Fimmtudaginn 26. maí kl. 12.15-12.45 verður boðið upp á síðustu leiðsögnina um ljósmyndasýninguna Fólk / People í Listasafninu á Akureyri, en sýningunni lýkur næstkomandi sunnudag 29. maí. Hlynur Hallsson safnstjóri tekur á móti gestum og fræðir þá um sýninguna.

Aðgangur er ókeypis.

Á sýningunni má sjá verk sjö listamanna sem eiga það sameiginlegt að vinna með ljósmyndir þó að viðfangsefnið „fólk“ sé ef til vill ekki það fyrsta sem kemur í hugann þegar sum verk þeirra eru skoðuð. Listamennirnir eru Barbara Probst, Hallgerður Hallgrímsdóttir, Hrafnkell Sigurðsson, Hrefna Harðardóttir, Hörður Geirsson, Ine Lamers og Wolfgang Tillmans.

Hvernig birtumst við á myndum? Hvaða mynd fær fólk af okkur? Ljósmyndasýningin Fólk / People segir áhorfandanum sögur af fólki og gefur innsýn í verk sjö listamanna sem allir vinna með ljósmyndir á ólíkan hátt. Á dögum sjálfsmyndanna (e. selfie) hafa portrettmyndir öðlast nýja merkingu og hér gefur að líta fólk í ólíkum aðstæðum séð með augum ólíkra listamanna í gegnum linsur fjölbreyttra myndavéla.

Barbara Probst (f. 1964) tekur myndir af aðstæðum á nákvæmlega sama sekúndubroti. Smáatriði og heildarmynd gefur áhorfandanum heillandi yfirsýn í aðstæður á götuhorni á Manhattan. Hallgerður Hallgrímsdóttir (f. 1984) myndar ungt fólk í dagrenningu á björtum sumarmorgnum í Reykjavík. Ungt fólk sem ef til vill er að ljúka deginum eða að hefja nýjan. Í verkum Hrafnkels Sigurðssonar (f. 1963) skynjum við nærveru fólks án þess að sjá það. Blautir sjóstakkar í skærum litum gefa til kynna erfiðisvinnu við misjöfn skilyrði. Í myndum Hrefnu Harðardóttur (f. 1954) má sjá athafnakonur á sínum eftirlætisstað. Konur sem eiga margt sameiginlegt en hafa þó ólíkan bakgrunn bæði bókstaflega og huglægt. Hörður Geirsson (f. 1960) notar votplötutækni frá lokum 19. aldar til að taka myndir af fólki á miðaldardögum á Gásum við Eyjafjörð og skapar þannig stemningu liðins tíma. Ine Lamers (f. 1954) myndar konu í kvikmyndaveri og fjallar um mörkin á milli veruleika og kvikmyndar. Wolfgang Tillmans (f. 1968) tekur myndir af fólki eða líkamshlutum í neðanjarðalestum í London. Fólk sem er á ferðinni á annatíma og tekur jafnvel ekki eftir því að það sé ljósmyndað.

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest

Share This