Viðurkenning á auganu í Ásmundarsafni

Viðurkenning á auganu í Ásmundarsafni

Viðurkenning á auganu í Ásmundarsafni

Augans Börn: Ásmundarsafn 29.10.2016 – 01.05.2017

Myndlistarsýningunni Augans Börn lýkur nú um helgina, en hún hefur staðið yfir í Ásmundarsafni nú í vetur. Sýningin er samstarfssýning Listasafns Háskóla Íslands og Listasafns Reykjavíkur þar sem myndverkum Þorvalds Skúlasonar er boðið til samhengis með höggmyndum Ásmundar Sveinssonar. Þorvaldur er þekktastur fyrir málverk sín sem hann vann um og upp úr miðri 20. öldinni, en hér á sýningunni er aðeins eitt málverk til sýnis. Hins vegar eru hátt í hundrað teikningar eftir hann settar upp í beint myndrænt samtal við þrívíðan myndheim Ásmundar. Höggmyndir hans eru sýndar í nokkuð hefbundnara ljósi, en þó í áður fáséðu samhengi við teikningar samferðamanns og „listræns sálufélaga“, eins og Ásmundur komst sjálfur að orði.

Sýningarstjórarnir voru Viktor Pétur Hannesson (undirritaður) frá Listasafni Háskóla Íslands og Bryndís Erla Hjálmarsdóttir fyrir hönd Listasafns Reykjavíkur. Við gerð sýningarinnar voru listaverkin flokkuð einungis eftir myndrænum tengingum án tillits til tímabila eða annarra hefðbundinna formerkja. Við leituðum eftir bergmáli milli verka listamannanna sem ómaði úr myndflötum þeirra, massa og línusveiflum, ýmist í tvívíðum verkum Þorvalds eða í marghliða skúlptúrum Ásmundar.

Í sýningartextanum er sett fram hefðbundin frásögn um æviskeið myndlistarmannanna og þeir settir í sögulegt samhengi. Á undan æviágripunum eru annars konar upplýsingar sem þjóna fremur því hlutverki að gefa skýr skilaboð um þá áherslu sem lögð er á myndrænt gildi sýningarinnar. Þannig var textinn nýttur til að hvetja gesti til að ganga inn á sýninguna og leggja áherslu á myndirnar sjálfar fremur en að reiða sig á aðrar upplýsingar sem verkunum fylgdu. Upplýsingar um tilkomu verks eða æviferil listamanns geta vissulega verið lærdómsrík viðbót við efni myndlistarsýninga, og getur auðgað huga þess sem horfir enn frekar. Við fyrstu kynni hafa þær upplýsingar þó ekkert að gera með þau beinu áhrif sem hugur og augu verða fyrir við það að standa gagnvart myndverki sem talar á sínu eigin tungumáli, sem er þó á einhvern hátt kunnuglegt.

Augans Börn, Ásmundarsafni. Listasafn Reykjavíkur.

Sýningarskráin hefst með þessum orðum: Barn lærir að þekkja form og liti löngu áður en það getur greint orð og bókstafi. Mannshugurinn leitar gjarnan að einhverju kunnuglegu í því sem fyrir augu ber, að samhljómi milli áþreifanlegra hluta og óhlutbundinna forma. Hugurinn greinir formin sem augað meðtekur og setur í samhengi við kunnugleg form. Þannig myndar hann sjónminnisbanka eða sjónrænan minningaheim sem nýtist til að vinna úr nýjum áhrifum.

Við skoðuðum ekki aðeins „hefðbundið myndefni“ frá myndlistarmönnunum heldur lögðum við að jöfnu allt sem þeir framleiddu, hvort sem það voru teikningar á pappír, málverk á striga eða skúlptúrar úr ýmsum efnum. Það má velta því fyrir sér hvort stafrænt aðgengi að verkunum hafi haft þau áhrif að auka á eins konar „lýðræði“ milli verkanna við skoðun á safneigninni, þar sem verkin birtust á stöðluðum grundvelli tölvunnar. Stærðarhlutföll og rýmistilfinning voru þurrkuð út, hvort sem um var að ræða viðkvæmar blýantsteikningar, stór olíumálverk eða þunga málmskúlptúra. Í því ferli vantaði vissulega upp á mikilvæga áhrifaþætti verkanna, sem gaf okkur hins vegar rými til þess að leita eftir þeim formræna samhljómi sem við vorum að leita eftir.

Í leit okkar að þessu sameiginlega mengi Ásmundar og Þorvalds komumst við að þeirri niðurstöðu að teikningar Þorvalds rímuðu hvað best við skúlptúra Ásmundar og veittu mun meira rými til samanburðar heldur en fullmálaðar myndbyggingarnar sem enduðu á strigunum, þar sem aðeins eitt sjónarhorn af mörgum var ákveðið og gert sýnilegt. Samhljómurinn á milli skúlptúra Ásmundar og teikninga Þorvalds var það mikill að þegar uppsetning sýningarinnar var í fullum gangi kom gestur inn í húsið sem vissi ekki hvað væri til sýnis, en taldi við fyrstu sýn að teikningarnar og höggmyndirnar væru eftir einn og sama listamanninn. Það má liggja milli hluta hvort hér sé um að ræða sterk myndræn áhrif milli tveggja listamanna eða samliggjandi þróun á heildrænu myndmáli módernismans eins og hann þróaðist á Íslandi.

Listasmiðja á Safnanótt

Frá listasmiðju Söru Riel á Safnanótt 2016 í Ásmundarsafni.

Hinum óhlutbundna myndheimi var gerð skil á margvíslegan hátt yfir sýningartímann. Á Safnanótt var boðið upp á kvöldleiðsagnir um sýninguna auk þess sem Sara Riel hélt námskeið fyrir börn þar sem unnið var sérstaklega með teikningar Þorvalds. Í upphafi smiðjunnar var þátttakendum boðið að draga upp tvo miða úr kassa sem sýndu útprentað afrit af hluta eins verks.

Þá tóku þau miðana með sér inn í sýningarsalinn til þess að finna verkin sem þessi myndbrot tilheyrðu. Að því loknu komu þau aftur og gerðu sínar eigin abstrakt klippimyndir, svipaðar og klippimyndir Þorvalds sem eru nokkrar til sýnis ásamt annars konar teikningum í ytri sýningarsalnum – Skemmunni. Þannig fengu börnin spennandi verkefni í hendurnar en sömuleiðis var þetta aðgengileg leið til að hvetja börnin til að skoða sýninguna. Undir handleiðslu Söru sköpuðu börnin sín eigin verk og unnu sig inn í sameiginlegt myndmengi Ásmundar og Þorvalds.

Algóritmar og Abstraktlist

Í janúar var boðið upp á sýningarstjóraspjall í Ásmundarsafni en með í för var tölvunarfræðingurinn Kristleifur Daðason til þess að ræða um mögulegar tengingar abstraktlistarinnar við forritunarmál og gervigreind. Ýmsar hugleiðingar voru bornar upp í tengslum við þróun á gagnvirkum myndlistargagnagrunni, en ýmis tækifæri gætu falist í háþróaðri tölvutækninni fyrir heim myndlistarinnar, bæði fyrir myndlistarmenn og fræðinga.

Við gerð sýningarinnar settum við okkur reglur sem svipuðu til eins konar algóritma eða reiknirits. Með því að horfa á myndir Ásmundar og Þorvalds og bera þær saman sáum við fljótt hvað þeir áttu margt sameiginlegt í formum, línum, sveiflum og massa. Slíka aðgreiningarhæfni á myndefni væri ef til vill hægt að þróa áfram í hugbúnaði, en með myndgreiningartækni væri til dæmis hægt að útbúa „stafrænan gervilistfræðing“ sem gæti þekkt stílbrigði listamanna og gert greinarmun á efnisnotkun í verkum.

Augans Börn, Ásmundarsafni. Listasafn Reykjavíkur.

Að mati greinahöfundar er sýningunni Augans Börn ætlað að upphefja myndmálið sem hið sjálfstæða tungumál sem það er. Reynt er á gamla orðatiltækið um að mynd segi meira en þúsund orð með þessum tilraunum. Kjarni sýningarinnar er sá sami og fólst í stefnu módernistanna – að blár sé ekkert annað en blár. Hann standi ekki sem táknmynd fyrir himinninn eða hafið, hann sé aðeins blár í því eðli sem hann er hverju sinni. Að sama leyti er ekki endilega þörf á því að vita upp úr hvaða hugarheimi myndin birtist heldur er það myndin sjálf sem skiptir hvað mestu máli.

Höfundur: Viktor Pétur Hannesson


Ljósmyndir: Listasafn Reykjavíkur
Mynd frá listasmiðju Söru Riel: Viktor Pétur Hannesson

Eitthvað smá óöryggi – eitthvað viðkvæmt

Eitthvað smá óöryggi – eitthvað viðkvæmt

Elín Hansdóttir

Eitthvað smá óöryggi – eitthvað viðkvæmt

Viðtal við Elínu Hansdóttur um sýninguna Uppbrot, Ásmundarsafni

 

Í Ásmundarsafni er nú sýningin Uppbrot, á verkum Ásmundar Sveinssonar (1893-1982) og Elínar Hansdóttur undir sýningarstjórn Dorothée Kirch. Ásmundur ánafnaði Reykjavíkurborg listaverkum og húsum sínu við Sigtún á sínum tíma og þar rekur Listasafn Reykjavíkur nú Ásmundarsafn. Safnið er tileinkað verkum Ásmundar og undanfarin ár hefur verið lögð áhersla á sýningar samtímalistamanna sem unnar eru inn í safnið og safneignina. Sýningin Uppbrot er ein slík og okkur lék forvitni á að fá að vita meira um tilurð sýningarinnar. Hlín Gylfadóttir tók því viðtal við Elínu Hansdóttur.

Um aðdraganda sýningarinnar segir Elín:

Dóró (Dorothée) var boðið að koma með tillögur að sýningu og var að velta fyrir sér hvernig hún ætti að nálgast Ásmund. Það er hægara sagt en gert að sýna verk sem margir þekkja í nýju ljósi. Hún ákvað að vera svolítið drastík og valdi að spegla einn samtímalistamann og Ásmund.

Hún var ekki með fastmótaða hugmynd sem hún nálgast mig með, heldur byrjuðum við eiginlega báðar frá grunni. Þetta var hrein og bein samvinna að því leyti að hún nálgast mig ekki með fastmótað konsept, sem mér er boðið að vinna með en það er mjög algengt. Ég tek því alltaf fagnandi ef það er vilji til að byrja frá grunni í samræðu. Oft er verið að velja listamenn miðað við það sem þeir hafa gert áður og, án þess að ég vilji alhæfa, þá er sýningarstjórinn oft að leita eftir einhverju sem er „eins og þetta, sem þú gerðir fyrir sjö árum síðan.“ Það eru auðvitað mjög erfiðar aðstæður fyrir listamann að vera í. Ég er bogamaður og mér leiðist að gera það sama tvisvar. Oftast langar mig til að prófa eitthvað nýtt í hvert skipti. Það getur verið ákveðin áhætta því það þýðir að maður er amatör í mjög mörgu og verður aldrei sérfræðingur í einhverju einu. Það er ekki fyrr en maður súmmar út mörgum árum seinna að þá sést tenging í því sem maður hefur verið að gera. En mér líður alltaf eins og ég sé að prófa nýja hluti og það er ákveðið óöryggi sem felst í því. Ég trúi því að það sé skapandi að vera ekki öruggur með það sem maður er að gera. En auðvitað er það hrikalegt á sama tíma.

En ef ég kem aftur að vinnuferlinu okkar Dóró, þá byrjuðum við á því að skoða alla safneignina og lesa viðtöl við Ásmund. Við ákváðum að skoða þetta sín í hvoru lagi og velja út það sem hafði áhrif á okkur. Það kom svo í ljós að við höfðum áhuga á mjög svipuðum hlutum. Það var skemmtilegt að útgangspunkturinn æxlaðst af sjálfu sér út frá sameiginlegum áhuga okkar beggja.

Áhugi okkar beindist sérstaklega að verkum sem eru skráð inn í kerfið sem verk, en hafa ekki verið sýnd vegna þess að það ríkir einhver óvissa um þau. Það eru nokkur verk eins og t.d. rifan (Án titils, án ártals) sem hefur verið skráð sem verk en það hefur ekki endilega verið ætlun Ásmundar. Við fengum leyfi hjá safninu að sýna rifuna, sem mér fannst mjög ánægjulegt.

Okkur fannst þetta vera spennandi útgangspuntur út af því að þetta er hluti úr heild sem maður veit ekki hver er. Það er svo lýsandi fyrir vinnuferli listamannsins. Þú ert með eitthvað í höndunum, en þú sérð ekki stóru myndina fyrr en kannski löngu síðar og jafnvel aldrei. En það er eitthvað þarna og þú veist að það tilheyrir einhverri heild. Þú finnur fyrir heildinni og það er þess vegna sem þú heldur áfram að leita, óviss um hvað þú finnur.

Það var eitt sem Ásmundur sagði í viðtali sem mér fannst svo ótrúlega fallegt. Það var að íþróttamenn væru með takmark og þeir ná takmarki sínu en listamaðurinn nær aldrei takmarkinu sínu vegna þess að takmarkið ferðast miklu hraðar en hann sjálfur. Í þessari leit opnast alltaf nýjar og nýjar víddir. Vinnuferlið er endalaus prósess sem getur teygt sig í allar áttir.

Það er svo gott við Ásmund hvað maður hefur greiðan aðgang að honum og hans hugsunum því hann var greinilega mjög duglegur að tjá sig.

Hann virðist ekki hafa verið hræddur að viðurkenna veikleika og tala um óstöðugleika listræns ferlis. Eins fannst mér gaman að sjá hvað hann var óhræddur við að prófa ólík efni og endurnýta eins og t.d baðkarið sem er í verkinu Upprisan. Dóttir hans sagði okkur að þetta hafi verið baðkarið hjá þeim, sem hún baðaði sig í þegar hún var lítil. Baðkarið bilaði og því var skipt út og þá endurnýtti Ásmundur það í þetta verk. Við héldum að litla baðkarið í verkinu Upprisan – skissa væri módel af stóra verkinu en hún sagði okkur að hann hafi gert það eftir að hann gerði stóra baðkarið, sem einhverskonar eftirmynd, en ekki fyrirmynd. Það hlýtur að hafa þótt frekar róttækt á hans tíma að fara í öfuga átt við hefðina.

Það hefur alltaf heillað mig að horfa á eitthvað í mismunandi skala. Baðkarið er skýrt dæmi um slíka hugsun og það má segja að þetta hafi verið útgangspunkturinn fyrir stærsta verkið á sýningunni, dómínóborgin sem fellur (Kollsteypa). Skalinn í videóinu er óræðari en skúlptúrinn í sýningarsalnum. Annar útgangspunktur er sýndarveruleiki versus víddin sem við upplifum og skynjum án hjálpartækja. Það var mjög mikilvægt að vídeóið og skúlptúrinn væru aðskilin og ekki í sama rými til þess að upplifunin spili á minni okkar.

Vinnuferli mitt fyrir þessa sýningu var ekki þannig að ég hafði ákveðið að bregðast við verkum Ásmundar á beinan hátt. Heldur frekar að skoða það sem hann hefur gert og lesa hans hugmyndafræði samhliða því að vinna mín eigin verk. Óneitanlega hefur það sem ég er að taka inn, lesa og skoða, áhrif á mig hverju sinni, en ég hef minni áhuga á því að bregðast við verkum annarra, heldur en að skapa eitthvað nýtt sem er svo sett í samhengi. Samtalið við Dóró hafði áhrif á hvernig hlutir geta breyst með því að vera settir í nýtt samhengi. Það voru einmitt einhverjir sem komu á sýninguna og sögðust aldrei hafa séð þetta verk eftir Ásmund áður. Líklega hafði fólk séð verkin oft áður, en samhengið hefur varpað nýju ljósi á þau.

Viðtalið við Elínu tók Hlín Gylfadóttir

Listamannaspjall – Elín Hansdóttir: Uppbrot Sunnudaginn 8. maí kl. 15 í Ásmundarsafni

Listamannaspjall – Elín Hansdóttir: Uppbrot Sunnudaginn 8. maí kl. 15 í Ásmundarsafni

Listamannaspjall – Elín Hansdóttir: Uppbrot Sunnudaginn 8. maí kl. 15 í Ásmundarsafni

Fréttatilkynning

English below

Listamannaspjall – Elín Hansdóttir: Uppbrot
Sunnudaginn 8. maí kl. 15 í Ásmundarsafni

Myndlistarmaðurinn Elín Hansdóttir ræðir við Dorothée Kirch sýningarstjóra um sýningu sína Uppbrot.

Ásmundarsafn er helgað verkum Ásmundar Sveinssonar myndhöggvara. Á sýningunni rýnir Elín í verk Ásmundar, glímir við arfleið hans og leitar áður ókannaðra flata. Elín og Ásmundur vinna með þrívíddina á ólíkan hátt, hann fangar form í efni, hún endurskilgreinir rýmið. Átökin milli nýrra verka Elínar og verka Ásmundar opna áhorfendum nýja sýn

 


 

Artist´s talk – Elín Hansdóttir: Disruption
Sunday 8 May 3 p.m. at Ásmundarsafn

Artist´s talk: Elín Hansdóttir in conversation with curator Dorothée Kirch about the exhibition Disruption. The event takes place in Icelandic.

The Ásmundur Sveinsson Sculpture Museum is dedicated to the works of the sculptor Ásmundur Sveinsson. In Disruption, Elín takes on Ásmundur´s artworks, searching for new viewpoints. Elín and Ásmundur work with perspective in different ways, he uses his material to capture the form, while she redefines the space.

 

Nánari upplýsingar / Contact information:
Áslaug Guðrúnardóttir
Kynningar- og markaðsstóri / PR and Marketing Manager
s/tel. 820-1201 / aslaug.gudrunardottir@reykjavik.is
UA-76827897-1

Pin It on Pinterest