Að spinna úr þráðum óreiðunnar

6.10. 2017 | Viðtöl

Blaðamaður artzine kíkti við á myndlistarsýninguna Ég sagði það áður en þú gast sagt það sem stendur yfir í Gallerí Gróttu um þessar mundir. Það er myndlistarhópurinn I.Y.F.A.C eða International Young Female Artist Club sem sýnir, en hópurinn samanstendur af myndlistarkonunum Höllu Birgisdóttur, Ragnheiði Hörpu Leifsdóttur, Ragnheiði Maísól Sturludóttur, Sigrúnu Hlín Sigurðardóttur og Steinunni Lilju Emilsdóttur. Blaðamaður settist niður með þeim á Bóksafni Seltjarnarness og ræddi við þær um sýninguna og samstarfið.

Hópurinn varð til um það leyti sem Sigrún Hlín og Ragnheiður Maísól voru nýútskrifaðar með BA gráður í myndlist frá Listaháskóla Íslands. Að þeirra sögn vantaði þær báðar einhvers konar rótfestu eða samastað og fólk sem þær gætu talað við um myndlist og það sem þær væru að hugsa. „Þetta var eins konar lágpunktur fyrir mig, þar sem ég fattaði að það væri enginn að bíða eftir að maður gerði eitthvað eða fara að klappa manni á kollinn. Svona er veruleikinn oft fyrir nýútskrifaða myndlistarmenn,“ segir Sigrún, hreinskilnislega.

Eftir að hafa hist og rætt málin ákváðu þær að stofna Facebook-hóp og bjóða nokkrum velvöldum listakonum í hópinn. Á þann hátt sköpuðu þær vettvang til að varpa fram hugmyndum og eiga samtal við aðra um myndlist. Sýningin sem stendur yfir í Gallerí Gróttu er önnur sýningin sem þær vinna að saman, þótt sýningar séu ekki endilega meginmarkmið I.Y.F.A.C hópsins.

„Í fjöldanum verður til smitandi orka og hópurinn er fyrst og fremst hugsaður sem eins konar stuðningsnet,“ segir Ragnheiður Harpa. „Já, við erum smá eins og AA, nema fyrir listakonur,“ bætir Steinunn Lilja við og skellir upp.
„Það er oftast þannig að ein okkar stingur upp á að sýna og svo vinnum saman að umsókn. Ein er með hugmynd sem hefur verið að gerjast, en önnur setur hana fram. Þegar við sýndum fyrri sýninguna okkar í SÍM salnum voru Ragnheiður Harpa og Steinunn t.d. ekki með verk, en þær tóku á sig hlutverk sýningarstjóra“ segir Ragnheiður Maísól.

„Við erum náttúrulega hópur kvenna og umræðan fer oft þangað. Titill sýningarinnar, Ég sagði það áður en þú gast sagt það, vísar í hið kvenlæga í okkur,“ svarar Ragnheiður Harpa þegar spurt er um innblástur sýningarinnar. „Það er þetta með að afsaka allt áður en maður gerir eitthvað sem er mjög kvenlegur eiginleiki,“ bætir Ragnheiður Maísól við. „Maður er alltaf að afsaka sig fyrirfram. Það er fyndið að standa sig að þessu þegar gestir koma í heimsókn eða þegar maður er að byrja símtal, því þetta er eitthvað sem maður myndi aldrei ætlast af öðrum. Það er eins og við séum alltaf að afsaka tilvist okkar, búast við einhverri gagnrýni og forðast árekstra, en þeir eru einmitt svo skemmtilegir!“

Listakonurnar byrjuðu sýningarferli Ég sagði það áður en þú gast sagt það sýningarinnar á að vinna undir titlinum Augnsaumur. „Það er saumspor sem er hluti af íslenskri útsaumshefð,“ útskýrir Sigrún. „Þá er vefnaðurinn glenntur út með sporunum þannig það opnast stærra gat á milli vefjaþráðanna heldur en á að vera. Þá myndast eins konar auga sem breytir uppbyggingunni án þess þó að slíta eða skera.“

Samkvæmt listakonunum hefur textíllinn oft verið afskrifaður sem dútl eða skraut í stað alvarlegrar myndlistar, eins og svo margt annað sem telst kvenlægt, nema ef listamaðurinn er karlmaður. „Kona má halda sýningu um eitthvað kvenlægt eins og ástina, eða hafa blóm í gjörningnum sínum. Það er ekkert skammarlegt við það,“ segir Steinunn, ákveðin. „Maður hefur alveg lent í smá hnussi þegar talað er um textíl,“ tekur Sigrún undir. „En textíllinn er einmitt einn þráðanna í þessari sýningu. Það eru þræðirnir í óreiðunni, veraldlegu þræðirnir sem við vefum úr og svo þessi arfur kvenna sem hefur gengið í gegnum þráðinn, frá kynslóð til kynslóðar í ýmsum birtingarmyndum.“

Þegar samræður eru komnar út í frjálst spjall tölum við oft um óreiðuna eða byrðina sem fylgir hlutum, bæði bókstaflega en einnig t.d. í tölvupósti manns. Þá fer maður að sortera efnið sitt og finna hvar merkingin liggur. „Þráðapælingin fer úr því að vera smá yfir í stærri mynd. Steinunn er til dæmis með stjörnugeim sem nær yfir risa spektrúm,“ segir Ragnheiður Harpa og horfir áhugasöm til Steinunnar.

„Stjörnurnar eru sem sagt augnskuggi,“ segir Steinunn. „Ég kann ekki að mála mig og hef aldrei gert, en einhvern veginn sit ég uppi með fullt af augnskugga sem ég hef sankað að mér í gegnum tíðina og aldrei hent. Það sem mér finnst gaman akkúrat núna er að fara á vefsíðuna Pinterest og skoða myndir af geimnum og stjörnuþokum. Stundum þegar ég horfi á himininn á ég erfitt með að sjá stjörnurnar og finnst það svekkjandi. Ég ímynda mér þá hvernig það væri ef það væri hinseginn, stjörnurnar væru svartir punktar og himininn ljós, þá væri mun auðveldara fyrir mig að sjá munstrin. Svo ég ákvað að gera það að raunveruleika með efninu sem var alltaf að þvælast fyrir mér, augnskugganum. Ég er nefnilega í því ferli að losa mig við hluti sem ég hef sankað að mér, en á erfitt með að henda. Augnskugginn finnst mér mjög fallegur og magnað efni til að vinna með. Með þessu langaði mig að binda hinn stóra stjörnugeim saman við eitthvað sem telst venjulegt.“

Verk Ragnheiðar Hörpu fjallar einnig um hið smáa og stóra, en það samanstendur af nokkrum sandstöplum sem hún nefnir Galdra. „Í sandinum leynist smækkuð mynd af stærri heim. Með verkinu vildi ég vísa í hina kvenlegu hefð að gera seið og galdra, arf sem gengið hefur niður kynslóðir“ segir Ragnheiður Harpa. Ásamt sandinum eru litlir steinar, kuðungar og smáhlutir sem hún fékk frá ömmu sinni. Þeim hefur hún raðað í myndir sem minna helst á töfrarúnir. Ragnheiður Harpa segir frá því að hún hafi fundið fyrir kynslóðabili sem leiddi til þess að vitneskja af þessu tagi hafi tapast. „Með verkinu vil ég brúa bilið, sækja aftur í það sem hefur hugsanlega tapast.“

Á opnun sýningarinnar var fluttur gjörningur sem gestum var boðið að taka þátt í og vinna saman að því að töfra fram nýjan galdur undir leiðsögn Ragnheiðar Hörpu. Fólk var látið varpa óskum sínum á tiltekinn hlut, stein eða kuðung og koma honum fyrir á ákveðnum stað á stöplinum.

„Mér fannst gjörningurinn tala svolítið um arfinn eða það sem er geymt,“ segir Sigrún. „Þungann og söguna í hlutum sem er tímabundin. Þú gerir verkið ekki aftur án þess að gera það allt aftur.“
Verk Sigrúnar er unnið í textíl og samanstendur af 110 efnisbútum sem innihalda allir handsaumað orðið OK. „Verkið var tilraun til að einblína á handahófskennda jafnt sem tímatengda hugmynd, það að endurtaka sama verkefnið dag eftir dag í ákveðinn tíma,“ segir Sigrún hugsi. „Á hverjum degi saumaði ég þessa tvo stafi í efnisbút af sömu stærð. Það var komið á þann stað þar sem ég fór að hugsa um lögun stafanna, mjúkt O og beitt K,“ segir hún og hlær. „Ég vil meina að það þurfi ekki að bíða eftir því að meistaraverk komi til manns. Það er líka hægt að taka ákvörðun og treysta því að verkið komi til í ferlinu. Reglurnar urðu til eftir því sem ég vann verkið.“ Hver og einn efnisbútur virðist hafa sinn persónuleika, mótaðan af efninu og hvernig OK-ið er saumað. Sumir bútarnir virðast hvísla á meðan aðrir öskra.

Verk Ragnheiðar Maísólar er einnig unnið í textíl og sprottið út frá heilráðum móður hennar. „Ég fór að hugsa um hvernig allt sem maður segir við börnin sín hefur áhrif og hvað það væri sem sæti eftir hjá mér í sambandi við mömmu mína. Við höfum átt svo náið samband og hún hefur alltaf verið mikil fyrirmynd, textílkona og vefari. Mig hafði alltaf langað að vinna með henni,“ segir Ragnheiður. „Einu sinni þegar ég var að fara út úr húsi með taupoka endurómaði heilræði móður minnar í höfðinu á mér: „Það er betra að vera með eina stóra tösku en margar litlar.” Þá byrjaði ég að safna heilráðum og festa þau niður. Þegar ég var að vinna verkið urðu þessi heilræði nánast trúarleg, eins og boðorðin tíu.“ segir Ragnheiður og hlær. „Einu sinni sagði hún við mig „Þú ert ekki frek, þú ert ákveðin”. Þessi setning hafði mikil áhrif á mig sem barn og sýndi mér að það er allt í lagi að vera stelpa og taka pláss. Ég lærði með þessu að vera svolítill gaur og að kýla á hlutina.“

„Mér finnst Halla líka hafa þetta í sér, að kýla á hlutina,“ segir Steinunn. „Hún er ein duglegasta kona sem ég þekki.“ Hinar taka allar undir, en Halla var sú eina sem komst ekki í viðtalið. Verkið hennar samanstendur af hringlaga blýantsteikningum í sérstökum stíl sem hún hefur þróað með tímanum. Verkið ber heitið Betri eru ímyndanir en að tilheyra engum sem vísar í einmanaleikann og hvernig við sem mannfólk tökumst á við hann og lífið sjálft með því að skapa okkar eigin heima með ímyndunum.

Við inngang sýningarinnar er texti á vegg sem við fyrstu sýn virðist fjalla á hefðbundinn hátt um sýninguna, en er í raun kvenlæg afsökunarbeiðni sem hnykkir á og undirstrikar inntak og áherslur sýningarinnar.

Blaðamaður artzine þakkar fyrir spjallið. Við og minnum á að lokahóf sýningarinnar er 7. október og hvetjum alla til að mæta.

Sólveig Eir Stewart

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest

Share This