Hinsegin list eða pólitísk barátta?

21.11. 2018 | Viðtöl

Frá árinu 2015 hefur sýningarrýmið Gallerí 78 verið rekið í samvinnu við Samtökin ’78 í Suðurgötu 3. Gallerí 78 heldur að meðaltali 6 sýningar á ári sem eiga það sameiginlegt að kynna aðeins list eftir hinsegin listafólk. Blaðamaður artzine kíkti í heimsókn til að ræða starfsemina við sýningarstjórana Ásdísi Óladóttur og Yndu Gestsson.

Vettvangur fyrir hinsegin sýnileika

Yndu hafði lengi dreymt um að opna sýningarrými á Íslandi sem helgað væri hinsegin list. Þegar hún sneri aftur til landsins eftir doktorsnám í safna- og listfræði á Englandi leitaði hún til listfræðinemans og ljóðskáldsins Ásdísar Óladóttur og bar hugmyndir sínar undir hana.

Sýningarstýrurnar Ynda Gestsson og Ásdís Óladóttir

„Ég vissi að Ásdís var í listfræði við Háskóla Íslands og að hún þekkti vel til hinsegin listafólks hér á landi,“ útskýrir Ynda. „Strax í upphafi tók Ásdís þátt í því að móta stefnuna, með því að benda mér á listafólk sem gæti sýnt í galleríinu. Þekking hennar og reynsla voru mjög mikilvægir þættir í að koma þessu í gang.“

„Það var ákveðið að koma á skipulagðri sýningarstarfsemi hér í Suðurgötu 3, vegna þess að húsnæðið býður upp á svo margt,“ bætir Ásdís við. „Gluggarnir eru stórir og hleypa ljósinu inn – svo er aðgengið mjög gott vegna þess að við erum á jarðhæð. Myndlistin sést því vel utanfrá.“

Ynda og Ásdís segja það mikilvægan þátt í starfsemi samtakanna að hafa hinsegin list sýnilega. Fyrir þeim er myndlist uppbyggjandi leið til að miðla bæði þekkingu og reynslu hinsegin fólks innan og utan hinsegin samfélagsins.

Listafólk og nöfn á verkum frá vinstri til hægri: Stiofan O’Ceallaigh, Decisions-Decisions 2016, Khalil Rasheed 2018, West Without Title 2018, Jez Dolan, More Joy 2018, Rosanne Robertson, DESTROY-DUCHAMP 2018

„Það er hægt að vera listamanneskja á þeim forsendum að vera hinsegin og deila persónulegri og félagslegri reynslu sinni með listunnendum, ,“ upplýsir Ynda. „Þetta skipti mjög miklu máli þegar AIDS faraldurinn kom upp. Það var margt hinsegin listafólk sem tókst á við þessa erfiðu reynslu með list sinni. Þar mætti til dæmis nefna Nemes verkefnið sem hófst árið 1987: risastórt bútasaumsteppi til minningar um þá sem hafa látist úr AIDS í Bandaríkjunum. Á teppinu eru nöfn þeirra sem létust ásamt minningarorðum. Þetta framtak hafði gífurleg áhrif á sýnileika hinsegin fólks og hinsegin listar, að ógleymdum sársaukanum.”

Að staðsetja sig fyrir utan svigann

Hinsegin list snýst ekki bara um harm, heldur líka gleði og sigra sem taka á sig form í margs konar miðlum. Aðspurðar um hvað geri list hinsegin svöruðu þær að það væri í raun skilgreiningaratriði.

„Það eru nokkrar leiðir til að skilgreina hinsegin list. Þær helstu eru að allt hinsegin fólk sem býr til myndlist geri hinsegin list – burtséð frá því hvort það sé að tala út frá hinsegin reynslu eða mála myndir af Esjunni,“ útskýrir Ynda. „Hin skilgreiningin er að til þess að hægt sé að tala um hinsegin list, þá verði listin að fjalla um það sem snertir reynsluheim hinsegin fólks.“


Qasim Riza Shaheen. Left to right, When you left I dyed in my favourite colour 2010, Left to right, I cried till I turned my bath water blue 2010, 
Left to right I loved you at 01.13 2010, Left to right Old-habits die hard 2010

Gallerí 78 hefur verið gagnrýnt fyrir að sýna eingöngu hinsegin list og fólk hefur tekið því sem útilokun. En Ynda og Ásdís segja rekstur gallerísins byggja á pólitískri formúlu og orðræðuhefð sem hefur margsinnis virkað, en það er aðferðafræði feminista sem felst í því að taka hóp út fyrir sviga og gera hann sýnilegan á sínum eigin forsendum. Sem dæmi mætti nefna Gallerí Langbrók og og önnur sýningarými sem sýndu aðeins myndlist eftir konur og voru rekin af kvennréttindakonum.

Ynda og Ásdís segja hinsegin baráttu vera pólitíska baráttu og hinsegin list að nokkru leyti vera það líka. Markmið gallerísins er því ekki að stimpla fólk fyrir að vera eitt eða annað, heldur að hafa stað þar sem hinsegin list er í brennidepli. Barátta transfólks fyrir sýnileika birtist t.a.m. í sýningum gallerísins og á sú umræða mikið erindi – sérstaklega um þessar mundir, þegar transfólk þarf hvað mest á viðurkenningu að halda. Núverandi ástand í heiminum gefur ennþá meiri ástæðu til að reka gallerí af þessu tagi, til að vinna á móti feðraveldinu og því kerfi sem elur á fordómum í garð hinsegin fólks. „Enn þann dag í dag er fólk drepið fyrir það að vera hinsegin,“ segir Ynda. “Til dæmis féllu hátt í 400 trans manneskjur fyrir hendi morðingja árið 2017 fyrir utan samkynneigða sem hafa látið lífið vegna stjórnmálaástandsins í heiminum.“

10 leiðbeiningar (fyrir hinsegin listafólk)

Sýningin sem er í gangi um þessar mundir í Gallerí 78 ber heitið Tíu leiðbeiningar (fyrir hinsegin listafólk)Ynda og Ásdís stýrðu sýningunni ásamt breska myndlistarmanninum Jez Dolan – en sýningin samanstendur af verkum eftir tólf breskar listamanneskjur (Joseph Cotgrave, Jez Dolan, Garth Gratrix, Cheryl Martin, Joshua Val Martin, Stiofan O’Ceillaigh, Richard Porter, Rosanne Robertson, Qasim Riza Shaheen, Debbie Sharp, Khalil Rasheed West og Phil Sayers). Þetta er í fyrsta skipti sem hópur af erlendum hinsegin listamanneskjum er fenginn til að sýna á Íslandi og markar sýningin því stór tímamót í kynningu á verkum hinsegin myndlistafólks.


Joshua Val Martin, Ten Directions (for-queer-artists) 2018

Sýningin byggir á hugmyndum Marcel Duchamp um leiðbeiningarverk, sem urðu að þekktu listform með tilkomu Fluxus hópsins, m.a. Yoko Ono. Listafólkið leikur sér með leiðbeiningarhugtakið og túlkar það á marga mismunandi vegu. Á sýningunni eru bæði teikningar og ljósmyndir sem miðla upplifunum til áhorfandans, sem eru bæði fjölbreyttar og persónulegar. Myndirnar eru hengdar upp þannig að þær eru afmiðjaðar til að undistrika jaðarsetningu hinsegin fólks.

Til þessa hefur galleríið einbeitt sér að íslenskri hinsegin myndlist, en með sýningunni vilja Ynda og Ásdís hefja samtal, og leggja grunn að sýningum íslensks hinsegin listafólks erlendis.

Sýningarnar sem haldnar hafa verið í Gallerí 78 hafa oft á tíðum verið margbreytilegar og spennandi. Listamenn á borð við Hrafnkel Sigurðsson, Sigmar Stórholt, Öldu Villiljós og Logn Draumland hafa sýnt þar, en næst (15. desember) mun Skaði Þórðardóttir sýna verk sín.

Sólveig Eir Stewart


Aðalmynd með grein: Verk Debbie Sharp, Queer Instructions 2018
Ljósmyndir: Birtar með leyfi Gallery 78

Sýningin 10 leiðbeindingar (fyrir hinsegin listafólk) mun standa opin til 8. desember í Gallerý 78.
Opnunartímar eru frá 13:00 til 16:00 alla virka daga. Öll velkomin.

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest

Share This