Erótík og Kapítalismi?
 Umfjöllun um sýninguna Desiring Solid Things

3.02. 2019

Desiring Solid Things eða með íslenskum orðum það að þrá eftir hlutum í föstu efni er titill sýningar sem stóð yfir í Kling & Bang á Granda, nú á dögunum. Listamennirnir Selma Hreggviðsdóttir og Elísabet Brynhildardóttir sýndu verk sín þar, sem eru afurðir vangaveltna þeirra um þrána eða löngunina og þær flóknu tilfinningar sem manneskja hefur til hlutarins og efnisins.

Heimspekileg og hnittin sýningarskrá sem rituð er af Lauren Hall jafnt sem og lítil einlæg bók voru gefnar út samhliða sýningunni. Bókin, sem mætti kalla samansafn af ástarbréfum til hlutarins eða efnisins frá 12 listamönnum, styrkti sýninguna með gildum og góðum spurningum, staðhæfingum og ályktunum um þetta svokallaða einstefnu samband sem liggur á milli okkar og hlutarins. Það eru einmitt margir þættir sem koma í formúluna sem liggur á milli okkar og hans, eins og tími, rými og meira að segja okkar eigin líkami og vitund. Allt eru þetta þættir sem hafa áhrif á þrána okkar og hlutinn þegar við virðum hann fyrir okkur, í návígi eða úr fjarlægð.

Enn sem komið er þá tel ég það deginum ljósara að í þessari grein munum við ekki leggja mesta áherslu á að lýsa sýningunni, efnivið hennar eða miðlum heldur munum við, einmitt eins og listamennirnir, velta fyrir okkur þessu sambandi og hvað það er sem sýningin segir okkur um það. Réttara sagt hvað hún segir við mig. Þar sem ég er höfundur þessarar greinar. Líkt og Hall segir í sýningaskránni þá er það einn kostur að tala í kringum sýninguna með því að einblína á hlutina; leir, flauel, grafít, pappír, spegill, og annar kostur er sá að telja upp öflin; ljós, hljóð, þyngdarafl,  í henni.  Hinsvegar er þriðji kosturinn að tala um sýninguna og reyna að draga ályktanir upp á eigin spýtur.

(Verk talin frá hægri til vinstri) Elísabet Brynhildardóttir, Ég vildi gera rétt, 677 x 196 cm. Blýantur á pappír, 2018. Selma Hreggviðsdóttir, Draumur um efnið. lágmynd: málning og spegill. 2018. Selma, Ég veit þegar það gerist, Blátt flauel, brautir, festingar. 2018.

Sýningin hafði í heild sinni hálf-drungalegt andrúmsloft yfir sér, þar sem ákveðinn tómleiki og vandvirkni réði ríkjum. Birtingarmynd þessara atriða er verk Elísabetar, Ég vildi gera rétt, þar sem hún hefur handteiknað risa rúðunet á pappírsdregill sem náði allt að upp í loft. Allt virtist vera á sínum stað nákvæmlega eins og það átti að vera en þessi nákvæmni og fegurð virtust hylma yfir einhver óheillavænlegri öfl að baki sér. Mögulegur forboði um hvað það er sem leynist í skugganum má finna í verki Selmu, Draumur um efnið, þar sem áhorfandinn sér sjálfan sig í spegilmynd sem er í yfirvaldslegu skjaldarmerki óþekkts afls. Önnur verk Selmu á sýningunni eins og, Staðbundnar aðstæður, stærsta höggmyndin, ákveðnar kringumstæður og Ég veit þegar það gerist, vísa að vissu leyti til þessa óróleika og óöryggis sem liggur undir upphafningunni sem um er rætt.

Ef framsetning sýningarinnar er að uppbyggingu eins og vísir á klukku sem hverfist um tímann, líkt og Hall kemur að orði í sýningarskrá, þá sló innsetning Elísabetar, Þeir stilla sér ekki upp, lokaslagið í samhljómi við restina af sýningunni. Gestaframkoma tveggja persóna úr þekktu dægurefni, Star Trek og Vertigo,  áttu sér stað þar. Tilkoma þeirra tveggja og dautt augnaráð þeirra segir okkur ýmislegt um hlutina sem við þráum og samband okkar við þá, ef það má yfirhöfuð kalla það samband. Þær eru á sama tíma hlutgerðir einstaklingar og á einhvern hátt persónugerðir hlutir af sköpurum sínum sem lýsir þeim flóknu og þversagnakenndu  tilfinningum og væntingum sem felst í því að þrá hluti. Þetta samband er óumflýjanlega aldrei gagnkvæmt.

Snúum okkur nú að stærra samhenginu sem mögulega er vísað til og gamla góða orðatiltækisins sem segir okkur að list eigi það til að endurspegla samfélagið sem við lifum í.  Sýningin er að vissu leyti ákveðin satíra um raunveruleikann eins og við þekkjum hann. Hver og ein manneskja keppist við að safna að sér ógrynni hluta sem virka sem stöðutákn í samfélaginu, hvort sem hún er var um það eða ekki.  Það er einmitt þráin í hluti sem hefur orðið yfirþyrmandi afl í nútímasamfélagi. Samband okkar við hluti einkennist af þessari þrá sem er uppfull af drifkrafti og von um betra líf en leiðir oftast til vonleysis og tómleikatilfinningar sem við þekkjum öll svo vel. Það mætti segja að þessi tómleiki stafi af innihaldsleysinu sem því fylgir að öðlast áþreifanlega hluti. Við hugsum ekki um samhengi eða orsakasambönd merkra og oft á tíðum sorglegra atburða vegna þess að við erum öll of upptekin við okkar eigin markmið og löngun okkar til að eignast ákveðna hluti. Kapítalisminn ræður ríkjum og neysluhyggjan styður við hann í gegnum firringu okkar allra. En nóg um það hér.

 Elísabet Brynhildardóttir, Þeir stilla sér ekki upp, Innsetning: tvö vídeóverk, gifsskúlptúrar og teiknaður leir. 2018.

Þau þrjú rými sem mynduðu Desiring Solid Things voru öll afar frábrugðin hvort öðru en innihald hvers þeirra virkuðu sem ólíkar hliðar á sama teningi. Verkin og kostgæfileg staðsetning þeirra leggja áherslu á líkama okkar í sambandi við þau. Ýmist með spegli, mörgum sjónarhornum eða höggmyndum sem eru varlega staðsettar á gólfinu án stöpuls til upphafningar. Það myndaðist ólíkur dans í hverju rými með því að virða verkin fyrir sér. Reynslan gæti verið talin holdleg næstum munaðargjörn þegar maður hefur í huga rýmið, líkamann og þrána eða löngunina eftir hlutum í föstu efni. Ég hugsaði til Sontag og spurði mig hvort um væri að ræða einhverskonar erótík með list í þessum rýmum. En þegar stórt er spurt verður oft fátt um svör og hugmyndin lak út í rýmið.

Eins og með flestar sýningar þá koma upp ótal vangaveltur og spurningar upp eftir inntöku. Desiring Solid Things er engin undantekning hvað það varðar. Hún gaf ekki of mikið upp við fyrstu kynni, skildi þar af leiðandi fullnægjandi rými eftir fyrir ímyndunaraflið. Ekki nóg með það þá sýnir bókin sem gefin var út í tilefni sýningarinnar hversu ótalmargar áttir má fara með hugmyndina sem liggur að baki henni. Svo eitthvað sé nefnt minnast höfundar ákveðinna ástarbréfa þar á yfirnáttúrulega litanæmni bænarækja (e. Mantis Shrimp) og æskuleikföng sem hafa enn ekki fallið í gleymskunnar dá í vangaveltum sínum um þrá eftir hlutum í föstu efni.  Enn fremur þá höfum við hér í þessari grein tilgátur sem tengja hana við tómleikann, kapítalisma og erótík. Sýningin stóð yfir frá 8. desember til 20. janúar síðastliðinn í Kling & Bang á Granda. Ég vona að sem flestir gerðu sér ferð í Marshall húsið og mynduðu sínar eigin skoðanir út frá hugleiðingum um sýninguna á meðan á henni stóð.

Þórhildur Tinna Sigurðardóttir


Photo credit  // Ljósmyndari : Vigfús Birgisson

Featured image: Selma Hreggviðsdóttir, Staðbundnar aðstæður, stærsta höggmyndin, ákveðnar kringumstæður (Hnitbjörg) 2018.

UA-76827897-1