmyndahátíðir eru að leita eftir nýjum leiðum í kvikmyndagerð og þannig komu þær auga á kvikmyndagerð myndlistarmanna. Það virðist vera að þessi sena af myndlistarmönnum sem eru að gera kvikmyndir, virki æ meir eins og brú á milli þessara tveggja heima.’

Anouk hefur sjálf verið virk í að brúa bilið en á árunum 2015 – 2017 skipulagði Auguste Orts verkefnið ‘On and For Production’ eða ‘Um og fyrir framleiðslu’, frumkvöðlaverkefni sem samanstóð af röð funda víðsvegar um Evrópu þar sem málefni tengd framleiðslu og fjármögnun á kvikmyndagerð myndlistarmanna voru rædd með þátttöku leiðandi fagfólks og fjármögnunaraðila úr báðum heimum. Christina Nord, fyrrverandi kvikmyndarýnir hjá ‘die tageszeitung’ dagblaðinu í Berlín og núverandi yfirmaður í menningardagskrárdeild Goethe stofnunarinnar, skrifaði grein um blendingsmyndir í sýningarskrá Forum / Forum Expanded, þar sem hún vitnar í orð kvikmyndagerðamannsins Marcin Malaszczak varðandi þetta: “Fyrir kvikmyndagerðamenn, fyrir verkið sjálft, skipta tegundaflokkaskipanir ekki máli. Þessar tegundaflokkanir eru aðeins nauðsynlegar þegar verið er að sækja um styrk, þegar þú vilt vinna í kerfinu. Þá þarf að stimpla allt. Sama á við um flestar hátíðir.“ Þetta er hvatinn á baki verkefni Anouk að færa saman fjármögnunaraðlia í myndlistar- og kvikmyndaheiminum til að hefja samræður og skoðanaskipti, til að brúa þessa tvo heima.


Akademie der Künste – einn af stöðunum þar sem Forum Expanded á Berlinale Film Festival fór fram.

Annar listamaður sem heimsfrumsýndi einrása verk í kvikmyndasal Akademíunnar er þýska tilraunakvikmyndagerðakonan Clarissa Thieme, fyrrverandi aðstoðarprófessor við Listaháskólann í Berlin og nýlega handhafi rannsóknarstöðu við berlínsku rannsóknarmiðstöðina fyrir æðri rannsóknir í listum og vísindum (‘BAS’). Myndin hennarToday Is 11th June 1993′ var þróuð í ramma myndlistarrannsóknarstyrks við stofnunina sem Clarissa hefur fengið til að rannsaka myndbandsupptökur úr myndbandssafni Hamdija Kresevljakovic í Sarajevo.

Myndin er fyrsta listræna niðurstaðan úr rannsóknarverkefninu en meira er á leiðinni fljótlega, gjörningur og myndbandsinnsetning. Myndbandssafnið samanstendur af upptökum sem teknar voru á meðan á fjögurra ára umsátri um Sarajevo stóð yfir, og var tekið bæði af Kreševljakovic bræðrum og safnað frá frá fólki sem bjó í borginni á þessum tíma. Í mynd Clarissu situr þýðandi í lokuðum bás fyrir framan vörpun á myndbandsupptöku úr safninu sem sýnir heimagerða vísindaskáldsögu þar sem hópur af ungu fólki ímyndar sér að flýja umsátrið með hjálp tímavélar. Þetta er einhvers konar framtíðarútópíu ímyndunarfantasía og þess vegna frumlegt efni til að nota fyrir pólítíska og félagslega umræðu.

Í Spurningum&Svörum eftir sýninguna benti Clarissa á að safnið sýnir sjónarhorn sem er mjög ólíkt umfjöllun meginstraumsfjölmiðla frá þessum tíma og geti það því þjónað sem einskonar gluggi aftur í þennan tíma. Hvernig eigi að sýna og upplifa efni úr söfnum er ríkt svið til að gera tilraunir með og Clarissa gerir þetta á mjög áhugaverðan hátt með þvi að búa til brú á milli þá og nú með því að endurtaka í bergmáli fyriráætlanir hinna upprunalegu kvikmyndagerðamanna.

Myndin, sem virðist í fyrstu vera einföld sviðsetning á efninu, er marglaga og kveikir á hugrenningum og tengingum hjá áhorfandanum, ekki aðeins um hvernig umsátrið um Sarajevo var sett fram með almennum stöðluðum hætti árið 1993 og síðar, heldur einnig um hvernig umsátur í samtímanum eru sýnd í meginstraumsfjölmiðlum dagsins í dag. “Forum Expanded er blendingsvettvangur þar sem kvikmyndalist og myndlist mætast. Og það lýsir mjög mínu eigin starfi. Á mjög áhugaverðan hátt þá er vettvangurinn listræn tilraun í sjálfu sér sem spyr spurninga um merkingu kvikmyndalistar í samtímanum og hvað hún gæti orðið. Spurningar vaknar ekki einungis vegna verkanna sem sýnd eru heldur einnig vegna áhorfenda. Þetta er mjög dýrmætur hugsunartankur og rannsóknarstofa“, svarar Clarissa þegar ég spyr hana af hvað það sé sem gerir það mikilvægt að sýna verkið hennar á hátíðinni. “Mér finnst það mjög áhugavert að Forum / Forum Expanded sé staðsett sem flokkur í Kvikmyndahátíðinni í Berlín, kvikmyndahátíð í A-flokki með svo marga aðra flokka og með evrópska kvikmyndamarkaðinn í Martin Gropius Bau safninu sem er með þúsundir mynda sem eru ekki einu sinni á lista í sýningarskrá hátíðarinnar.

Á vissan hátt eru Forum Expanded og evrópski kvikmyndamarkaðurinn á sitthvorum enda ‘öfganna’. Með mjög mikilli einföldun má auðvitað segja að þar sé að finna muninn á milli myndlist og söluvænna kvikmynda. Ég held að við getum ekki litið framhjá þeirri staðreynd að mismunandi dreifingar- og fjármögnunarleiðir hafa mikil áhrif á verkin okkar. Ég sé þetta ekki svona svart og hvítt. Ég hef til dæmis mikinn skilning á dreifingu í kvikmyndaheiminum sem hefur það að markmiði að eins margt fólk og mögulegt er sjái verkið. Þetta er mjög ólík þeirri einkaréttar nálgun sem felst í að búa til aðeins fimm eintök sem seld eru sem listaverk. Það eru jákvæð og neikvæð áhrif sem koma úr báðum þessum áttum að mínu viti. Mér finnst gott að skoða þetta mjög gaumgæfilega. Oftast höfum við ekki algerlega frjálst val hvernig við framleiðum og sjósetjum verkin okkar. En auðvitað sem myndlistarmaður eða kvikmyndagerðamaður þá þarftu að þekkja vel hinar ólíku leiðir til þess að geta stefnt að því sem er best fyrir verkið sem þú ert að vinna að á hverri stundu. Segjum að það séu mjög ólíkir kvikmyndaheimar undir þaki Kvikmyndahátíðarinnar í Berlín. Í tíu daga þá segir fólk þér að það geri kvikmyndir og þau gera það líka öll. En þetta er eins og hittingur mismunandi vetrarbrauta. Þar sem ég nýt skoðanaskipta í fremstu röð og þar sem þú finnur í sérhverjum þessara mismunandi kvikmyndaheimum fólk sem sannarlega elskar kvikmyndir og myndlist og brennur fyrir því sem það gerir, þá nýt ég þess mjög að Forum / Forum Expanded sé staðsett innan Kvikmyndahátíðarinnr í Berlín og finnst vettangurinn veita bæði innblástur og koma stöðugt á óvart.“

Hulda Rós Guðnadóttir


Aðalmynd með grein: Frá innsetningunni ‘A Mechanism Capable of Changing Itself’. 2-rása video innsetning ‘Third Part of the Third Measure’ eftir The Otolith Group.

Ljósmyndir: með leyfi höfunds greinarinnar og listamanna.

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest