Sláturhúsið Menningarsetur á Egilsstöðum

Menningarhúsið á Egilsstöðum heitir Sláturhúsið, Menningarasetur. Það er ekki tilvísun í Vonnegut eða tilraun til frumleika heldur einfaldlega vegna þess að húsið var nýtt sem Sláturhús og kjötvinnsla á árunum 1958 -2003. Það er heilmikil saga í húsinu sem má lesa í strúktúr þess og rýmaskipan. Einu sinni var hægt að lesa í lyktina þegar enn örlaði á reyklykt en nú er ilmur menningar búinn að taka yfir. Árið 2005 var farið að skrifa nýtt handrit að húsinu þegar kannað var með kaup á því með menningarstarf í hug. Árið 2006 var húsið keypt og árið eftir var sýnt þar leikverk og kvikmyndahátíðin 700IS Hreindýraland fór þar fram.

Þetta er eitt dæmi af mörgum þar sem hús á landsbyggðinni sem áður hýstu iðnaðarstarfsemi af einhverju tagi hafa fengið nýtt hlutverk sem menningarhús. Dæmi um þetta eru t.a.m Frystiklefinn á Rifi og Verksmiðjan á Hjalteyri.

unnarSláturhússtjórinn og Forstöðumaður Menningarmiðstöðvar Fljótsdalshéraðs, heitir Unnar Geir Unnarsson, menningarstjóri og leikari. Unnar Geir fæddist og ólst upp á Egilsstöðum. Tók flugið eins og gengur eftir Menntaskólann suður til Reykjavíkur og þaðan úti heim en fluttist aftur austur til þess að taka við starfinu fyrir rúmu ári síðan.

Unnar Geir gengur stoltur um húsið og segir frá starfseminni. Sláturhúsið hýsir Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs, Veghúsið sem er skapandi frístundastarf fyrir fólk á aldrinum 16 – 25 ára og Kaffistofuna sem er listamannaíbúð sem hægt er að sækja um til lengri eða skemmri tíma. Salir Sláturhússins eru leigðir út fyrir viðburði, þar eru vinnustofur listafólks, upptökustúdíó, æfingahúsnæði og sýningarsalir fyrir allskyns listform.

Á neðstu hæð hússins er Frystiklefinn, þar stendur yfir 25 ára afmælissýning Myndlistafélags Fljótsdalshéraðs og hanga myndir á svörtum veggjum sem lýstar eru upp með sterkum kösturum. Salurinn er annars mikið notaður fyrir sviðlistaviðburði og tónleika.

Í anddyrinu er sýning á vegum Listahátíðarinnar Listar án landamæra. Sýningin er samstarfs austfirsku listamannanna Arons Kale, Daníels Björnssonar og Odee (Oddur Eysteinn Friðriksson).

Listamennirnir unnu saman að verkunum og þau renna saman þannig óljóst er hver á hvaða hluta eða hvaða verk ,,Sýningin fjallar ekki einungis um verkin sjálf heldur ferðalagið frá upphafi til enda verkefnisins‘´stendur í texta sem fylgir sýningunni á við hlið verkana má sjá ljósmyndir og skissur af listamönnunum að störfum. Sláturhúsið hefur áður verið í samstarfi við List án landamæra með allskyns viðburðum og sýningum sem oftar en ekki eru í samstarfi ólíkra hópa og einstaklinga í samfélaginu.

Miðrými hússins má nýta fyrir allskyns viðburði og fundi. Þar rúllar núna áhugaverð heimildamynd sem Austfirðingafélagið á Akureyri lét gera árið 1965 með brottflutta Austfirðinga í huga. Farið er á milli bæjarfélaga á Austurlandi, staðreyndir taldar upp eins og ,, þar er pósthús og kaupfélag‘‘ og farið yfir helstu kennileiti í landslaginu. Það er einlæg fegurð í þessu myndbandi.

Á hæðinni er upptökustúdíó og æfingahúsnæði sem tónlistarfólk getur nýtt sér endurgjaldslaust. Stórt rými er sérstaklega ætlað fyrir frístundamiðstöð unga fólksins en þau skipuleggja allt sitt starf sjálf og biðja um aðstoð ef þau þurfa.

Á efri hæð hússins er fyrrum skrifstofa dýralæknis, herbergiskytra sem lengi stóð auð og ónotuð. En nú hefur kytran fengið nýtt hlutverk og er framköllunarherbergi fyrir ljósmyndara. Hugmyndin kom upp þar sem ljósmyndarar hafa vinnuaðstöðu í húsinu. Framköllunarbúnaðu fékkst lánaður úr Menntaskólanum ME og Jobba í Myndsmiðjunni með því skilyrði að ef það er ungmenni sem vill læra að framkalla filmur að þá verði ljósmyndarinn að taka hann í læri.

dyralaeknis

Kaup kaups og ,,sharing is caring‘‘ er lykill þarna og speglast í öllu starfi hússins. Það á líka við um þegar listafólk kemur í residensíu í gestaíbúðina þá er viðkomandi listamaður með viðburð í miðstöðinni og oftar en ekki er listamaðurinn líka í samstarfi við stofnanir, hópa og einstaklinga í samfélaginu.
jon-fra-mo%cc%88drudalÁ efri hæðinni er stórt rými sem má skipta í minni sali. Þar stendur yfir sýning á verkum Jóns A. Stefánssonar frá Möðrudal, þess mikla fjöllistamanns. Jón hannaði og byggði kirkjuna á Möðrudal. Allar teikningar og plön sem hann gerði að kirkjunni gerði hann í huganum og ólíkt því sem við erum vön þá kom hann því ekki á pappír heldur byggði kirkjuna stein fyrir stein byggða á þessari mynd sem hann hafði í huganum. Barnabarnabarnið hans listakonan Íris Lind Sævarsdóttir vann verk í gluggann á móti verki langafa síns. Þar teiknar hún upp kirkjuna með hvítum lit. Teikningin er breytileg eftir birtunni úti og stöðu áhorfandans í rýminu. Í gegnum teikninguna horfum við út á fánaborg við húsið og í fjarska Egilsstaðabæinn og Lagarfljótið.

Í öðrum sal eru verk í eigu sveitarfélagsins. Þar er allt frá Kjarvalsverkum og yfir í nýlegar ljósmyndir listakonunar Agnieszku Sosnowska sem býr á Kleppjárnsstöðum í Hróastungu og kennir við Brúarásskóla. (Sjá hér)

Unnar Geir segir skemmtilega sögu af einu Kjarvalsverkana, Portrett af manni í Lopapeysu. Fjölskylda mannsins á myndinni sem sögð er vera af bóndanum Birni Hallssyni á Rangá, pantaði mynd af Birni hjá Kjarval en myndina ætluðu þau að gefa honum í afmælisgjöf. Þegar fór að draga nær afmælinu inntu þau Kjarval eftir verkinu, ,, hún kemur sagði Kjarval‘‘ og hafði ekki um það fleiri orð. Leið og beið og ekkert spurðist af myndinni. Fékk þá fjölskyldan annan málara til verksins sem lauk verkinu fyrir tilskilinn dag. Um sumarið kom Kjarval svo austur og afhenti fjölskyldunni málverkið. Þá vildu þau ekki sjá myndina enda búið að kaupa aðra mynd og að auki hafði Björn víst aldrei í ullarpeysu verið.

Einhvern vegin endaði myndin svo hjá sveitarfélaginu eftir þetta og hékk lengi í Valaskjálf. Hún ber þessi merki að hafa lifað margan gleðskapinn, einhvern tíma hefur verið rekið í hana borð eða annað

kjarvalsmyndin

og skilið eftir far í striganum og ofarlega á striganum þar sem er auður flötur er laumuskemmdarverk þar sem krotað er með blýanti ,,Q4U‘‘.

 Eftir Kjarval liggur leiðin í vinnustofur listamanna sem þarna starfa. Allir geta sótt um, leigan er lág og aðstaðan góð.

Sláturhússtjórinn Unnar Geir er sjarmerandi og segir skemmtilega frá. Hann hefur mikinn metnað fyrir menningarstarfi í húsinu og brennur fyrir því sem hann gerir. Það verður spennandi að fylgjast með Sláturhúsinu dafna en loksins eftir 10 ár þá hefur ákvörðun verið tekin um það endanlega að þarna verður áfram ræktuð menningarmiðstöð og Sláturhúsið gert að meginstoð menningarlífs á Fljótsdalshéraði ásamt Safnahúsinu.

Sláturhúsið er vettvangur alls samfélagsins, það er verkefnarými, viðburðastaður, lifandi og hreyfanleg miðstöð sköpunar af öllu tagi. Þarna er hægt að skapa og síðan að njóta sköpunar, þú getur átt val um að njóta nútíma dans- og leiklistarbræðings, sinfónutónleika og sýninga áhugaleikhópa, æft með hljómsveitinni og fundað með grasrótarhreyfingunni allt í sömu vikunni.

Húsið er steypt gólf og veggir með vatnshelt þak yfir, þar inni eru verkfæri og fólk sem hjálpar. En tilvist þess skapar líka huglægt rými í samfélaginu, rými sem nærir og glæðir sköpun og endursköpun.

Saga hússins í nýju hlutverki er ekki löng en áhrifin eru augljós.

 Margrét Norðdahl

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest

Share This