English below
Opnun Fimmtudag 9 juní, frá 17 – 19
i8 opnar sýningu á nýjum olíuverkum eftir Callum Innes á striga og pappír. Þetta er önnur einkasýning hans í galleríinu, og með henni bætist Callum í hóp listamanna gallerísins.
Callum Innes nálgast strigann með þeim hætti að afmá þau málningarlög sem þegar eru á hann komin. Ferlið hefur verið kallað „afmálun“ og er listamaðurinn sáttur við það hugtak og það er vissulega rétt að hann er að mörgu leyti að leysa upp mynd sem hefur tekið sér bólfestu í huganum. Innblásturinn eða myndefnið er oft fengið með hvunndagslegum hætti, fyrirsagnir dagblaðanna eða lesefni kvöldsins áður, en þó er myndin alltaf skýr. Það má þó ekki láta blekkjast af tærum og nákvæmum málverkum og halda að engin óreiða sé í hinu skapandi ferli – það er nefnilega einmitt mikil óreiða í því að sýsla með svarta litinn sem umlykur allt. Fegurðarleitin getur verið óþrifaleg.
Verk Callum Innes má rekja beint til klassískrar hefðar óhlutbundinnar málaralistar og rannsakar hann stöðugt þanþol þess hvað hægt sé að kalla málverk. Málverk krefjast agaðs ferlis og mikillar biðlundar. Það þarf til dæmis að bíða eftir því að striginn verði nægilega þurr svo hægt sé að halda áfram. Óþolinmæði er löstur og þegar tækifærið gefst, þarf að nota tímann skynsamlega. Skipulagt stefnumót litamannsins við liti getur leyst upp í för um ókunnar lendur.
Í rými getur reynst erfitt að láta eitthvað flókið virðast einfalt. Listamaðurinn nemur hljóð og með hljóðinu getur hann séð fyrir sér rýmið. Áhorfandinn á líka kost á þessari upplifun, og getur komist að sinni eigin niðurstöðum í ægilegri návist málverksins.
Callum Innes er fæddur í Edinborg árið 1962. Hann nam teikningu og málun í Gray’s School of Art á árunum 1980 til 1984 og lauk meistaragráðu við Edinburgh College of Art árið 1985.
Hann hóf að sýna verk sín opinberlega síðla á níunda áratugnum og árið 1992 voru tvær stórar sýningar verka hans, annars vegar í ICA í Lundúnum og hins vegar í Scottish National Gallery of Modern Art í Edinborg. Hann hefur verið talinn til einna mikilvægustu abstraktmálara sinnar kynslóðar og hefur fengið mikið lof sem slíkur í kjölfar stórra einka- og samsýninga víða um heim. Callum Innes hefur var tilnefndur bæði til Turner- og Jerwood verðlaunanna árið 1995 og árið 1998 hlotnuðust honum hin virtu NatWest verðlaun fyrir málun. Árið 2002 hlaut hann svo Jerwood verðlaunin. Í október á þessu ári mun opna stór sýning verka hans í De Pont Museum í Hollandi.
Samhliða sýningaropnuninni verður útgáfuhóf vegna nýrrar bókar Callum Innes sem nefnist Edges, og er gefin út af Ivorypress.
Nánari upplýsingar veitir Þorlákur Einarsson í síma 551 3666 eða í gegnum tölvupóst: thorlakur@i8.is
–