Segulkraftur litanna – Sýning Kees Visser í BERG Contemporary
Litaverk hollenska listamannsins Kees Visser blasa við inn um glugga BERG Contemporary. Ferkantaðir fletir í mismunandi stærðum og litum, hengdir upp á kerfisbundinn hátt á hvíta veggi gallerísins. Í öllum sínum einfaldleika kalla verkin út og vekja forvitnina. Það er nefnilega ekki allt sem sýnist, eitthvað sem ekki stemmir en augun þarfnast tíma til að greina hvað það er. Verkin, sem í fyrstu virðast fyrirsjáanleg, leyna á sér. Hornin eru ekki alveg níutíu gráður og fletirnir eru hvorki einlitir né flatir. Það er fyrst þegar við erum komin inn fyrir dyrnar í nálægð við verkin sem byrjum að taka eftir hvað leynist undir yfirborðinu.
Það er nefnilega oft þannig að til þess að eitthvað komi okkur á óvart, þurfum við fyrst að vera sannfærð um að eitthvað sé á ákveðna vegu. Þetta kristallast í verkum Kees, sem óhætt er að kalla einstaklega nákvæman listamann. Eiginlega er honum best lýst sem kerfisfræðingi. Hann hellir sér yfir viðfangsefnið í fleiri, fleiri ár. Skoðar það í krók og kima og úr verða umfangsmiklar verkseríur unnar af vísindalegri nákvæmni. Þekkt eru meðal annars fléttuverkin hans og rimlaverkin, en í BERG Contemporary má sjá afrakstur rannsókna hans á litrófinu og geómetrískum formum undir yfirskriftinni Í djúpi litanna: Ný verk eftir Kees Visser.
Kannanir sem hann sökkti sér í við byrjun níunda áratugs síðustu aldar. Hvar sem Kees drýpur niður fæti er kerfisbundin nálgun hans augljós: Allt frá aðferðunum sem hann beitir til að skapa verkin og uppröðun þeirra í rýminu, til miðlunar verkanna á prenti og á alheimsnetinu. Allt á sinn rétta stað og það er einmitt í þeirri vissu sem hið ófyrirsjáanlega læðist inn. Undirrituð dirfist nefnilega að halda því fram að þetta nánast áráttukennda skipulag, sem er svo yfirþyrmandi, sé ekki aðeins leið listamannsins til að halda utan um ævistarfið heldur snilldarlega úthugsuð leið til að koma áhorfendum á óvart. Þegar allt er fyrirfram útreiknanlegt eru hin minnstu fráhvörf mun meira áberandi. Þar með sá örskekktir ferhyrningarnir efa í huga áhorfenda og biðla til þeirra um að staldra við. Skoða nánar og demba sér inn i verkin. Þetta smávægilega en óvænta brot á lögmálum rúmfræðinnar vekur forvitni áhorfenda og geómetrísku formin, sem við þekkjum öll eins og lófann okkar og eyðum sjaldnast tíma í, hverfast á rönguna. Við förum að taka eftir áferð yfirborðsins, hvernig ljósið fellur á það og brýtur upp litina. Tilraun þeirra til að ná út fyrir útlínurnar og skapa þannig látlausa hreyfingu í verkunum. Öll hugsun beinist að skynjuninni. Hvernig sjónin okkar virkar og hvaða áhrif litir hafa á okkur.
Í tungumálinu okkar notum við liti sem verkfæri til að lýsa hlutunum í kringum okkur. Litir eru lýsingarorð sem lýsa eiginleikum einhvers annars fyrirbæris en þeirra sjálfra. Himininn er blár og bollinn sem ég drekk svart morgunkaffið úr er rauður. Eftir þessa fullyrðingu er ég samt engu nær um hvaða fyrirbæri blái, svarti eða rauði liturinn eru eða hvernig við upplifum nákvæmlega þessa liti. En í þeim verkum Kees sem nú eru til sýnis í BERG Contemporary eru litirnir í sviðsljósinu sem skynræn fyrirbæri utan tungumálsins. Hann bregður litunum bókstaflega undir sjóngler. Á sýningunni er að finna yfirlitstexta Jón Proppé , prentuðum á A4 blöð sem hægt er að grípa með sér þegar gengið er inn í rýmið, annars eru engin verkskilti eða annar texti sjáanlegur. Bara litafletirnir sem um leið og byrjað er að gefa þeim gaum byrja að dansa fyrir augunum.
Verkin á sýningunni eru nefnilega allt annað en einlit. Á fletinum mætast ýmsir tónar sem úr fjarlægð virðast einróma, en þegar við færum okkur nær opnast heill heimur af slagföstum litahrynjanda. Enda eiga litir miklu meira skylt með tónlistinni en tungumálinu.
Sýningin Í djúpi litanna spannar að mestu nýleg verk frá síðustu tíu árum, unnin á pappír með aðferð sem er einkennanndi fyrir listamanninn: Síendurteknum málningarstrokum sem mynda með tímanum kornótta kristalsáferð. Aðeins tvö verk sýningarinnar skilja sig þar úr. Fyrsta verkið er Rimlaverk frá 1988 (Sjá aðalmynd með grein), með glanslakkaðan ramma utan um rimla í mjúkum og hlýjum grá- og rauðtónum. Þetta verk er nokkurs konar kveikja sýningarinnar – Útgangspunktur pappírsverkanna. Með rimlaverkunum leysti hann kreppu málverksins, sem á þeim tíma þótti fyrirsjáanlegur og staðnaður miðill. Afskornir kantar og truflun á fjarvíddinni. Rofnir og þrívíðir fletir sem teygja sig út fyrir og á bak við kantana. Hitt verkið sem sker sig örlítið úr er að finna á efri hæð gallerísins. Það er verkið SÚM Colour-Ring frá 1992 sem samanstendur af hundrað sextíu og sex sléttmáluðum trefjaplötum, þá hengdum upp á reglubundinn hátt á dreif um salinn. Í dag hefur plötunum verið raðað saman í tvo stærri fleti, sem styrkir þá upplifun að verkin sem eru til sýnis í BERG Contemporary séu eins konar uppskera vinnu sem hófst fyrir löngu síðan.
Kees, sem er sjálflærður, kom fyrst til Íslands árið 1976 eftir að hafa séð sýningu á verkum Kristjáns og Sigurðar Guðmundssona í heimabæ sínum Haarlem í Hollandi. Sama ár hélt hann sína fyrstu sýningu í SÚM-salnum og síðan hefur hann haft annan fótinn á Íslandi og tekið virkan þátt í listsenunni hér. Meðal annars tók hann þátt í stofnun Nýlistasafnsins árið 1978. Í djúpi litanna er fyrsta einkasýning hans í BERG Contemporary. Þrátt fyrir orðleysið eru verkin á sýningunni alls ekki hljóðlát. Þau draga okkur að sér og hvísla til okkar leyndarmálum um litina.
Sunna Ástþórsdóttir
Sýningin stendur yfir til 6. október.
Ljósmyndir: Vigfús Birgisson
Birtar með leyfi BERG Contemporary og listamannsins.
Frekari upplýsingar: BERG Contemporary