Hin náttúrulegu og manngerðu tilvistarstig svampa

15.02. 2020 | Umfjöllun

Anna Rún Tryggvadóttir myndlistarkona hefur undanfarin misseri dvalið í vinnustofudvöl við Künstlerhaus Bethanien (KB) í Berlín en íslenska ríkið hefur eins og mörgum er kunnugt nýlega gert samning við stofnunina um að styrkja fimm listamenn til vinnustofudvalar á jafn mörgum árum. Áður hafa íslensku listamennirnir Egill Sæbjörnsson, Erla Haraldsdóttir, Ólafur Ólafsson/Libia Castro, Sveinn Fannar Jóhannsson og nú síðast Hulda Rós Guðnadóttir starfað undir verndarvæng stofnunarinnar með hjálp frá hollenskum sænskum, norskum og íslenskum listasjóðum og einkaaðilum. Anna Rún sem útskrifaðist með M.A. gráðu frá Concordia University í Montreal í Kanada árið 2014 flutti til Berlínar ásamt fjölskyldu sinni árið 2016 og þekkti því ágætlega til Berlínar áður en hún hóf dvöl sína. Þann16. janúar síðastliðinn opnaði síðan einkasýning Önnur Rúnar An Ode – Poriferal Phases’ í sýningarstjórn Birtu Guðjónsdóttur en Birta er einn af þeim fjölmörgu alþjóðlegu sýningarstjórum sem heimsækja vinnustofu listamannana stofnunarinnar með reglulegu millibili.

Innsetningin ‘An Ode – Poriferal Phases’ frá 2019 á sýningu í Künstlerhaus Bethanien í Berlín

undanförnu hefur Anna Rún unnið mikið með mótóra sem knúa fram hringsnúning og er það einnig í ‘An Ode – Poriferal Phases’. Í rúmum 100 m2 sýningarsal KB snýst fjöldi höggmynda rangsælis á hraða sem rétt svo er skynjanlegur. Anna Rún bendir á að Vesturlandabúar upplifa tíma línulegan en það samsvari sig ekki við virkni vistkerfisins sem gangi í hringi. Með því að ganga þvert á það og búa til línulegan tíma eins og Vesturlandabúar hafa gert þá höfum við hætt að hugsa um okkur sem hluta af stærra samhengi, lengri tímahringjum. Í stuttu spjalli á uppsetningartíma sýningarinnar bendir Anna Rún á vitleysuna sem felst í því að við vörpum gangi hinnar manngerðu klukku á skynjun okkar og tölum um að það sem gangi réttsælis sé leið inn í framtíðina en það sem gangi rangsælis sé leið tilbaka í fortíðina. Viðhorfið endurspeglast í orðunum sjálfum, rétt og rangt, fortíð og framtíð, andstæður á línulegum ás.


Vídeóheimild af mótorhringsnúning á sýningunni.

Það er ekki einungis snúningur verkanna sem vekur upp spurningar. Í efnisnotkun og samsetningu verkanna er telft saman iðnaðarframleiddum polyurethane svömpum og náttúrulegum svömpum. Þó svo verkið beri titilinn óður er hér ekki um vegsemd á náttúrunni að ræða heldur er verið að sýna það sem er til og er að gerast í veröldinni, bæði manngert og náttúrusprottið. Anna Rún bendir á mikilvægi þess að taka ábyrga afstöðu út frá því að horfast í augu við það sem við erum að gera. Sjálf segist hún þverstæðuna í ástandi heimsins vera að finna í hennar eigin nálgun. Hún sé jafn sek í ágangi sínum á náttúruna og hver annar. Það sé mikilvægt að hafa í hug að enga galdralausn sé að finna.

Höggmynd úr innsetningunni ‘An Ode – Poriferal Phases’. Hinu manngerða og náttúrsprottna teflt fram. Grjót frá Skandinavíu sem fært hefur verið til Þýskalands af náttúrunnar hendi.

Anna Rún telur að spurningin um hið náttúrlega annars vegar og hið manngerða hins vegar sé ein af mikilvægustu spurningum framtíðarinnar. Að tefla saman náttúrunni og hinu manngerða sem andstæðum er hluti af gamalli vestrænni tvíhyggju og mun áhugaverðara sé að skoða þessi fyrirbæri út frá því að mörkin séu mun óskýrari. Hvenær hættir eitthvað efni að vera náttúrulegt? Ef efninu er skilað aftur eftir manngerðar breytingar á því verður það þá aftur náttúra? Er það sem mennirnir gera ekki hluti af náttúrunni? Erum við ekki náttúruleg? Anna Rún veltir þessum spurningum upp í ljósi þess að undanfarið hafa breytingar auðvitað gerst mjög hratt. Við búum á tímum sem nefndir hafa verið ‘Tími hröðunar’ þar sem hoppað er í stórum skrefum. Í þannig aðstæðum verður íhlutun mannanna afdrífaríkari. Hlutirnir fái ekki að gerast á sínum hæga hraða þar sem allir aðilar geti aðlagast. Anna Rún telur að mannkynið hafi verið fast í því hugarfari að við getum gert allt sem okkur dettur í hug og sjáum svo bara til hvað gerist. Það sé hinsvegar mikilvægt að skoða allar hluti til enda og hvaða afleiðingar gjörðir okkar hafa. Þessar pælingar Önnu Rúnar sjást vel í verkinu. Höggmyndirnar eru flestar að ganga í gegnum hægar breytingar þar sem allt getur gerst og útkoman er óviss. Saltvatn er látið leka hægt á hlutina og storkna. Mjúkir svampar verða harðir eins og grjót. Sjálf segir Anna Rún að verkin séu að fremja efnislegan gjörning. Þetta séu í raun og veru gjörningahöggmyndir.

Höggmynd úr innsetningunni ‘An Ode – Poriferal Phases’.

Annað efni sem hefur verið ríkjandi í verkum Önnu Rún er grjót ýmiskonar. Henni finnst mikilvægt að nota grjót sem hefur öðlast menningarlegt gildi í því samhengi sem hún er að vinna og sýna hverju sinni. Að þessu sinni er hún að sýna í Þýskalandi og því valdi hún grjóthnullunga sem finnast víða um norðurhluta Þýskalands og hafa verið fyrir bændum þegar þeir búa til tún. Þeim er því safnað saman á grjóthnullungaruslahauga þar sem Anna Rún sótti sitt grjót. Það sem er áhugavert við þetta grjót er að hér er um granít að ræða sem rutt var fram við lok síðustu ísaldar en á uppruna sinn í norðri sem nú kallast Skandinavía. Hér er því fyrirbæri á ferð sem oft kemur til tals í sambandi við hið manngerða en það er spurningin um hvað sé staðbundin og hvað tilheyri öðrum stað. Hér hefur náttúran sjálf verið að verki og flutt efni sem á heima í Skandinavíu til meginlands Evrópu þar sem það finnst ekki fyrir og birtist eins og aðskotahlutur. Þetta gerist á allt öðrum og hægari tímaskala en á þeim tíma hröðunar sem við upplifum í dag þegar gjörðir mannanna eru að hafa mikil áhrif á stuttum tíma.

Höggmynd úr innsetningunni ‘An Ode – Poriferal Phases’. Náttúran færð inn í hús.

Vídeóverk og höggmynd úr ‘An Ode – Poriferal Phases’. Myndbandsverk sem sýnir íhlutun listamanns í náttúrunni.

Þyngdarpunktur sýningarinnar er 5 metra langur trjábolur sem snýst rangsælis í hringi og blasir við áhorfendum þegar þeir ganga inn í salinn. Til mótvægis sýnir myndbandsverk svipaðan gjörning framkvæmdan út í náttúrunni þar sem hringlaga gras snýst á sama hátt. Listamaðurinn hefur þarna átt við náttúruna. Hún er óhrædd við að grípa inn í og gerir sér grein fyrir að náttúran er sífellt að taka breytingum. Náttúran er þannig ekki eilíf, alla vega ekki í sömu mynd. Hún er ekki hið ægifagra óbreytanlega í andstöðu við dauðleika manns og dýra. Sýningarstjórinn Birta Guðjónsdóttir bendir á í texta sínum um sýninguna að með því að koma með náttúruna inn í hús sé listamaðurinn að velta fyrir sér hvað það sé í okkur mannfólkinu sem geri það að við viljum vera umlukin náttúru. Á sama tíma erum við haldin ‘náttúrulegri’ þörf til að leika okkur í henni og með hana. Spurningin er ef til vill á hvaða tímaskala það er gert og hvaða afleiðingar það hafi. Hér er ekkert svart og hvítt, neikvætt eða jákvætt. Íhlutun, hvort sem eitt náttúrulegt efni eða atburður hlutast í við annað á sjálfsprottinn hátt eða fyrir tillstilli dýra eða manna, er það sem gerist í sífellu á öllum punktum í hringferð tímans.

 

Hulda Rós Guðnadóttir

 

Cover picture: Anna Rún Tryggvadóttir. Mynd eftir Sögu Sigurðardóttur.

Photo Credit: Anna Rún Tryggvadóttir and Saga Sigurðardóttir.

About the exhibition: https://www.bethanien.de/en/exhibitions/anna-run-tryggvadottir/

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest

Share This