Að gefa í skyn en segja ekki allt

27.02. 2018 | Viðtöl

Katrín Elvarsdóttir ljósmyndari og myndlistarmaður er fædd árið 1964 á Ísafirði. Katrín lauk BA gráðu í frönsku við Háskóla Íslands 1988. Hún stundaði nám í ljósmyndun við Brevard Community Collage á árunum 1988-1990 og lauk BFA prófi frá Art Institute í Boston árið 1993. Katrín hefur haldið margar einkasýningar hérlendis og erlendis og er ein af stofnendum FÍSL, félags íslenskra samtímaljósmyndara. Nýverið hlaut Katrín EIKON Award (45+) verðlaunin. Verðlaunin voru veitt í Vínarborg og verndari verðlaunanna er goðsögnin og femínistinn Valie Export.

Blaðamaður artzine kíkti í heimsókn til Katrínar og spurði hana út í myndlistina, EIKON verðlaunin og stöðu konunnar í samtímaljósmyndun.

Af hverju myndlist og hvað varð til þess að ljósmyndin varð þinn miðill í myndlistinni?

Ég var í Háskóla Íslands að læra frönsku og útskrifaðist þaðan þegar ég var 23 ára. Þann vetur fór ég á ljósmyndanámskeið í Iðnskólanum þar sem þessi mikli áhugi á ljósmyndun vaknaði. Ég keypti mér myndavél og fór að taka ljósmyndir á sama tíma og ég var að klára BA ritgerðina í frönskunni. Ég fór síðan til Flórída í hefðbundið ljósmyndanám og útskrifast þaðan árið 1990. Þetta var frábært nám og þar var lagt mikið upp úr tækni. Deildarstjórinn var með meistaragráðu í myndlist frá Art Institute í Chicago. Hann hafði framúrstefnulega sýn og við nutum góðs af því. Að því loknu sótti ég um í Art Institute of Boston þar sem var lögð mikil áhersla á myndlist. Ég valdi ljósmyndun sem aðalfag en ég þurfti að taka skylduáfanga eins og módelteikningu, vídeókvikmyndagerð, ljósmyndafræði og mikla listasögu sem mér fannst mjög skemmtileg.

Þegar ég útskrifaðist hafði ég mikinn áhuga á tískuljósmyndun, en það var ekki vinsælt meðal helstu kennara minna. Þeim fannst þetta yfirborðskenndur heimur og voru alltaf að vara mig við neikvæðu hliðunum. Ég fór til Parísar í eitt sumar og vann sem tískuljósmyndari.

EIKON tímaritið með verkinu Horfið Sumar 3 á forsíðunni.

Ég hafði mikinn áhuga á tímaritum – listrænum tískutímaritum eins og Interview – og mér fannst þetta spennandi heimur. Í myndlist er maður svo mikið einn en í tískuljósmyndun er maður aldrei einn. Þar er teymisvinna sem getur verið mjög gefandi og skemmtileg. Í Boston áttaði ég mig þó fljótt á því að að þessi heimur snérist að miklu leyti um að selja, í stað þess að snúast um sköpunina. Fólk gat verið mjög dónalegt og margar af fyrirsætunum veikar af átröskun. Þessi heimur var að mörgu leyti erfiður eins og búið var að segja mér, en ég hafði áhuga á að búa til minn eigin skapandi heim og fór til Danmerkur þar sem ég vann sem tískuljósmyndari í rúm tvö ár. Það er síðan fljótlega eftir að ég flyt til New York árið 1999 að myndlistin tekur yfir. Serían Mórar er unnin á þeim tíma og ég sýndi þau verk á mörgum stöðum í Bandaríkjunum.

Það hafa verið gefin út mörg bókverk með ljósmyndum þínum þar sem þú ert að vinna með öðrum listamönnum. Eru bókverkin mikilvægur hluti af myndlistarferlinu?

Sýning er eitt og bókverk annað. Það er gaman að vinna með grafískum hönnuðum við gerð bókverka, vinna við að velja úr og raða saman, og það er í raun tenging við tímaritaáhugann. Það er auðvelt að ferðast með bækur og senda þær út í heim. Þetta er falleg og skemmtileg leið til að koma ljósmyndunum á framfæri. Ég hef verið heppin með dreifingaraðila.

Þrjár bækur Katrínar sem Crymogea hefur gefið út.

Crymogea útgáfa hefur fengið alþjóðlega dreifingu og þrjár bækur, Equivocal, Double Happiness og Vanished Summer, eru gefnar út af þeim. Ég er með enska titla á öllum verkunum og það er meðvitað til þess að ná til breiðari hóps. Bækurnar eru seldar og sýndar út um allan heim.

Hvað er það sem rekur þig áfram í listsköpuninni?

Það er þörfin fyrir að segja sögu og fá fólk til að ímynda sér hvað sé verið að fjalla um. Ég gef eitthvað í skyn en segi ekki allt. Áhorfandinn getur síðan fyllt í eyðurnar og búið til sína eigin sögu. Ég hef aðallega verið fyrir áhrifum frá kvikmyndum og bókmenntum. Leikstjórinn David Lynch hefur haft mikil áhrif á mig, alveg síðan ég sá fyrstu myndina hans Eraserhead. Þau áhrif eru sýnileg í myndaröðinni Mórar og fleiri verkum eftir mig. Bók Gyrðis Elíassonar Sandárbók hafði áhrif á seríuna Horfið sumar og titillinn kemur úr smásögu eftir hann. Bókin segir frá fráskildum málara sem sest að í hjólhýsabyggð og hyggst einbeita sér að því að mála tré.

Horfið Sumar 10.

Ég var byrjuð að taka myndir á hjólhýsasvæðum áður en ég las bókina, en hélt áfram að mynda hjólhýsi eftir það. Harpa Árnadóttir myndlistamaður kom í heimsókn á vinnustofuna mína stuttu síðar og við fórum að ræða um verkin og bókina hans Gyrðis. Harpa fékk hugmyndina að sýningunni. Ég krafðist þess að hún yrði sýningarstjóri, hún var treg til í byrjun en féllst á að lokum. Við unnum þetta saman og úr var sýningin Horfið sumar í ASÍ árið 2013.

Nú hafa ýmsir fræðimenn og höfundar tjáð sig um ljósmyndina og sannleiksgildi hennar. Hvað finnst þér um sannleiksgildi ljósmynda? Er ljósmyndin sannari eftirmynd af raunveruleikanum en til dæmis málverkið eins og Susan Sontag vildi meina?

Það eru þessi einstöku augnablik sem maður nær með ljósmyndinni og oft er það eitthvað sem ekki er hægt að endurtaka. Ljósmyndin í mínu tilviki er raunveruleikinn. Þetta er raunverulegur heimur því ég bý aldrei neitt til í stúdíói. Ég túlka það sem er til og bý til ákveðinn heim með vali á sjónarhorni, lýsingu og myndbyggingu. Ég leita að hlutum sem tengjast ákveðinni nostalgíu, eitthvað sem ég tengi við úr minni bernsku eða tímatengdum atburðum. Oftast er fólk að taka myndir af því sem er til, og ég geri það, en ég er samt að opna á einhverja túlkun eða aðra möguleika, nýja sögu eða annan raunveruleika.

Tjöld af ýmsu tagi koma gjarnan fyrir í verkum þínum; gluggatjöld og leiktjöld. Hvað standa tjöldin fyrir?

Tjöldin vísa í svo margt. Eins og til dæmis þegar maður stendur fyrir framan tjaldið og ímyndar sér hvað leynist þar á bakvið. Svo er það fagurfræðin. Rauði liturinn. Tjöldin eru líka tilvísun í leikhúsið og leikhústjöld. Svo fann ég þessi gulu tjöld á Ítalíu sem eru mikið í Equivocal seríunni. Sólin skín í gegnum þessi gulu tjöld. Hvað er fyrir innan og hvað er fyrir utan? Þetta eru tveir heimar, tjöldin eru eins og skil á milli tveggja heima.

Rauð Leikhústjöld frá myndaröðinni Equivocal.
Þú hlaust á dögunum afar áhugaverða viðurkenningu; EIKON verðlaunin fyrir kvenlistamenn sem komnar eru yfir 45 ára aldurinn. Valie Export er verndari verkefnisins. Segðu okkur aðeins frá þessum verðlaunum.

Ég sá verðlaunin auglýst og þekkti til tímaritsins. EIKON tímaritið er mjög vandað austurískt tímarit sem er gefið út á ensku og þýsku. Það sem mér fannst áhugavert var að þessi verðlaun eru ekki fyrir ungar og upprennandi listakonur heldur fyrir evrópskar konur sem eru orðnar 45 ára og sem eru að vinna með ljósmyndina sem miðil eða í nýmiðlum (e. New Media).

Þrjár konur hlutu verðlaunin, Gabriele Rothemann, Susan MacWilliam og ég. Verðlaunaafhendingin var í Vínarborg í nóvember og gefið var út tímarit á ensku og þýsku þar sem birtar voru myndir og texti um hverja okkar. Listfræðingurinn Lucas German og sýningarstjóri hjá Kunshalle í Vínarborg skrifaði textann sem birtist með mínum verkum í tímaritinu. Myndin á forsíðunni er úr seríunni Horfið sumar og er tekin á hjólhýsasvæði þar sem einhver hafði ákveðið að búa til tjörn úr svörtu plasti, með vatni í og svartri plastönd. Forsíðumyndin er kannski ekki lýsandi fyrir það sem ég hef verið að gera, og þó, ég er að fjalla um hvernig maðurinn upplifir náttúruna og hvernig þetta manngerða blandast við náttúruna.

Sýningin EIKON Award í Kunstlerhaus Vínarborg.

Nú í febrúar var opnuð stór sýning í Kustlerhaus 1050 í Vínarborg með verkum okkar sem hlutu EIKON verðlaunin. Þar sýni ég verk úr myndaröðunum Vanished Summer og Equivocal, ásamt nýrra verki sem ég kalla Solar Eclipse Shadow sem er varpað á vegg í dimmum sal. Við það að varpa verkinu myndast öðruvísi stemmning en ef ljósmyndirnar væru birtar í ramma í hefðbundnu rými.

Tekur þú myndir þínar á filmu eða stafrænt?

Ég vinn eins og filmuljósmyndari því ég lærði á filmu og kann þá tækni. Ég skipti yfir í stafræna tækni þegar ég byrjaði á bókinni Equivocal árið 2007. Ég hugsa samt eins og þegar unnið er með filmu þó ég sé að vinna stafrænt. Ég tek fáar myndir og ég legg mikið upp úr því að velja hvern ramma vel því ég vil ekki þurfa að velja úr of mörgum römmum eftir að myndatöku líkur.

Þú varst sýningarhöfundur sýningarinnar Betur sjá augu – Ljósmyndun íslenskra kvenna 1872-2013 sem opnuð var í Þjóðminjasafninu og Ljósmyndasafninu árið 2014. Á sýningunni voru til sýnis ljósmyndaverk kvenna frá árinu 1872 til ársins 2013 og var afrakstur tveggja ára rannsóknarvinnu þinnar. Hvað varð til þess að þú fórst í þessa rannsóknarvinnu og hvað kom þér mest á óvart við gerð sýningarinnar?

Þetta byrjaði þannig að ég fór til Þjóðminjasafnsins með hugmynd að sýningu. Þá var Ágústa Kristófersdóttir sýningarstjóri þar. Mig langaði að setja upp sýningu með samtímaljósmyndum kvenna. Fram að því hafði ekki verið mikið um sýningar sem endurspegluðu verk kvenna. Ágústu leist vel á hugmyndina en fannst að setja mætti hana í stærra samhengi, skoða safneignina og ljósmyndasögu kvenna aftur í tímann. Það varð til þess að við fórum í samstarf við Ljósmyndasafn Reykjavíkur. Inga Lára deildarstjóri Ljósmyndasafnsins skrifaði öllum söfnum landsins og spurði hvað þau ættu af ljósmyndaverkum eftir konur.

Við fórum síðan og skoðuðum þau myndasöfn sem fundust. Ég skoðaði skrár yfir allar sýningar sem settar hafa verið upp frá 1970, og einnig hvaða konur höfðu haldið áfram að vinna við ljósmyndamiðillinn eftir Listahátíð kvenna sem haldin var árið 1985. Þær sem höfðu látið mest að sér kveða enduðu á sýningunni. Þrjú megin viðfangsefni voru mest áberandi í verkum kvennanna; Landslag og náttúra, Portrettmyndir og Heimili og fjölskyldan, og þau urðu áberandi á sýningunni. Þegar nær kom okkar samtíma valdi ég konur sem höfðu verið virkar og pössuðu við þessi þrjú viðfangsefni sem ég valdi að sýna. Það sem kom mér mest á óvart í þessu verkefni var að finna marga dýrgripi sem enginn hafði séð.

Boðskort hannað af Ármanni Agnarsyni.

Ég fékk frjálsar hendur við val á verkum og ég stend með því vali, sem var fagurfræðilegt, sögulegt og persónulegt. Þeir voru margir sem höfðu skoðanir á þessu vali – sumar öndverðar mínum – en auðvitað er ekki hægt að gera öllum til hæfis. Ég valdi konur eins og Nicoline Weywadt, sem var fyrsta konan sem kom heim frá námi í Kaupmannahöfn og starfaði á eigin stofu á Djúpavogi frá 1872, og auðvitað þær konur sem höfðu verið starfandi lengst á tímabilunu 1870-1930. Katrín Norgaard Vigfússon sýndi landslagsmyndir á vorsýningunni í Charlottenborg 1939. Gagnrýnendur hér heima voru mjög neikvæðir í umfjöllun sinni á þeim verkum, sem varð til þess að hún sýndi þau aldrei hér heima. Þetta var karlaheimur og þeim fannst fáranlegt að kona væri að sýna á svona virtri sýningu í Danmörku. Lilý Tryggvadóttir var ein þeirra sem var með frábærar myndir en geymdi þær ofan í skúffu og sýndi aldrei. Mig langaði að draga verk þessara kvenna fram í dagsljósið. Karlkynsljósmyndarar hikuðu ekki við að kaupa sér nýja linsu og fara upp á fjöll og mynda. Konurnar hugsuðu ekki þannig eða leyfðu sér það ekki, þær sáu um heimilið. Rödd þeirra sem vildu komast að í ljósmyndun heyrðist ekki í þessu karlaveldi. Valdís Óskarsdóttir talaði einmitt um þetta þegar hún var í Vestmannaeyjum að mynda gosið. Allir karlkynsljósmyndar voru farnir og Valdís náði myndinni sem rataði á forsíður blaðanna. Karlkynskollegar hennar voru alls ekki ánægðir með „stelpuna“ sem var að trana sér þarna fram. Valdís lagði sig virkilega fram, hún var frumleg og hafði mikið fram að færa sem ljósmyndari, skrifaði texta og var mjög pólítísk en átti ekki upp á pallborðið á þessum tíma vegna kynjamisréttis.

Hvernig finnst þér staða konunnar vera í heimi samtímaljósmyndara?

Ég hef persónulega aldrei upplifað ójafnrétti innan geirans og mér finnst ég ekki hafa farið á mis við tækifæri vegna þess að ég er kona. Ég held að ég hafi sloppið frekar vel. Auðvitað er þetta karlaheimur, sem endurspeglast til að mynda í tískuheiminum og í þjóðfélaginu öllu, en ég hef aldrei upplifað það á eigin skinni. Mér finnst samt sem áður staða konunnar innan myndlistar og samtímaljósmyndunar alls ekki vera góð, ef litið er til sýningarinnar í Þjóðminjasafninu og út í hinn stóra heim. Það er greinilegt á þessum stóru kvennasýningum sem hafa verið haldnar á söfnum um allar heim, eins og í Musée d’Orsay safninu, MOMA og víðar, að það hefur verið erfitt fyrir konur í þessum geira eins og annars staðar. Það sem hefur hjálpað mér og drifið mig áfram er að ég hef alltaf haft sterkar kvenfyrirmyndir eins og Louise Bourgeois, Frida Kahlo, Kiki Smith, Pipilotte Rist og Georgia O´Keeffe. Ég hef leitað í þessar fyrirmyndir og þær hafa leitt mig áfram.

Hvort viltu láta kalla þig ljósmyndara eða myndlistarmann sem vinnur með ljósmyndina sem miðil?

Ég held í þennan titil, „ljósmyndari“ vegna þess að þegar ég kom heim frá Bandaríkjunum þá hélt fólk að ég væri fjölskylduljósmyndari eða stúdíóljósmyndari. Þegar maður segist vera ljósmyndari í Bandaríkjunum þá hugsa menn oftast um það út frá listrænum áherslum. Þar er þetta flokkað í annars vegar listræna ljósmyndun (e. Fine Art photography) og hins vegar auglýsingaljósmyndun (e. Commercial photography). Ljósmyndin er mjög mikilvægur miðill í nútímasamfélagi óhað því hvort hún er fréttaljósmynd, myndlistarmiðill eða annað. Ég vil að ljósmyndarar sem vinna í myndlistarheiminum geti kallað sig ljósmyndara alveg eins og aðrir kalla sig málara. Þessi skilgreiningarumræða er reyndar mjög íslensk og ég upplifi þetta ekki erlendis. Við vorum þrjár sem hlutu EIKON verðlaunin og þar er ég eini „ljósmyndarinn“ – og ég er stolt af því.

Hvað er á döfinni hjá þér á næstunni?

Ég hef sýnt mikið erlendis undanfarin ár og á döfinni eru fleiri sýningar á erlendri grundu. Ég verð með myndaröðina Vanished Summer á sýningunni Nature as playground í Ljósmyndasafninu í Seoul í Kóreu í sumar og með ný verk á Cyclone 3 í Forum Box sem er stórt listamannarekið rými í Helsinki, og svo er það EIKON sýningin í Vínarborg og sýning í „FLUSS“ Schloss í Wolkersdorf með austurrískum konseptlistamönnum í mars.

Ég er líka að sýningarstýra, ásamt því að kenna í Myndlistaskólanum og Ljósmyndaskólanum. Það er gaman að geta blandað allri þessari vinnu saman. Ég fékk listamannalaun á síðasta ári, sem var frábært. Listamannalaunin nýtast mjög vel og gera manni kleift að vinna án þess að vera að hugsa um hvaðan tekjurnar koma. Starf myndlistarmannsins getur verið einmanalegt og það hentar mér að vinna við annað í bland við eigin sköpun, eins og kennslu, sýningarstjórn og önnur verkefni.

Við látum þetta vera lokaorðin. artzine þakkar Katrínu Elvarsdóttur fyrir spjallið og óskar henni góðs gengis.

 Ástríður Magnúsdóttir


Aðalmynd með grein var tekin við opnun sýningarinnar í Kunstlerhaus Vínarborg 15 febrúar 2018.

Allar ljósmyndir með grein birtar með leyfi Katrínar Elvarsdóttur.

Nánari upplýsingar:
katrinelvarsdottir.com
katrinelvarsdottir.blogspot.is
www.eikon.at

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest

Share This