Gjörningaklúbburinn í 20 ár

5.06. 2016 | Viðtöl

Í apríl síðastliðunum átti Gjörningaklúbburinn 20 ára starfsafmæli og á þeim tíma hefur verið í nógu að snúast.  Þær Eirún, Jóní og Sigrún hafa ögrað í gegnum tíðina með ýmsum efnistökum. Ég settist niður með þeim í spjall um það sem hefur verið í forgrunni í starfseminni en um þessar mundir eru þær í forvali fyrir Feneyjartvíæringinn og eru að vinna að tveimur sýningum fyrir haustið. Annars vegar er það Psychography unnið fyrir sviðslistarhátíðina LÓKAL og Ástin sigrar allt sem er einkasýning við Listasafnið Árósum í Danmörku, AroS. Þar verður röð einkasýninga skandinavískra listamanna og verður Gjörningaklúbburinn meðal þeirra. Um þessar mundir eru þær með videoverk á samsýningu í Listasafni Reykjavíkur sem nefnist RÍKI – flóra, fána, fabúla.

20 ára samvinna

Á þeim 20 árum sem Gjörningaklúbburinn hefur starfað hefur hann þróast og dafnað. Grunnstef í starfseminni komu fram mjög fljótt í starfseminni sem hópurinn vinnur með og þróar. „Þau eru svona gegnum gangandi, einhverjar línur sem byrjuðu alveg í upphafi“ segir Sigrún. Þróunin er eitthvað sem gerist sjálfkrafa segir Eirún. „Þú gerir eitt og þú gerir það næsta og lærir af því sem gerðist á undan. Svo eldist þú og það bætist í reynslubankann og maður er alltaf að þróa eitthvað, annars er þetta ekkert spennandi ef maður er alltaf að gera það sama. Það er soldið sem heldur manni gangandi.“ Þegar efniviður eða hugmyndafræði er notað aftur, að þá er það notað á allt annan hátt, það er sett fram með nýjum hætti. Þær tala um skyldleika, að verkin eru eins og ættartré, það er blóð þarna á milli.

Meðlimir Gjörningaklúbbsins hafa allar svipað lífssviðhorf, eru á sama aldri og koma úr svipuðu umhverfi. Það vekur athygli að þær eru allar elstar af systkynum sínum. Þær eru sammála um að það þýði að þær ganga til verks á svipaðan hátt, tilbúnar að taka til hendinni af ábyrgð. En lykilinn að langlífri samvinnu má e.t.v. rekja til þess að hlutirnir eru ræddir. Það eru einfaldar reglur sem farið er eftir en þær eru að innan hópsins er enginn einn sem ræður, meirihluti fær heldur ekki að ráða og þær segja ekki til um hver gerir hvað. „Það gengur kannski upp af því við erum þrjár, það þarf að ræða sig að niðurstöðu. Með formi samtalsins getur hvorki einn aðili eða þeir sem koma að samtalinu vitað niðurstöðu samtalsins fyrirfram ef þeir eru í heilindum. Þá verður til útkoma sem tilheyrði óvissunni sem þessir þrír eru búnir að búa til saman. Það er það sem við viljum finna.“ Oft þarf að melta hlutina og hafa þær tileinkað sér þá aðferð því hún leiðir oft til betri niðurstöðu sem allir eru ánægðir með. Samvinna og skilningur eru lykilþættir. „Það er oft mikill léttir ef einhver segir bara þegar maður er byrjaður að finna þrjósku og krull, „eigum við kannski bara að hætta núna og koma aftur á morgun?“ „Þá komum við daginn eftir og þá hafa hlutirnir sest.“ Það gefur rúm til að hugsa málið. „Eitthvað sem var kannski ótrúlega mikilvægt í gær er ekki jafn mikilvægt í dag. Fólk þekkir það í öllum störfum þar sem vinna fleiri en einn að það þarf að vera samvinna og samtal“ segir Sigrún. Jóní telur að fleiri en þær geti nýtt sér svipaða aðferðafræði, „þessi hugmynd um að það er ekki skýr hlutverkaskipan, allir skipta sér af öllu sem hinir eru að gera ætti líka að vera í samfélaginu, það er mjög slæmt ef háskólinn og akademínan einangrast inn í sér og viðskiptalífið vinnur í sínu horni og það er ekki samtal á milli. Það verður meiri jöfnuður og meiri skilningur á því hvað aðrir eru að gera og þá myndast ekki þessi togstreita sem mynda endalausa veggi og rifrildi.“ Það er þó ekki alltaf vinna í gangi því vinnustofan er einnig slökunarstaður þar sem er gott að setjast niður og hekla, blaðra, sauma í og hlæja. Það er mikið hlegið.

„þessi hugmynd um að það eru ekki skýr hlutverkaskipan, allir skipta sér af öllu sem hinir eru að gera ætti að vera líka í samfélaginu, það er mjög slæmt ef háskólinn og akademínan einangrast inn í sér og viðskiptalífið vinnur í sínu horni og það er ekki samtal á milli. Það verður meiri jöfnuður og meiri skilningur á því hvað aðrir eru að gera og þá myndast ekki þessi togstreita sem myndar endalausa veggi og rifrildi.“

Nánari upplýsingar um Gjörningaklúbbinn:

www.ilc.is

Videoverk Gjörningaklúbbsins: www.oz.com/love

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest

Share This