Hrukkur, árfarvegir og áferð -Helga Arnalds sýnir í SÍM salnum

by | 22.05. 2017

Nýlega opnaði einkasýning Helgu Arnalds LÍFSMYNSTUR í SÍM salnum í Hafnarstræti. Á sýningunni er að finna akrílmálverk, blekteikningar, ljósmyndir og monoþrykk sem öll eiga rætur sínar í mynstri náttúrunnar og mannslíkamans. Myndirnar eru sumar abstrakt en aðrar hlutbundnar. Þær eru sterkar og tala til áhorfandans. Nærvera og sterkt augnaráð móðurömmu Helgu eru greinilegt á sýningunni. Helga nær að fanga dýptina sem býr í andliti hennar. Til þess notar Helga akrílliti og sterkan þykkan pappír. Meðferð litanna og gróf áferð pappírsins minnir um margt á grófgerða náttúruna eða andlitið þegar það er farið að eldast.

Náttúran hefur löngum fangað listamenn og verið þeim innblástur. Manneskjan og mannsandinn hafa einnig verið viðfangefni listamanna í aldanna rás. Helga nær á sýningu sinni að fanga bæði náttúruna og manneskjuna í verkum sínum og samtalið sem á sér stað milli manns og náttúru. Grafísk mynstur af öllum tegundum hafa löngum heillað Helgu og þessi lífsmynstur hafa haft mikil áhrif á hana, bæði í myndlistinni og leikhúsinu.

Stórar pappírsarkirnar minna á leikhústjöld enda er Helga þaulreynd leikhúsmanneskja og hefur starfað við leikhús í fjölda ára. Hugmyndin um að fanga nærveru ömmu sinnar og söguarf hennar kom fyrst upp þegar Helga var við nám í Listaháskólanum. Þá fékk hún leyfi hjá ömmu sinni til að taka hana upp á myndband við það að segja sögur, en við þá vinnu áttaði Helga sig á því hversu hlaðið fegurð, dýpt og visku andlit hennar var og hversu mikið það minnti annars vegar á textíl og hins vegar á náttúruna þegar ferðast er um landið að vetrarlagi. Augnaráð ömmu Helgu hefur fylgt henni. Nú má sjá það á stórum pappírsörkum kallast á við minni myndir, monoþrykk og ljósmyndir sem Helga hefur raðað saman í mengi og eru innblásnar af náttúru Íslands.

Myndirnar eru sumar hverjar óræðar og mætti trúa að heilmikil saga búi í þeim. Í samtali við artzine talar Helga um að í þeim búi sögur, einskonar hversdagssögur. Hún segir einnig „að náttúran hafi sínar leiðir til að búa til mynstur, til dæmis þegar vindurinn blæs lengi úr einni átt og mynstur myndast í sandi eða snjó eða þegar jörðin frýs og þiðnar á víxl og þúfur mótast eða þegar vatnið rennur niður hlíðina og teiknar í hana mynstur.

Það sama gerist þegar við eldumst og hrukkur mynda sitt mynstur í húðinni. Þá er oft hægt að lesa heilt líf úr einu mannsandliti og sjá hvaða vindar hafi blásið“. Helga talar um að þetta séu alls kyns mynstur; hrukkur, árfarvegir, þúfur, áferð og endurtekning á formum sem finna má í náttúrunni og að oft hafi henni fundist þessi mynstur líkjast hvert öðru og endurtaka sig á ólíkum stöðum í ólíkum stærðarhlutföllum. „Mér finnst ég sjá, á einhvern fallegan hátt, hvernig manneskjan speglast í náttúrunni og náttúran í manneskjunni.“

Helga Arnalds er fædd árið 1967 í Reykjavík. LÍFSMYNSTUR er hennar fyrsta einkasýning innan myndlistar en hún á sér langan og farsælan feril sem leikhúslistakona og hefur í mörg ár starfað við leikhús á Íslandi og erlendis. Helga lagði stund á myndlist í Listaháskóla Íslands og útskrifaðist þaðan með BA gráðu árið 2008. Frá þeim tíma hefur hún fléttað saman leikhúsi og myndlist. Hún hefur hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar fyrir verk sín í leikhúsi. Meðal annars Grímuna árið 2015 fyrir leiksýninguna LÍFIÐ sem var valin besta barnaleiksýning ársins og Sproti ársins. Árið 2012 var sýning hennar Skrímslið litla systir mín valin barnasýning ársins. Nýverið var það verk sett upp í nýrri útgáfu með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Helga hlaut einnig Íslensku Bjartsýnisverðlaunin árið 2012. Undanfarið ár hefur Helga verið búsett í Danmörku þar sem hún hefur sótt áframhaldandi nám í myndlist ásamt því að þróa áfram sínar eigin aðferðir í leikhúsvinnu.

Ástríður Magnúsdóttir


Ljósmyndir af verkum: Elín Laxdal, ljósmynd af Helgu Arnalds: Jóhanna Þorkellsdóttir

Sýningin LÍFSMYNSTUR er í SÍM salnum, Hafnarstræti.
Opið er alla virka daga frá 10-16 til 24.maí.
Frekari upplýsignar má finna á: www.tiufingur.is og sim.is

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest

Share This