Uppbrot / Ásmundur Sveinsson og Elín Hansdóttir

16.04.-09.10.2016

Hlutskipti listamanna hefur oft verið að brjóta upp gömul og gildandi viðhorf. Ásmundur Sveinsson (1893–1982) talaði um að fá fólk til að „vakna til meðvitundar um að það er ekki skynlausar skepnur.“ Elín Hansdóttir (f. 1980) segir listina eiga að „kippa undan þér fótunum og fá þig til að endurmeta fastmótaðar hugmyndir þínar.“

Á sýningunni Uppbrot rýnir Elín í verk Ásmundar, glímir við arfleið hans og leitar áður ókannaðra flata. Elín og Ásmundur vinna með þrívíddina á ólíkan hátt, hann fangar form í efni, hún endurskilgreinir rýmið. Átökin milli nýrra verka Elínar og verka Ásmundar opna áhorfendum nýja sýn. Á milli kynslóðanna eru fjölmargir ósættanlegir þræðir sem skapa áhugaverða spennu en þar er einnig að finna kraftmikinn samhljóm.

Elín Hansdóttir býr og starfar í Reykjavík og Berlín. Hún lærði við Listaháskóla Íslands og Kunsthochschule Weissensee í Berlín og lauk MA námi 2006.

Einkasýningar hennar eru meðal annars Suspension of Disbelief í KW Institute for Contemporary Art í Berlín (2015); Trace í gallerí i8 (2010); Parallax í Listasafni Reykjavíkur (2009) og Universolo í Unisolo, Róm (2009).
Meðal samsýninga má nefna Beyond Reach í Den Frie Udstillingsbygning í Kaupmannahöfn (2014); Higher Atlas á tvíæringnum í Marrakesh, Marokkó (2012); Space Revised í Künstlerhaus í Bremen (2009) og Art Against Architecture í Listasafni Íslands (2008). Árið 2007 var Elín valin til þátttöku í Frieze Projects á Frieze listasýningunni í London.

Elín leggur áherslu á upplifun áhorfandans af verkum sínum. Þau eru þannig opin og bjóðandi, tilbúnar aðstæður þar sem skynjun einstaklingsins er ögrað. Það er vel líklegt að verk hennar sýni okkur ekki neitt, séu aðeins látbragð sem kveikir viðbrögð.

Mörg verka Elínar eru leikur með rými og sjónhverfingar. Áhorfandinn stendur andspænis endurteknu stefi, einhvers konar samskiptaleið með undarlegu rými, hljóði og ljósi sem eiga sér óljósar hliðstæður í veruleikanum. Það sem er hins vegar óumdeilanlega raunverulegt er óróleiki áhorfandans, sem jafnvel fer að vantreysta eigin skilningarvitum og upplifir svima, innilokunarkennd, uppbrot tímans.

Ásmundarsafn er helgað verkum Ásmundar Sveinssonar myndhöggvara. Ásmundur var á meðal frumkvöðla íslenskrar höggmyndalistar og sótti innblástur fyrst og fremst í íslenska náttúru og bókmenntir, sem og til þjóðarinnar í landinu. Efnismikil, kröftug og stundum ógnandi verk hans eru lík þeim kynjamyndum sem lesa má úr íslenskri náttúru. Þótt myndefni Ásmundar hafi fyrst og fremst verið af þjóðlegum toga, tileinkaði hann sér engu að síður meginstrauma alþjóðlegrar listsköpunar eins og ekkert stæði honum nær, og gaf henni um leið íslenskt yfirbragð – íslenskt inntak.

Texti og myndefni fengið á vef Listafns Reykjavíkur.

UA-76827897-1