Lús í góðu skapi: Nervescape í Helsinki

Lús í góðu skapi: Nervescape í Helsinki

Lús í góðu skapi: Nervescape í Helsinki

Sýningin Nervescape VIII er nafnið á sýningu Hrafnhildar Arnardóttur, eða Shoplifter, í Kiasma, nýlistasafn í miðborg Helsinki. Nervescape VIII er áttundi hluti sýningarraðarinnar sem einkennist af litríkum uppsetningum af gervihári sem gjörbreytir rýminu í litríkt landslag tauga.

Gleði yfir litadýrðinni er sú tilfinning sem ég fann er ég labbaði inn í rýmið seinnipart föstudags. Mikið var af fólki á efstu hæð Kiasma og það var ekki þögn eins og á hinum hæðunum, heldur ljúfur kliður. Ótrúlegt magn af gervihári í öllum regnbogans litum var búið að hengja þvers og kruss um rýmið í formum sem minna á taugakerfi. Börn hlupu um og knúsuðu hárið sem náði næstum niður á gólf. Í miðju sýningarinnar voru púðar á gólfinu þar sem hægt var að liggja og njóta litanna líkt og við gerum þegar við setjumst niður og komum okkur fyrir til þess eins að njóta útsýnis.

Á meðan ég labbaði um rýmið fékk ég sterka löngun til þess að snerta, finna fyrir því hvernig það væri. En mér til mikillar furðu var það ekki mjúk og góð tilfinning sem mér bar við fingurgóma heldur minnti áferðin mig helst á gamla trúðahárkollu sem ég átti þegar ég var barn. Örlítil klígjutilfinning læddist að mér, en ég held að hún sé alveg eðlileg. Venjulegt hár framkallar svipaðar tilfinningar. Það ógeðslegasta sem ég geri er að tæma niðurfall sem er fullt af hári, jafnvel þótt það sé bara mitt eigið hár, en á hinn boginn stend ég fyrir framan spegilinn á hverjum einasta morgni og tek “listræna” ákvörðun um hvernig ég vilji hafa hárið mitt þann daginn.

Við hugsum öll óheyrilega mikið um hárið okkar þótt að sum okkar væru frekar til í að sleppa því. En þessar vangaveltur um hégómleika okkar gagnvart okkar eigin hári blikna í samanburði við það magn af hári sem umkringdi mig á efstu hæðinni í Kiasma. Í fyrri verkum Hrafnhildar vann hún meira með hégómleikann í tengslum við alvöru hár en í Nervescape seríunni notast hún við gervihár sem er í raun skoplegt því allt þetta hár hangandi úr loftinu er eingöngu framleitt til þess að bæta við eða upp fyrir venjulegt hár, til hárlenginga og skreytinga á okkur sjálfum.

Þannig vakti litadýrðin upp hugsanir um þann fjölda af ákvörðunum sem mögulegt sé að taka. Hvernig sköpun okkar getur þanist út í það óendanlega og táknrænir möguleikar einhvers eins hversdagslegs og hárs séu í raun ótæmandi. Allt sem mér myndi mögulega geta dottið í hug væri hægt að framkvæma eingöngu ef viljinn væri fyrir hendi, það virðist yfirþyrmandi. Enda segist Hrafnhildur, í viðtali við Grapevine [1], breyta áhorfandanum í lús og ég tek undir það með henni; lús í góðu skapi.

En hver er tengingin á milli hárlenginga og tauga? Í spjalli við sýningarstjóra á Listasafni Íslands, vegna sýningarinnar Nervescape VII sem var árið 2017 [2], minnist hún á það hvernig við gleymum því oft hvað við erum með magnað landslag innra með okkur. Við eyðum oft svo miklu púðri í hið ytra, til dæmis hárið, en taugarnar ná yfir allan líkamann, nema og færa boðin. Hér er taugakerfið túlkað, stækkað og málað upp í nýjum skala. Vísindamenn nota einnig margvíslega liti til þess að tákna greinarmun hinna mismunandi tauga í heilanum og sú mynd sem þau skapa er alls ekki ólík Nervescape.

Eins og fyrr hefur komið fram er Nervescape hér í Helsinki númer 8 í sýningarröðinni en hugmyndin ætti að vera kunnugleg þeim sem fóru að sjá hana á Listasafni Íslands fyrir tveimur árum. Nervescape serían samanstendur alltaf af sama efni, en tekur öllum rýmum með mismunandi hætti þannig verður hver og ein sýning einstök enda rýmin misjöfn. Efsta hæð Kiasma er til að mynda gríðarstórt og bjart rými með stórum gluggum og þar af leiðandi fallegri dagsbirtu. Það verður því spennandi að sjá hvað hún, ásamt sýningarstjóra Birtu Guðjónsdóttir sem hefur meðal annars unnið með Shoplifter að nokkrum fyrri Nervescapes, munu gera með íslenska skálann á Feneyjartvíæringnum í sumar. [3] Það má búast við litadýrð og gervihári en líklega allt öðrum tilfinningum en í björtu Kiasma.

Eva Lín Vilhjálmsdóttir


Ljósmyndir birtar með leyfi Kiasma safnsins.

[1] https://grapevine.is/culture/art/2017/06/01/hypernature-shoplifter-showers-the-world-with-colour/

[2] https://www.youtube.com/watch?v=nvYpHfmlgDU

[3] https://icelandicartcenter.is/projects/venice-biennale/hrafnhildur-arnardottir-shoplifter-represents-iceland-at-58th-venice-biennale/

Alvarleikinn þarf ekkert að vera göfugri en leikgleðin

Alvarleikinn þarf ekkert að vera göfugri en leikgleðin

Alvarleikinn þarf ekkert að vera göfugri en leikgleðin

Nýlega opnaði Hrafnhildur Arnardóttir einnig þekkt sem Shoplifter sýningu í Listasafni Íslands. Sýningin heitir Taugafold VII / Nervescape VII og sýningastjóri er Birta Guðjónsdóttir. Þetta er sjöunda innsetningin í Nervescape sýningaröðinni sem Hrafnhildur hefur undanfarið unnið fyrir listasöfn og stofnanir. Hún hefur þróað með sér afar persónulegan stíl en hún fléttar og þræðir saman marglitar einingar af gervihári og býr til veggverk, formræna skúlptúra og innsetningar. Einnig hefur hún gert búninga og nýlega hannaði hún fatalínu fyrir verslunina &Other stories. Artzine spjallaði við Hrafnhildi um lífið og listina og yfirstandandi sýningu á Listasafni Íslands, en hún stendur til 22. október.

Segðu mér aðeins frá Nervescape sýningaröðinni?

Þetta er í sjöunda skipti sem ég geri verk úr gervihári á svona stórum skala. Mér finnst verkin ekki geta heitið neitt annað en Nervescape því þau eru öll sprottin úr upprunalega verkinu sem var sýnt í Clocktower Gallery í New York 2012. Verkið er þó alltaf nýtt í ákveðnum skilningi því það er aðlagað að rýminu hverju sinni. Alltaf er þetta nýr vettvangur, og þar af leiðandi ný upplifun og nýjir sýningargestir. Ég held samt að sýningin í Listasafni Íslands sé síðasta sýningin í bili í þessari röð, ekki nema það sé eitthvað safn sem vilji sérstaklega setja þetta upp þá auðvitað skoða ég það og eða einkasafnarar panti sérstaklega svona verk.

Já þú hefur nú gert nokkur slík verk þar sem heilu herbergin eru þakin gervihári ekki satt?

Jú einmitt. Mér finnst alltaf gaman að teygja úr myndlistinni minni og ýkja verkin í lit eða stærð eins og með því að þekja heilu herbergin. Í einu herbergi þakti ég meira að segja rúmgaflinn úr gervihári svo hann félli inní veggina. Svo er tyggjóbleikt rýja teppi á gólfinu. Þetta var algjörlega alla leið! Fólk sem sefur í þessu herbergi dreymir víst alveg magnaða drauma! Það er planið að fá að að gista sjálf í herberginu einn daginn.

Ætli maður haldi ekki að maður sé í miðjum draumi þegar maður vaknar þar?

Já gæti verið, þetta er eins og lítill teiknimyndahellir.

Hvað getur þú sagt mér um titil sýningarinnar Nervescape?

Ég les mikið um sálfræði, mannfærði og fjölbreytilega hegðunaraáráttu manneskjunnar. Fyrir mér eru hárflækjurnar eins og taugaendar eða nokkurskonar háræðar, myndræn og ímynduð kortlagning á taugakerfinu, og „málverk“ af tilfinningaflækjum. Þegar ég setti fyrst upp svona verk í Clocktower Gallery þá kom maður lengst uppí turn og ég upplifði hann eins og hausinn á byggingunni þar sem stóra bjallan var eins og heiladingull og maður gat hreiðrað um sig í heilabrotum tímans. Verkið líktist landslagi með sínum krókum, kimum og helli. Hárið hékk í þéttum henglum og litaskala úr náttúrunni, brúnir, grænir, bláir og gulir tónar útí hvítt og drjúpandi hárflyksurnar fóru að minna á grátvið eða dropasteina og í verkinu mótaði fyrir bláum fossi svo þetta var sannarlega landslagsóður, sælureitur eða griðarstaður. Á svoleiðis stöðum öðlast maður gjarnan hugarró og því var þetta einsog tamningarstöð taugakerfis sem er komið í flækju.

Verkið fékk því nafnið Nervescape sem þá vitnar í landscape, escape og nerves sem svo fékk íslenska heitið Taugafold. Fold merkir jörð, svo með verkinu er ég að bjóða sýningargestum uppá jarðtengingu við sjálfa sig og pásu frá raunsæinu. Efniviðurinn bifast og umlykur með loðnu fangi og litirnir gefa þér birtu og vítamín og möguleika á súrrealisma ofskynjunar því allt verkið er nokkuð absúrd og engin leið að halda í of mikla lógík og alvarleika. Maður þarf að leyfa sér meira að stoppa og njóta og speisa út.

Nú er þetta fyrsta einkasýningin þín á listasafni hér heima. Hvernig líður þér með það?

Þetta er auðvitað ákveðinni vörðu náð á starfsferli listamanns að sýna á Listasafni Íslands, ég neita því ekki að því fylgir góð tilfinning. Sérstaklega þar sem safnið stendur á krossgötum með nýjan safnstjóra, Hörpu Þórsdóttur við stýrið og því spennandi að sjá hvernig hún mun móta stefnu safnsins á næstu árum. Listasafn Íslands er að mínu mati mikilvæg stofnun sem þarf að skila hlutverki sínu með sóma til samfélagssins þegar kemur að miðlun samtímalistar og sögunnar. Það hefur ábyrgðarhlutverk sem felst í því að halda utan um merka safneign og varðveislu íslenskrar myndlistarsögu. En því miður hefur róðurinn virst þungur enda skortur á fjármagni og það er á ábyrgð þjóðfélagsins og valdamanna að bregðast rétt við þörfum safnsins til að sinna hlutverki sínu. Það er svo margt stórkostlegt sem á sér stað á safninu, til dæmis frábært að sjá hve vel er haldið utanum lífsstarf Steinu og Woody Vasulka, brautryðjendum á sviði videolistar og hljóðverka.

Hvað kom til að þú fluttir til New York í framhaldsnám?

Þegar ég var að reyna að sjá fyrir mér hvar ég ætti að búa að þá sá ég sjálfa mig í New York í lit en í Evrópu sá ég mig í svarthvítu. Ég hafði ferið í útskriftarferð þangað og borgin kallaði eitthvað á mig. Þessi tilfinning var örugglega tengd því að mér fannast svo mikil þyngd í því að burðast með alla evrópsku listasögunna á bakinu, en ég ber hins vegar mikla virðingu fyrir henni. Ég fann bara að mig langði í eitthvað annað, ég vildi létta á hlutunum og hrista upp í sjálfri mér. Það eru í mér svo miklir litir og pönk!

Ég hef aldrei séð eftir þessarri ákvörðun og elska að búa í New York, þar á ég núna fjölskyldu, pólskan mann Michal Jurewicz og tvö börn, Úrsúlu Milionu og Mána Lucjan og við komum reglulega til Íslands og förum til Póllands svo ég fæ alltaf Evrópu beint í æð inná milli. En í New York er ég í essinu mínu, þar hef ég sótt innblástur og fengið að þroskast sem myndlistarmaður og fá svigrúm til að vera bara akkúrat einsog ég er.

Liggur alltaf einhver hugmyndafræði að baki verka þinna?

Já það eru endalausar pælingar í gangi sem tengjast verkunum, en þær þurfa ekkert endilega að vera í forgrunni því persónubundin upplifun áhorfandans er mikilvæg og þó maður hafi ákveðna hugmyndafræði sem maður er að miðla þá þarf maður að gera ráð fyrir því að það geti alveg farið ofan garðs og neðan og það er magnað að leyfa því bara að gerast. Í raun finnst mér ekki vera hægt að vera með rangtúlkun. Ef þú upplifir eitthvað ákveðið frammi fyrir verkunu þá er það þinn raunveruleiki. Svo ef áhugi er fyrir hendi er hægt að komast að því hvað það er sem listamaðurinn er að fara með sínum verkum og þá er það viðbót og nýr vinkill fyrir áhorfandann sem annað hvort bætir einhverju við verkið eða ekki. Ég virðist hafa þörf til að tjá leikgleði sem veitir mér hamingju í lífinu. Alvarleikinn þarf ekkert að vera göfugri en leikgleðin. Maður sér þetta í bíómyndum, það er meiri virðing borin fyrir drama heldur en húmor. Myndlist sem einkennist af leikgleði getur samtímis haft alvarlegan undirtón. Og ég get svo talað endalaust um það að vera í mótsögn við sjálfan sig, það er bara heilmikil uppspretta.

Sýningin og efniviður hennar er fremur aðgengileg fyrir börn. Hefuru eitthvað hugsað út í það?

Já, þessi leikgleði, litirnir, áferðin og formin geta veitt mikinn innblástur fyrir börn. Svo tengja krakkar þetta örugglega við hárkollur, halloween og þess háttar. Mér finnst mjög gaman ef að börn koma og verða fyrir sterkum hughrifum og kynnast því hvað myndlist getur breytt líðan og vakið með manni nýjar hugsanir. Ég er mjög glöð ef ég næ til þeirra með minni myndlist. Ég horfi stundum á þessa sýningu eins og litríka creyola mynd sem börn teikna þegar þau eru lítil.

Það eru ekki allar myndlistarsýningar þar sem maður má snerta verkin líkt og má hér á sýningunni í Listasafni Íslands. Er einhver séstök ástæða fyrir því að þú leyfir slíkt?

Ég hef tekið eftir því að það er erfitt fyrir fólk að fá ekki að snerta þennan efnivið, það er eins og með plöntur eða feld á dýrum, mann langar að koma við og klappa. Skynjun er svo langt frá því að vera bara sjónræn. Hárið og magnið af því hefur líkamleg áhrif á fólk og virðist hreyfa við öðrum skynfærum í okkur svo það er næstum óviðráðanlegt að snerta til að taka inn verkið

Nú ertu með aðstoðarmanneskju í studioinu og hefur að auki ráðið framleiðanda. Hvernig er það miðað við að vinna ein að öllum verkefnum?

Það er gjörsamlega frábært. Ragnheiður Káradóttir er vinnustofustjórinn minn og Lilja Baldursdóttir er framleiðandi og heldur utanum öll verkefnin mín og sér um skipulag og hefur yfirsýn yfir framkvæmdarferlið og er aðal tengiliður minn við þá sem ég er að vinna með í hvert sinn. Ég hef verið mjög heppin því þær báðar eru mjög klárar og samanlagt erum við gott teymi. Ragnheiður er sjálf frábær myndlistamaður og skilur því allt ferlið mjög vel. Lilja hefur að baki menntun í viðskiptum og skilur lögfræðimál og þannig dreyfist vinnuálagið sem var byrjað að sliga mig fyrir um ári síðan. Við erum líka orðnar það nánar að ég get verið mjög opinská og mér finnst rosa gott að heyra hvað þeim finnst um hinar og þessar hugmyndir og lausnir. Það kemur huganum oft í flæði að vera í samtali og það getur hjálpað mér að finna rétta svarið við eigin spurningum.

Þær eru líka að vinna með mér að halda utanum skrásetningu eldri og nýrra verka. Ég hef verið á leiðinni að gera yfirlitsbók með verkunum mínum og nú þegar ég er komin með þær innanborðs get ég loksins náð utan um það. Það er æðislegt að fá svona mikla aðstoð því auðvitað er stórt batterí að sjá um alla hluti tengda sýningum alveg sjálfur. Ég hef þá meiri tíma til að sinna verkum og koma nýjum hugmyndum áfram. Þetta eykur allan fókus og eins og að vinna með þrjár hægri hendur og þrjá heila sem eru alger forréttindi og ómetanlegt.

Svo er Birta Guðjóns sýningastjóri sýningarinnar í Listasafninu mjög náin samstarfskona, þetta er í þriðja skiptið sem hún setur upp sýningu með mér og það hefur verið frábært að vinna með Birtu því hún setur sig svo vel inní verkin manns og er mjög næm á það hvað maður er að gera og hvað þarf til að koma öllu sem best frá sér, ég er mjög þakklát henni fyrir að hafa fylgt Taugafold þrisvar úr vör hingað til.

 Segðu mér aðeins frá verkefninu sem þú vannst fyrir Los Angeles Philharmonic í Walt Disney Hall?

Um páskana var Los Angeles Philharmonic með frábæra kynningu á íslenskri tónlist, Reykjavik Festival en Daníel Bjarnason tónskáld setti saman dagskrána og bauð mér að taka þátt þessu mikla verkefni með uppsetningu á myndlistarverki í einn tónleikasalinn. Það var mjög mikil áskorun að setja upp verk í þessu fræga húsi sem hýsir Los Angeles Philharmonic og er teiknað af Frank Gehry sem er einn merkasti arkitekt allra tíma og þetta er ein frægasta bygging í LA.

Fra LOS ANGELES PHILHARMONIC, REYKJAVIK FESTIVAL. Ljósmynd: Lilja Baldursdóttir.

Rýmið sem mér var boðið að setja upp verkið í, BP Hall, er umlukið bogalaga viðarveggjum, mjög háum og miklum svo manni líður einsog maður standi á milli skipaskrokka. Þar sem ekki mátti negla eða festa neitt í viðarveggina en mig langaði að verkið svifi yfir gesti hátíðarinnar tókst mér að finna lausn þar sem ég setti hárknyppi á reipi og bjó til úr því vef sem einhverskonar heilaflækju sem við festum í loftið. Það kom mjög vel út og ég notaði svo svipaða aðferð til að setja upp Nervescape í Listasafni Íslands.

Mér finnst spennandi að gera innsetningar í óhefðbundið sýningarrými, og það þarfnast oft lausna á vandamálum sem ýta manni áfram og hjálpar til að þróa ný verk. Sérstaklega áhugvert þegar það á sér stað tónlistarflutningur í innsetningunni því þá fær maður gestina til að dvelja lengur í verkinu og tímaramminn til að njóta myndlistar er öðruvísi.

Horfir þú á Nervescape innsetningarnar eins og málari horfir á abstraktmálverk?

Já í raun því maður er alltaf að leita að einhverju jafnvægi í rýminu, hlutföllin skipta miklu máli, alveg eins og í teikningu eða málverki. Mér finnst gaman að búa til myndlist sem verður að umhverfi þínu. Ekki bara fyrir framan eða aftan, heldur er alltumlykjandi. Mér finnst ég vera að mála í lausu lofti.

 Fyrir utan myndlistina þá hefuru verið að taka að þér önnur verkefni og má segja að þú útvíkkir myndlistarformið með því að vinna þvert á aðrar greinar. Þú hefur meðal annars gert fatalínur og búninga. Eru verkefnin fyrir þér mismunandi eða er þetta allt sami heimur fyrir þér?

Já ég byrjaði að búa til föt þegar ég var pínu lítil og byrjaði að finna gömul föt til að breyta, með aðstoð móður minnar sem var þolinmæðin uppmáluð því ég fann aldrei nein snið heldur bara skissaði á blað og var með sérviskulegar hugmyndir. Þannig að þegar ég fæ tækifæri til að vinna með föt eða búninga þá er það mér mjög eðlislægt. Ég þarf soldið að passa mig að halda að mér höndum því áður en ég veit af get ég verið komin út í fatahönnun, og það er ekkert að því svo sem, en þá hef ég ekki tíma fyrir myndlist líka sem er þar sem mér líður best. Maður getur ekki unnið mörg 100% störf eðlilega, svo ef eitt tekur yfir er það á kostnað einhvers annars, en samt finn ég tíma til að flörta við tísku og það gefur mér oft innblástur fyrir myndlistina. Stundum finn ég nýja tækni fyrir myndlistina af því að ég þurfti að leita að lausnum í hönnun sem lýtur öðrum lögmálum þegar kemur að notagildi og útfærslu.

Segðu mér aðeins frá samstarfinu við verslunina &Other Stories.

Þegar ég var beðin um að gera fatalínuna fyrir &Other stories þá höfðu þau einungis séð myndlistina mína og höfðu ekki hugmynd um að ég hefði gert tísku áður. Þau vildu fá myndlistarmann til að gera framlengingu á sinni myndlist og fagurfræði og yfirfæra það yfir í tískuna. Þetta var alveg draumastarf því þarna fékk ég teymi sem kunni á alla þætti framleiðslu og útfærslu á hugmyndunum mínum og aðgang að efnum og framkvæmdaraðilum sem ég hefði aldrei gefið mér tíma til að finna út úr. Þannig að ég var eins og ofvirkur krakki í nammibúð og ég ekki alveg að skilja tímarammann sem setur tískuheiminum skorður.

Photos: & Other Stories.

Ég lærði því mikið á þessu og nýt þess virkilega að sjá verkin mín breytast í hönnun. Ef vel tekst til er þetta eðlilegt framhald af myndheimi manns og nær að standa sterkt fyrst og fremst sem föt, en ekki bara mynd af verki á bol til dæmis. Ég var mjög ánægð með útkomuna og myndi gjarnan vilja halda áfram að miðla myndheimi í fatnaði, skarti og hönnun en til þess að láta það gerast þarf ég að finna teymi sem getur séð um framkvæmdina og fjármagnað það.

Ætlaðir þú alltaf að verða myndlistarkona?

Ég væri örugglega mannfræðingur eða sálfræðingur ef ég væri ekki myndlistamaður. Mér finnst fólk almennt mjög spennandi og magnað að skoða hegðunarmynstur og fjölbreytileika manneskjunnar. Það hefur alltaf verið uppspretta hamingju hjá mér að pæla í umhverfinu og finna fegurð í hverju sem er, sérstaklega finnst mér gaman að leyfa mér að efast um eigin skoðanir á öllu mögulegu, til dæmis ljótleika einhvers hlutar eða flíkur eða ákveðinnar samsetningu. Ég veit yfirleitt vel hvað ég vil og vil ekki en er oft spennt að fá að skipta um skoðun í tíma og ótíma og koma sjálfri mér á óvart til að staðna ekki í einni hugmynd um hvað sé rétt, fallegt, ljótt, hallærislegt eða ónothæft þegar kemur að myndlist eða hönnun. Svo hef ég haft mjög gaman af að rugla fólk aðeins í ríminu með því að leyfa mér að vinna í aðra miðla en myndlist eins og til dæmis tísku, sem þótti sjálfsagt að myndlistarmenn gerðu í gamla daga, en það vann í leikhúsum við gerð sviðsmynda og búninga og allt milli himins og jarðar, því þegar þú ert hugmyndaríkur og frjór einstaklingur þá er eitt format ekki endilega eini drifkrafturinn heldur samhengi hlutanna. Svo er þetta einfaldlega vinnan mín, að búa til áþreyfanlega hluti eða hughrif, og ef maður er spenntur fyrir launuðu verkefni sem nýtir sköpunarhæfileikana manns þá að sjálfsögðu ert þú ein/einn um það að dæma hvort þú átt að gera það eða ekki.

Elísabet Alma Svendsen


Ljósmyndir af Hrafnhildi og innsetningu í Listasafni Íslands: Daníel Magnússon.

Vefsíða Hrafnhildar: www.shoplifter.us

Contemporary Icelandic Prints in Other Hats

Contemporary Icelandic Prints in Other Hats

Contemporary Icelandic Prints in Other Hats

Currently on view at the International Print Center in New York is Other Hats: Icelandic Printmaking, an exhibition of works curated by Ingibjörg Jóhannsdóttir and Pari Stave and organized around the concept of printmaking. It includes prints created through mechanical, bodily, and digital means. Together, they give a glimpse into the rich culture of storytelling in Iceland and reveal the myriad of ways in which the Icelandic landscape has been interpreted by contemporary artists. While the show is not centered around a specific theme, it gives a general understanding of the variety of work being produced by Icelandic artists and artists working with Iceland in mind.

The visual content of the exhibition ranges from paper works that focuses on the abstract and geometric, to works that evoke the scientific and corporeal in 3 dimensions, and even includes a participant-friendly printmaking workshop, Prints and friends (Prent & vinir) by the duo Leifur Ýmir Eyjólfsson and Sigurður Atli Sigurðsson.

Interpretations of the Icelandic landscape seem endless—moss covered mountains and jagged cliffs done in drypoint by the Danish artist Per Kirkeby hang opposite a monoprint of an evergreen tree by Sara Riel, titled Everyevergreen (Barabarrtré). A print by Rúrí from her Future Cartography series comments on the looming effects of climate change on Iceland’s coastline, made digitally with the help of scientific datasets. Line etchings by Georg Guðni beautifully capture mountainous landscapes with simplicity and elegance, while geometric etchings by Sigurður Guðmundsson, from the Sun Stands Still series, reference outdoor spaces but are left purposefully ambiguous for interpretation.

Central to the exhibition are prints by Helgi Þorgils Friðjonsson from the late 1980s and early ‘90s, which depict personal and mythological stories through illustrations, primarily referencing the human, animal, and spiritual realms. Regarded as Iceland’s “most prolific printmaker,” Helgi’s work gives a glimpse into the rich storytelling culture in Icelandic history, but imparts the viewer with his own subjectivity that is simultaneously humorous and sensual. The works that stood out are Gullfoss (1987), Red Clouds (Rauð ský, 1991), and I.N.R.I (1986), due to their bright coloring and uncanny narratives including human angels, a seal, and a surreal creature that brings to mind hallucinatory drawings done by Salvador Dalí.

The exhibition would seem incomplete without a synthetic fiber work by Hrafnhildur Arnardóttir (aka Shoplifter), who is an active member in New York City’s art community. On display is a 3D print of hers entitled Raw Nerves II, made of pink, green, orange, and purple synthetic hairs haphazardly wrapped around a solid center that resembles a neuron, or an underwater coral. At once fascinating yet repulsive, Shoplifter’s use of fake hair adds layers to the meaning of Raw Nerves II, which could even depict a heart, although indisputable is its connection to the intricate human nervous system.

A bright green monotype by Hrafnkell Sigurðsson contrasts with the minimalist photography he is known for, but joins his oeuvre nicely through its repetition of organic shapes. At first glance it, the print resembles a seascape replete with electric green jellyfish, but upon closer inspection, the shapes are distinctly made of hand prints. The skin folds and wrinkles of Hrafnkell’s fisted hands can be made out in some areas, but these details only heighten one’s fascination with his body-focused creative process.

Finally, only in retrospect can the hidden connections between nature and the human body be understood as being foreshadowed by the Dieter Roth print (Hat, 1965) featured on the cover of the exhibition catalogue—inside Roth’s hat are colorful valleys and ridges that attempt to blend into the texture of the man made accessory, but which, to the discerning eye, actually depict intricate details of the Icelandic landscape. Other Hats: Icelandic Printmaking is on view through June 10th 2017.

By Anna Toptchi


All photos (c) International Print Center New York except „Hrafnhildur Arnarsdóttir Nervescape“, which came from her studio.

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest