Slegið á litaskalann í BERG Contemporary

Slegið á litaskalann í BERG Contemporary

Slegið á litaskalann í BERG Contemporary

Það er eitthvað við skammdegið. Bleik, síðbúin sólarupprás, rökkurblámi, gullið síðdegissólarlag og síðan tekur við djúpt vetrarmyrkrið lýst upp af marglitum ljósum. Stemning skapast í borginni og kyrrð í náttúrunni. Samsýningin #CURRENTMOOD sem stendur yfir í galleríinu BERG Contemporary við Klapparstíg fangar þessa hauststemningu, þar sem skærir litir stíga fram úr rökkrinu og virka sterkt á áhorfandann. Þau sem sýna eru Haraldur Jónsson, John Zurier, Kees Visser, Páll Haukur Björnsson og Þorgerður Þórhallsdóttir. Listamennirnir eru af ólíkum kynslóðum en ákveðið abstrakt leiðarstef er í verkum þeirra. Á sýningunni er slegið á strengi sem skapa samhljóm, en að auki vísa verk hvers listamanns um sig í ýmsar áttir og tengjast hræringum í listum frá síðustu öld og til samtímans.

Andlegar víddir

Abstraktlistin er rúmlega aldargömul og innan hennar hafa listamenn fetað fjölbreyttar slóðir, stefnur hafa endurnýjast eða liðið undir lok. 1910 kom út rit Wassilys Kandinsky, Über das Geistige in Der kunst, Um andlegan þátt listarinnar, en þar fjallar hann um sjálfstæða tilvist lita og forma, óháð tengingu við sýnilegan raunveruleika. Litir og form voru líkt og tónlist, hélt Kandinsky fram á byltingarkenndan máta á sínum tíma; fólu í sér andlegar víddir. Með samspili lita og forma, uppbyggingu og hrynjandi á myndfleti, var hægt að vekja upp tilfinningar hjá áhorfandanum, ekki ósvipað og þegar hlustað er á tónlist. Málverkið öðlaðist sjálfstætt líf. Kazimir Malevitch gekk skrefi lengra þegar hann málaði svartan ferning á hvítum grunni árið 1915. Ferningurinn táknaði hinn andlega þátt tilverunnar, þar leitaði Malevitch skjóls frá raunveruleikanum, en í náttúrunni eru engin ferhyrnd form. Hið sama var upp á teningnum í sterkri öldu abstraktlistar um miðja tuttugustu öld. Listamenn leituðust við að tjá eitthvað dýpra og meira en yfirborð málverksins hver á sinn hátt, hvort sem um var að ræða lýríska abstraktlist eða geómetríska harðlínustefnu. Og allar götur síðan birtast abstrakt þættir í verkum listamanna, hvort sem listamaðurinn vinnur beinlínis út frá slíkum vangaveltum um form og liti, eða hann notar eiginleika þeirra til að styðja við verk sín.

Skærir tónar á djúpum grunni

Eitt af því sem var upphafsmönnum abstraktlistar hugleikið var hlutverk listarinnar í samfélaginu. Að þeirra mati átti listin ekki að hafa hversdagslegt notagildi heldur vera andlegt athvarf. Listamennirnir sem hér sýna myndu líklega taka undir þetta sjónarmið. Í dag erum við þó kannski opnari fyrir því að erfitt er að greina milli andlegs og veraldlegs notagildis, í stressuðum heimi ávinnur andlegi þátturinn sér sess. Við leitum í andlega þáttinn og fyrir mörgum er myndlistin kjörinn vettvangur, í henni má finna skjól og hvíld, stíga út úr hversdagslegum raunveruleikanum og upplifa eitthvað sem við eigum ekki endilega orð yfir. Það er einmitt þessi stemning sem ríkir á #CURRENTMOOD, tilfinning fyrir því að stíga út úr skammdegismyrkrinu og upplifa annan heim um stund.

Hæglátur taktur

Hér á sér stað áhugavert samspil listamanna sem lært hafa og þroskast á mismunandi tímum og stöðum, allt frá Kees Visser sem mótaðist sem listamaður á áttunda áratug síðustu aldar, til yngsta listamannsins, Þorgerðar Þórhallsdóttur sem lauk meistaranámi í Malmö á síðasta ári. Þorgerður sýnir þrjú vídeóverk.

Í samhengi skammdegis og staðsetningar í miðbænum minnir sorti myndflatarins á borgarmyrkur, ég hugsaði um regnvott malbik sem glampar á í skini götuljósa en verkin eru þó ekki hvað síst abstrakt. Hæg hreyfing og síbreytilegt ljósflökt eru dáleiðandi, eins og að horft sé á sjónræna möntru. Þorgerður hefur á síðustu árum unnið vídeóverk í bland við innsetningar þar sem ljós, skuggar og hreyfing eru í miðpunkti, íhugul verk og falleg. Hér fær einfeldnin að njóta sín og verk hennar slá hæglátan takt í sýningunni. Þetta samspil myrkurs og ljóss kallast á við ljósmyndir Haralds Jónssonar af ljósbrotum á pappír.

Hvikult ljós

Myndröð Haralds eftir endilöngum vegg gallerísins hverfist um birtu og ber nafnið Litrof. Litsterkir ljósgeislar falla á verk úr hvítum pappír og skapa nýtt verk. Myndirnar eru allt frá því að vera í daufum pastellitum til þess að minna á litsterkt sólarlag, sumar eru líkt og abstraktmálverk en aðrar fanga litróf skammdegisbirtunnar með sterku samspili skærrar birtu og djúpra skugga. Þetta eru hrein abstraktverk en sköpuð eins og af tilviljun, máluð með ljósi, af þeirri næmu, ljóðrænu tilfinningu sem jafnan einkennir verk Haralds, hvort sem það eru skúlptúrar, innsetningar eða ljóð.

Haraldur Jónsson

Ljósbrot hverfullar birtu eru fönguð augnablik, eins og náðarkraftur. Þessi hvikula birta er einnig leiðarstef í vatnslitaverkum Johns Zurier sem bera nöfn er tengjast náttúrunni og eru máluð hér á landi, en fela ekki hvað síst í sér abstrakt þætti.

Vatnslitaverk Johns Zurier

Þrjár litlar vatnslitamyndir draga fram einkenni málarans sem leitast við að draga fram kjarna birtu og forma sem hann upplifir í náttúrunni. Hér notar hann möguleika vatnslitanna til að kalla fram andstæður flæðandi birtu og svartamyrkurs.

Viðmiðunarpunktar

Kees Visser er hollenskur en hefur búið og dvalið reglulega hér á landi síðan á áttunda áratugnum. Bakgrunnur hans í hugmyndalist og naumhyggju kemur fram í málverkum hans, en verkin Y-86 og Y-82, bæði frá árinu 2017 eru í einfaldleika sínum líkt og fastir viðmiðunarpunktar sýningarinnar, gult og dökkt, ljós og myrkur og öll hin verkin lenda einhvers staðar á rófinu þarna á milli.


Verk Kees Visser eru fremst á myndinni.

Verkin eru eintóna en fela í sér áferð, liturinn er þykkur og hrjúfur. Kees Visser hefur um áratuga skeið unnið með einlit málverk í samspili við rými, hann setur þau fram á ótal vegu og hefur líkt vinnuaðferðum sínum við að spila skák, þar sem hver leikur felur í sér endurtekningu en engu að síður er niðurstaðan aldrei eins.

Sígild minni

Páll Haukur lauk meistaranámi við California Institute of the Arts árið 2013. Abstrakt þættir, skuggaspil, málverk og aðferðir innsetninga byggja upp myndverkin sem hann sýnir hér. Hann leitast við að virkja listaverk sín og tengja þau áhorfendum á áþreifanlegan hátt. Lágmyndir hans sem skaga út í rýmið varpa litskugga sem færist til eftir því hvar áhorfandinn er staddur.

Páll Haukur Björnsson

Óvænt innskot í þessi abstrakt verk eru síðan raunverulegir ávextir, epli, sítróna, sem rotna eða eru endurnýjuð að vild. Eigandi slíks verks þarf að taka þátt í viðhaldi þess með því að endurnýja ávöxtinn. Þannig mætast á frjóan hátt sígild minni málaralistar, kyrralíf og abstrakt, og straumar í samtímalistum.


Páll Haukur Björnsson

Páll Haukur notar líka orð í myndum sínum, t.d. í stórri innsetningu á vegg og á gólfi. Hér á listaverkið sér líka lifandi, lífrænan þátt, en að segja hver hann er jaðrar við að spilla upplifun áhorfenda sem eiga eftir að sjá sýninguna. Páll Haukur sýnir í þessum verkum frjóan huga sem krystallast í einfaldleika.

Tengsl abstraktlistamanna og tónlistar voru sterk framan af tuttugustu öld og þessi sýning kallar þau fram í hugann. Hér koma saman listamenn sem eiga uppruna sinn í ólíkum liststefnum, en verkin sem valin eru saman magna upp hljóm og styðja hvert annað, leika saman ljúfan og sterkan skammdegisblús.

 Sýningin #CURRENTMOOD í BERG Contemporary, Klapparstíg 16, stendur til 22. desember.
Opið þri. – fös. 11-17 og lau. 13-17

Ragna Sigurðardóttir


Greinin er gerð í samstarfi við BERG Contemporary.
Ljósmyndir: Helga Óskarsdóttir.

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest