Næturútvarp í Svavarssafni

17.02. 2024 | Innsent efni, Sýningartexti

Næturútvarp eftir Ástu Fanneyju Sigurðardóttur (f. 1987) er óður til horfinna tíma, en jafnframt ákall til framtíðar. Verk hennar eru jafnan óræð og draumkennd. Þau hafa djúpa meiningu sem er jafnframt hulin þoku. Sýningin Næturútvarp er innblásin af abstrakt geometrísku verki eftir Svavar Guðnason (f. 1909-1988); sem hann nefndi Næturútvarp frá Öræfajökli, 1954-55 og tileinkaði vini sínum og tónskáldinu Jóni Leifs. Ljóðrænn titill verksins vekur upp margar hugleiðingar og tileinkunin ekki síður.

Svavar færðist jafnan undan því að skilgreina myndlist sína en sagði jafnframt að litirnir væru töfratónar. Æska hans og æfi var umvafin fjöllum, skýjuðum himni, söndum og grænni sveit undir birtuveröld Vatnajökuls, þar sem tilbrigði skærra litatóna, endurkast og mögnun birtu í þokukenndu landslagi Hornafjarðar voru honum innblástur. Svavar var líkt og Jón Leifs í sífelldri leit að sannri list, lygin ætti ekki erindi í listinni fremur en í ástinni. En sönn list sem hvetur og örvar ætlast ekki til þess að allir skilji hana sama skilningi. Myndlistarverk Ástu Fanneyjar Sigurðardóttur tala sterkt inn í þessa listrænu sýn. Listamennirnir eiga það sameiginlegt að verk þeirra lúta ekki nákvæmum skilgreiningum heldur skírskota þau til hughrifa og tilfinninga. Þau eru margbrotin og marglaga, þversagnakennd með ljóðrænan undirtón.

[dsm_masonry_gallery gallery_ids=“14046,14044,14045,14043,14042,14041,14040,14039,14038″ _builder_version=“4.22.2″ _module_preset=“default“ global_colors_info=“{}“][/dsm_masonry_gallery]

Kveikja sýningarinnar Næturútvarp er lítill gylltur kassi í verki Svavars, sem virkar jafnvel eins og dyr inn í málverkið og þar með aðra veröld þar sem litir og form verksins lifna við. Með verkum sínum leiðir hún áhorfandann inn í innri veröld málverksins. Með notkun ólíkra miðla lífgar hún formin við í næturútvarpi sem flakkar í tíma og rúmi líkt og þokukenndur vökudraumur sem blæðir inn í svefninn. Á sýningunni eru tvö videoverk, hljóðverk, málverk, ljósmynd og skúlptúrar. Ásta Fanney skar út nótnablöð með tónverkum Jóns Leifs eftir geometrískum formum úr verki Svavars, úr þeim vann hún í samstarfi við sellóleikarann Gyðu Valtýsdóttur og píanóleikarann Áshildi Ákadóttur hljóðverk sem óma í rýminu sem undurfalleg tónbrot. Litir og form úr málverki Svavars vakna til lífsins í einskonar abstrakt útvarpi þar sem skipt er um stöð aftur og aftur. Næturútvarpið sjóngerist að endingu í klassísku málverki á striga og þar með er hringnum lokað. Sýningin er mjúk hrynjandi með sterku hljómfalli draumkenndra andstæðna og nýrra tíma.

Margrét Áskelsdóttir

Ljósmyndir: Með leyfi listamannsins og Svavarssafns.

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest

Share This