Flatleikhús fyrir ójafna byltingu – Ómar Stefánsson og Berlínarárin

24.04. 2022 | Innsent efni, Video, Viðtöl

“Galdramaðurinn eyðir blekkingu skaparans með því að skapa aðra blekkingu í staðinn. En um leið er mikilvægt að hann eyði jafnóðum þeim blekkingum sem hann skapar” 

Myndlistarmaðurinn Ómar Stefánsson er mörgum kunnugur fyrir óhefðbundnar leiðir sínar í lífi og list. Sextán ára gamall veitti hann helgarblaði Vísis viðtal sem ungur myndlistarnemi og galdramaður, en um sama leyti hóf hann nám Mynd- og Handíðaskólanum hvaðan hann útskrifaðist af Nýlistadeild árið 1981. Listferill hans spannar gríðarlegt magn af málverkum, skúlptúrum, ritverkum í útgefnum bókum sem og umdeildum gjörningaverkum sem framkvæmd voru í slagtogi með Art Brut hljómsveitunum Bruna BB og Inferno 5.

Á tæpum 50 ára  listferli hefur Ómar verið samkvæmur sjálfum sér, eins og greina má frá ofangreindri tilvitnun úr viðtali Helgarblaðsins Vísis frá árinu 1976. Í verkum sínum vinnur hann stöðugt með ádeilu á framsetningu mannkynssögunnar, vísinda og trúarbragða. Ekkert er eins og það sýnist.

Á sýningu sem bar titilinn Flatleikhús fyrir ójafna byltingu, sem ForA Contemporary Platform opnaði á verkum Ómars Stefánssonar í Berlín 12. mars til 10. apríl síðastliðinn, voru málverk, skúlptúrar og dagbækur sem unnin voru síðastliðin fimm ár á vinnustofu listamannsins þar í borg. Verkin af sýningunni segja meðal annars sögu um þá samfélagslegu umbreytingu sem átti sér stað á tímum heimsfaraldursins, í bland við annars konar hvimleiða ringulreið, til að mynda söguna um geimfarann sem drukknaði nærri í sínu eigin pissi.  Þannig leiðir sýningin okkur í gegnum ljóðræna og gróteska satýru þess að vera lifandi og deyjandi mannvera.  Skýjavél í innilokaðri hvelfingu stýrir flóði og fjöru en á meðan tilheyrir mannveran þyngdaraflinu með öðrum botnverum sem hún speglar sig í við daglegar athafnir.


Cloud makers and Tidal Technicians. Olía á striga, 140 x 140 cm. 2017-2022 


“Flatleikhús er einfaldlega skýring á því sem er í gangi hérna, að þýða hluti yfir á tvívíðan flöt, eins og þegar landakort eru gerð til dæmis, þá er verið að varpa þrívíddarlandslagi yfir á tvívíðan flöt og það eru margar aðferðir til þess, sem allar eru jafn réttar, eða jafn villandi, eftir því hvernig maður orðar það, glasið er hálffullt eða hálftómt” 

Námsár Ómars spanna gjörningaferðalög með Hermann Nitsch um Evrópu, starfsnám hjá Dieter Roth og störf hjá Illuminati söfnuðinum í Alpafjöllunum í Sviss. Allt sem greina má áhrif frá í verkum hans til þessa dags. Ómar gerði eins og margir listamenn eftir útskrift frá MHÍ, fór út til frekara náms til Berlínar og varð Meisterschuler í myndlist hjá prófessor Fussmann í Hochschule der Künste árið 1987. En örlögin leiddu Ómar aftur til Berlínar um 30 árum síðar og á sama tíma byrjaði hann að halda dagbók á þýsku þar sem hann greinir frá daglegum atburðum sínum með orðum, klippimyndum og teikningum. Þrjátíu dagbækur með hugleiðingum, hugmyndum og afdrifum hans, spanna hin stormasömu ár Ómars í Berlín 2017-2021 sem enda með nær-dauða-reynslu, líkamsdauða – “og endurfæðingu í stjörnumerki Sporðdrekans” bætir listamaðurinn við kíminn og er hæstánægður með nýja afmælisdaginn sinn.


Sýnishorn úr Berlínardagbókum, Vol. I – XXVI, 2021.

Byggingarlist orða og hugmynda talast á við áþreifanlegan strúktúr bygginga í málverkum Ómars, sem eru formalísk og súrrealísk í senn. Form taka á sig lifandi mynd, virðast geta fært sig um set og endurraðast á hverri stundu. Maðurinn vex inn í sjálfan sig, út úr sjálfum sér, verður hús, verður dýr og rólar sér í orðinu á leikvelli tilverunnar. Á sýningunni í ForA gallerí eru málverk sem fjalla meðal annars um heimsmyndunarfræði og alls konar óvissufræði, einnig það sem bar fyrir augu listamannsins á tímum heimsfaraldursins í Berlín og svo persónulegar kyrralífsmyndir..

Sérhver listamaður verður að gera eitt Tempus Fugit (Lat. Tíminn flýgur) listaverk… Og hugsa um dauðann. Það hlýtur hver listamaður að hugsa um dauðann. Og það kom nú til dæmis fyrir mig hérna í Berlín, að steindrepast bara, það var ekki planið. Svo er hérna myndlist sem hægt er að læra af. Hér er kassi sem á stendur hvað sé fram og hvað sé aftur. Við áttum samræður um þessar mynd, ég og einn heimspekimenntaður maður á opnun þessarar sýningar og við deildum. Ég var hæstánægður með árangurinn, að þessi mynd skyldi vekja upp slíkar deilur, þótt þetta sé bara mynd af kassa. Ég sagði að upp og niður væri klárt. En það eru skiptar skoðanir um það”

Við virðumst búa í tilbúnum heimi þar sem ekkert er tilviljunum háð.  Það sama er þó ekki hægt að segja um teikninguna í málverkunum Ómars, en þau birtast manni sem villt og ótamin fyrirbæri. Kröftugar og öruggar strokur draga upp heim sem sameinar allar listastefnur 20. aldarinnar og þótt lengra aftur væri litið. Ofsafengið og hömlulaust myndefnið hefur augljós tengsl inn í verk jafn ólíkra listamanna eins og Otto Dix, Hiernonymous Bosch og Hans Bellmer.

“Ég veit ekki hvað maður getur sagt..  ég hef verið kallaður klassískur módernisti. Sem er líka smá fyndið. Fyrst kom Art Nouveau, nýi stíllinn og svo kom módernisminn, svo nýi stíllinn og svo nýi nýi stíllinn. Svo er þetta allt orðið klassískur nýr stíll, þannig að ég er mjög klassískur, myndi ég segja, listamaður. Mjög hefðbundinn, miðað við marga” 

Nokkur málverk af sýningunni Flatleikhús fyrir ójafna byltingu. Frá vinstri til hægri: Infected, The Battle of Amari with the Cyclope Cannibals in Crete, Inflated man falling, KaliYuga, Farming for spare parts, Choronzon, Mooning on Mars, The crazy old town. 

Í afstraktmálverkum og skúlptúrverkum Ómars má sérstaklega greina þó áhrif sem hann er undir frá lærifeðrum sínum Dieter Roth, Hermann Nitsch og jafnframt Magnús Pálssyni. Hröð og ötul vinnubrögð fæða af sér gróteskar línur og form í aksjónverkum sem eru unnin bæði með málningu á striga, sem og fundnum og samanskeyttum efniviði. Við og við skjóta svo upp kollinum ansi kómískir titlar, sem gefa þessum ofsafengna myndheimi enn annan vinkil. Ómar er þó þekktari fyrir stórflata málverk sín, sem bera vitni um einstakt vald hans á miðlinum og mikla færni í teikningu. Þessi málverk skírskota til mynduppbyggingu fútúrista, kúbista, súrrealista og á sama tíma myndskreytingarhefða grafískra myndasagna.

Þau listaverk sem nú standa uppi á sýningunni í ForA eru einnig merkileg fyrir þær sakir að hafa komist klakklaust frá Berlínarárum listamannsins. Þónokkur verk sem Ómar hafði í geymsluhúsnæði í borginni urðu húsbruna að bráð. Vinnustofuhúsnæði sem hann deildi með hundruði annarra listamanna í Lichtenberg var gert upptækt með eins dags fyrirvara, sem olli því að hann og fleiri glötuðu aleigu sinni í málalyktum sem verða ekki útlistaðar hér.
Maður er víst ekki maður með mönnum fyrr en maður hefur misst aleiguna” segir Ómar og segist hafa það eftir fyrrum kennara sínum í Nýlistadeildinni, Magnúsi Pálssyni.

Breiðmynd af vinnustofuhúsnæði Ómars í Lichtenberg, Berlín og skúlptúrverkum sem fóru forgörðum. 2019-2021.
Klikkið á myndina til að stækka hana.

Síður dagbókanna sem Ómar hélt í Berlín eru fylltar með teikningum og klippimyndum sem lýsa, líkt og Flatleikhúsið, fimmvíðum veruleika listamannsins á tvívíðu formi. Af magni bókanna og útfylltra blaðsíðna er auðséð að listamaðurinn lætur ekki dag líða án þess að hafast handa við klippimyndir, teikningar eða skrif.

Meira að segja meðan listamaðurinn liggur inni á gjörgæslu hefur tíminn verið nýttur til listsköpunar og skráningar, þar sem myndir eru settar saman úr matarmiðum spítalans og nær-dauða-reynslunni lýst, sem var á svipuðum meiði og aðrar skrásettar frásagnir af sýnum á dánarbeði. Samkvæmt Ómari var hann skyndilega dreginn á löppunum í gegnum göng, sem þó að lokum leiddu hann aftur inn í heiminn, en ekki burtu í ljósið.

Og hvernig var að deyja? “Það var alveg hræðilegt… Haltu lífi eins lengi og þú mögulega getur(!)”

Í raun má segja að allur listferill Ómars Stefánsson bjóði áhorfendum upp á hádramatíska Flatleikhússýningu. Listasýningar hans og undirbúningur þeirra,  gjörningaframkomur og afleiðingar þeirra, úrklippur frá yfirlýsingaglöðum greinaviðtölum við hann, sem og frásagnir áhorfenda af afdrifum hans í gegnum tíðina. Allt dregur þetta upp allsvakalega mynd af ævispori listamanns sem fer ótroðnar slóðir og hefur ekki valið sér auðveldustu leiðina í gegnum lífið. Sigrar mæta ósigrum á úfnum hafsjó þess sem þó myndar þokkalega ferilskrá í dag, ójöfn lífsbylting og ekkert er eins og það sýnist. Baráttan á milli hins góða og illa eins háalvarleg og kómísk og hún getur verið í senn. Jafnvel þegar listamanninum sjálfum er ekki spaug ofarlega í huga, notar hann kímnigáfuna sem verkfæri í frásögn sinni. Hans eigin nær-dauða-reynsla verður að uppsprettu endalausra brandara. Og hvað er rétt og hvað er rangt, hvað er sannleikur,  hvað er blekking.. “heimurinn  inniheldur bara endalausar spurningar og loðin svör”  

Og er allt svona ruglingslegt að þínu mati? Heyrðist sýningargestur á opnuninni spyrja listamanninn. – Já og jafnvel enn ruglingslegra en ég næ að túlka á þessari sýningu.

Flatleikhús, eins konar
á bílastæði tilverunnar

Þar ferningar færast
og á þeim þríhyrningar nærast.

Allt fer þetta í hringi,
gula, bláa, rauða.

Flatleikhús, eins konar.
á bílastæði tilverunnar.

Endir alvörunnar,
eins konar. 

Sýningin Flatleikhús fyrir ójafna byltingu stóð uppi 12. mars til 10. apríl í ForA Contemporary Platform á Marburger Strasse 3 í Berlín. Á henni var til sýnis eitt frumeintak af Berlínardagbókunum (Bindi XXIV, 2021), fimmtíu og þrjú málverk sem unnin voru að mestu leyti á árunum 2017-2022 í Berlínarborg og sex skúlptúrar. Þá var fyrsta bindi Berlínardagbókanna (Vol. I, 2017) einnig útgefið á prenti á opnun sýningarinnar.

Flatleikhús fyrir ójafna byltingu, sýning Ómars Stefánssonar í ForA Contemporary Platform, Marburger Strasse 3, Berlín,
12. mars – 10. apríl 2022.

Ómar Stefánsson er fæddur árið 1960 á Íslandi og verk hans hafa verið sýnd á Listasafni Reykjavíkur, Listasafni Íslands og á fjölmörgum einkasýningum á Íslandi. Þá voru verk eftir hann einnig verið sýnd á Heine Onstadt í Osló, Noregi og á sýningu með Cy Twombly, Joseph Beuys í Gallery Händschin í Basel, Sviss. Listasafn Íslands og Listasafn Reykjavíkur eiga málverk eftir Ómar sem og Tækniskóli Íslands, Eimskip sem og Illuminati söfnuðurinn í Sviss. Ómar vann einnig verk sérstaklega fyrir lestarstöðina í Basel, Sviss, ásamt listamönnunum Dieter Roth, Dominik Steiger og André Thomkins.

Nánari upplýsingar um Ómar, verk hans og sýninguna má skoða á hér: omarstefansson.com 

Freyja Eilíf


Aðalmynd með grein: Freyja Eilíf. Myndbönd, upptaka og vinnsla: Freyja Eilíf. Myndir af verkum birtar með leyfi listamannsins.

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest

Share This