Á föstudaginn kemur, þann 13.maí kl 17 opnar sænska myndlistarkonan Chandra Sen sýningu sína Find Home í Harbinger, allir velkomnir!

Chandra (’86) lauk nýverið meistaranámi í myndlist frá Listaháskólanum í Osló og er málverkið hennar helsti miðill. Að námi loknu tók við árs löng residensía í Kunstnernes Hus í Osló og því næst hafði hún listamannaaðsetur í húsi Edvards Munch í Warnemunde, Þýskalandi. Chandra Sen býr og starfar í Stokkhólmi og er Find Home hennar þriðja einkasýning.

Málverk Chöndru eru upprunnin á vissum stað, en hann er óljós. Hugarrými sem byggir á tilfinningu, fleirum en einni og engri heilli. Þær umbreytast. Þær eiga sér ólíkan uppruna. Í persónulegri reynslu, sameiginlegri reynslu, eða í undirmeðvitundinni. Sumar eiga sér stað í tíma og rúmi, á ákveðnum áratugi eða ári. En aðrar eiga sér engan tíma, eða öllu heldur allan tímann. Þær tilheyra kringumstæðum, andvaranum, ljósinu, skýjamyndunum, sem endurtaka sig í sífellu en eru ávallt nýjar, og þó, kannski var einhver einhverntímann einhversstaðar sem horfði upp á einmitt sömu skýin í sömu birtunni og fann sömu lyktina.

Umgjörðin og inntakið er ekki bundið við nútímann. Er við skoðum verk Chöndru erum við bæði hér og nú og líka fyrir 1000 árum. En verkin hennar fást við nútímann, við nútíðina. Þá sem leið og þá sem er og þá sem kemur, og allar þær sem fylgja í hringrás á eftir þeim sem voru. Verkin eru afurð nútímans, meðvituð um frumþörf sem er erfitt að uppfylla í þess háttar lífi sem við lifum. Meðvitund sem einungis verður til við skort.

Harbinger er listamannarekið sýningarými sem hefur verið starfrækt í tæp tvö ár og á þeim tíma staðið fyrir 20 sýningum og viðburðum.

Opnunartímar Harbinger eru fim-lau frá 14-17 og eftir samkomulagi.
Sýningin stendur til 11. júní og er styrkt af Sænsk-íslenska samstarfssjóðnum.

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest

Share This