Samtal í vatni og litum

25.02. 2020 | Umfjöllun

Það var árið 1996 sem Gjörningaklúbburinn kom með látum inn í íslenska myndlistarsenu með gjörningaverkið ‘Kiss’ – koss sem er aðeins lengri en venjulegur vinakoss en aðeins styttri en koss elskenda – sem fluttur var í þá geysivinsælum Dagsljósarþætti Ríkissjónvarpsins. Gjörningurinn endaði með að þáverandi meðlimur Gjörningaklúbbsins Sigrún Hrólfsdóttir kyssti alla þjóðina með því að kyssa linsu myndavélarinnar. Þannig má segja að ástarsamband Gjörningaklúbbsins við kvikmyndaformið hafi hafist og þær rutt brautina fyrir gjörningakvikmyndaverkum í íslensku myndlistarsenunni. Gjörningurinn var saminn fyrir myndavélina og virkaði vegna hennar.

Rúmum tuttugu árum og nokkur hundruð sýningum seinna ákváðu núverandi meðlimir Gjörningaklúbbsins Eirún Sigurðardóttir og Jóní Jónsdóttir að búa til nýtt verk þar sem þær sæktu innblástur í líf og list Ásgríms Jónssonar. Afraksturinn er verkið ‘Vatn og Blóð’ sem sýnt hefur verið sem einkasýning Gjörningaklúbbsins í Sal 2 í Listasafni Íslands frá því snemma í nóvember 2019 og lýkur núna 1. mars.

Fyrir þá sem ekki eru með á hreinu hver Ásgrímur Jónsson var þá var hann impressjónískur vatnslita-landslagsmálari sem uppi var á áratugunum sitthvoru megin við aldamótin 1900 og var einna fyrstur íslenskra myndlistarmanna til að starfa eingöngu að listinni. Það er ekki sjálfgefið að gjörninga og vídeó kollektíf sem starfar á 21. öldinni og er skipað konum eingöngu finni snertifleti við lífshlaup eða list slíks manns. Í sýningarskrá minnast Jóní og Eirún á að þeim finnist þær tengjast Ásgrími ‘…blóðböndum í gegnum sköpunarkraftinn, innsæið og náttúruna.’

Við frekari eftirgrennslan kemur í ljós að eins og svo margir aðrir eru þær aldnar upp með eftiprentanir af vatnslitamálverkum Ásgríms á veggjum æskuheimilisins. Í báðum tilfellum voru verkin af heimasveit og því þekktu þær fyrirmyndina vel og verkin höfðu mikil áhrif á þær sem börn og síðar sem listnema. Jafnframt sjá þær tengingu í vatninu sem er undirstaða í vatnslitum en þær telja vatn sameiningartákn þeirra beggja, Ásgríms og Gjörningaklúbbsins en þær hafa unnið með vatnsliti á táknrænan hátt, til dæmis í verkinu Aqua Maria. Vatn skipti þær miklu máli enda séu líkamar okkar 75% vatn. Sýningin verður í raun samtal milli Gjörningaklúbbsins sem hefur verið starfandi frá 1996 og Ásgríms Jónssonar sem hóf sinn ferill í byrjun 20. aldar.

Áður en gengið er inn í salinn er gengið framhjá gjörningabúningsskúlptúrum við innganginn. Form og efni eru kunnugleg þeim sem þekkja til verka Gjörningaklúbbsins. Vakti það sérstaka athygli að búið var að taka náttúrugerðar bláskeljar með og sauma þær af mikilli útstjónarsemi inn í búningana/skúlptúranna. Gaf það tóninn fyrir blámann sem er þráður út í gegnum sýninguna. Salurinn sjálfur er svo tvískiptur. Fyrri salurinn er dimmur kvikmyndasalur sérgerður fyrir innlifun á kvikmyndaverki og seinni salurinn er upplýstur salur fyrir skúlptúra og veggverk.

Þungamiðja sýningarinnar er nýtt 25 mínútna kvikmyndaverk sem sýnt er í myrkaða salnum og liggur áhorfandinn líkt og sjónvarpsáhorfendur heima í stofu á vatnslituðum tungusófa en ólíkt því sem gerist í heimastofunni er áhorfandi umlukinn fimm hljóðrásum eins og í dolby-kvikmyndasal og upplifun áhorfandans verður kannski meira í ætt við að vera í lúxus sal sem tekinn hefur verið alla leið. Áhorfandinn sekkur inn verkið og gleymir sér í andrúmsloftinu sem af því stafar. Kvikmyndaverkið líkt og innsetningin sjálf er unnin á mjög faglegan hátt þar sem hugað er að hverju smáatriði. Fagmenn hafa verið fengnir til að nota sérþekkingu sína til að þjóna hugmynd Gjörningaklúbbsins. Kvikmyndataka, klipping, lýsing, hljóðhönnun, tónlist, búningar og föðrun mynda saman sterkan merkingarheim sem drífur samtalið áfram, bæði innan myndarinnar sjálfrar og í gegnum þræðina sem liggja út í salinn.

Kvikmyndaverkið er einskonar skrásetning á undirbúningsferli sýningarinnar þar sem miðill var fenginn til aðstoðar til að tengja konurnar í Gjörningaklúbbnum við Ásgrím á fyrrum heimili hans og vinnustofu á Bergstaðastrætinu og fá Ásgrím til að ræða tengingar þeirra í milli. Miðillinn sjálfur var ekki á staðnum og því var stuðst við facetime og snjallsíma til að miðillinn gæti skynjað andann á Bergstaðastrætinu. Þessa aðferð sem Gjörningaklúbburinn notar núna í annað sinn kalla þær miðill-miðill. Aðrar senur í kvikmyndaverkinu sýna þær Gjörningaklúbbskonur út í náttúrunni og við vatn þar sem þær blanda vatnsliti og fremja aðra vatnstengda rítúala. Litir koma endurtekið við sögu og markvisst notaðir í frásögninni.

Til dæmis er myrkaði salurinn sem umlykur kvikmyndaverkið litaður með dökkbláum lit en ekki svörtum en það skiptir máli fyrir heildarmerkingu. Litahönnunin er gerð með lýsingu í senum teknum í kvikmyndastúdíói þar sem dansarar fremja trylltan óreiðukenndan trans á hvítum blöðum í senu sem kviknar í vinnustofurými Ásgríms á efri hæð hússins. Hvítu blöðin krumpuð í hamaganginum birtast síðan í salnum sjálfum í öðru afmörkuðu rými sem er innan af myrkaða rýminu og eru þar orðin að pappísskúlptúr lituðum af penslum kvikmyndaformsins, lýsingunni, líkt og í kvikmyndinni áður.

Áhorfandi fer ósjálfrátt að bera saman vatnslitanotkun og notkun á lýsingu til að lita. Þetta er síðan undirstrikað á veggnum fyrir ofan þar sem stillt er upp bút úr kvikmyndaverkinu sem sýnir hreyfimynda sjálfsmynd af Gjörningaklúbbskonum með vatnslituð andlit stillt upp við hliðina af innrammaðri vatnslita-sjálfsmynd Ásgríms sjálfs. Samtalshringnum sem hófst við hringborð miðilsins er lokað.

Hulda Rós Guðnadóttir

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest

Share This