Stofnun Marshallhússins – grasrótin slítur barnskónum

Á björtum fimmtudagsmorgni í mars sit ég á Kaffivagninum. Rótgrónum samkomustað sjómanna og velunnara við smábátahöfnina á Granda. Lengra út eftir verbúðunum er verið að leggja lokahönd á Marshall húsið, nýjustu viðbótina við sístækkandi menningarflóru hafnarsvæðisins. Sýningin hér samanstendur af trillum, snekkjum og seglskútum sem lífeyrisþeginn Óðinn vaktar.

Eftir kaffibollann geng ég af stað, meðfram verbúðunum sem hafa umbreyst í vinnustofur listamanna, veitingahús og ísbúðir. Hugsjónafólk með ferskar hugmyndir á ýmsum sviðum laðast að höfninni eins og svangir kettir. Fyrir framan endastöð strætó nr 14 nem ég staðar og virði fyrir mér Marshallhúsið . Menningarhús sem kemur til með að endurskilgreina hugmyndina um alfaraleið í Reykjavík. Listhús á fjórum hæðum (auk nokkurra millihæða) sem liggur í ilmandi faðmi herra HB (Granda), eiganda Marshall hússins.

Þúfa Ólafar Nordal er vel skrifuð í handbækur ferðamanna sem marsera glaðir út á ystu Granda-nöf til að hringsnúast alla leið upp í harðlæstan harðfisk-kofann. Nú geta þeir rétt sig af í nýuppgerðu lýsisbræðsluhúsinu sem hefur verið endurvakið í nafni listarinnar. Innandyra opna þrjú rými, öll til þess ætluð að hýsa listastarfsemi af einhverju tagi. Á annarri hæð er Nýlistasafnið með vistarverur sínar. Þar fyrir ofan eru unglingarnir í Kling og Bang. Á efstu hæðunum verður svo Ólafur Elíasson með sýningarrými og vistarverur. Að auki opnar veitingahús og bar á jarðhæðinni.

Ljósm: Viktor Pétur Hannesson

Opnunin

Síðastliðin laugardag lukust upp dyr Marshall hússins með formlegri fjögurra klukkustunda opnun. Húsið var stappað af gestum allan tímann. Stemningin var almennt séð fersk og spennandi. Gestir höfðu ýmislegt að segja um nýja listhúsið. Tilfinningar voru margvíslegar, minningar komu fram hjá sumum og víða glitti í vonarglampa í augum langsveltra fastagesta þeirra stofnana sem hér eru saman komnar.

„Þetta er bara eins og í útlöndum“

„Þetta er svona fullorðins“

„Þessi dagur verður skrifaður á spjöld listasögunnar“

Og svo framvegis.

Ljósm: Viktor Pétur Hannesson

Nýló – uppskera eftir áralanga yfirvinnu

Nýlistasafnið er og hefur verið listamannarekið safn í stöðugri uppbyggingu frá stofnun þess árið 1978 og hafa stjórnendur og starfsmenn safnsins lagt sitt fram til skrásetningar á íslensku listalífi og halda uppi reglulegu sýningarhaldi í nær fjóra áratugi. Að undanförnu hefur Nýlistasafnið verið til húsa í Efra-Breiðholti, en þrátt fyrir að vera aðeins fjær alfaraleið en venjulega, þá hélt safnið sínu virka menningarstarfi áfram þar. Nú færist sýningarrýmið yfir í Marshallhúsið, en safneignin verður ekki flutt úr Breiðholtinu í bráð.

Fyrsta sýning þeirra hér í Marshallhúsinu ber nafnið Rolling Line, og samanstendur af verkum Ólafs Lárussonar sem var einn af stofnendum Nýlistasafnsins og einn síðasti meðlimurinn sem var tekinn inn í SÚM hópinn. Á vefsíðu Nýló kemur fram að þetta sé í fyrsta skipti sem „dregin er upp heildræn mynd af afkastamestu árum listamannsins“, þ.e áttunda áratugnum. Meðfram sýningunni verður einnig gefin út bók um Ólaf með ýmis konar efni sem tengist honum og vinnustofu hans.

Ljósm: Viktor Pétur Hannesson

Arfleifð Súmmaranna og nýja málverksins virðist loksins hafa fundið endanlegan samastað undir þessu þaki. Safnið á að baki rétt tæp fjörutíu ár af stopulu húsnæðisástandi og  þröngum fjárhagsramma, en nú er nýtt tímabil í garð gengið, allavega í húnsæðishlutanum. Eins og safnstjóri Nýlistasafnsins sagði þá höfðu þau um tvennt að velja: Vera áfram í breiðholtinu með lítinn sem engan pening, eða prófa Marshallhúsið með lítinn sem engan pening. Að sjálfsögðu létu þau á það reyna.

Ljósm: Viktor Pétur Hannesson

Kling og Bang – í fullorðinna tölu

Grasrótargallerí sem hefur verið milli húsa síðustu 14 ár flytur nú „af moldargólfinu á marmarann“, inn í rými af þeirri gerð sem setur þau einhvers staðar mitt á milli grasrótar og hámenningar.

Ljósm: Viktor Pétur Hannesson

Kling & Bang á rætur sínar að rekja til fjölbreytts hóps ungra listamanna sem fóru að reka sameiginlegt gallerí í miðbænum. Úr því rættist framar vonum, en hópurinn skipulagði og tók þátt í fjölmörgum viðburðum bæði hér heima og erlendis. Margir af framsæknustu ungu listamönnum þessa tíma koma úr því umhverfi sem mótaðist í Kling & Bang. Sem dæmi má nefna Ragnar Kjartansson sem hélt sína fyrstu einkasýningu í húsum Kling og Bang. Hér í Marshallhúsinu á hæð Kling & Bang hefur sýningin Slæmur félagsskapur opnað þar sem átta nýútskrifaðir listamenn taka þátt. Með þeirri sýningu gefa forsvarsmenn Kling & Bang skýrt merki um að ætlunin sé að halda áfram sínu striki og vera unglingurinn í listasenu Reykjavíkur.

Ljósm: Viktor Pétur Hannesson

Kling og Bang hefur alltaf verið þekkt fyrir að halda kraftmiklar og ferskar sýningar þar sem íslenskum og erlendum listamönnum með taumlausa sköpunargleði í farteskinu er sleppt lausum. Hins vegar er ekki hægt að komast hjá því að Marshallhúsið ber með sér vissan gæðastimpil sem kemur til með að hafa áhrif á sýningarhaldið. Allt vel málað og nýtt. Viðmiðin hækka og líklega væntingar staðarhaldara til framsetningar sömuleiðis. Það verður spennandi að sjá hvort ferskleiki æskuáranna muni ná að halda velli á stað eins og þessum

„Við erum áfram Kling og Bang“ sagði einn af meðlimunum. Það verður áhugavert að fylgjast með gangi mála og sjá hvað næstu ár bera í skauti sér. Öll róttækni, fyrr eða síðar, hneigist til þess að gangast við stofnanavæðingu með tilheyrandi formerkjum. Hún breikkar menningarflóruna og verður að lokum samþykkt, en víkur jafnframt fyrir nýjum rótarskotum. Þar er nauðsynleg þróun að gefa rými fyrir nýgræðingana sem hafa eitthvað nýtt fram að færa og eru kannski ekki alltaf sammála forverum sínum og kennurum.

Ljósm: Viktor Pétur Hannesson

Stúdíó Ólafur Elíasson

Yfir stofnsettri grasrótinni skín sólin í Stúdíó Ólafur Elíasson sem starfsmenn i8 munu halda á lofti.  Ólafur Elíasson er nú í fyrsta sinn með sitt eigið rými fyrir verk sín á Íslandi, sem kemur til með að vera opið almenningi á sömu tímum og aðrir sýningarsalir í húsinu. Að sögn Þorláks Einarssonar úr i8 vill Ólafur styrkja taugina sem hann hefur til Íslands og vinna meira „hér heima“ og hafa einhvern samastað. „Meiningin er að þetta eigi að vera lifandi. Vissulega erum við að sjá eitthvað sem heitir sýning, en verkunum verður skipt út reglulega án þess að það sé tilkynnt,“ segir Þorlákur. Hann vonast til þess að gestir Marshall hússins komi við reglulega til að fylgjast með þróun rýmisins og kynnast verkum Ólafs í meiri nánd en áður hefur verið hægt hér á landi.

Ljósm: Viktor Pétur Hannesson

 Vofa Góðæris

Opnunardagurinn vakti hjá sumum margvíslegar og blendnar minningar. Yfir sumum gestum sveimaði vofa síðasta góðæris. Stemningin minnti einhverja á Klink og Bank, listamannakollektívið í gamla Hampiðjuhúsinu við Hlemm í boði Landsbankans á hagvaxtarárum síðasta áratugar.

Ljósm: Viktor Pétur Hannesson

Fáu virðist þó vera hægt að líkja saman við þessi tvö rými annað en að fjársterkur aðili komi að tilvist þess að einhverju leyti. Þá var það Landsbankinn sem færði hópi listamanna hús til afnota án endurgjalds. Gamalt og hrátt verksmiðjuhúsnæði sem varð að einum allsherjar suðupotti fyrir íslenskt myndlistarlíf á sínum tíma. Nú kostar HB Grandi hugmynd sem kviknaði á arkitektastofunni Kurtogpi. Hér er enginn með frípassa í partýið. Allir borga leigu til þess að geta verið í Marshall húsinu. Svo hefur stemningin líka verið nokkuð hráslagalegri í Hampiðjuhúsinu heldur en hér í einu af fallegri húsum borgarinnar.

Kvikmynd um Klink og Bank eftir Þorfinn Guðnason

Nú á dögunum tók Reykjavík Grapevine viðtal við forsvarsmenn Kling og Bang þar sem kom fram að margir voru ósáttir með samstarf listahópsins við Landsbankann á sínum tíma. Þau sögðust þó telja að eftir á hafi flestir verið sáttir með að þetta hafi verið gert. Það segir sig sjálft að verkefni eins og þessi gætu aldrei orðið að veruleika án sterkra fjármögununaraðila. HB Grandi er eigandi Marshallhússins og kom að endurbyggingu þess. Þó þar sé fjársterkt fyrirtæki á ferð er ekki hægt að segja að sá rekstur sé sambærilegur við einkarekinn Landsbankann á tímum útrásarvíkinganna.

Hins vegar eru ýmis merki um að við séum að sigla inn í nýtt góðæri í boði erlendra gesta sem leggja leið sína hingað til eyjunnar. Það var reyndar áhugaverð tilviljun að í sömu viku og Marhsallhúsið var opnað hafi gjaldeyrishöftunum verið aflétt fyrir fullt og allt. Það er skiljanlegt að fólk velti því fyrir sér hversu lengi þetta nýja síldarævintýri muni endast. Við erum ennþá brennd eftir síðustu vertíð. Staðreyndin er allavega sú að hér er búið að endurhanna hús við höfnina í nafni og þágu listarinnar. Hvernig sem hagkerfið kemur til með að sveiflast til og frá mun þetta rými standa og hýsa fjöldan allan af stefnumarkandi myndlistarsýningum í nánustu framtíð.

Þrjár sjálfstæðar listastofnanir sem munu njóta góðs af því að sitja allar undir sama þaki. Það er ekki of mikil peningalykt í húsinu, enda búið að skipta um jarðveg og fjarlægja lýsistankana. Eftir stendur listilega hannað sýningarhús með veitingahúsi og bar á jarðhæðinni. Hvort núverandi rekstrarfyrirkomulag muni haldast óbreytt í húsinu um ókomna tíð verður bara að koma í ljós. Nú geng ég listmettaður úr Marshallhúsinu og bíð spenntur eftir næstu sýningum. Bjartir dagar eru framundan í lífi og þróun listarinnar hér á landi sem er ef til vill að slíta grasgrænum barnskónum hér á granítgráum gólfunum.

Höfundur: Viktor Pétur Hannesson


Einkennismynd: Helga Óskarsdóttir

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest

Share This