Innljós í kapellu og líkhúsi St. Jósefsspítala

Innljós í kapellu og líkhúsi St. Jósefsspítala

Innljós í kapellu og líkhúsi St. Jósefsspítala

Sigurður Guðjónsson opnar sýninguna Inniljós í kapellu og líkhúsi St. Jósefsspítala í Hafnarfirði en hún er sú fyrsta í röð sýninga sem Listasafn ASÍ skipuleggur og eru hluti af menntunar- og kynningarátaki safnsins til næstu ára. Listráð safnsins valdi Sigurð Guðjónsson til samvinnu um innkaup og sýningahald úr hópi listamanna sem svaraði kalli s.l. vor og sendi inn tillögur til safnsins. Halldór Björn Runólfsson skrifaði um þetta glæsilega verkefni og fékk artzine góðfúslegt leyfi til að birta textann. Nánari upplýsingar um opnunartíma má finna neðst í greininni.

INNLJÓS
Vídeó er ekki gamalt fyrirbæri ef einungis er litið til tækninnar eins og við höfum kynnst henni á undanförnum áratugum. Upptökuvélin, eins og hún kemur okkur oftast fyrir sjónir, var fyrst sett á markað um miðjan 7. áratuginn og olli byltingu þegar í stað. Þunglamalegar upptökuvélar í sjónvarpsverinu sem buðu upp á afar takmarkaðan sveigjanleika viku fyrir hentugri vél, sem hægt var að munda og stýra með annari hendi. Allir sem vettlingi gátu valdið keyptu nýja Portapak-tækið frá Sony og fóru að spreyta sig á hinum nýja miðli, fréttamenn, ferðamenn, fjölskyldufólk með nýfædda ungana sína og listamenn. Þó að litina skorti og hljóðupptökuna þyrfti að rogast með á stóru segulbandstæki í hliðartösku á öxlinni var uppfinning Sony fyrir hálfri öld hrein bylting og frelsun í víðtækum skilningi.

Hins vegar er vídeó ævafornt latneskt orð fyrir sögnina að sjá. Því liggur beinast við að minnast hinnar forngrísku goðsögu um Aröknu, hinn lýdíska myndvefara, sem rataði í kvæðabálk Óvíds Ummyndanir, eitthvert frægasta bókmenntaverk latneskrar tungu. Þar segir frá hinni dramblátu alþýðukonu, sem neitaði að þakka gyðjunni Mínervu fyrir hæfileika sína og fékk fyrir vikið þá refsingu að ummyndast í síspinnandi könguló. Svo hrífandi var vefur Aröknu að guðdómlegum aðdáendum hennar fannst rán Evrópu í vefmynd hennar hreyfast og nautið sem bar hana á bakinu þjóta eins og kólfur um Eyjahafið.

Þannig er hugmyndin að baki vídeótækninni ævagömul þó hún sé sjálf ung að árum. Þessi tvívíði uppruni tímans endurspeglast í verkum Sigurðar Guðjónssonar í hinum aflagða Sankti Jósefsspítala í Hafnarfirði og umgjörðinni sem þeim er búin. Þótt kapellan þar sé ekki gömul er lögun hennar klassísk, byggð í rómönskum stíl eins og hann mótaðist, víða í Evrópu, fyrir um það bil þúsund árum. Á gólfið framan við kórinn varpar Sigurður verkinu Fuser 2017, valsi sem rennur langsum yfir flötinn, rétt eins vélrænu teppi væri rúllað yfir annan gólfdregil með sama mynstri – nokkurs konar villokkum eða arabeskum – sem óneitanlega minnir á miðaldir, en um leið á staðlaðar vélfléttur úr málmiðnaði nútímans. Fuser 2017 er jafnframt hljóðverk, sprottið af eigin uppmögnuðum skarkala, áminning um það að vídeó getur bæði fæðst af hljóði og mynd ef því er að heilsa.Það er því ekki að ófyrirsynju sem Sigurður velur verki sínu heiti sem beinlínis vísar til samruna. Verkið Scanner 2017, sem er í líkhúsinu undir kapellunni, ber enn skýrari merki þess tímaflakks sem listamaðurinn ástundar milli ólíkra tíma. Þar hefur kólfurinn – skannaskafan – sem líður hægt yfir ljósrammann, tekið á sig fastara mót, líkast gullstöng sem stafar geislum sínum í djúpu myrkri. Í líkhúsi hlöðnu dulúðugu en dauðhreinsuðu andrými hlýtur maður að spyrja hvort þetta fyrirbæri sé táknmynd sálarinnar að hefja sig til flugs, ellegar eðalmálmurinn eini að spretta fram úr blýgjalli alkemistans.

Loks myndar Mirror Projector 2017 þrenningu með fyrrnefndu verkunum tveim og lokar ferlinu með upptöku af glerplötu venjulegs glæruvarpa meðan spegill tækisins fetar sig upp og niður með tilheyrandi breytingu á ljósopi og birtubrigðum. Undir hljómar suðið í glæruvarpanum. Forðum daga var myndlistin tengd við kirkjuna og fyllti margslungin rýmin innan hennar, grafhvelfinguna sem geymdi leifar af líkama dýrlinga, hvolf skipsins sem enn er skreytt gylltum stjörnum á bláum grunni í íslenskum sveitakirkjum og útskornar súlurnar; rismiklar dómkirkjur miðalda báru mynstur milli ólíkra heimshluta. Verk Sigurðar Guðjónssonar vitna um sams konar heildarhugsun og fólk upplifið fyrr á öldum þegar það steig inn fyrir dyrnar á guðshúsum.

Halldór Björn Runólfsson.


Sigurður Guðjónsson (f. 1975) lærði í Vín, Reykjavík og Kaupmannahöfn. Hann sýndi fyrst um aldamótin síðustu í listamannareknum rýmum í Reykjavík og dökk en ágeng vídeóverk hans vöktu strax athygli, ekki aðeins á Íslandi heldur í Berlín, New York, Lundúnum, Beijing, Seoul og alls staðar þar sem þau hafa verið sýnd. Hann notar vídeó og lifandi myndir en að mörgu leyti mætti fullt eins skilgreina verk hans sem tónlist. Hann notar tímamiðil (vídeó) í verk sem fanga áhorfandann gegnum ryþma og endurtekningu og tengja mynd og hljóð á þann hátt að þau virðast víkka skynsvið manns og vekja nýjar kenndir. Verkin eru oftast hæg og í þeim felst gjarnan vélræn endurtekning, þau draga mann inn í taktfasta endurtekningu en vaxa líka þegar maður staldrar við þau og fer að skynja fleiri þætti þeirra, skrýtnar lúpur og taktmynstur sem geta orðið næstum alltumlykjandi. Á síðustu árum hefur hann líka unnið í stamstarfi við tónskáld og þannig búið til verk sem sameina vídeó, rafhljóð og lifandi flutning. Hann er sífellt að víkka út sköpunarsviðið en verk hans bera sterk persónuleg einkenni og ná að skapa undarlega nánd sem aftur styrkir enn frekar skynhrifin.

Næsta sýning á verkum Sigurðar verður á Norðurlandi vestra fyrri hluta árs 2018. Öll verkin á sýningunni eru eign Listasafns ASÍ. Sigurður er með verk á sýningunni MÁLVERK-EKKI MIÐILL sem nú stendur yfir í Hafnarborg og sama kvöld og hann opnar sýninguna í St. Jósefsspítala verður hann með verk á CYCLE í Kópavogi.

Listráð Listasafns ASÍ 2017-18 skipa sýningarstjórarnir Dorothée Kirch og Heiðar Kári Rannversson auk Elísabetar Gunnarsdóttur forstöðumanns safnsins.

Ljósmyndirnar með greininni eru eftir Vigfús Birgisson.

Sýningaropnuninn er laugardaginn 23. september kl. 15. Opið er miðvikudaga-sunnudaga kl. 12-17.
Opnað er fyrir hópa utan reglulegs opnunartíma.

Hvað gerist ef dúfa skítur á glerkassabyggingu?

Hvað gerist ef dúfa skítur á glerkassabyggingu?

Hvað gerist ef dúfa skítur á glerkassabyggingu?

Egill Sæbjörnsson opnaði sýningu sína í Hafnarborg um síðustu helgi sem hvetur okkur til að horfa gagnrýnum augum á manngert umhverfi okkar, sem samanstendur af þráðbeinum línum og allt of mörgum einföldum flötum. Fyrr á árinu bauð Egill fólki til samvinnu í Bakaríi þar sem þátttakendur unnu saman að því að búa til flóknari og lífrænni arkitektúr sem færir auganu verðugt viðfangsefni. Útkomuna úr þessari fallegu samvinnu gefur að líta á sýningu hans Bygging sem vera & borgin sem svið. 

Borgin er ein stór stofa sem tilheyrir okkur öllum

Egill stóð fyrir viðburðinum Bakarí í Hafnarborg fyrr á árinu og bauð þátttakendum að móta byggingarlist í brauðdeig sem lið í undirbúningi sýningarinnar. „Í Bakaríinu voru búnir til litlir brauðhlutir sem við stækkuðum upp í fulla stærð sem er mjög fallegt að sjá,“ segir Egill.

Borgarskipulag, arkitektúr og manngert umhverfi eru málefni sem Egill er að vinna með á sýningunni. „Ég er búinn að vera að ergja mig á nýjum byggingum, bæði hérlendis og erlendis í langan tíma og hef talað mikið um þetta við vini mína sem eru arkitektar. Ég hef þrengt þetta niður í að 20. aldar arkitektúr er með of lítið af flóknu yfirborði. Í gömlum húsum skapar skraut byggingarinnar flókið yfirborð og þó við þurfum ekki endilega að búa til skraut í dag eins og það var þá, þá þarf hluti af byggingunni að vera svolítið flókinn. Það þarf að vera meira af einhverju sem er fallegt því nú er þetta allt of stílhreint og redúserað. Það má ekki ein dúfa setjast á glerkassabyggingu og skíta á hana að þá fellur hún og fer alveg úr jafnvægi. Mér finnst arkitektar í dag vera heilaþvegnir af því að allt sem heitir skraut sé vont. Ég held að það sé sjúkdómur 20. aldarinnar og ég bíð eftir að það fari að snúast við.

Þetta er eitt sem ég er að taka fyrir í þessari sýningu, því í Bakaríinu bjó fólk til glugga, tröppur og hurðir úr deigi sem var bakað í staðinn fyrir að vera hannað í AutoCAD. Deigið beyglar allt sem þú gerir og það fær lífræna áferð á meðan AutoCAD myndi leiðrétta hverja einustu línu, gera hana beina og stífa. Á þennan hátt erum við að búa til arkitektúr í gegnum lífrænt efni í staðinn fyrir svona beinlínu-ferli.“

01a

Egill bendir á að eins og með alla menningu er mannlegt umhverfi ekki einkaeign fárra útvaldra heldur sameign allra sem deila umhverfinu, nota það og tilheyra því. „Byggingar skapa umhverfi sem tilheyrir okkur öllum og við eigum öll rýmið á milli húsanna. Þetta er allt saman borgin okkar, leiksvið okkar tilveru og í raun eins og stofa okkar allra. Borgin er ein stór stofa og við eigum rétt á því að þetta sé gert vel. Þetta er bara spurnig um vilja og kröfu samfélagsins. Í miðbænum er krafan um vandaðar byggingar hærri, krafa um skrautlegar og hlýlegar byggingar. Mér finnst að borg eigi að vera eins og lófi sem maður horfir inn í og þar sé hægt að sjá heila lífssögu. Hún má ekki vera hvítt blað sem er óskrifað og hundleiðinlegt.“

„Á sýningunni er ég líka að tala um Hafnarfjörð, sem mér finnst vera gott dæmi um íslenskan raunveruleika. Það er dæmigerður mannlegur faktor að maður sér ekki hvaða gull maður hefur í hendi sér, en ef horft er á Hafnarfjörð utan frá áttar maður sig á því hvað hraunið er einstakt, eiginlega á heimsmælikvarða. Það er alveg rosalega júník. En Hafnarfjörður er eins og unglingur í identitíkrísu sem veit ekki alveg hver hann á að vera. Hér er t.d. verið að búa til eitthvað feik identití með því að þykjast vera víkingabær, sem er algjör meðalmennska. Í staðinn fyrir að finna sinni innri styrk sem er falinn í því sem bærinn hefur fengið í náttúrulega forgjöf, sem er hraunið, bæjarlækurinn og söguleg höfn. Ef bærinn myndi byggja á þessu gæti hann fengið mikið sterkara byggðarsérkenni og persónuleika.“

Það er fleira í manngerðu umhverfi Hafnarfjarðar sem Egill gæti vel hugsað sér að gera á annan hátt. „Hönnunarslys geta alltaf komið fyrir hvar sem er, eins og að allt aðalsvæðið á nesinu í Hafnarfirði er bara bílastæði. Fjörðurinn er barn síns tíma og sýnir algert skilningsleysi á þessum djúpa karakter Hafnarfjarðar, sem er byggður í hrauni. Með hrauni en ekki á móti hrauni þar sem alltaf er verið að valta yfir hraunið. Í stað þess að hanna torg með stéttum úr prefabricated, tilhöggnum steinum ætti að horfa í bakgarðinn, þar sem öll þessi fegurð er í hrauninu. Hafnarfjörður á eftir að vera til eftir 200 ár og það er mjög stórt svæði sem er óbyggt í Hafnarfirði sem nær alveg upp að Helgafelli og lengra, ef ég hef skilið það rétt. Ég held að Íslendingar þurfi að taka ábyrgð og vilja byggð t.d. í svona landslagi þar sem reynt verður að byggja með hrauninu og hafa þetta svolítið sérstakt. Þegar byggt er fallega og vel er það svo góð langtíma fjárfesting, bæði peningalega séð og fyrir samfélagið, fyrir heildina. Við þurfum að hækka þessa kröfu.“

Gullöld íslenskrar myndlistar

Af því að Egill hefur verið búsettur í Berlín í langan tíma spyr ég hann út í skoðun hans á íslenskri myndlistarsenu.

Hvað gengur vel á Íslandi og hverju þarf að breyta?

„Mér finnst mikil blessun að hafa Kling & Bang hérna og mér finnst Nýló vera eins og móðir listarinnar sem tekur öllum opnum örmum. Nýló er mjög falleg institute en þær eru margar að deyja út erlendis. Nýló má alls ekki verða að stofnun sem setur sig á einhverskonar hærra plan og það er mjög mikilvægt að listrænt frelsi Nýló verði algjörlega verndað. Eins er mikilvægt að ungt fólk haldi áfram að fá tækifæri til að reka safnið og þar sé breiður hópur listamanna boðinn velkominn. Það er það sem er fallegt við Nýló og listin á að vera á breiðum skala og fóstra listina. Það er aðalatriðið.“

„Það sem mætti laga á Íslandi er að hér er mikill óprófessionalismi. Það er ekki af því að fólk sé vitlaust, það er bara ekki sami prófessionalismi hér eins og t.d. í Þýskalandi þar sem t.d. söfnin heimta af þér að þú sért búinn með sýninguna þína tveimur mánuðum fyrir opnun og hringja stöðugt í þig þremur mánuðum fyrir opnun. Hérna byrjar fólk að hringja tveimur vikum fyrir opnun. ‘Þetta reddast’-faktorinn er mjög góður en hann væri ennþá betri ef hér væri meiri prófessionalismi.“

„Peningar eru ekki allt sem þarf í myndlist en það mætti styrkja tilburði fleiri gallería til að komast út. Það væri æðislegt ef fleiri íslensk gallerí gætu farið á messur. Íslenskir listamenn eru enn of lokaðir af og það þarf að reyna að koma þeim í tengsl út á einhvern hátt.

Listamannalaun eru mjög mikilvæg og ég vona að það verði skilningur til að halda þeim áfram. Þau hafa hjálpað mér alveg gífurlega í gegnum tíðina og mjög mörgum. Nú eru nokkrir listamenn sem eru að gera það ágætt og eitthvað af þessum peningum eru hreinlega að skila sér beint aftur kassann fyrir utan öll menningarlegu áhrifin sem eru margfeldisáhrif.

Ég held að íslensk myndlist sé á blómaskeiði í augnablikinu. Það hefur aldrei verið svona mikil þensla og mikið í gangi. Það er gullöld í myndlist í rauninni, þó að hún fari kannski ekki mjög hratt þá er hún samt í gangi.“

Á þessum ofsajákvæðu nótum setjum við lokapunktinn í bili.

Takk fyrir viðtalið, Egill.

Hlín Gylfadóttir


Myndir með grein: Daníel Magnússon

Nánari upplýsingar um sýninguna:

CURRENT

Um sýninguna á vef Hafnarborgar

Von í Hafnarborg

Von í Hafnarborg

Von í Hafnarborg

Nú rétt eftir kosningar og í upphafi umleitanir flokka um nýja ríkisstjórn stendur yfir sýningin Von í Hafnarborg þar sem þingmenn eru sett í fyrirrúm. Í upphafi árs 2015 hóf Birgir Snæbjörn Birgisson vinnu við verkið sem hefur vakið talsverða athygli og tekið sinn tíma í framkvæmd. Myndirnar á sýningunni sýna þingmannatalið á árinu 2015. Svo fölar eru myndirnar að það er ekki augljóst við fyrstu sýn hvaða þingmaður er hvað.

Látlaust yfirbragð myndanna renna saman í eina heild. Hún rímar við hugsjón um þing sem starfar í friði og samheldni. Jafnframt vísa þær til þess að þingið mótar samfélagið. Þingmenn hafa áhrif og þeir sem heild móta samfélagið á jafn óljósan hátt og myndirnar af þeim eru. Eins og draugar nánast hafa þeir hlutverki að gegna undir skipulagi sem var fyrir þeirra tíma og verður áfram um ókomna framtíð.

Það er ekki allt sem sýnist. Það er eitthvað undir yfirborðinu ef betur er að gáð. Verkið er pólitískt en skilur upphrópanir eftir við dyrnar. Verkið segir ekki mikið til að byrja með rétt eins og Alþingishúsið eitt og sér er einungis bygging. Með því að gefa verkinu gaum verða hugrenningar um verkið jafn margar og áhorfendur eru margir.

Þingmennirnir eru allir eins en jafnframt ólíkir. Þeir eru eins og við, næstum því. Þeir endurspegla okkur í samfélaginu og á móti endurspeglum við þá. Von vísar til þess að þingmennirnir standa fyrir væntingum okkar, ótta og þrám. Hjá þeim skilum við vonbrigðum okkar og kvíða. Von um eitthvað betra er sett á þeirra herðar en kannski þurfum við að gera meiri væntingar til okkrar sjálfra.

Í verkinu eru allir þingmennirnir ljóshærðir og bláeygðir. Ljóshærðar staðalímyndir hafa áður skotið upp kollinum hjá listamanninum en hér eru bláu augun og ljósa hárið mjög óljóst að það reynir á sjónina. Það kallar á ákveðna einbeitingu. Séu skilaboðin yfirfærð í raunveruleikann, geta þau verið þau að það tekur á að fylgjast með starfinu á Alþingi. Jafnvel ollið ergelsi.

von1

Þegar Birgir byrjaði á verkinu var ekki fyrirséð að það yrði við opnun í aðdraganda kosninga. Eftir mikið umrót, mótmæli og boðun nýrra kosninga á verkið erindi inn í samfélagslega umræðu eins og fiskur í sjó. Í ljósi þess að formenn flokkanna virðast bjartsýnir og hafa nýlega talað um betri vinnubrögð á Alþingi, er komin von. Það er einnig von að Birgir reynir sannspár með verkinu. Að við fáum að sjá betri stjórnmál, laus við átök og skotgrafir þar sem Alþingi vinnur saman og leysir okkur undan átökum í samfélaginu.

Sýningin stendur til 20. nóvember

Júlía Marinósdóttir

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest