Pétur Thomsen og Rúrí í Listasafni Árnesinga

Pétur Thomsen og Rúrí í Listasafni Árnesinga

Tvær nýjar sýningar opnuðu í Listasafni Árnesinga laugardaginn 14. maí kl. 14  

Ólík verk þessara áhugaverðu listamanna eiga það sameiginlegt að fjalla m.a. um tímann. Þau fela líka í sér vangaveltur sem sóttar eru í viðfangsefni úr nærumhverfinu hér en eiga sér einnig víðari skírskotanir. Báðir listamennirnir eiga það líka sameiginlegt að vera þekktir fyrir að fjalla um samskipti manns og náttúru.

Við gerð verkanna á sýningunni Tíð / Hvörf notar Pétur stafræna ljósmyndavél og sýnir okkur á ljóðrænan hátt hvernig tíminn hefur sett mark sitt á lífið í kringum hann og breytingar í náttúrinni  dag frá degi. Verk hans á sýningunni hafa ekki verið sýnd áður utan eitt og þau fjalla bæði um náttúruna sjálfa og smáatriðin sem við tökum sjaldan eftir í daglegu flæði tímans. Þau fjalla líka um inngrip mannsins í þessa sömu náttúru, hvernig  maðurinn, meðvitað eða ómeðvitað, hefur áhrif á náttúruna eins og segir í texta Sigrúnar Ölbu Sigurðardóttu, menningarfræðings í sýningarskrá. Pétur nam listfræði, fornleifafræði og ljósmyndun í Frakklandi og hefur notið velgengni sem listamaður hérlendis og á alþjóðlegum vettvangi frá því hann lauk meistaragráðu í ljósmyndun árið 2004. Hann er búsettur á Sólheimum í Grímsnesi.

Verk Rúríar á sýningunni Tíma – Tal tengjast mörg útlistaverkinu Sólgátt sem sett verður upp í sumar við Sólheima í Grímsnesi þar sem viðfangsefnið er m.a. mæling tímans út frá gangi sólar. Verkin eru frá ýmsum tímum, nokkur þeirra hafa ekki verið sýnd áður hér á landi og önnur eru ný. Rúrí nam myndlist á Íslandi og Hollandi á árunum 1971-78 og er löngu þekkt bæði innanlans og á alþjóðlegum vettvangi fyrir útilistaverk sín s.s. Regnbogann við Leifsstöð, stórar innsetningar af margvislegum toga og hún var fulltrúi Íslands á Feneyjartvíæringnum 2003. Í sýningarskrá ritar Laufey Helgadóttir listfræðingur m.a. að þegar ferill Rúríar er skoðaður sést að hann er einn samhangandi heimur þar sem heimspekilegar vangaveltur, tími, afstæði, gildi og afstaða mannsins til alheimsins skiptir meginmáli. Þannig brýnir hún fyrir okkur að sýna ábyrgð gagnvart umhverfinu, vera meðvitaðri um hlutskipti okkar á jörðinni og hvernig við tökumst á við framtíðina. Verk hennar eiga erindi til okkar sem aldrei fyrr.

Sýningarnar Tíð / Hvörf og Tíma – Tal munu standa til og með 1. ágúst og á þeim tíma er safnið opið alla daga kl. 12 – 18. Aðgangur að safninu er ókeypis og allir velkomnir – líka á opnun sýninganna.

Pétur Thomsen
Rúrí
Leiðsögn um ljósmyndasýninguna Fólk / People

Leiðsögn um ljósmyndasýninguna Fólk / People

Miðvikudaginn 18. maí og fimmtudaginn 19. maí kl. 12.15-12.45 verður boðið upp á leiðsögn í Listasafninu á Akureyri um ljósmyndasýninguna Fólk / People, en þar sýna sjö ólíkir listamenn verk sín. Fyrri leiðsögnin er haldin í tilefni af Alþjóðlega safnadeginum og fer eingöngu fram á ensku, en hin síðari verður með hefðbundnu sniði og á íslensku. Þorbjörg Ásgeirsdóttir safnfulltrúi og Guðrún Pálína Guðmundsdóttir fræðslufulltrúi fræða gesti um sýninguna sem lýkur 29. maí næstkomandi og er því um síðustu leiðsögnina að ræða.

Listamennirnir eru Barbara Probst, Hallgerður Hallgrímsdóttir, Hrafnkell Sigurðsson, Hrefna Harðardóttir, Hörður Geirsson, Ine Lamers og Wolfgang Tillmans. Sýningarstjóri er Hlynur Hallsson.

Sýningin stendur til 29. maí og er opin þriðjudaga – sunnudaga kl. 12-17.

Aðgangur er ókeypis.

Frontiers of Solitude / Verkefnakynning í sýningarsalnum í Skaftfelli

Frontiers of Solitude / Verkefnakynning í sýningarsalnum í Skaftfelli

Frontiers of Solitude / Verkefnakynning í sýningarsalnum í Skaftfelli á Seyðisfirði

Finnur Arnar Arnarson (IS), Karlotta Blöndal (IS), Peter Cusack (UK/CZ), Þórunn Eymundardóttir (IS), Iselin Linstad Hauge (NO), Monika Fryčová (CZ/IS), Elvar Már Kjartansson (IS), Alena Kotzmannová (CZ), Pavel Mrkus (CZ), Greg Pope (UK/NO),  Ivar Smedstad (NO), Diana Winklerová (CZ), Martin Zet (CZ).  Verkefnastjóri Julia Martin.
Dagana 14. – 29. maí verður verkefnakynning á tékkneska, norska og íslenska samstarfsverkefninu Frontiers of Solitude í sýningarsal Skaftfells. Verkefnið beinir sjónum sínum að þeim breytingum sem eru að eiga sér stað í landslagi og náttúru og veltir upp spurningum útfrá því að maðurinn sé rétt að stíga upp úr iðnbyltingarlífstíl sínum, gildum þessa og áhrifum á náttúruna.

logos

skaftfell-logo


Austurvegur 42   |   710 Seyðisfjörður   |   Iceland   |   Sími / Tel. (+354) 472 1632

Verkfæri til sjálfsbjargar á hjara veraldar

Verkfæri til sjálfsbjargar á hjara veraldar

Málþing 20. – 22. maí í Herðubreið, Seyðisfirði

Skaftfell efnir til málþings um samspil myndlistar og vistfræði í tengslum við verkefnið Frontiers in Retreat . Yfirskrift málþingsins er „Verkfæri til sjálfsbjargar á hjara veraldar” og mun það þjóna sem samtalsvetttvangur þar sem rýnt verður í eftirfarandi spurningar:

  • Hver eru helstu einkenni vistkerfa, umhverfis, samfélags og daglegs lífs á Íslandi?
  • Hvernig geta listamenn tekist á við þessi málefni og hvert er framlag þeirra til umræðunnar?
  • Hvaða tækifæri og áskoranir eru framundan fyrir staðbundin vistkerfi og hvernig getum við aðlagast þeim?

Boðið verður upp á fyrirlestra sem tengjast náttúru, jarðfræði og mannlífi, snertifleti myndlistar og vistfræði, umhverfismál og meðvitaðan lífsstíl, umbætur á innviðum samfélagsins og aukin lífsgæði. Sérstakur gestur verður Naresh Giangrande frá bresku samtökunum Transsition Network og mun hann loka málþinginu á sunnudeginum. Samtökin eru góðgerðarstofnun sem hvetur, útskýrir, víkkar, styður, þjálfar og dýpkar vitund á heimsvísu með Transition módelinu sem leiðir til minnkunnar á losun koltvísýrings og eykur velferð í heiminum.

 

Aðrir fyrirlesarar koma víða að:

  • Caitlin Wilson frá Landvernd
  • Erla Dóra Vogler frá Djúpavogshreppi
  • Guðfinnur Jakobsson frá Skaftholti
  • Hjalti Jóhannesson frá Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri
  • Jonatan Spejlborg og Lasse Hogenhof (DK) frá Lunga skólanum
  • Kati Gausmann (DE) myndlistarmaður
  • Martin Gasser (CH) frá Breiðdalssetri
  • Ósk Vilhjálmsdóttir myndlistarmaður
  • Ráðhildur Ingadóttir myndlistarmaður
  • Rán Þórarinsdóttir frá Náttúrustofu Austurlands
  • Richard Skelton (UK) myndlistarmaður

 

Málþingið fer fram á ensku í Herðubreið og þátttaka er gjaldfrjáls. Dagskrá er aðgengileg á www.skaftfell.is og nánari upplýsingar um fyrirlesara birtast brátt. Skráning fer fram á fraedsla@skaftfell.is

Málþingið er styrkt af menningaráætlun ESB, Myndlistarsjóði, Uppbyggingarsjóði Austurlands, Seyðisfjarðarkaupstað og Náttúruverndarsjóði Pálma Jónssonar, stofnanda Hagkaups.

Screen Shot 2016-05-12 at 14.59.13

Nánar má lesa um Frontiers in Retreat verkefnið í heild sinni á http://skaftfell.is/verkefni/frontiers-in-retreat-2013-2018/

Ljósmyndir í góðum gæðum má nálgast á: https://www.dropbox.com/sh/cq37vyvoik8885u/AACiPv-JsQr3OZobfdXGmFVLa?dl=0

Nánari upplýsingar veitir Tinna Guðmundsdóttir, forstöðukona Skaftfells, skaftfell@skaftfell.is, s: 6956563

skaftfell-logo

Austurvegur 42   |   710 Seyðisfjörður   |   Iceland   |   Sími / Tel. (+354) 472 1632

Yfirlýsing frá stjórn SÍM vegna sölu Ásmundarsals

Yfirlýsing frá stjórn SÍM vegna sölu Ásmundarsals

Yfirlýsing frá stjórn SÍM vegna sölu Ásmundarsals

Fram kom í fréttum sl. föstudag að Alþýðusamband Íslands hafi þegar selt Ásmundarsal, einungis viku eftir að fréttir bárust af því að húsnæðið væri til sölu. Vegna þessa sendir stjórn SÍM frá sér meðfylgjandi yfirlýsingu.

Líkt og áður hefur komið fram harmar stjórn SÍM sölu ASÍ á Ásmundarsal. Nú ríkir óvissa um það hvernig safneign ASÍ verður sýnd til framtíðar litið. Stjórn SÍM telur brýnt að þessari óvissu verði eytt sem fyrst, enda tilheyra Listasafni ASÍ mörg af fegurstu verkum íslenskrar myndlistarsögu. Tryggja þarf safneigninni nýtt sýningarrými svo hægt verði að sýna verkin. Af hálfu ASÍ hefur komið fram að ætlunin sé að nota ágóða af sölu Ásmundarsals til að koma upp nýju sýningarrými til að sýna safneign listasafnsins. Að mati stjórnar SÍM verður að koma fram raunhæf, tímasett áætlun um það hvenær nýtt sýningarrými verður tekið í notkun. Annað er vanvirðing við listasafn ASÍ og stofngjöf Ragnars í Smára. Stjórn SÍM auglýsir eftir slíkri áætlun og mun fylgja því eftir opinberlega að hún liggi fyrir á þessu ári.

SÍM ítrekar óánægju sína með að ekkert samráð hafi verið haft við hagsmunaaðila við aðdraganda sölunnar og lýsir furðu sinni á því hve skamman tíma söluferlið tók. Frá því Ásmundarsalur var auglýstur til sölu og þar til hann var kominn í hendur nýrra eigenda leið tæp vika. Þá telur SÍM að eðlilegt hefði verið að auglýsa tilboðsfresti opinberlega vegna söluferlsisins.

Stjórn SÍM óskar nýjum eigendum Ásmundarsals, fjárfestunum Sigurbirni Þorkelssyni og Aðalheiði Magnúsdóttur, velfarnaðar í fyrirhugaðri menningarstarfsemi í húsnæðinu. Þeim eru þakkir skildar fyrir að takast á hendur þá ábyrgð sem fylgir þessu einu sögufrægasta húsi íslenskrar listasögu, sérstaklega fyrir þá fyrirætlan að virða ósk Ásmundar Sveinssonar um að myndlistartengd starfsemi verði ávallt hluti af húsinu. Fyrirhuguð starfsemi nýrra eigenda, sem kynnt hefur verið í fjölmiðlum, virðist eyða þeirri óvissu sem uppi var varðandi framtíðarnotkun Ásmundarsals og hvort hann yrði áfram notaður sem myndlistarrými eða í öðrum, óskyldum tilgangi.

Alls skrifuðu rúmlega 1500 manns undir áskorun SÍM til ASÍ um að endurskoða ákvörðun um að selja Ásmundarsal. Stjórn SÍM færir öllum sem veittu málinu áhuga bestu þakkir.

Fyrir hönd stjórnar SÍM Jóna Hlíf Halldórsdóttir, formaður.

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest