Afstrakt málverk í forstofuna!

14.04. 2016 | Umfjöllun

Afstrakt málverk í forstofuna! Við horfum á listina með augunum, við hengjum hana upp á vegg. Klístur lágmenningarinnar yfirtekur hið heilaga. „Fræðimaður óskast!“ Hrópar einhver. „Hyldu þennan skandal, klæddu þetta í önnur föt. Betri búning! Burtu með klámið! Þú setur þetta í eitthvað pent, eitthvað lekkert. En ekki loka upplifun áhorfendans, listin er frjáls mundu!“ Akkúratt svona, nú er allt betra. Listin þurfti bara á svona baði að halda. Listin þurfti kannski líka bara á svona blaðri að halda.

Við horfum á list með augunum og hendum henni í ruslið í huganum. Sorpframleiðslan verður ekki stöðvuð, en við getum beðið þolinmóð, rusl sópar annað rusl sjálfkrafa. Nú þarf líka að minna á það að list er ekki list nema bara sú list sem er að verða til á líðandi stundu! Þess vegna þarf alltaf að endurnýja svona mikið, þess vegna þurfum við svona mikið af listamönnum, svo það sé hægt að halda þessu við. Launalaust strit þúsunda er nauðsynlegt til að halda við  hringekju af stefnulausri þróun, búum bara til eitthvað! Úps, það gæti óvart verið atómsprengja.

Svo frjáls að við þurfum ekki að bendla okkur við neitt nema listagáfuna, með pínu styrk frá Arion banka. Hvað eiga listheimur og fegurðarsamkeppni sameiginlegt? Við setjum list inn í fegurðarsamkeppni og höldum fegurðarsamkeppni í Listasafni Íslands og útkoman er list og snilld. Hvernig afstrakt málverk er í forstofunni hjá þér?

Screen shot 2016-04-22 at 5.26.31 PM

Við búum til mann sem heitir B. Maðurinn B fer á listasýningu, gengur í gegnum sýningarrýmið og hugsar ,,ekki flott, ekki flott, kannski pínu flott, flott! Þetta er flott“. Kannski virkilega flott og B langar í’ða. B fær’ða. Þetta listaverk vinnur. En þeir sem eiga ekki búning, þeir tapa, þeir sópast burt. Eða öfugt, það er ekki hægt að segja til um það núna. Nú byrstir maðurinn B við sér og gólar: „Hvaða nauðgari er að klæða listina óviljuga úr fötunum hérna og slengja henni framan í vit mér? Heimskur ertu að vængstífa hina frjálsu list“ og listfræðingur svarar: „Mér sýndist listin vera sofandi. Ekki heyrði ég hana segja nei, ég heyri hana segja mest lítið þessa dagana“ – Listin er ekki mannvera og þess vegna má nauðga henni.

En einhver verður ósammála og hugsar „Þú hefur rangt fyrir þér“ og afstaða afstöðuleysi mætir afstöðu afstöðu í list, samkeppni og baráttu. Listamenn hafa framreitt verk fyrir tilefnið og dómur verður kveðinn með gangi tímans. Lystugustu listinni er kúkað út í kerfið og afgangurinn endar í kolaportinu við hliðina á afstrakt málverkinu sem minnst var á í byrjun. Góða skemmtun.

Birt í 3. tölublaði af Listvísi – Málgagn um myndlist

 

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest

Share This