Jafnvægi-Úr Jafnvægi, Rúrí í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi

2.11. 2017 | Uncategorized

Jafnvægi–Úr Jafnvægi nefnist sýning sem nú er uppi í sal Ketilhússins í Listasafninu á Akureyri. Salurinn er þekktur er fyrir mikla lofthæð auk sýningarrýmis á svölum. Þannig er hægt að sjá sýninguna frá tveimur sjónarhornum; frá gólfinu í salnum og ofan af svölunum. Sýningin stendur yfir frá 9. september – 12. nóvember 2017.

Innsetningin byggir á þremur, ómáluðum stöplum, gerðum úr spónaplötum og fimm hillum á vegg úr sama efni. Stöplarnir eru allir 90 cm háir og 45 cm breiðir en lengd þeirra er mismunandi. Sá minnsti er um hálfur metri að lengd, staðsettur upp við vegg, gegnt hillunum. Í rýminu sjálfu eru tveir langir stöplar, annar 4m og hinn um 11m, staðsettir að hluta til samsíða og skáhalt í salnum. Þessi uppsetningin gefur sýningunni bæði kraft og sérstöðu.

Á stöplana og hillurnar raðar Rúrí margskonar hlutum frá mismunandi tímum, m.a. vigtum, fræðibókum, landakortabókum, misstórum hnattlíkönum, skeið- og vekjaraklukkum, vatnsflöskum, tímaglasi, krukku með peningum o. fl. Í uppröðun hlutanna er vel hugað að efni, formi, litum og innihaldi sem vinna saman og mynda kraftmikla og áhugaverða heild þar sem fágun og jafnvægi ræður ríkjum. Á vigtirnar setur hún mismunandi hluti og oft hvíla þær sjálfar á bókastöflum. Hún staðsetur hlutina í línum á löngu stöplunum, hvern á sinn hátt; sumir halla til vinstri aðrir til hægri og fjarlægðin á milli er vandlega úthugsuð. Staðsetning hlutanna gefur sýningunni takt sem eflist enn frekar við tikkið og sláttinn í gamalli klukku sem ómar um allt húsið. Segja mætti að lykilverk sýningarinnar sé stór vatnsflaska sem staðsett er á fornri trévigt með mælikvörðum úr járni. Óneitanlega vekur þetta verk upp spurningar um þyngd og verðgildi vatnsins, nauðsynlegustu auðlind jarðarinnar. Enginn lífvera lifir án vatns.

Táknmál – tungumál

Tími, mælieiningar, rýmið og alheimurinn og hvernig mannkynið umgengst jörðina er aðalinntak sýningarinnar. Hvernig við sem búum á jörðinni höldum okkur og henni í jafnvægi og reynum að draga úr ójafnvægi. Klukkan tifar, það er tími til að vakna og hefjast handa áður en það verður of seint. Tíminn er ekki ótakmarkaður og ekki er hægt að fara hálfsofandi í gegnum lífið aðgerðarlaus og ómeðvitaður um eigin hlutdeild. Við berum ábyrgð á eigin lífi og umhverfi okkar, í samfélagi við aðra.

Sýningin fjallar um margskonar jafnvægi og andstæðu þess; ójafnvægi, hjá einstaklingunum, samfélaginu og jörðinni sem plánetu. Uppistaða lífs á jörðinni er loft og vatn, annað söluvara hitt óseljanlegt. Auðhringir og efnafólk keppast um að komast yfir vatnsból og verðmæt landsvæði auðug af vatnsuppsprettum. Ójafnvægið veldur stríði og baráttu um auðlindir jarðar.

Hnattræn hlýnun ruglar m.a. vatnskerfinu sem veldur hækkun á yfirborði sjávar og ruglar og breytir vistkerfinu. Í tungumálinu er talað um að leggja á vogarskálarnar, sem þýðir að vega og meta hluti og aðstæður. Það leiðir hugann að því hvernig vistkerfið og hagkerfin þurfa að vera í jafnvægi en ekki ójafnvægi.

Sýningin er byggð upp af kunnuglegum hlutum settum fram sem táknum sem áhorfandinn getur ráðið í og sett í orð, setningar og skiljanlegt tungumál í eigin vitund og aukið skilning á því sem hann sér og skynjar. Í texta sem fylgir sýningunni er innihaldi sýningarinnar lýst: „Þessi sýning leggur listina á vogarskálar. Vogarskálar vega sögu mannkyns og jarðar, vega tíma, vega vægi mismunandi gilda, til dæmis hagkerfi á móti vistkerfi, eða vægi huglægra gilda“.

Vatnsflöskur og landakort framtíðar

Rúrí hefur um langt skeið verið áhrifamikil í íslenskri myndlist. Hún er fjölhæfur myndlistarmaður, oft með pólitíska nálgun og jafnvíg á skúlptúra, gjörninga og innsetningar. List hennar er löngu orðin þekkt út fyrir landsteinana. Meðal verka hennar er einn þekktasti skúlptúr landsins, Regnboginn, sem milljónir manna hafa barið augum, en færri vita e.t.v. hver höfundurinn er. Verkið stendur við flugstöð Leifs Eiríkssonar og er frá árinu 1991.

Síðustu mánuðina hafa Eyfirðingar og gestir þeirra átt kost á því að sjá list Rúrí bæði í Verksmiðjunni á Hjalteyri og í Listasafninu á Akureyri og einnig gjörning hennar á gjörningahátíðinni A! sem haldin var í byrjun september s.l.

Gjörningurinn stóð yfir í 80 mínútur og hafði Rúrí tvo svartklædda menn sér til aðstoðar. Sjálf var hún einnig í svörtu og umgjörðin var rannsóknarstofa. Taktfast reif hún blaðsíður úr heilli Atlasbók og enduðu þær, með aðstoð hjálparmannanna, í tætara og því næst ofaní tilraunaglasi með tappa, upp í hillu rannsóknarstofunnar. Ferlið var síendurtekið, fágað og skýrt og gjörningurinn í heild afar eftirminnilegur. Tilfinning fyrir tíma og rými virtust hverfa.

Í sumar tók Rúrí þátt í sýningunni Hverfing/Shapeshifting, í Verksmiðjunni á Hjalteyri. Hún sýndi annars vegar nokkur landakort sem vísa til framtíðar, og hins vegar langa röð af tómum, misstórum vatnsflöskum sem liðuðust eins og lækur eftir gólfinu í risastórum sal Verksmiðjunnar. Rúrí er sérlega lagin við að búa til líf og kraft með staðsetningu hluta og rýminu sem myndast á milli þeirra. Flöskurnar fengu þannig líf og tilgang sem getur verið flókið að fanga, í þessu hráa og mis-vel upplýsta rými. Þarna voru mörg góð verk en þessi vatnskrukkuröð talaði skýrast til mín auk kortanna sem lýstu framtíðarsýn á landið ef fer sem horfir varðandi hækkun yfirborðs sjávar. Sá raunveruleiki gleður engan.

Krefjandi spurningar

Þær spurningar sem verk Rúrí vekja eru ekki léttvægar. Hún teflir fram staðreyndum sem myndmál listarinnar gefur áhorfandanum færi á að upplifa á annan hátt en það sem fræðimenn tjá með tölugröfum, línu-og fræðiritum, stundum í frekar eintóna framsetningu. Hlutverk vísindamanna og listamanna eru því ólíkt þó stundum takist þeir á við svipuð eða sömu viðfangsefni og varpi fram samskonar spurningum sem okkar er svo að svara.

Á sýningunni Jafnvægi–Úr Jafnvægi, dregur Rúrí upp mynd af raunveruleikanum, með tilheyrandi spurningum. Hún predikar ekki en gefur okkur andrými til að bæta við verkið í huganum svörum við spurningunum og þannig jafnvel klára verkið. Sama gildir um Regnbogann, við Leifsstöð þar sem hún gefur okkur sýn á hluta regnbogans, okkar eigin hugsun og túlkun klárar svo verkið. Hver og einn sér þá Regnbogann á sinn einstaka hátt. Sýning Rúríar talar skýrt máli fagurfræðinnar og hvetur til ígrundunar og ábyrgðar á eigin lífi og því hvernig hægt er að vinna gegn ójafnvægi, í víðum skilningi.

Guðrún Pálína Guðmundsdóttir


Ljósmyndir: Listasafnið á Akureyri Vefsíða Rúríar: ruri.is Vefsíða safnsins: www.listak.is

UA-76827897-1