Gallerí Gestur á Hlemmi

Sunnudagur 1.maí
Kl. 13:00 – 16:00

Gjafagjörningurinn 18.401

Fyrirtækið Pabbakné gefur hér með út verkið „18.401“, fjölfeldi í 592 eintökum, eftir afleysingarmanninn Jóhann Ludwig Torfason. Verkið er eins og áður segir, fjölfeldi, þar sem hvert eintak er ígildi 18.401 krónu, og má með einfaldri margföldun finna út að heildarverðmæti upplagsins er þá 10.893.392 eða á mannamáli: tíumilljóniráttahundruðníutíuogþrjúþúsundþrjúhundruðníutíuogtvær krónur, sem samsvarar þeirri upphæð sem Pabbakné hefur fengið úr opinberum sjóðum, samanlagt frá árinu 1997 í formi listamannalauna, eða það sem fyrirtækið kýs að nefna styrk til átaksverkefnis, líkt og býðst sem úrræði hjá Vinnumálastofnun.

Á þessum gagnsæu tímum kröfunnar um gegnsæi og til að undirstrika skilning fyrirtækisins á efa- og efnishyggju alls almennings, verður nú allt sett upp á borðið varðandi þessar fjárhæðir, sem fyrirtækinu er ekki kunnugt um að hafa verið fluttar á reikninga aflandsfélags, þó skattar hafi vitaskuld verið greiddir af öllu saman og fyrirtækið í raun réttri stórtapað á brölti þessu. Styrkirnir umræddu bárust í pósthólf fyrirtækisins í nokkrum slumpum; árið 1997 bárust 2.108.400 krónur, árið 2000 komu 1.054.192 krónur frá Reykjavíkurborg, og árið 2005 var gjöfult með heilar 4.216.800 krónur. 7 árum síðar komu 351.400 krónur inn um lúguna, snöggtum betra var árið 2013 með 1.054.200 krónur og í ár, 2016, bárust heilar 2.108.400 krónur. Allt saman uppfærðar og núvirtar alíslenskar krónur, og sé þessum upphæðum dreift af réttlæti yfir 20 ár, má sjá að fyrirtækið hefur með þessum fjármunum getað haldið einum starfsmanni, á lágmarkslaunum, að verkum sínum í heilan mánuð á ári hverju. Og fyrir það ber vitaskuld að þakka.

En nú er sumsé komið að gjalddaga og er það fyrirtækinu Pabbakné mikil ánægja að tilkynna að gjafagjörningurinn „18.401“ verður kynntur til listasögunnar í farandgalleríinu Gallerí Gesti, og mun formleg opnun verða í arðsemiskröfugöngu þann 1. maí nk. og hefst athöfnin við Hlemm kl. 13:00. Náðust samningar við ofangreindan starfsmann og höfund verksins, að hann dreifði upp úr galleríinu hinum 592 eintökum og afhenti hverjum þeim sem þiggja vildi, eitt eintak án endurgjalds, á meðan byrgðir endast. Hvert eintak er númerað og áritað, prentað á fagran pappír og því má segja að hér sé á ferðinni átjánþúsundfjögurhundruðogein með öllu.

Eftirmáli

Það mun ekki á vísan að róa, þegar myndlistarverkum er dreift meðal fólks, enda alls óvíst að nokkur maður fáist til að taka við slíkri höfðinglegri gjöf, sem nota bene, mun aðeins vaxa í veski viðtakanda og verða afkomendum efnahagslegt haldreipi þegar borga skal leiðréttinguna miklu. Því skal það skjalfest hér að það sem út af gengur að kröfugöngu lokinni, skal í vitna viðurvist verða til sýnis þar og þá sem Gallerí Gestur skýtur upp kollinum og verður það alfarið í höndum Magnúsar Gestssonar galleríeiganda.

F.h. Pk.
A.L.H. (sign)

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest

Share This