Gjörningaklúbburinn í 20 ár

Í apríl síðastliðunum átti Gjörningaklúbburinn 20 ára starfsafmæli og á þeim tíma hefur verið í nógu að snúast.  Þær Eirún, Jóní og Sigrún hafa ögrað í gegnum tíðina með ýmsum efnistökum. Ég settist niður með þeim í spjall um það sem hefur verið í forgrunni í starfseminni en um þessar mundir eru þær í forvali fyrir Feneyjartvíæringinn og eru að vinna að tveimur sýningum fyrir haustið. Annars vegar er það Psychography unnið fyrir sviðslistarhátíðina LÓKAL og Ástin sigrar allt sem er einkasýning við Listasafnið Árósum í Danmörku, AroS. Þar verður röð einkasýninga skandinavískra listamanna og verður Gjörningaklúbburinn meðal þeirra. Um þessar mundir eru þær með videoverk á samsýningu í Listasafni Reykjavíkur sem nefnist RÍKI – flóra, fána, fabúla.

 

20 ára samvinna

Á þeim 20 árum sem Gjörningaklúbburinn hefur starfað hefur hann þróast og dafnað. Grunnstef í starfseminni komu fram mjög fljótt í starfseminni sem hópurinn vinnur með og þróar. „Þau eru svona gegnum gangandi, einhverjar línur sem byrjuðu alveg í upphafi“ segir Sigrún. Þróunin er eitthvað sem gerist sjálfkrafa segir Eirún. „Þú gerir eitt og þú gerir það næsta og lærir af því sem gerðist á undan. Svo eldist þú og það bætist í reynslubankann og maður er alltaf að þróa eitthvað, annars er þetta ekkert spennandi ef maður er alltaf að gera það sama. Það er soldið sem heldur manni gangandi.“ Þegar efniviður eða hugmyndafræði er notað aftur, að þá er það notað á allt annan hátt, það er sett fram með nýjum hætti. Þær tala um skyldleika, að verkin eru eins og ættartré, það er blóð þarna á milli.

Meðlimir Gjörningaklúbbsins hafa allar svipað lífssviðhorf, eru á sama aldri og koma úr svipuðu umhverfi. Það vekur athygli að þær eru allar elstar af systkynum sínum. Þær eru sammála um að það þýði að þær ganga til verks á svipaðan hátt, tilbúnar að taka til hendinni af ábyrgð. En lykilinn að langlífri samvinnu má e.t.v. rekja til þess að hlutirnir eru ræddir. Það eru einfaldar reglur sem farið er eftir en þær eru að innan hópsins er enginn einn sem ræður, meirihluti fær heldur ekki að ráða og þær segja ekki til um hver gerir hvað. „Það gengur kannski upp af því við erum þrjár, það þarf að ræða sig að niðurstöðu. Með formi samtalsins getur hvorki einn aðili eða þeir sem koma að samtalinu vitað niðurstöðu samtalsins fyrirfram ef þeir eru í heilindum. Þá verður til útkoma sem tilheyrði óvissunni sem þessir þrír eru búnir að búa til saman. Það er það sem við viljum finna.“ Oft þarf að melta hlutina og hafa þær tileinkað sér þá aðferð því hún leiðir oft til betri niðurstöðu sem allir eru ánægðir með. Samvinna og skilningur eru lykilþættir. „Það er oft mikill léttir ef einhver segir bara þegar maður er byrjaður að finna þrjósku og krull, „eigum við kannski bara að hætta núna og koma aftur á morgun?“ „Þá komum við daginn eftir og þá hafa hlutirnir sest.“ Það gefur rúm til að hugsa málið. „Eitthvað sem var kannski ótrúlega mikilvægt í gær er ekki jafn mikilvægt í dag. Fólk þekkir það í öllum störfum þar sem vinna fleiri en einn að það þarf að vera samvinna og samtal“ segir Sigrún. Jóní telur að fleiri en þær geti nýtt sér svipaða aðferðafræði, „þessi hugmynd um að það er ekki skýr hlutverkaskipan, allir skipta sér af öllu sem hinir eru að gera ætti líka að vera í samfélaginu, það er mjög slæmt ef háskólinn og akademínan einangrast inn í sér og viðskiptalífið vinnur í sínu horni og það er ekki samtal á milli. Það verður meiri jöfnuður og meiri skilningur á því hvað aðrir eru að gera og þá myndast ekki þessi togstreita sem mynda endalausa veggi og rifrildi.“ Það er þó ekki alltaf vinna í gangi því vinnustofan er einnig slökunarstaður þar sem er gott að setjast niður og hekla, blaðra, sauma í og hlæja. Það er mikið hlegið.

„þessi hugmynd um að það eru ekki skýr hlutverkaskipan, allir skipta sér af öllu sem hinir eru að gera ætti að vera líka í samfélaginu, það er mjög slæmt ef háskólinn og akademínan einangrast inn í sér og viðskiptalífið vinnur í sínu horni og það er ekki samtal á milli. Það verður meiri jöfnuður og meiri skilningur á því hvað aðrir eru að gera og þá myndast ekki þessi togstreita sem myndar endalausa veggi og rifrildi.“

Evolution-ILC

Þjóðfélagsleg vitund

Hugmyndirnar að verkunum koma alls staðar að og út frá því sem þær eru að fást við hverju sinni. Umhverfisverndarlínur
hafa einkennt mörg verk og liggja þær ekki á skoðunum sínum varðandi slík mál. Þær hafa verið virkar í umhverfisumræðu og vilja passa upp á að vel sé farið með landið. Ísland býr yfir miklum lífsgæðum og telja þær að það sé mikilvægt að það tapist ekki. „Því miður er verið að stela af okkur þessum gæðum, kerfisbundið er verið að taka menntakerfið niður og breyta því, það eru hrikaleg teikn á lofti.“ Misskiptingin er umhugsunarefni og sýna þær því lítinn skilning afhverju einhver þarf að eiga 10 milljarða á meðan annar getur ekki farið á spítala. „Það blasir við að allir geti haft það rosalega gott hérna. Það eru allar forsendur til staðar ef það væri ekki fyrir þennan fámenna hóp sem finnst það vera eðlileg tilhögun að þeir njóti alls gróðans af tildæmis fiskimiðunum, þá væri ekki þessi skrýtna staða.“ Þær hafa sýnt virkni peninga áhuga og skoðað það sérstaklega. Fyrir sýninguna Creation-Corruption-Celebration (2005) sem sýnd var í Schirn Kunsthalle í Frankfurt, bjuggu þær til sinn eigin gjaldmiðil. Verkið fjallaði um það þegar vald er upphafið og brotið niður. Peningar og græðgi voru þar ekki undanskilin. Þær hafa spurt afhverju eru þessir straumar séu komnir hingað og hversvegna er Ísland svo mikil fjármálaparadís? Svo kom í ljós síðar það var allt byggt á einhverjum brauðfótum. Þær eru sammála um það að misskipting auðs er tap fyrir samfélagið í heild. „Það sem er að kúga okkur öll er þessi brjálaði kapitalismi sem vill að við séum öll í vinnunni að framleiða eitthvað drasl fyrir arðræningja og það tapa allir á því.“

womenwebÞær fara um víðan völl í efnisvali og ekkert virðist þeim óviðkomandi. Hið kvenlega hefur fengið sinn sess í verkum þeirra og segir Sigrún þær alltaf hafa verið að tefla því fram. „Við höfum alltaf verið á háhæluðum skóm með varalit á lofti frá byrjun og leitum í brunn sem tilheyrir þessu kvenlega, eins og kökubakstri, hannyrðum eða því sem er gert á heimilinu.“ Þær hafa tekið fyrir verkfræði ömmunar og sett það í nýjan búning til að sýna að það er jafn mikilvægt og aðrir hlutir sem oft þykja eðlilegir og tilheyra karllægum heimi. „Við höfum farið frekar í öfgar í með þessa hluti sem hafa þótt pjatt og við höfum faðmað það. Þetta er okkar heimur og við viljum að hann njóti jafn mikillar virðingar eins og hvað annað. Þetta er okkar hugarheimur þar sem þessir þættir eru sterkir.“ Girnilegar konur (1996) hefur farið fyrir brjóstið á sumum, t.d.  feministum vegna hlutgervingar á líkamanum. Þar var líkamanum breytt í köku sem hægt væri að borða. „Það er áhugavert að vekja upp þessar spurningar. Í rauninni er það líka komment á það heildardæmi, alla þessa hlutgervingu sem við erum alltaf að berjast við.“ Mynd af verkinu rataði síðar inn á skrifstofu hjá háttsettum karlmanni en það breytti samhengi verksins töluvert. „Þú kemur á skrifstofu að tala við einhvern mann og það er bara þetta verk inn á skrifstofunni. Þá lestu það strax einhvern veginn öðruvísi heldur en ef það héngi hérna inni hjá okkur“ segir Eirún og Sigrún heldur áfram, „mismunandi nálganir endurspeglast í þessu verki en það er þetta, að taka þessa kvenlegu þætti og setja þá ákveðið fram. Til að ná árangri þurftu konur að ganga í hlutverk og afneita sínum einkennum. Dúkkuheimilið fjallar um það að þú getur ekki bæði verið með heimili, börnin og líka verið með opinbert líf. Þú þarft að afsala þér móðurhlutverkinu til þess að eiga séns í þessum karlaheimi. Þess konar feminismi var ríkjandi fram að ákveðnu tímabili en það er slæmt að tapa þessu kvenlega og þess vegna viljum við setja það á stall og keyra það að þú getur getur gert bæði.“

Psycography

Við ræddum verkefnið Psychography sem þær eru að undirbúa fyrir LÓKAL sviðslistarhátíðina í lok ágúst. Sýningin er fjölbreytt og verður samstarf með listamönnum í öðrum listformum s.s leikurum, dönsurum og tónlistarmönnum meðal annars. Verkið svipar til verksins Hugsa minna skynja meira (2014) á Listasafni Íslands þar sem unnið var með stórum og fjölbreittum hópi listamanna. Nú endurtaka þær leikinn að einhverju leyti með sama fólkinu en eru að fást við alveg nýtt verk. „Munurinn á sýningunni 2014 og núna er að þessir listamenn koma með okkur inn í hugmyndavinnunna í meira mæli. 2014 voru þetta alveg tilbúin verk og hlutverkin mjög ákveðin sem þeir gengu beint inn í en nú erum við að hleypa fólki með okkur inn í hugmyndavinnuna“ segir Jóní aðspurð um sýninguna. „Þetta þýðir það að fólk þarf að vera „engaged,“ tilbúið að taka þátt og taka á móti. Þetta eru fjórir tímar og þú veist ekkert hvert þú ert að fara og kemst ekkert endilega sjálfur út úr því, þannig að þú verður að vita að það eru þessir fjórir tímar.“ Eirún tekur fram að það er enginn þvingaður í að taka þátt í því sem hann vill ekki.

Hvert er markmiðið með verkinu?

Aðspurð um markmiðið með verkinu er óvissan að vissu leyti markmið eins og Eirún segir „það er það sem maður er alltaf að gera, þegar maður stígur út í daginn fer maður út í óvissuna. En þetta er svona skipulögð óvissa“ og Jóní bætir við að þetta sé líka menningarleg óvissa, að þú veist þú ert að fara að upplifa eitthvað menningarlegt, gjörning og það muni taka á móti þér listaverk. Þær eru sammála um að þetta er ekki fullkomin óvissa en Sigrún útskýrir að það verður búið að vinna umhverfið með einhverjum sérstökum hætti þannig að áhorfandinn fer á staðinn á sínum forsendum með sína reynslu en það verður búið að undirbúa eitthvað sem mun hafa áhrif á hann. Á sýningunni munu áhorfendur stjórna hvað þeir gera innan þess ramma sem þær hafa búið til. Ólíkt sýningunni á Listasafni Íslands, þá var áhorfendum stýrt í gegnum verkið. „Áhorfendur voru orðnir að efnivið í verkið og þeir voru orðnir myndrænt séð hluti af uppsetningunni. Það var mjög erfitt fyrir fólk að finna leið út þar. Það hefði getað það en það var erfiðara. Á þessarri sýningu geturðu það en við skulum ekki segja of mikið“ segir Jóní og bætir við að „þetta er auðvitað mjög spennandi fyrir spennufíkla!“

Það eru greinilega góðir tímar framundan og segja þær að lokum að ástin sigrar allt. Það voru reyndar fyrstu kjörorð Gjörningaklúbbsins og þar sem hann vinnur áfram með það gamla ásamt hinu nýju er það vissulega táknrænt 20 árum síðar að setja upp einkasýningu með þessum titli.

Júlía Marinósdóttir

Einkennismynd með grein: Daníel Magnússon.
Aðrar myndir: © Gjörningaklúbburinn.

Nánari upplýsingar um Gjörningaklúbbinn:

www.ilc.is

Videoverk Gjörningaklúbbsins: www.oz.com/love