Málefni sjálfbærni og umhverfisverndar með aðferðum myndlistar

Horfðu á okkur: Halla Gunnarsdóttir í Listastofunni Hringbraut 119

Dýr í útrýmingarhættu eru viðfangsefni Höllu Gunnarsdóttur á sýningunni Horfðu á okkur (Look at Us). Um er að ræða 27 olíumálverk sem öll sýna dýrategundir í hættu sem hér er gefin mannleg ásýnd. Dýrin eru sett í skemmtilegar aðstæður sem miða að því að skapa samkennd og tengsl milli áhorfandans og viðfangsefnisins. Með því að manngera viðfangsefnið leitast verkin við sýna að skilin milli manna og dýra eru ekki svo stór og um leið að leggja áherslu á alvarleika þeirrar hættu sem maðurinn hefur skapað þessum dýrum.

Síðastliðin ár hefur Halla unnið að verkum sem fjalla um umhverfisvernd og dýr í útrýmingarhættu en þau hafa orðið til í kjölfar ferðalaga meðal annars til Suðurskautslandsins og Indónesíu. Í september 2015 ferðaðist Halla á norðurslóðir með hópi vísindamanna og náttúrulífsljósmyndara til að vekja athygli á áhrifum loftslagsbreytinga á svæðinu.

Einn af lykilþáttum sjálfbærs samfélags er að hlúa að líffræðilegum fjölbreytileika en það hugtak er notað til að skilgreina margbreytileika lífríkisins. Líffræðilegur fjölbreytileiki styður fjölbreytni tegunda og vistkerfa sem mynda líf á jörðinni. Í síauknum mæli verðum við vitni að tjóni á líffræðilegum fjölbreytileika sem hefur djúpstæð áhrif á náttúru heimsins og velferð manna.

Inngrip mannsins í náttúruna er ein helsta orsök röskunar og breytinga á náttúrulegum búsvæðum. Þar má t.d. telja landbúnaðarkerfi, byggingar, vinnslu hráefna úr jörðu, ofnýtingu á skógum, höfum, fljótum, stöðuvötnum og jarðvegi. Innrás framandi tegunda, mengun og ekki síst hnattrænar loftlagsbreytingar sem í daglegu tali eru kallaðar hlýnun jarðar.

Verk Höllu kalla fram samkennd áhorfandans gagnvart þeim dýrum sem hún hefur sett fram fígúratíft með tengingum við ýmsar mannlegar athafnir. Það ýtir undir þá tilfinningu að þegar vel er að gáð er ekki svo margt sem skilur að menn og dýr. Verkin eru áhrifarík áminning um mikilvægi þess að koma fram við dýr og náttúru af virðingu. Þetta á við alls staðar, jafnvel á hinu svo til lífvana svæði Norðurheimskautsins. Á sýningunni má merkja að ferðir og rannsóknir listakonunnar um það svæði hafa haft sterk áhrif á myndtúlkun hennar. Henni tekst vel að miðla til áhorfandans mikilvægi þess að hlúa að umhverfismálum.

Rauði þráðurinn í umhverfismálum framtíðarinnar ætti að snúast um hugtakið sjálfbæra þróun. Sú hugsun sem þar liggur að baki, er að maðurinn gangi ekki svo á höfuðstól náttúrunnar í framfarasókn sinni og nýtingu náttúrulegra auðlinda að hann skili lakari jörð til næstu kynslóðar.

Hvítabirnir eru meðal þeirra dýrategunda sem nú eru í yfirvofandi útrýmingarhættu vegna breytinga sem bráðnun heimskautaíssins hefur í för með sér á náttúruleg heimkynni þeirra og möguleika til að afla sér fæðu. Ekki er ástæða til annars en að ætla að almenningur á Íslandi láti sig varða þá útrýmingarhættu sem margar dýrategundir nú eru í. Árni Stefán Árnason lögfræðingur, með dýrarétt sem sérsvið, er þó þeirrar skoðunnar að á Íslandi ríki mikið skilningsleysi á dýraverndunarsjónarmiðum. Hann segir virðingarleysi gagnvart dýrum skína í geng þegar hvítabirnir eru felldir eftir að hafa gengið hér á land. Hann hefur bent á mögulegar lausnir: „þegar svona gerist í Kanada eru sérfræðingar sendir á staðinn í þyrlu og þeir látnir skjóta deyfilyfi í dýrið. Síðan er það flutt aftur á fjarlægari slóðir.“ Hann hefur bent á að flytja megi þau dýr sem koma hingað til lands til Grænlands með þessum hætti.

Menn greinir á um hvað gera skuli við þessa hvítabirni sem berast hingað til lands. Sama hvaða afstöðu fólk tekur þá er brýnt að stjórnvöld setji fram aðgerðaráætlun til framtíðar því miklar líkur eru á að hvítabirnir berist í auknum mæli hingað til lands vegna hlýnunar sjávar. Þörf er á aðgerðaráætlun um hvernig tryggja skuli líffræðilega fjölbreytni og vernda dýr í útrýmingarhættu.

Breyttar aðstæður í þjóðfélaginu kalla á endurskoðun þeirra gilda og hugmynda sem við byggjum samfélag og efnahagskerfi okkar á. Mikilvægt er að horfa er til hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar þar sem efnahagslíf, félagslegur jöfnuður og umhverfisvernd fara saman í að tryggja öllum jarðarbúum og komandi kynslóðum viðunandi lífsskilyrði.

Listaverk henta mjög vel til að vekja fólk til umhugsunar um málefni sjálfbærni. Sigríður Þorgeirsdóttir heimspekingur fjallaði um samband orða og mynda   í greininni Langir og stuttir skuggar: The Truman Show. Greinin er heimspekileg hugleiðing um raunveruleika og sýndarveruleika. Í greininni vitnar hún í Herbert Marcuse sem segir manninn búa í samfélagi skipulagðrar forheimsku […] neytenda sem eru mataðir af fjölmiðlum og steyptir í sama mót. Hún bendir á að Virilo gangi út frá því að myndin sé orðin máttugri en hið ritaða orð. Myndmálið er lúmskara en ritað mál því það á greiðari aðgang að skynjun okkar. Svo fremi sem augu okkar eru opin erum við berskjölduð fyrir sjónrænu áreiti, en við þurfum að setja okkur í stellingar til að lesa texta.

untitled-1

Listir eru mikilvægur liður í menntun til sjálfbærni. Slíka menntun þarf að byggja á siðferðilegum grunni sem gæti skapað almenna viðhorfsbreytingu og leitt til bjartari framtíðar fyrir alla. Listir geta snert við tilfinningum, veitt innri frið, skapað spennu, nýjar hugmyndir, gefið ráð, vakið samkennd, reitt til reiði eða hreyft við áhorfendum. Listir geta breytt viðhorfum. Þetta allt á við þegar verkin á sýningunni Horfðu á okkur eru skoðuð.

Það er ljóst af sýningu Höllu að þarna er á ferðinni vel menntaður listamaður. Hún hóf listnám við Florence Academy of Art í Flórens og lauk M.F.A  í fígúratískum skúlptúr frá the New York Academy of Art árið 2003. Við útskrift hlaut hún NYAA Sculpture Research Fellowship. Hún er einnig með B.A í Liberal Arts frá the New School í New York og MBA frá Sorbonne háskóla í París.

Litameðferð og myndbygging verkanna á sýningunni er áhrifamikil og minnir fyrir sumt á myndlistarmenn frá miðri tuttugustu öldinni. Það kemur ekki á óvart að bakgrunnur hennar liggur á Ítalíu.

Halla er í mikilli sókn hvað myndræna hugsun áhrærir og heldur vonandi áfram á þeirri braut hvort heldur sem er í málverki eða höggmyndum.

Höfundur: Ásthildur B. Jónsdóttir
lektor við Listaháskóla Íslands


Article in english: artzine.is/look-at-us

Vefsíða listamannsins: hallagunnarsdottir.com

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest

Share This