Listinni færðar þakkir á sýningu Ragnars Kjartanssonar í Hafnarhúsi

13.06. 2017 | Viðtöl

Nýverið opnaði Ragnar Kjartansson sína fyrstu safnsýningu hér á landi í Listasafni Reykjavíkur – Hafnarhúsi. Sýningarstjóri er Markús Þór Andrésson. Á sýningunni er að finna ýmis verk úr ólíkum áttum. Ragnar segir sýninguna ekki vera yfirlitssýningu heldur fremur hugleiðingu hans um listina í ýmsum verkum frá árinu 2004. Á síðustu árum hefur Ragnar náð að festa sig í sessi sem eftirsóttur og viðurkenndur gjörningalistamaður á alþjóðasenunni og verk hans hafa verið sýnd víða um heim. Á sýningunni sem ber titilinn Guð, hvað mér líður illa er að finna gjörningaverk, myndbandsinnsetningar, ljósmyndir, höggmyndir, málverk og teikningar.

Stóri salurinn á fyrstu hæð Hafnarhússins er tileinkaður lifandi gjörningum. Sá fyrsti stendur yfir í viku, frá 3. – 11. júní og kallast Til tónlistarinnar. Hann var fyrst fluttur við vígslu nýrra húsakynna Migros samtímalistasafnsins í Zurich árið 2012. Á opnunardegi í Hafnarhúsinu var að finna fimm óperusöngvara og jafnmarga undirleikara sem fluttu hið ljúfa sönglag, An die Music eftir Franz Schubert og Franz von Schober frá árinu 1817. Í laginu eru listinni færðar þakkir, fyrir það „að lyfta andanum í hæstu hæðir og fá okkur til að gleyma veraldlegu amstri, þótt ekki sé nema andartak“, eins og segir í sýningarskrá.

Gjörningurinn Kona í e-moll frá árinu 2016 tekur við þann 17. júní og stendur til 3. september. Í þeim gjörningi stendur kvenmaður á gylltum palli og spilar e-moll endurtekið á Fender rafmagnsgítar. Undir lok sýningarinnar dagana 9. – 24. september tekur við þriðji gjörningurinn sem nefnist Taktu mig hérna við uppþvottavélina – minnisvarði um hjónaband. Þar syngja og leika tíu tónlistamenn daglangt á gítar í tvær vikur. Í bakgrunni rúllar endurtekið myndband af karli og konu í ástarleik í eldhúsi og er atriðið úr kvikmyndinni Morðsögu frá árinu 1977, þar sem foreldrar Ragnars fóru með aðalhlutverkin. Getgátur eru í fjölskyldu Ragnars um að hann hafi verið getinn um það leyti sem kvikmyndin var tekinn upp. Gjörningurinn var upphaflega fluttur í BAWAG P.S.K Contemporary í Vínarborg árið 2011.

Ragnar er fæddur í Reykjavík árið 1976 og lauk prófi frá Listaháskóla Íslands árið 2001 af málarabraut. Hann stundaði skiptinám við Konunglegu listaakademíuna í Stokkhólmi árið 2000. Málverkið hefur verið í hávegum haft en gjörningurinn hefur verið hans aðalmiðill ásamt innsetningum og myndbandsverkum. Ragnar hefur verið óhræddur við að fá vini og vandamenn til að vinna með sér og segir það ferli gefandi og skemmtilegt. Ragnar er djarfur og stórhuga listamaður sem vinnur á einlægan hátt með gleði og harm, tilvist og mikilfengleika, lífið og dauðann og síðast en ekki síst kaldhæðni og endurtekninguna. artzine mælti sér mót við Ragnar og spurði hann út í sýninguna, tilfinningar og hvernig það er að vera viðurkenndur listamaður sem litið er upp til.

Þú ert alinn upp í skapandi umhverfi, innan veggja leikhússins, innan um leikara, söngvara, skáld og skapandi fólk. Þú varst um tíma í vinsælli popphljómsveit. Eiga myndlistargjörningar, tónlist og leikhús mikið sameiginlegt að þínu mati?

„Já, að vissu leyti en ég man að þegar ég var í Myndlistarskólanum þá stalst ég úr málaradeildinni í gjörningakúrs hjá Ráðhildi Ingadóttur. Þetta var á þeim tíma þegar það tíðkaðist ekki að fara á milli deilda. Ég fór í tíma hjá Ráðhildi og þetta bara small! Ég fann þetta í beinunum og þetta er það sem ég hef andað að mér alla tíð. Það sem mér fannst heillandi við gjörningalistina, er að hún hefur öll þau sömu element og leikhúsið en það er ekki gerð nein krafa um athygli. Það var mín upplifun og er enn. Gjörningurinn, hann er eins og málverk. Hann krefst ekki neins af þér. Mér finnst málverkið mjög krefjandi listform en það er ekki svona ofbeldisfullt eins og leikhúsið. Í leikhúsinu er bara skellt í lás og tjöldin dregin frá. Yfirleitt eru gjörningarnir mínir þannig að þú getur komið og farið eins og þér hentar. Það er það sem er m.a. heillandi við gjörningalistina á mínu mati. Gjörningurinn er svo frjáls, svo heillandi og náttúrulegur og hann smitaðist yfir í allt sem ég var að gera. Mér fannst geðveikt gaman að mála en fannst gjörningurinn að mála skemmtilegri en málverkið sem slíkt. Samt lít ég á málverkið sem aðal og ég hef mikinn metnað fyrir málverkinu.

Þegar komið er upp á aðra hæð taka á móti áhorfendum stór málverk af nútímalegum íbúðarhúsum á ísraelskum landtökusvæðum. Serían kallast Byggingarlist og siðferði og er frá árinu 2016. Titill verksins er vísun í þriðju plötu bresku hljómsveitarinnar Orchestral Manoeuvres in the Dark (OMD) og var fyrst sýnt í samtímalistasafninu CCA í Tel Aviv. Ragnar segir húsin ofbeldisfull.

„Þessi hýbýli eru bara tól í yfirráðum. Landtökustefna Ísraela er að þurrka út Palestínubyggðir og byggja ný hús. Þetta eru ofbeldisfull hús. Mér fannst mikilvægt að mála þessa blekkingu sem blasir við þarna. Þarna var ég að vinna með aðstæðurnar og gjörninginn við að vinna þessi málverk. Það hleður málverkin spennu. Ég lít á þessa seríu sem sjálfstæð málverk en að sama skapi lít ég á gjörningana mína sem málverk.“

Þú hefur talað um að hafa orðið fyrir áhrifum af tableaux vivant þegar þú varst yngri. Þú ert augljóslega fyrir áhrifum frá leikhúsinu, tónlist, bókmenntum og lífinu öllu. Hvert sækir þú innblástur?

„Það er erfitt að segja því ég sæki innblástur víða en það er mjög oft ákveðin menningarleg spenna sem er minn innblástur. Listaverkin mín eru um menningu. Þetta er list um list. Ég sæki mikið í samhengi hlutanna, menningarlegt samhengi hlutanna. Verkin eru yfirleitt fædd í ákveðinni dínmík eins og til dæmis minnisvarðinn á torginu í Munchen. Í Munchen er allt svo hlaðið af sögu.“

Ragnar vísar í gjörninginn og skúlptúrinn Til minningar frá árinu 2013 sem er finna í Porti Hafnarhússins. Verkið er hvítur marmarastallur með áletruninni: „Alles was er wollte war zu onanieren und Pralinen zu essen – Allt sem hann langaði var að fróa sér og borða konfekt“, sem settur var upp á Gartnerplatz-torginu í Munchen innan um nýklassískan arkítektúr í anda hefðbundna minnisvarða.

„Sagan er hlaðin ofbeldi og verkið er í raun verk um einhvern sem gerði engum neitt. Orðin virka agressíf en þau eru það ekki. Munurinn á einhverjum sem vildi bara fróa sér og borða konfekt og einhverjum sem vildi sölsa undir sig lönd og héröð og kúga fólk. Þetta er í raun minnisvarði um meinleysingjann.“

Þú talar um að gjörningarnir hafi fangað þig í Myndlistarskólanum. Hvað er það sem heillar þig mest við gjörningalistina annars vegar og sviðsetningar hins vegar?

„Þegar ég var að byrja að fikta við gjörninga þá var þetta tiltölulega nýtt listform hér á landi. Það fannst mér heillandi. Upphafsmanneskja eins og Carolee Schneemann er enn á meðal okkar. Þetta er það nýtt. Ég heillaðist líka af því hvað krafturinn í gjörningaforminu var kvenlegur. Þetta var allt svo nýtt í listasögunni. Kvenlíkaminn sem var búinn að vera undirgefinn í gegnum alla listasöguna, allt í einu fór hann að vera með kjaft. Síðan finnst mér spennan milli raunveruleikans og sviðsetninga mjög spennandi.

Finnst þér myndlistin þá raunverulegri heldur en leiklistin eða tónlistin?

„Myndlistin er rosalega raunveruleg. Marcel Duchamp breytti öllum forsendum og það getur enginn gert listaverk í dag án þess að vera undir áhrifum frá honum. Hans verk í einhverjum leik fór að setja allt í eitthvað samhengi. Hann vildi fyrst og fremst gera eitthvað sem honum fannst skemmtilegt. Það var hans hvati. Ég leyfi mér líka að gera það. Það er eitthvað sem myndlistin hefur, það er erfitt að segja hvað það er nákvæmlega en hún er á einhvern hátt raunverulegri en aðrar listgreinar.“

Þú hefur samt sagt að þú tryðir ekki á sannleika listarinnar. Er það rétt?

„Ha, sagði ég að ég tryði ekki á sannleika listarinnar? Ég trúi nefnilega svo geðveikt á sannleika listarinnar. Listin er svo raunveruleg og hún er sannleikur. Þetta hlítur að hafa verið tekið úr samhengi. Mér finnst lygin líka svo heillandi sannleikur. Hvernig við ljúgum að okkur sjálfum. Ég lýg ógeðslega mikið að sjálfum mér og þannig er ég sannur í minni myndlist.“

Nú eru verkin þín hlaðin trega og húmor, endurtekningu og kaldhæðni, léttleika og mikilfengleika, lífi og dauða. Finnst þér gott að hugsa í andstæðum?

„Þessar andstæður mynda alltaf dramatíska spennu. Gott dæmi um andstæðuverk er Stúka Hitlers frá árinu 2006, þar sem ég er að vinna með harm og mesta viðbjóð mannkynssögunnar. Ég hringdi í Helga Björns. Hann útvegaði mér einkastúku úr leikhúsinu Admiralspalast í Berlín sem smíðuð var fyrir Hitler árið 1941 og til stóð að rífa. Allt í einu er stúkan orðið geðveikt hversdagsleg og tengd við okkur Helga Björns. Meinlaust á móti því hræðilegasta sem hefur gerst í mannkynssögunni. Það finnst mér magnað. Ég er mjög ánægður með það verk og hvernig þessi element smella þar saman.

Hvað getur þú sagt lesendum artzine um titil sýningarinnar: Guð, hvað mér líður illa. Hvaðan kemur titillinn?

„Titillinn er heiti á teikningu eftir mig frá árinu 2008. Ég hitti manninn sem á hana á kaffihúsi og þá mundi ég svo geðveikt eftir þessari teikningu.“

Leið þér þá illa þegar þú gerðir þessa teikningu?

„Já, mér leið alveg rosalega illa þegar ég gerði hana.“

Ertu oft að vinna með tilfinningar og eigin líðan?

„Já, ég vinn rosalega mikið með tilfinningar. Ég leyfi mér að leika mér með tilfinningar. Ég er alinn upp með fólki í leikhúsinu, sem er alltaf að manipulera tilfinningar. Fólk í leikhúsinu er alltaf að ná fram tilfinningum með brögðum og mér finnst það mjög heillandi. Tilfinningar og trix, mér finnst það mjög spennandi fyrirbæri.“

Elsta verkið á sýningunni er serían Trúnaður sem Ragnar vann með Magnúsi Sigurðarsyni listamanni og vini árið 2004. Ragnar talar um Magnús sem mikinn áhrifavald.

„Mér finnst svo gaman að elsta verkið á sýningunni er verkið Trúnaður, sem ég vann með Magnúsi Sigurðarsyni. Það er ótrulega mikið af elementum í því verki sem birtast síðar í öðrum verkum. Magnús er svo stórkostlegur listamaður og ég hef fengið svo mikið af minni sýn frá honum. Hann hefur haft alveg svakalega mikil áhrif á mig sem listamann.“

Það virðist einmitt sem ákveðinn rauður þráður liggi í gegnum verkin og á milli þeirra sé samtal. Ertu alltaf að fást við sömu stefin eða eru verkin sprottin af ólíkum toga?

„Ég held að ég sé alltaf að fást við sömu stefin. Mér finnst ég eiginlega alltaf vera að gera sama verkið. Ég veit ekki um neinn listamann sem er ekki alltaf að gera sama verkið“, segir Ragnar og hlær!

Það væri hægt að líkja sumum verkum þínum við súrrealíska drauma. Þau eru draumkennd, ljóðræn eða írónísk, einlæg og grípandi. Áhorfendur hafa orðið fyrir sterkum hughrifum, eins og vellíðan, forvitni, sorg, gleði og mikilfengleika.

„Þau eru draumkennd en ég hef aldrei haft gaman að súrrealisma og ég hef aldrei haft gaman af ímyndunaraflinu.“

En þú ert greinilega með mjög frjótt ímyndunarafl!

„Mér finnst ég ekki vera með frjótt ímyndunarafl. Mér finnst ég frekar vera með uppskrift af ímyndunarafli og í raun er ég alltaf að setja saman einhver element úr menningu okkar.“

En hvernig líður þér sem listamanni þegar þú getur með verkum þínum haft þessi miklu áhrif á fólk?

„Mjög vel en ég passa mig að vera ekki að gera alltaf verk sem ganga út á það. Stundum gerist það óvart og það er gaman. Í öðrum verkum er það einhver allt önnur tilfinning sem ræður ríkjum. Ég passa mig að hugsa ekki of mikið um hvernig áhrif verkið mun hafa á áhorfandann. Ég verð sjálfur fyrir miklum áhrifum frá allra handanna list í kringum mig. Stærstu áhrifin og upplifun mín á listaverki var þegar ég sá Merde d´Artista dósina eftir Manzoni. Tíminn og dauðinn er svo magnaður í þessu verki. Þetta hefur haft mikil áhrif á mig og það eru alls konar verk sem hafa haft djúp áhrif á mig.“

Þú hefur sagt að þú haldir í raun að eina sanna listin felist í því að njóta listar.

„Já, ég held að ég hafi sagt það. Þá er ég bara að leggja áherslu á það að það að njóta listar er svo geðveikt gaman.“

Lítur þú á listsköpun og listupplifun sem einskonar heilun fyrir listunnendur og listamenn?

„Já, algerlega. Friðrik mikli Prússakonungur, hann trúði ekki á Guð, hann trúði á listina. “

Trúir þú á Guð eða trúir þú á listina?

„Ég held ég trúi bara á listina.“

En þú ávarpar Guð í titli sýningarinnar.

„Ég trúði einu sinni alltaf á Guð. Kannski ekki lengur. Meira á listina því hún er svo rosalega mannleg.“

Í fréttatilkynningu er talað um að Heimsljós – líf og dauði listamanns frá árinu 2015 sé eitt mikilvægra verka á sýningunni. Hvað getur þú sagt mér um þetta fjögurra rása myndbandsverk?

„Verkið er tilraun og í raun yfirlýsing um að taka skáldsögu og gera stórt kúbískt málverk úr henni. Skáldsagan er í fjórum bindum. Hver skjár er ein bók og svo eru þær þarna saman í rúlettu, sulli af fegurðarþrá. Verkið er um fegurðarþrána. Heimsljós er um fegurðarþrána og við erum að reyna að spegla Heimsljós. Þetta er allt um að þrá að gera eitthvað fallegt en takast það ekki og absurdítetið, fáránleikann við að vera að reyna að leika þessa bók. Allt eru þetta listamenn að spegla listaverk sem er skrifað af manni sem er að reyna að spegla listamann sem er að hugsa um listina. Magnús H.J. Magnússon var ógæfupési á Vestfjörðum um aldarmótin 1900 sem skrifaði dagbækur og langaði að spegla fegurðina í kringum sig. Laxness hreifst af dagbókum hans og gerði þetta mikla skáldverk um listamanninn sem er að reyna að endurspegla fegurðina. Fegurðarþráin étur upp líf hans. Nú er ég að reyna að endurspegla þessa fegurðarþrá. Ég lít á þetta sem endurspeglun á endurspeglun á endurspeglun.“

Lestu mikið?

„Já, ég les frekar mikið. Ég er bókaormur en les hægt. Heimsljós er mitt helsta trúarrit í þessum húmanisma. Ég dýrka þessa bók og ég held að fá listaverk hafi haft meiri áhrif á mig en Heimsljós. Þetta er mín leið til að reyna að endurspegla þetta verk. Þetta byrjaði sem gjörningur í Vínarborg. Lokaniðurstaðan er kúbískt málverk um Heimsljós því kúbisminn gengur út á að sýna hlutina frá mörgum hliðum samtímis. Það er engin söguþráður í þessu og kvikmyndin sem slík varð aldrei til.“

Þú ert mjög duglegur að fá fólk með þér í lið, aðra skapandi listamenn, vini og samstarfsfólk. Finnst þér gefandi að vinna með fólki?

„Mér finnst það bara rosalega gaman. Það felast í því mjög uppbyggileg og skemmtileg mannleg samskipti, það að hafa samband við fólk útaf listinni. Það er mjög gefandi. Kona í e-moll varð til í borginni Detroit því ég var forvitinn um tónlistarsenuna þar. Það er svo mikið af konum í tónlistarsenunni í Detroit. Þetta verk var í raun um Detroit í upphafi og tilvitnun í Motown. Ég kynntist borginni og tónlistarsenunni í gegnum verkið og konunum sem komu og tóku þátt.“

Er ekkert erfitt að fá fólk til að taka þátt í þessum gjörningum?

„Við auglýstum og það gekk mjög vel. Ég held að fólk hafi bara verið forvitið og langað að prófa. Það er hægt að gera margt leiðinlegra en að taka þátt í listaverki. Ég er ófeiminn við að spyrja fólk og reynslan sýnir að fólk sem hefur tekið þátt í þessum verkum er ánægt og það hefur haft rosalega jákvæð áhrif á það. Ég hef aldrei lent í því að neinn sé óhamingjusamur að pína sig í gegnum verkin. Þetta snýst ótrúlega mikið um ánægju. Það að vinna listina af ánægju, avec plaisir!“

Með aukinni viðurkenningu og velgengni kemur aukin pressa. Hvernig finnst þér að vinna undir álaginu sem fylgir því að vera viðurkenndur og heimsfrægur listamaður?

„Það er mjög skrítið að vera búinn að gera verk sem fólk skilur. Þú ert búinn að sanna þig fyrir sjálfum þér.“

Gengur þetta allt út á að sanna sig fyrir sjálfum sér?

„Þetta er allt öðruvísi en fyrir tíu árum þegar maður var bara að byrja. Maður byrjar í listinni í einhverri mótspyrnu. Eins og það sem við vorum að tala um varðandi Duchamp. Maður byrjar í andstöðu við eitthvað sem manni finnst leiðinlegt og maður er að reyna að gera eitthvað sem er öðruvísi. Allt í einu er það sem maður er að gera orðið viðurkennt og það er smá skrítið. Nú er ég orðinn stofnun. Ég er búinn að sanna mig og nú get ég bara verið myndlistarmaður. Ég er farinn að vinna út frá því að vera listamaður en ekki að pósa sem listamaður. Ég hef alltaf haft einhvern sturlaðan metnað sem er bæði galli og kostur. Stóri munurinn er að ég talaði alltaf eins og ég væri ekki listamaður. Mér fannst ég aldrei vera listamaður. Núna finnst mér ég geta sagt að ég sé myndlistarmaður. Það er mjög stórt skref fyrir mig.

Margir að mínum uppáhalds listamönnum hafa ekki þessa brennandi þörf fyrir viðurkenningu sem ég hef en þessi þörf hefur verið svo mikill drifkraftur. Listin er hluti af mér.“

Ástríður Magnúsdóttir


Ljósmyndir: Daníel Magnússon

Ljósmyndir frá opnun og af titilverki: H.Ó.

Frekari upplýsingar: i8.is / www.luhringaugustine.com/artists/ragnar-kjartansson /  http://listasafnreykjavikur.is/syningar/ragnar-kjartansson-gud-hvad-mer-lidur-illa

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest

Share This