Að láta listina gerast

19.04. 2018 | Umfjöllun

Það að setja upp alþjóðlega samsýningu myndlistarmanna í stórborg eins og Lundúnum getur verið meira en að segja það, en Sara Björnsdóttir myndlistarmaður lét það ekki stoppa sig. Hún fékk til liðs við sig hóp myndlistarmanna, leigði sýningarstað og hrinti verkefninu í framkvæmd. Sara vann að sýningunni í meira en eitt ár, en hún hefur búið og starfað að list sinni í borginni síðastliðin þrjú ár.

Sýningin, sem hét To Make Art Happen, og lauk um nýliðna helgi, var sú fyrsta af amk. þremur sambærilegum sýningum á þessu og næsta ári, sem Sara hyggst búa til, en hver sýning verður með sitt eigið þema og mismunandi listamenn.

Sýningarstaðurinn kallast Safe House, fjölnota niðurnítt, en bráðskemmtilegt, hús frá Viktoríutíma, sem tilheyrir að hluta athafnahverfinu Bussey Building í Peckhamhverfi í London. Bussey Building er í raun listamiðstöð, sér heimur, mitt í hinu fjölþjóðlega Peckham, með listagalleríum, líkamsræktarstöð, kaffihúsum, veitingahúsum, vinnustofum, brettahúsi og ýmsu fleira skemmtilegu.

Peckham hverfið sem slíkt er reyndar heill heimur út af fyrir sig og má hvetja fólk til að eyða þar degi, eða drjúgum hluta dags, þó ekki væri nema til að fá sér sæti fyrir utan gott kaffihús og virða fyrir sér fjölbreytilegt og iðandi mannlífið, margslungnar verslanir og þjónustu sem þarna er að finna.

En aftur að Safe House. Þar voru mættir listamennirnir Þóroddur Bjarnason, Darri Lorenzen, Snorri Ásmundsson, Sara Björnsdóttir, Sæmundur Þór Helgason, Frederique Pisuisse, Hatty Lee, David Cotterrell, Kevin Atherton, Libia Castro og Ólafur Ólafsson til að setja upp sýningu. Þemað var tími, og voru verkin öll með ákveðna tilvísun í tímahugtakið, mis sterkt þó eins og gengur.

Undirritaður sýndi verkið Hello My name is Thoroddur, akríl málverk á striga sem var endurgerð á vinsælum límmiða sem fólk notar gjarnan á mannamótum til að kynna sig, amk. í hinum enskumælandi heimi.  Skammt frá því verki mátti sjá verk eftir þau Lybiu Castro og Ólaf Ólafsson, Landið þitt er ekki til.  Í þessari nýju útgáfu verksins höfðu þau fengið sendiherra Íslands í Englandi til að mála málverk eftir tölustöfum ( paint by numbers ) með textanum Your Country Doesn´t Exist. Verkið samanstóð af málverkinu sjálfu, tveimur ljósmyndum af sendiherrranum að mála myndina, en hann valdi að mála mynd sína úti í hrauni, í stíl Kjarvals, og texta í ramma sem útlistaði gerð verksins. Þau Ólafur og Lybia hafa gert sambærileg verk víða annars staðar, meðal annars á Feneyjartvíæringnum þegar þau voru þar fulltrúar Íslands.


Hello My name is Thoroddur eftir Þórodd Bjarnason.


Landið þitt er ekki til eftir Libiu Castro og Ólaf Ólafsson.


Hér má sjá tvö verk eftir Hatty Lee.


Stilla úr videoverki Kevin Atherton en videoið var einnig hluti af gjörningi sem fluttur var á opnuninni.


Verk David Cotterrell.

Í sama rými mátti sjá staðbundnar ljósmyndir Hatty Lee, en hún tók myndir inni í Safe House, en bætti aðeins við fegurðargildi hússins með því að setja litað gler tímabundið inn í húsið fyrir myndatökuna.

Fjórði listamaðurinn á jarðhæð sýningarstaðarins var Kevin Atherton. Óhætt er að segja að myndbandsverk hans hafi verið marglaga. Verkið sýndi hann sjálfan sem ungan mann að boxa út í loftið. Skömmu síðar mætir andstæðingur til leiks, Atherton sjálfur, mörgum áratugum síðar, og boxar við unga manninn, og hefur sigur. Ellikerling sigrar tímann. Á opnun bættist enn eitt lagið við, þegar Atherton reimaði á sig stuttbuxur og boxhanska og boxaði “live” allt kvöldið við ungu útgáfuna af sjálfum sér.  Til upplýsingar má geta þess að í fyrstu útgáfu verksins boxuðu tveir ungir Athertonar við hvorn annan með hjálp kvikmyndatækninnar.

Á efri hæð hússins blasti fyrst við manni svart tjald, sem dregið var fyrir eitt herbergjanna í húsinu. Þegar tjaldið var dregið frá var komið inn í verk Darra Lorenzen. Verkið samanstóð af tímastilltu forrituðu ljósi í myrkvuðu rými sem dofnaði og birti til á víxl. Einnig mátti sjá litla snærisspotta sem hann hnýtti og lét hanga inni í herberginu, en óneitanlega fór maður að horfa á herbergið öðrum augum í þessum sífelldu ljósaskiptum, og taka eftir ýmsum smáatriðum.

Sara Björnsdóttir sýndi ljósmyndaverk. Fólk á ströndu sem horfði út á haf. Persónulegt verk, ein manneskja og tvær, sitjandi langt frá hvorri annarri, til skiptis.

Enn eru fjögur verk ónefnd. Á hægri hönd í rýminu sem sneri að götunni var það verk Frederique Pisuisse. Verkið, sem lá þvert eftir veggnum á einskonar hillu, var margslungið og margir miðlar notaðir. Leirkarl lá makindalega í horninu, hvít hendi lengst til hægri, ljósgjafi, og vídeó, bakvið mynstrað gler. Pisuisse sjálf tók þar viðtal við athafnamann.

Sæmundur Þór var á endaveggnum með litla sérsmíðaða lottókúlu, en verkið er tilvísun í listalotterí sem listamaðurinn hyggst halda innan tíðar.

Við hlið Sæmundar var verk sem auðvelt var að missa af ef maður gætti ekki að sér, verk David Cotterrell. iPhone sími var settur út í glugga, eins og einhver hefði gleymt honum þar. Stundum hringdi síminn, þannig að allir fóru ósjálfrátt að líta í kringum sig eða gramsa í vösum sínum, en inn á milli birtust á skjá símans persónuleg textaskilaboð milli elskenda eða pars.

Snorri Ásmundsson sýndi ljósmynd á arinveggnum. Hópur Íslendinga í Los Angeles, með Hollywood skiltið í baksýn, og allir í símanum. Tákn tímans. Allir saman, en samt enginn á staðnum.

Snorri framdi einnig gjörning á opnun, þar sem hann bað fólk um að skiptast við sig á jökkum, og svo koll af kolli þar til fjöldi manna var kominn í vitlausan jakka. Undirritaður greip í trompetinn og spilaði þjóðsöngva Íslands, Bretlands og ESB, á undan gjörningi Snorra.

To Make Art Happen stóð undir nafni. Sara lét listina „gerast“, og það er ekki allt búið enn.

Þóroddur Bjarnason

 


Ljósmyndir: Hatty Lee

Hægt er að sjá fleiri myndir og meira um verkefnið hér: facebook.com/toMakeArtHappen

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest

Share This