Tvö mismunandi sjónarhorn, samtímis

2.01. 2022 | Umfjöllun

Titill greinarinnar vísar hér í tvíþætta skynjun á verkum Jónu Hlífar Halldórsdóttur í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Annarsvegar sjónarhorn myndmálsins og umfjöllunarefnis þess og hins vegar tungumálið og nálgun þess við myndirnar. Einnig vísar þetta til þess að nokkur verkanna, einkum verkið Snævetur, sem prýðir forsíðu sýningarskrár, leiðir hugann að skýjum og bláum himni þegar horft er upp frá jörðu og ský og vatn (oftast Atlantshafið) þegar horft er niður úr flugvél. Það breytir skynjuninni í einhverskonar sjónhverfingu, eins og ef hægt væri að staðsetja sig á tveimur mismunandi stöðum samtímis og horfa á nokkurnveginn það sama.

Veður og tíminn

Sýningin Vetrarlogn opnaði 4. desember 2021, á nýju tungli. Jóna Hlíf hannaði sýninguna inn í rýmið og fellur hún því vel að nokkuð flóknu sýningarrými byggingarinnar. Það er hár og hrár steinsteyptur veggur í gangvegi og rýmið Leyningur sem upphaflega átti að þjóna sem fatahengi. Þar staðsetur hún eitt myndverkanna ásamt stöpli með nýútkominni bók sinni, nokkuð frá verkinu. Standi menn andspænis veggnum sést öll sýningin samtímis, líka það sem er í gáttum Leynings. Uppsetningin er bæði elegant og vel skipulögð, á átta jafnstórum álplötum, 130 x 100 cm á stærð. Uppsetningin myndar samtímis spennu og jafnvægi milli verkanna og bókarinnar.

Sýningarskráin sem fylgir sjálfri sýningunni gegnir mikilvægu hlutverki, með texta, sem er nauðsynlegur fyrir dýpri skilning á grunnhugmyndinni sem verkin og sýningin byggir á. Hvert verk er spreyjað hvítt en nokkur þeirra fá síðan bláa lífræna flekki. Þau innihalda öll útskorinn texta í myndflötinn sem hallar mismikið fram úr myndinni að áhorfendunum. Verkin myndu því falla undir skilgreininguna lágmyndir, þar sem þau eru í senn tví- og þvívíð og hengd á vegg. Textarnir mynda skugga á myndfletinum og má líta á það sem einhverskonar vetrarlandslag þar sem fjallatoppar standa upp úr snjóþekju. Einnig má túlka það sem skugga tungumálsins, því málið á bæði bjartar og dökkar tilfinningalegar hliðar. Nýja tunglið er hér nefnt til að vísa í tíma. Árstíðir og tími ársins sem vetrarveðrið herjar með hæðum og lægðum er myndgert. Textinn byggir á aldagömlum annálum.

Tungumálið og myndverkin mynda eina heildarhugsun

Titillinn Vetrarlogn slær tóninn. Sýningarskráin er í senn ljóðræn og upplýsandi en texti hennar byggir á annálum um árferði vetra sem fyrr segir. Textinn er unninn í nánu samstarfi við Hjálmar Brynjólfsson. Texti eftir Hjálmar birtist sem skýring á sýningu Jónu Hlífar, Meira en þúsund orð, í Listasafninu á Akureyri 2020. Skýringartextarnir eru mikilvægir til að ná til þeirra þátta og djúpu hugsana og hugmynda sem sýningar Jónu Hlífar byggja á. Á sýningunni Vetrarlogni er vetrum á Íslandi lýst á mismunandi tímabilum, ýmist með vaxandi lægðum og óveðri eða þá logni þess á milli eins og stendur í skránni. Ljóstakturinn helst hins vegar sá sami öll ár samkvæmt sólargangi og hnattstöðu.

Ég minnist þess ekki að nokkur myndlistarmaður hafi gert íslensku vetrarveðri svo góð skil. Það sem er áhugavert er líka notkun tungumálsins, stundum sem ljóðbrot eða einhverskonar örsögur, þó allt byggt á skráðum veðurfarslýsingum. Efnisnotkun Jónu Hlífar fellur sérlega vel að innihaldi listaverkanna þar sem túlkun hennar og tjáning á vetrarhörkunni er spreyjuð með hvítum lit og stundum bláum, á kaldar og harðar málmplöturnar. Ekkert vinnur á þessum málmi og ekkert nema sólarylur sumarsins vinnur á vetrinum. Málmurinn er varanlegt efni og getur við réttar aðstæður sómt sér jafn vel úti sem innandyra. Vetrarharkan er líka árviss og varanleg þó það sé erfitt að muna það á góðum sumardegi. Listaverkin eru samspil á lýsingum veðurfarsins, landsins og svo tungumáli þjóðarinnar, hringrás árstíða og harðbýli langra vetrarmánaða.

Verkin fjalla líka um grunninn í sjálfsvitund þjóðarinnar, tungumálið litað af alda langri einangrun en þó með rætur til tungumála eldri þjóða. Á einum stað í sýningarskrá stendur eftirminnilega: vetrarlogn gegnir sama hlutverki við að skilja árstíðina og bilið eða eyðan milli stafa og orða í tungumálinu…

þetta tel ég vera galdur listaverkanna og í raun sýningarinnar í heild. þetta samspil þagnar tungumálsins og logni vetrarveðursins ásamt andstæðum þess, átökunum og kraftinum bæði í orðum og veðri. Veðrið og umhverfið hefur mótað þjóðina frá upphafi landnáms og skynjun hennar á umheiminum. Þó landnámsmenn hafi auðvitað haft sitt eigið tungumál sem síðan hefur þróast og breyst ásamt lifnaðarháttum og margskonar áhrifum, t.d. frá  þrælunum sem þeir tóku sér á leiðinni og hefur hluti tungumálsins byggt á orðnotkun frá þeim ekki síður en fornnorsku. Við horfum þó alla jafna meira á norræn áhrif og tungumálagrunn heldur en keltneskan orðaforða sem leynist þó í málinu.

Tungumálahefðin og ritmálið var í rúmt árþúsund helsti listræni tjáningarmiðillinn í formi sagna og ljóða. Ekki þróuðust hér aðrar listgreinar í sama mæli eins og víða um heim. Víkivaki og einhver sönglög hafa þó orðið hér til, mest sennilega rímnaljóðin og sálmar, en þá eru hvorutveggja væntanlega tilkomin eftir orðum og texta en ekki orðum bætt við hrinjandi í söng. Hlutverk laganna er hugsanlega að hjálpa minninu að varðveita orð og texta, og síðar verður það félagslegt fyrirbæri í söng og hópdansi reikna ég með.

Ísland er land tungumálsins og sagnahefða, þögnin þótti ekki síður mikilvæg en hið talaða orð. Veðrið er og var og verður alltum ríkjandi og stöðugt nærverandi í hugum landsmanna enda afkoman grunduð á því sem landið og hafið gaf, þegar veður leyfði, í gegnum árhundruðin.

Á sýningunni vinnur Jóna Hlíf með undirstöðu lífsins á þessari afskekktu eyju, veðrið sem stjórnar afkomunni og lífsskilyrðunum og tungumálið sem vex fram og mannlífið byggir á. Allt er breytingum háð, líka tungumálið og veðurkerfin. Tungumálið er viðkvæmt í fjölmenningarsamfélögum og tæknivæddum nútímanum enda er það ekki óumbreytanlegt staðlað kerfi þó menn vilji seint trúa því varðandi íslenska stafsetninu og y, sem hefur ekkert hljóðfræðilegt gildi í tungumálinu lengur en hins vegar sögulegt gildi að hluta til.

Breytingar eru eðlilegar í tungumálum sem eru lifandi tjáningarmiðill manna á meðal, ritmálið fylgir á eftir. Gamlir forhertir íslenskuunnendur hafa þó lengi reynt að fá menn til að einblína fyrst og fremst á ritmálið og aðlaga tungutak sitt eftir því. Ég styð það að hluta til því að lestur bókmennta og ljóða eykur orðaforða og skilning og gerir málnotkunina blæbrigðaríkari og áhugaverðari. Erfitt er þó að þvinga talmálið í form eldra ritmáls án þess að það verði hjákátlegt. Bókmenntir og ljóðlist efla anda lesandans og gerir líf hans tvímælalaust ríkara. Breytingar eru hluti af ferli tungumála og því miður eiga tungumál sem fáir tala undir högg að sækja og ríkjandi tungumál sem margir tala nær oftar en ekki yfirhöndinni, t.d. enska, kínverska, arabíska, rússneska og spænska.

Mörgum þykir stefna í að hér verði enskan ríkjandi tungumál ásamt íslensku. Yngri kynslóðirnar verða tví- og þrítyngdar sem væri nýr íslenskur veruleiki, en hér er ekki lagt mat á gildi þess. Jóna Hlíf vann á eftirminnilegan hátt með sýningu sinni á Mokka 2021 með áhrif mynda úr íslenskri náttúru og margskonar tungumál, orð og tákn. Veðurfar og veðrakerfi breytast vegna hlýnunar jarðar, hitastig sjávar og lands breytist, tegundir gróðurs og dýra hverfa og annað nýtt skýtur upp kollinum. Sýningin Vetrarlogn minnir á fortíðina með föstum lifnaðarháttum, veðurfari og tungutaki, og svo nútíman sem er breytingum háður og framtíðin óljós, á öllum sviðum.

Tungumálið verður uppistaða myndverka

Textinn er knappur, lýsandi og byggður á staðreyndum en hann er ekki síður myndrænn hvíti og blái liturinn á álplötunum, og saman myndar þetta heilsteypt listaverk. List myndverka, list tungumálsins í eftirtektarverðri blöndu. Fluxushreyfingin varð til þegar einkum ritlistin braut sér leið í myndljóð, oft ómerkingarbærra orða eða setninga, önnur listform fylgdu á eftir m.a. myndlistin. Það er þó oft álitamál hvenær slíkar liststefnur eiga sitt upphaf og hver er upphafsmaður eða menn. En þessi myndverk leiða hugann að hluta til þangað og einnig til fyrri verka listamanna á borð við Josephs Kosuth og í einhverjum tilfellum verka Lawrence Weiner.

Margir hafa notað texta í verkum sínum, hérlendis m.a. Kristinn E. Hrafnsson og erlendis fjöldi ólíkra myndlistarmanna. Það má finna samhljóm með þeim og Jónu Hlíf á einhvern hátt í forminu á framsetningu textanna eins og áður er getið, en innihaldið og konceptið er allt annað. Grunnhugmyndin bak við verk Jónu Hlífar er styrkurinn ásamt leturgerðinni og hún hefur í lengri tíma unnið við að þróa samband myndar og texta og hefur náð sérstöðu í því hérlendis. Leturgerðin er persónuleg og orðin auðþekkjanlegt höfundareinkenni Jónu Hlífar. Hver og einn skilur listaverkin á sinn hátt og þar getur þá skilið á milli manna. Í verkum Jónu Hlífar finnur kímnin sér oft farveg, jafnvel stöku sinnum viss kaldhæðni.

Efnismeðferð listaverkanna

Eldri verk Jónu Hlífar sem innihalda bókstafi eða texta hafa verið gerð í pappa, karton eða pappír, sem er mun viðkvæmara efni og oft ekki svo endingargott, það getur auðveldlega rifnað og upplitast. Álplöturnar eru léttar en líka eru þær meðfærilegar, vissulega dýrari en endast betur. Þær falla vel að innihaldi verkanna; harðar, kaldar, sterkar og varanlegar. Það fer þó allt eftir innihaldi texta og myndar, ef það er mynd á annað borð, hvaða efni hentar best, stundum er það pappírinn sem hentar innihaldi verkanna og formi betur, samanber listaverkið Íslenskt myrkur, sem var á sýningunni Meira en þúsund orð, þar naut pappírinn sín sérlega vel.

Listferlið, niðurstaðan

Oft er sjálft listferlið ekki síður áhugavert heldur en loka niðurstaðan. Listsköpun er langt og strangt ferli og ekki á vísan að róa að viðkomandi listamanni fari fram með hverri sýningu og hækkandi aldri. Einhverjir listamenn gera sín bestu verk snemma á ferlinum, aðrir seint. Áhugavert er að skoða listferil myndlistarmanna sé þess einhver kostur og sjá hvar þeir eru í ferlinu og hver vegferðin er. Verk Jónu Hlífar hef ég séð reglulega síðan hún var í grunnnámi í myndlist á Akureyri. Listferlið, áhrifin, úrvinnslan og svo tjáningin og framsetning verkanna í sýningarsalnum er, í mínum huga, allt ein heild. Það truflar mig ekki að sjá áhrif annarra listamanna í verkum myndlistarmanna yfirleitt, hvorki frá þeim stað sem dvalið er á né frá umhverfinu. Ég er ekki að tala um eftirhermur, það er allt önnur umræða.

Það er oft áhugavert að vita af áhrifavöldum og skilja hvernig listamenn tileinka sér og vinna með það sem hrífur þá eða vekur ástríðu, þörf eða áhuga þeirra. Ég skynja nálægð ljóðlistar og dýpri hugsana varðandi notkunar tungumálsins í nærumhverfi Jónu Hlífar sem gerir list hennar hnitmiðaðri og eykur sérstöðu hennar. Þessi áhrif séu þau til staðar eru þá örfandi. Þar fyrir utan er eðlilegt, jákvætt og ánægjulegt að eiga einhverskonar samtal eða samvinnu í listum, stundum sjá augu betur en auga, og tvær listgreinar sem fléttast saman gera listina oft meira marglaga, dýpri og jafnvel áhugaverðari. Vetrarlogn er eftirminnileg sýning og áhrifarík. Bók Jónu Hlífar sem var að koma út, er sérlega falleg og spennandi. Ég hef engin tök á að gera henni skil hér, enda aðrir betur til þess fallnir. Ég lýk þessum skrifum með tilvísun í texta sem er eftir Joseph Kosuth, verkið kallast Glasstree frá ca.1991 en þessi texti er silkiprentaður á glerplötu sem er 175 x 175 cm á stærð: How words are understood is not told by words alone.

Pálína Guðmundsdóttir

 


Sýningartexti –  Vefsíða: www.jonahlif.is


Akureyri 4.-23. desember 2021. Pálína Guðmundsdóttir, starfandi myndlistamaður, menntuð í málvísindum auk myndlistar og kennslufræðum.
Ljósmyndir: Myndir teknar í HOFI: Magnús Helgason, myndir með hvítum bakgrunn: Vigfús Birgisson.

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest

Share This