Úthugsuð merkingarleysa

Úthugsuð merkingarleysa

Úthugsuð merkingarleysa

Það var með mikilli eftirvæntingu að ég steig inn í gallerí i8 á dögunum til að berja nýjustu afurð Ragnars Kjartanssonar augum. Verk sem unnið er fyrir nýbyggingu Kaupmannahafnarháskóla, Maersk turninn, sem hýsir heilbrigðisvísindasvið skólans. Verkið nefnist Fígúrur í landslagi, eins konar óður til klassíska málverksins. Við fyrstu sýn virðist verkið einmitt vera lifandi málverk og vegna skorts á líkingu sem hefur jafn breiða skírskotun: líkt og málverk úr sögunum um galdrastrákinn Harry Potter.

Líkingin er þó heldur ódýr þar sem verkið spannar í heild 168 klukkustundir sem kann að þykja handahófskennd tala en er í raun slétt vika. Ég vil eyða sem fæstum orðum í lýsingu á verkinu, en í skólanum er það sýnt á skjá í anddyri byggingarinnar, í lyftum sem og í skjávörpum í skólastofum þegar þeir eru ekki í notkun vegna kennslu. Verkið endurtekur sig því með vikumillibili. Það sem fyrir augu ber eru einfaldlega fígúrur í læknasloppum sem settar eru inn í leikmynd í formi landslags, rómantísk leiktjöld og leikmunir í formi grjóts og blóma. Hver dagur hefur þannig sína leikmynd og þegar nýr dagur hefst á miðnætti hefst nýr dagur í nýju landslagi innan verksins.

RAGNAR KJARTANSSON
Fígúrur í landslagi (fimmtudagur), 2018

vídeó, 24 klst.
Verkið Fígúrur í landslagi var gert að undirlagi Mannvirkja- og eignasviðs danska ríkisins fyrir heilbrigðissvið Kaupmannahafnarháskóla.
Birt með leyfi listamannsins, Luhring Augustine, New York & i8 gallerís, Reykavík.

Fyrir þá sem hafa kynnt sér verk Ragnars minna Fígúrur í landslagi um margt á eldri verk frá ferli listamannsins. Helst eru það rómantísku leiktjöldin sem maður kannast við úr eldri verkum, t.a.m. minnir Miðvikudagur um mjög á verkið Heimsljós – líf og dauði listamanns, en gestir yfirlitssýningar Ragnars sem haldin var í Hafnarhúsi árið 2017 ættu að vera því verki góðu kunnir. Skali þessa tveggja verka er auk þess óneitanlega sambærilegur. Það er að minnsta kosti á færi fárra að komast í gegnum þessi tvö verk í heild sinni. En það leiðir svo aftur að spurningunni um hvort maður þurfi í raun og veru að innbyrða hverja einustu sekúndu verks á borð við Fígúrur í landslagi. Nær maður til dæmis einhvern tímann að fullskoða málverk?

Uppsetning verksins í sýningarsal i8 er með ögn öðru sniði. Í rýminu eru sjö skjáir svo hver vikudagur fær þannig sinn eigin skjá og rúllar því hver dagur við hlið þess næsta samtímis. Í glugga gallerísins er svo áttunda verkinu varpað, hinu viku langa heildarverki, jafnt dag sem nótt. Með því að sýna hvern dag fyrir sig á sínum eigin skjá verður til hálfgert kraðak í annars stílhreinum sýningarsalnum. Þetta þýða verk með sína hægu framvindu verður því að hálfgerðu áreiti, enda eru augun þannig innréttuð að við leitumst við að elta uppi hreyfingar og maður kemst þar af leiðandi ekki hjá því að hlaupa með augunum frá einum skjás til annars. Svo því sé annars haldið til haga þá eru þetta átta verk í heildina. Hver dagur er eitt verk og heildin er hið áttunda.


RAGNAR KJARTANSSON
Fígúrur í landslagi (miðvikudagur), (fimmtudagur) og (föstudagur), 2018

vídeó, 24 klst.
Verkið Fígúrur í landslagi var gert að undirlagi Mannvirkja- og eignasviðs danska ríkisins fyrir heilbrigðissvið Kaupmannahafnarháskóla.
Birt með leyfi listamannsins, Luhring Augustine, New York & i8 gallerís, Reykavík.

Eins og áður hefur komið fram er verkið t.a.m. sýnt sem skjávari (e. screensaver) í skólastofum sem og í lyftum skólabyggingarinnar. Fyrirbærin skjávarar og lyftutónlist eru án efa einhverjar þekktustu birtingarmyndir klisja. Ég vil síst af öllu ýja að því að verk Ragnars séu orðin að klisju, en er það ekki einmitt samnefnari listaverka sem standa upp úr í listasögunni að þau hafa verið gerð að klisjum með aðstoð varnings sem hægt er að kaupa í safnbúðum, hvort sem það sé í formi lyklakippa, póstkorta, ísskápssegla eða strandhandklæða?

Það sem kannski skilur Fígúrur í landslagi frá klisjunni er sú staðreynd að verkið staðnar ekki. Það er jú lifandi málverk. Það er nánast lögmál að alltaf mun eitthvað verða eftir fyrir nemendur Kaupmannahafnarháskóla að sjá. Vissulega munu nemendur ekki geta varist því að sjá suma búta aftur og aftur, viku eftir viku. Verkið hefur enda virkni álíka klukku sem bókstaflega fylgir stundatöflu nemenda.

En hvað er listamaðurinn að segja okkur? Listfræðingar, jafnt sem listfræðinemar, verða sífellt fyrir barðinu á spurningum er varða merkingu hinna ýmissa listaverka. Það er jú vel þekkt að listamenn komi einhverjum skilaboðum áleiðis í verkum sínum, að verk séu merkingarþrungin, að í þeim megi finna gagnrýni á núverandi stjórnkerfi eða pólitíkusa, áminning um eyðileggingu náttúrunnar eða heróp femínískra listamanna gegn feðraveldinu, svo dæmi séu tekin. Sjálfur þykist Ragnar eiginlega ekkert vita hvert hann sé að fara með þessu verki svo vitnað sé í nýlegt útvarpsviðtal við hann í Víðsjá Ríkisútvarpsins.[1]

Það er ekkert nýtt að Ragnar láti sig merkingu listaverka sinna litlu varða. Í sýningarskrá sem gefin var út samhliða sýningu hans, The End, á Feneyjartvíæringnum 2009 birtust tölvupóstsamskipti Ragnars og Andjeas Ejiksson. Þar kemst Ragnar m.a. svo að orði: „Ég umfaðma merkingarleysi verka minna vegna þess að ég held að í því felist kjarni sannleika míns.“[2]

Það er staðföst skoðun mín að almenn hylli verka Ragnars megi að einhverju leyti rekja til þessa meinta merkingarleysis. Það gerir áhorfendanum kleift að nálgast verkin án þess að vera þjakaður þeirri pressu að þurfa að ráða í merkingu verksins. Ekki nóg með það að áhorfandinn getur notið verksins án þess að skilja það, þá tel ég að með því að leysa áhorfendann undan viðjum pressunnar til að finna merkingu verksins verður merkingarleysið að einskonar efnahvata. Með öðrum orðum, hugmyndaflug áhorfandans nýtur góðs af því að þurfa ekki að glíma við að ráða í dulmálið.

RAGNAR KJARTANSSON
Fígúrur í landslagi (sunnudagur), 2018

vídeó, 24 klst.
Verkið Fígúrur í landslagi var gert að undirlagi Mannvirkja- og eignasviðs danska ríkisins fyrir heilbrigðissvið Kaupmannahafnarháskóla.
Birt með leyfi listamannsins, Luhring Augustine, New York & i8 gallerís, Reykavík.

Þannig tekst Ragnari meðvitað eða ómeðvitað í sífellu að tala inn í samtímann í verkum sínum. Fólk fær að sjá, eða öllu heldur hugsa það sem það vill. Þannig getur verkið Fígúrur í landslagi til dæmis auðveldlega orðið áminning um þá miklu vá sem steðjar að náttúrunni. Ekki það að okkur birtist einhver heimsendaspá í verkinu. Læknarnir sem eigra um rómantískt landslagið gera það einkar hversdagslega. Þeir eru hvorki á þönum við að bjarga því né heldur virka þeir á nokkurn hátt líkt og vísindamenn sem að eru að krukka í því, að beisla það, mannkyninu til hagsbóta og náttúrunni til óbóta. Læknarnir einfaldlega eru. Hvort sem landslagið er grýtt strönd, frumskógur, snævi þakið fjalllendi, eða eyðimörk þá þurfa fígúrurnar ekkert að aðlagast, hvert landslag út af fyrir sig virkar eins og þeirra náttúrlega umhverfi (e. habitat).

RAGNAR KJARTANSSON
Fígúrur í landslagi (laugardagur) og (sunnudagur), 2018

vídeó, 24 klst.
Verkið Fígúrur í landslagi var gert að undirlagi Mannvirkja- og eignasviðs danska ríkisins fyrir heilbrigðissvið Kaupmannahafnarháskóla.
Birt með leyfi listamannsins, Luhring Augustine, New York & i8 gallerís, Reykavík.

Fyrir einhverja kosmíska tilviljun hefur það líka gerst að hér er sett upp sýning á verki sem pantað var af opinberri stofnun í Kaupmannahöfn á sama tíma og hér á Íslandi á sér stað frumskógarheit umræða um opinber listaverk. Mér þykir leitt að þurfa að draga pálmatrén í fyrirhugaðri Vogabyggð enn og aftur inn í umræðuna, en mér finnst þessi kaldhæðni alheimsins svo ótrúleg og þar að auki rímar hún líka þægilega við stóran hluta ferils Ragnars. Á sama tíma og fréttir eru fluttar af tómum Listskreytingasjóði, hvers allt fjármagn fer í að halda innantóma kaffifundi til þess eins að komast að þeirri niðurstöðu að hafna þurfu öllum umsóknum til sjóðsins vegna fjárskorts[3], þá getum við að minnsta kosti gengið að þessu tímamótaverki Ragnars um stundar sakir, þökk sé frændum okkar, Dönum.

Grétar Þór Sigurðsson


[1] http://www.ruv.is/frett/hviti-sloppurinn-er-geggjad-takn

[2] The End, Ragnar Kjartansson (2009)

[3] http://www.ruv.is/frett/styrktarsjodur-sem-getur-ekki-veitt-styrki

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest