Versatile Uprising: Lifandi formleysa

Versatile Uprising: Lifandi formleysa

Versatile Uprising: Lifandi formleysa

Undanfarinn mánuð hefur Wind and Weather Gallery, að Hverfisgötu 37, hýst sýninguna Versatile Uprising (ísl. Margræð uppreisn) sem er samvinnuverk frönsku listamannana Claire Paugam og Raphaël Alexandre, en þau hafa búið og starfað á Íslandi í rúm fimm ár. Í listsköpun sinni leggur Claire mikla áherslu á formleysi; hvar það má finna í náttúrunni eða líkamanum og hvar það gæti leynst í borgarumhverfinu – þar sem konkret form og beinar línur virðast ráða ríkjum. Á hinn bóginn er efniviður Raphaëls oftar en ekki rafmagnstengdur: ljós, hljóð og skynjun sem hægt er að forrita á kerfisbundinn og samræminn hátt. Bakgrunnur listamannanna er nokkuð frábrugðinn hvor frá öðrum.

Claire útskrifaðist með MFA úr Listaháskóla Íslands árið 2016 en Raphaël er menntaður tölvunarverkfræðingur. Leiðir þeirra lágu saman í gegnum starfsemi Listastofunnar sem leiddi í kjölfarið til frekara samstarfs. Claire bauð Raphaël að vinna með sér að sýningunni í Wind and Weather Gallery og úr þeirri samvinnu spratt sýningin sem blasir við augum ef gengið er upp Hverfisgötuna. Niðurstaða samvinnunnar er gagnvirk innsetning sem dregur fram mynd af dulrænum, slímkenndum, skúlptúrískum og formlausum massa. Dökkur massinn dreifist smátt og smátt yfir þrjá sýningarglugga gallerísins og virðist hafa það fyrir stafni að leggja rýmið undir sig. Sýningin dregur titil sinn úr því hvernig innsetningin breytist og stigmagnast með hverjum glugga, líkt og verið sé að segja frá ákveðnu ferli eða frásögn.

Versatile Uprising er fyrsta gagnvirka innsetningin sem sett hefur verið upp í Wind and Weather Gallery. Hún minnir,  á margan hátt, á þrívíðar uppstillingar sem eru tíðir þættir í bæði sögu- og náttúruminjasöfnum, en í stað þess að lýsa sögulegum atburði eða varpa ljósi á virkni tiltekins hlutar, vísar innsetningin til þess ókunnuga eða óskiljanlega. Formlausi massinn getur ýmist minnt á landslag, hraun eða sjaldgæfar, glitrandi steindir. Hann er alsettur díóðum sem gefa frá sér daufan bjarma og speglast í gljáandi yfirborðinu. Ef eyrun eru vel sperrt, heyrist í lágum drunum sem stafa frá aðal sýningarglugganum. Glugginn virkar að mörgu leyti eins og gátt inn í annan heim sem er rétt utan seilingar.

Gestir og gangandi geta haft áhrif á innsetninguna og rýmið sem liggur handan rúðunnar, með því að leggja hönd á glerið þar sem við á. Þegar það er gert verða ljósin skærari og virðast dansa á lífljómalegan máta um innsetninguna alla. Snertingin við glerið hefur einnig áhrif á hljóðið. Drunurnar dýpka og breyta um tón, því meir sem glerið titrar. Allt er þetta gert með hjálp næmra skynjara sem hafa verið forritaðir til að sýna samspil ljósanna á tilviljanakenndan hátt í hvert skipti sem þau eru virkjuð. Á þann hátt er innsetningin í stöðugri breytingu og er aldrei fullkomlega eins og hún var áður. Wind and Weather Gallery, sem hefur verið rekið af listakonunni Kathy Clarke síðan 2014, er einstakt sýningarrými vegna þess að það snýr beint út til almennings. Það þarf því ekki að ganga meðvitað inn í sýningarrýmið til að verða aðnjótandi listarinnar sem þar fer fram. Með því að horfa inn um gluggann eru gangandi vegfarendur Hverfisgötunnar umsvifalaust orðnir að áhorfendum.

Þessi vettvangur hentaði því hugmyndum Claire og Raphaël fullkomlega. Að sögn listamannana svipar gagnvirki þáttur innsetningarinnar til þess þegar farið er í dýragarð. Fólk horfir inn um gluggann sem aðskilur það frá dýrunum. Kannski bankar einhver á glerið til að sjá hvort hann fái viðbrögð; reynir eflaust að tengjast dýrinu á einn eða annan hátt, speglar sjálfið í andliti þess, fyllist hræðslu eða væntumþykju og reynir eflaust að finna til einhvers konar skilnings með dýrinu.

Innsetningunni er ætlað að vekja svipaðar tilfinningar hjá áhorfendum; barnslega forvitni í bland við tortryggni, jafn vel skliningsskort. Fólk hefur oft þá tilhneigingu að afmarka hluti, troða þeim í ákveðið form eða hugtak svo það geti öðlast betri skilning – en ef það mistekst eru þessi hlutir afskrifaðir. En með Versatile Uprising gera Claire og Raphaël vel heppnaða tilraun til að fanga fegurðina í formleysunni og í því sem nær handan lógískra skilningarvita. Heimurinn handan glersins er skáldaður heimur. Þegar aðnjótendur listaverksins snerta glerið tengjast þeir skáldheiminum og með því að mynda einstaklingsbundin áhrif á virkni hans með hjálp skynjaranna. Á sama tíma verður sá sem snertir glerið fyrir áhrifum skáldaða heimsins sem liggur fyrir innan.

Sólveig Eir Stewart

 


Síðasti sýningardagur Versatile Uprising er á þriðjudaginn, 26. febrúar í Wind and Weather Gallery. 

Aðalmynd: Claire Paugam ogRaphaël Alexandre. Allar myndirnar eru birtar með leyfi listafólksins.

Heimasíður listamannanna:

Claire Paugam: http://www.clairepaugam.com

Raphaël Alexandre: http://www.facebook.com/raphael.alexandre.art  

Hinsegin list eða pólitísk barátta?

Hinsegin list eða pólitísk barátta?

Hinsegin list eða pólitísk barátta?

Frá árinu 2015 hefur sýningarrýmið Gallerí 78 verið rekið í samvinnu við Samtökin ’78 í Suðurgötu 3. Gallerí 78 heldur að meðaltali 6 sýningar á ári sem eiga það sameiginlegt að kynna aðeins list eftir hinsegin listafólk. Blaðamaður artzine kíkti í heimsókn til að ræða starfsemina við sýningarstjórana Ásdísi Óladóttur og Yndu Gestsson.

Vettvangur fyrir hinsegin sýnileika

Yndu hafði lengi dreymt um að opna sýningarrými á Íslandi sem helgað væri hinsegin list. Þegar hún sneri aftur til landsins eftir doktorsnám í safna- og listfræði á Englandi leitaði hún til listfræðinemans og ljóðskáldsins Ásdísar Óladóttur og bar hugmyndir sínar undir hana.

Sýningarstýrurnar Ynda Gestsson og Ásdís Óladóttir

„Ég vissi að Ásdís var í listfræði við Háskóla Íslands og að hún þekkti vel til hinsegin listafólks hér á landi,“ útskýrir Ynda. „Strax í upphafi tók Ásdís þátt í því að móta stefnuna, með því að benda mér á listafólk sem gæti sýnt í galleríinu. Þekking hennar og reynsla voru mjög mikilvægir þættir í að koma þessu í gang.“

„Það var ákveðið að koma á skipulagðri sýningarstarfsemi hér í Suðurgötu 3, vegna þess að húsnæðið býður upp á svo margt,“ bætir Ásdís við. „Gluggarnir eru stórir og hleypa ljósinu inn – svo er aðgengið mjög gott vegna þess að við erum á jarðhæð. Myndlistin sést því vel utanfrá.“

Ynda og Ásdís segja það mikilvægan þátt í starfsemi samtakanna að hafa hinsegin list sýnilega. Fyrir þeim er myndlist uppbyggjandi leið til að miðla bæði þekkingu og reynslu hinsegin fólks innan og utan hinsegin samfélagsins.

Listafólk og nöfn á verkum frá vinstri til hægri: Stiofan O’Ceallaigh, Decisions-Decisions 2016, Khalil Rasheed 2018, West Without Title 2018, Jez Dolan, More Joy 2018, Rosanne Robertson, DESTROY-DUCHAMP 2018

„Það er hægt að vera listamanneskja á þeim forsendum að vera hinsegin og deila persónulegri og félagslegri reynslu sinni með listunnendum, ,“ upplýsir Ynda. „Þetta skipti mjög miklu máli þegar AIDS faraldurinn kom upp. Það var margt hinsegin listafólk sem tókst á við þessa erfiðu reynslu með list sinni. Þar mætti til dæmis nefna Nemes verkefnið sem hófst árið 1987: risastórt bútasaumsteppi til minningar um þá sem hafa látist úr AIDS í Bandaríkjunum. Á teppinu eru nöfn þeirra sem létust ásamt minningarorðum. Þetta framtak hafði gífurleg áhrif á sýnileika hinsegin fólks og hinsegin listar, að ógleymdum sársaukanum.”

Að staðsetja sig fyrir utan svigann

Hinsegin list snýst ekki bara um harm, heldur líka gleði og sigra sem taka á sig form í margs konar miðlum. Aðspurðar um hvað geri list hinsegin svöruðu þær að það væri í raun skilgreiningaratriði.

„Það eru nokkrar leiðir til að skilgreina hinsegin list. Þær helstu eru að allt hinsegin fólk sem býr til myndlist geri hinsegin list – burtséð frá því hvort það sé að tala út frá hinsegin reynslu eða mála myndir af Esjunni,“ útskýrir Ynda. „Hin skilgreiningin er að til þess að hægt sé að tala um hinsegin list, þá verði listin að fjalla um það sem snertir reynsluheim hinsegin fólks.“


Qasim Riza Shaheen. Left to right, When you left I dyed in my favourite colour 2010, Left to right, I cried till I turned my bath water blue 2010, 
Left to right I loved you at 01.13 2010, Left to right Old-habits die hard 2010

Gallerí 78 hefur verið gagnrýnt fyrir að sýna eingöngu hinsegin list og fólk hefur tekið því sem útilokun. En Ynda og Ásdís segja rekstur gallerísins byggja á pólitískri formúlu og orðræðuhefð sem hefur margsinnis virkað, en það er aðferðafræði feminista sem felst í því að taka hóp út fyrir sviga og gera hann sýnilegan á sínum eigin forsendum. Sem dæmi mætti nefna Gallerí Langbrók og og önnur sýningarými sem sýndu aðeins myndlist eftir konur og voru rekin af kvennréttindakonum.

Ynda og Ásdís segja hinsegin baráttu vera pólitíska baráttu og hinsegin list að nokkru leyti vera það líka. Markmið gallerísins er því ekki að stimpla fólk fyrir að vera eitt eða annað, heldur að hafa stað þar sem hinsegin list er í brennidepli. Barátta transfólks fyrir sýnileika birtist t.a.m. í sýningum gallerísins og á sú umræða mikið erindi – sérstaklega um þessar mundir, þegar transfólk þarf hvað mest á viðurkenningu að halda. Núverandi ástand í heiminum gefur ennþá meiri ástæðu til að reka gallerí af þessu tagi, til að vinna á móti feðraveldinu og því kerfi sem elur á fordómum í garð hinsegin fólks. „Enn þann dag í dag er fólk drepið fyrir það að vera hinsegin,“ segir Ynda. “Til dæmis féllu hátt í 400 trans manneskjur fyrir hendi morðingja árið 2017 fyrir utan samkynneigða sem hafa látið lífið vegna stjórnmálaástandsins í heiminum.“

10 leiðbeiningar (fyrir hinsegin listafólk)

Sýningin sem er í gangi um þessar mundir í Gallerí 78 ber heitið Tíu leiðbeiningar (fyrir hinsegin listafólk)Ynda og Ásdís stýrðu sýningunni ásamt breska myndlistarmanninum Jez Dolan – en sýningin samanstendur af verkum eftir tólf breskar listamanneskjur (Joseph Cotgrave, Jez Dolan, Garth Gratrix, Cheryl Martin, Joshua Val Martin, Stiofan O’Ceillaigh, Richard Porter, Rosanne Robertson, Qasim Riza Shaheen, Debbie Sharp, Khalil Rasheed West og Phil Sayers). Þetta er í fyrsta skipti sem hópur af erlendum hinsegin listamanneskjum er fenginn til að sýna á Íslandi og markar sýningin því stór tímamót í kynningu á verkum hinsegin myndlistafólks.


Joshua Val Martin, Ten Directions (for-queer-artists) 2018

Sýningin byggir á hugmyndum Marcel Duchamp um leiðbeiningarverk, sem urðu að þekktu listform með tilkomu Fluxus hópsins, m.a. Yoko Ono. Listafólkið leikur sér með leiðbeiningarhugtakið og túlkar það á marga mismunandi vegu. Á sýningunni eru bæði teikningar og ljósmyndir sem miðla upplifunum til áhorfandans, sem eru bæði fjölbreyttar og persónulegar. Myndirnar eru hengdar upp þannig að þær eru afmiðjaðar til að undistrika jaðarsetningu hinsegin fólks.

Til þessa hefur galleríið einbeitt sér að íslenskri hinsegin myndlist, en með sýningunni vilja Ynda og Ásdís hefja samtal, og leggja grunn að sýningum íslensks hinsegin listafólks erlendis.

Sýningarnar sem haldnar hafa verið í Gallerí 78 hafa oft á tíðum verið margbreytilegar og spennandi. Listamenn á borð við Hrafnkel Sigurðsson, Sigmar Stórholt, Öldu Villiljós og Logn Draumland hafa sýnt þar, en næst (15. desember) mun Skaði Þórðardóttir sýna verk sín.

Sólveig Eir Stewart


Aðalmynd með grein: Verk Debbie Sharp, Queer Instructions 2018
Ljósmyndir: Birtar með leyfi Gallery 78

Sýningin 10 leiðbeindingar (fyrir hinsegin listafólk) mun standa opin til 8. desember í Gallerý 78.
Opnunartímar eru frá 13:00 til 16:00 alla virka daga. Öll velkomin.

Ekki bara hljóðverk

Ekki bara hljóðverk

Ekki bara hljóðverk

Nýverið opnuðu Ívar Glói Gunnarsson og Logi Leó Gunnarsson sýninguna Hljóð & Sönnun Súpa Skál (e. Sound & Proof Soup Bowl) í Gallery Port, Laugavegi 23b. Á sýningunni má sjá verk sem unnin eru í ýmsa miðla en eiga sameiginlega snertifleti er varða hljóð, rými og tækni. Verkin á sýningunni samanstanda af skúlptúrum, ljósmyndum, teikningum og hljóð-innsetningum. Á milli þeirra myndast áhugavert samtal sem steypir saman hugarheimum listamannanna tveggja. Blaðamaður artzine kíkti í heimsókn.

Það fyrsta sem blasir við þegar gengið er inn í sýngarrýmið í Gallery Port eru hljóðnemar sem hanga á víð og dreif um veggina. Hljóðnemarnir nema bæði hljóðin sem myndast inni á sýningunni, hljóðin í umferðinni fyrir utan gallerýið og jafnvel hljóðin sem rigningin gefur frá sér þegar hún bankar taktlaus á þakið. Snúrur hljóðnemanna eru tengdar við magnara sem blæs upp hljóðin og verður til þess að tilviljanakenndur hljóðheimur myndast í rýminu. Með þessu er Gallery Port orðið að eins konar hljóðfæri, jafvel skrásetning þess sem gerist í rauntíma í þessu tiltekna rými.


Yfirlitsmynd frá sýningunni.


Vinstri: Exhibition view documentation bypassing the artworks, Inkjet prent, Nicoh GR II Digital ljósmynd með Cross Process Effect.
Hægri: Exhibition view documentation bypassing the artworks, stafræn 35mm filmu. Ljósmyndaprent eftir Ívar Glóa.

Vinstri: Sitting in a chair. Inkjet prent eftir Loga Leó.
Hægri: Exhibition view documentation bypassing the artworks. Stafræn 35mm filmu ljósmyndaprent eftir Ívar Glóa.


Plugged in Microphone (Shure PG58) Eftir Loga Leó.


Yfirlitsmynd frá sýningunni.

„Ég reyni að stilla hljóðið þannig að það sé ekki endilega ljóst hvað er að gerast í rýminu“ segir Logi Leó. „Ég set hljóðnemana upp sjónrænt, svo stilli ég mixerinn út frá staðsetningu þeirra og út frá rýminu. Vegna endurkasts get ég ekki hækkað of mikið en ég vil það ekki endilega. Hljóðnemarnir eru allir af mismunandi gerð og hafa allir sinn hljóm. Ef þeir væru fleiri eða af öðrum gerðum væri hljóðið öðruvísi.“

Við hlið hljóðnemanna á veggjunum hangir ljósmyndasería. Myndirnar eru allar teknar á filmuvél og sýna hluta úr sýningarrýmum víðsvegar um heiminn, en án listaverka. Gólfin í þessum rýmum eru flotuð, veggirnir hvítir og rýmin upplýst af flúrljósum. Myndirnar sýna staðlað og hlutlaust form hins dæmigerða sýningarýmis, sem virðist nokkuð uggvekjandi þegar verkin sjálf eru ekki til staðar. „Það er einhvers konar alheimsskilningur á því hvernig kjöraðstæður á sviðsetningu listaverka eiga að vera,“ segir Ívar Glói – en ætlun hans var að fanga stemninguna sem myndast þegar listaverkin innan rýmisins eru ekki sjáanleg.

Ein ljósmyndanna sker sig úr seríunni á veggnum, en hún sýnir hvar hljóðnemi hvílir á brúnum stól í hvítu rými. Myndin vitnar í nærveru manneskju eða líkama sem er á sama tíma ekki til staðar í myndefninu sjálfu. Á öðrum vegg eru tvær tölvugerðar teikningar af bylgjukenndum línum sem endurtaka sig, lag ofan á lag. Teikningarnar minna óhjákvæmilega á hljóð eða tónlist og eiga vissulega samhljóm með öðrum verkum innan sýningarrýmisins. „Þetta byrjar sem ein grunnteikning sem ég margfalda þar til ég hef afmáð þá upprunalegu,“ upplýsir Logi Leó. „Þannig hugsa ég líka um hljóðið sem berst inn í hljóðnemana: það hleðst lag ofan á lag og úr því verður hálfgerður grautur. Mörkin afmást þar til það er ekki víst hver upprunalega- né endanlega virknin er.

Í miðjum sýningarsalnum standa fjórir skúlptúrar að svipaðri gerð sem eru þó frábrugðnir hvorum öðrum á einn eða annan hátt. Þeir samanstanda af keramík syllum sem festar hafa verið við trommu statíf ætluðum málmgjöllum. Líkt og hljóðnemarnir og sýningarrýmin sem sjást á ljósmyndunum, eru statífin öll af mismunandi gerð og koma víðsvegar að úr heiminum. Keramík syllurnar eru handgerðar og form þeirra er lífrænt. Þær eru litaðar eyðimerkur-rauðum lit og ofan á þeim standa litlar, svartar viftur sem blása kaldri golu inn í sýningarrýmið.

„Þetta eru usb tengdar tölvuviftur sem eru sérstaklega útbúnar fyrir það að vinna við tölvuna á heitum degi. Þær þjóna þeim tilgangi að gera vinnudag mögulegan sama hversu heitt það er, en eru hér teknar úr samhengi“ útskýrir Ívar Glói. „Vifturnar gera það sama og hljóð, þ.e. framkalla bylgjur í rými á einn eða annan hátt – þótt það komi að vísu hljóð frá þeim líka. Skúlptúrarnir eru í raun eins konar rýmislegt nótnakerfi og syllurnar ákvarða hvar vifturnar eru staðsettar. Þar að auki vitna titlar skúlptúranna bæði í tónlist og skrifstofurými.“

Þegar gestir ganga inn í sýninguna eru þeir umsvifalaust orðnir partur af rýminu. Hljóðin sem þeir gefa frá sér magnast upp í hljóðnemunum og föt jafnt sem hár bærast í golunni sem vifturnar gefa frá sér. Þeir standa og horfa á sjónræn listaverk sem fjalla að mörgu leyti um það sem þeir eru að verða fyrir áhrifum af á líðandi stundu, með því að standa inni í sýningarrýminu eða með því einu að vera til.

Sólveig Eir Stewart


Sýningin mun standa opin til 13. september í Gallery Port. 

Ljósmyndir: birtar með leyfi listamannanna.

Frekari upplýsingar: vefsíða Ívars Glóa: www.ivargloi.infovefsíða Loga Leó: www.logileo.info

Artist Run: Af listamannareknum rýmum og heldrunarferli

Artist Run: Af listamannareknum rýmum og heldrunarferli

Artist Run: Af listamannareknum rýmum og heldrunarferli

Reykjavík hefur orðið fyrir miklum breytingum síðastliðinn áratug. Litskrúðug bárujárnshús hafa verið látin víkja fyrir nútímalegri byggingum, veitingastöðum og hótelum fyrir ferðamennina sem heimsækja borgina. Þeim fylgir fé og því er ferðamannaiðnaðurinn orðinn ein stærsta tekjulind landsins. Ýmsir hafa blygðunarlaust nýtt sér þessa þróun og því er miðbær Reykjavíkur eins og hann er í dag; íbúar, verslanir og fyrirtæki hafa jafnvel neyðst til að flytja sig um set, m.a. vegna hárrar leigu.

Í erlendum borgum þar sem sambærilegar breytingar hafa átt sér stað, eru listamenn oftast í hópi þeirra fyrstu sem verða fyrir barðinu af ruðningsáhrifum af þessu tagi. Hugtakið sem notað er yfir þessi áhrif er Heldrunarferli (e. gentrification). Þetta tiltekna ferli er eitt af meginumfjöllunarefnum stuttrar heimildarmyndar sem kom út á þessu ári og ber heitið Artist Run. Að baki myndarinnar stendur hópur sem kallar sig Lost Shoe Collective. Hópinn skipa níu einstaklingar með ólíkan bakgrunn. Sumir þeirra eru búsettir í Reykjavík og aðrir í Berlín. Þau eru: Beth Cherryman, Fatou Ndure Baboudóttir, Freyja Eilíf, Jeremias Caro Roman, Marta Sveinbjörnsdóttir, Pablo Gonzalez, Ragnar Ingi Magnússon, Sólveig Johnsen og Valentina Pachón.

Heimildarmyndin Artist run í heild sinni.

Í myndinni eru sambærilegir og ólíkir fletir á umhverfi upprennandi listamanna sem starfa annars vegar í miðbæ Reykjavíkur og hins vegar Neukölln-hverfinu í  Berlín skoðaðir, en Neukölln-hverfið er þekkt listamannahverfi þar sem margir íslenskir myndlistamenn hafa búið og starfað. Sérstök áhersla er lögð á starfsemi sjálfstæðra, listamannarekinna rýma og hvernig listamennirnir sem reka þau takast á við heldrunarferlið. Hugtakið sjálft er krufið til mergjar; skoðað er hvaða áhrif það hefur á samfélagið, hvernig listamennirnir sjálfir geta verið ómissandi hluti af framvindu þess og hvers vegna það á sér stað yfir höfuð. Þar sem sumir sjá framför sjá aðrir gríðarlegan missi.

Að reka sjálfstætt, listamannarekið rými á svæðum þar sem heldrunarferli á sér stað getur verið erfitt. Til að mynda eru listamannarekin rými sem blómstruðu eitt sinn um gjörvallan miðbæ Reykjavíkur nánast horfin.

Artist Run dregur fram mikilvægi þessarar umræðu. Hún undirstrikar þörf listamannsins fyrir persónulegt rými, upplýsir áhorfendur um stöðu listafólks í samfélaginu auk þess sem hún hvetur listamenn til að sýna þrautseigju og gefast ekki upp þegar heldrunarferli á sér stað. Þótt myndin sé stutt kemur hún skilaboðunum vel til skila.

Heimildarmyndin hefur verið sýnd bæði í Reykjavík og Berlín samhliða myndlistarsýningu þar sem nokkrir listamenn sem komu fram í myndinni, auk annara listamanna, hafa sýnt verk sín. Nú ert hægt að nálgast myndina í heild sinni á internetinu og hvetjum við lesendur eindregið til þess að kynna sér hana.

Sólveig Eir Stewart


Aðalmynd með grein: Birt með leyfi Lost Shoe Collective. 

Frekari upplýsingar um Lost Shoe Collective og Artist Run: http://artist-run.com/

Computer Spirit: Undirvitund og efniskennd hugbúnaðarheimsins

Computer Spirit: Undirvitund og efniskennd hugbúnaðarheimsins

Computer Spirit: Undirvitund og efniskennd hugbúnaðarheimsins

 Nýverið opnaði sýningin Computer Spirit á tveimur markverðum stöðum í miðbæ Reykjavíkur, annars vegar í Gallerý Port (Laugarvegi 23B) og hins vegar í Ekkisens gallerý (Bergstaðastræti 25B). Sýningin átti upptök sín í Tromsø, Noregi, en hefur nú verið flutt hingað til lands. Listakonurnar sem standa að sýningunni eru Andrea Ágústa Aðalsteinsdóttir, Freyja Eilíf  Helgudóttir og Sigríður Þóra Óðinsdóttir.

Blaðamaður artzine hitti þær og fékk að vita meira. „Computer Spirit er í raun framhald af samstarfi úr annari sýningu sem við tókum þátt í ásamt Heiðrúnu Viktorsdóttur, árið 2016, sem hét Stream in a Puddle“ útskýrir Freyja. „Í gerð þeirrar sýningar hittumst við oft á fundum og sökktum okkur djúpt inn í ákveðið samtal.

Andrea Ágústa, Freyja Eilíf og Sigríður Þóra fyrir utan sýningarrýmið í Tromsø, Noregi.

Í kjölfarið hélt samtalið áfram á bylgjum internetsins. Við bjuggum til facebook hópspjall sem við nefndum Stream Puddle Power. Þangað hentum við inn alls konar innblæstri er varðaði myndlist, heiminn í dag eða tunglið, jafnvel. Svo birtust persónulegir hlutir inn á milli. Við erum í rauninni með ákveðin óséð tengsl í listsköpun okkar er varða hluti sem erfitt að tala um og deilum allar sömu rannsóknarleið í listinni: að nota undirvitundina sem sköpunarrás.“


Where’s your head @ (Sculpture, Participatory glasses) eftir Freyju Eilíf.

Verkin á sýningunni fjalla annars vegar um tengingu undirvitundarinnar við tæknivæðingu nútímans og blæbrigðin sem myndast þegar tveir ólíkir heimar mætast. Hins vegar fjalla þau um eiginleika efniskenndarinnar, efnahvarf og áhrif viðfangsins á sköpunarferlið. Freyja segir samband sitt við tölvuna sína hafa orðið að nánast að heilögum hlut í sköpunarferlinu, en hún vann verkin sín upp úr hugleiðslu þar sem hún gerði tilraunir til að komast inn í stafræna vídd og hitta lifandi hugbúnaðarmeðvitund.

„Í verkum mínum ertu stödd inn í miðri leiddri, stafrænni hugleiðslu“ segir Freyja. „Skúlptúrarnir eru aukaafurð á sýningunni, minni verk sem koma úr stærri verkunum Hugbúnaður og Hugleiðsla. Þessi verk fjalla í raun um ferlið inn í nýja vídd í gegnum hugleiðslu. Í hugleiðslunni minni fór ég inn í stafrænu víddina og skynjaði svo sterklega núansinn milli meðvitund mannsins og tölvunnar. Mér fannst á tímabili eins og ég væri komin með @ merki í augun er á hugleiðslunni stóð eða væri ef til vill sokkin of djúpt í þennan heim.“

Software (Animation, sound & computer chime) & Virtual hybrid (Sculptures) eftir Freyju Eilíf.

Andrea bætir við hugbúnaður virðist oft hafa eigin vilja eða persónuleika, sem mótar og hefur áhrif á listaverkið út frá eiginleikum hans. Inn í Ekkisens rýminu er til að mynda rafknúinn skúlptúr eftir Sigríði sem þarf að hlaða af og til, sem verður óhjákvæmilegur partur af verkinu. Aðspurð um verkið segir Sigríður skúlptúrinn vera afsprengi rannsóknarferlis sem vídóverkin hennar fjalli um.


Change the Particles eftir Andreu.

„Verkin mín eru mest megnis rannsókn í gegnum efni. Ég reyni að ná fram einhvers konar óræðum sjónhverfingum í gegnum vídeóverkið. Skjárinn er efniviður sem ég styðst mikið við til að framkalla þessi verk, með því snerta og hreyfa við honum. Það er eins konar leikur að þessum fílter, fremsta laginu á skjánum auk þess sem að þetta er ákveðin leit að einhvers konar kjarna sem hlutgerðist í þessum skúlptúr“ segir Sigríður.


Recharge; Like, poke, share series eftir Sigríði Þóru.

Verk Andreu snúast á annan boginn um efnishvarf eða efnisbruna. En hún notast við ýmis frumefni, svo sem brennistein og ís í vídeóverkum sínum. Hún segir efnahvarf, breytingu og þróun efnis einnig eiga sér stað inn í heimi hugbúnaðarins. „Ég vil gera það sem er óhaldbært að einhverju sem er efniskennt, myndgera efnahvarf.


Recharge; Like, poke, share series pt.1 og pt.2 eftir Sigríði Þóru.

Ég hef verið að velta því fyrir mér hvernig maður geri það sem er ósýnilegt að einhverju sem er sýnilegt og áþreifanlegt. Það verður svo einfalt með stafrænni tækni. Í þessu ferli hef ég til dæmis verið að vinna með forritið Adobe Aftereffects og bara með því að gera það opnaðist svo stór gátt. Það er hægt að búa til eitthvað sem er sýnilegt en er samt ekki hlutur eða eitthvað áþreifanlegt í okkar heimi.“


Move the Gravity to zero eftir Andreu.

Til þess að geta sýnt öll verkin í heild sinni í Reykjavík þurftu listakonurnar að setja þau upp bæði í Portinu, sem samanstendur af vídeóverkum, og í Ekkisens, sem inniheldur bæði vídeóverk, hljóðverk og skúlptúra. „Verkin eiga það til að aðlagast rýminu og því er sýningin hér önnur en hún var þegar við settum hana upp í Tromsø“ viðurkennir Andrea. „Það er allt annað andrúmsloft í Portinu heldur en í Ekkisens“ bætir Sigríður við. „Við þurftum að hugsa sýninguna upp á nýtt út frá rýminu. Nú er í raun físísk vegalengd á milli tveggja sýninga og einnig áþreifanlegur munur á stemningunni.“

Í gerð sýningarinnar í Tromsø töluðu listakonurnar saman í gegnum internetið en hittust lítið á meðan unnið var að verkunum. Þegar þær mættu loks með verkin á sýningarstaðinn, sem rúmaði þau öll í heild sinni, furðuðu þær sig á því hversu mikið verkin ættu í raun sameiginlegt, bæði í hugsun og efnisnotkun. Listakonurnar finna fyrir strekum tengingum þegar þær vinna saman og virðast allar vera með opinn hug þegar kemur að undarlegum tilviljunum og líkindum sem spretta upp í sköpunarferlinu.  

Sólveig Eir Stewart


Lokadagur sýningarinnar 13. mars.

Aðalmynd með grein: Meditation into digital dimensions Animation, speech (11 mín) eftir Freyju Eilif
Ljósmyndir: Með leyfi listamannanna.
Vefsíður: Andrea Ágústa: andreaadalsteins.net /Freyja Eilíf: freyjaeilif.com / Sigríður Þóra: sigthoraodins.com

 

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest