Laugardaginn 19. mars kl 15:00 verður Þórunn Hjartardóttir með sjónlýsingu á verkum Guðjóns Ketilssonar á sýningunni Málverk í Hverfisgalleríi. Listamaðurinn verður einnig á svæðinu og tekur þátt í samtalinu.

Sýningin samanstendur meðal annars af verkum þar sem listamaðurinn vann með eigin málverk sem unnin voru á 9. áratug síðustu aldar, auk texta sem lýsir því sem fyrir augu bar í hverju verki. Guðjón skar málverkin niður í þunnar ræmur sem hann svo límdi þétt saman. Eftir stendur því málverk án myndar og texti sem stendur fyrir þá mynd sem eitt sinn var.

Texta málverkanna vann Þórunn Hjartardóttir en hún tekur að sér lýsingu á myndlist fyrir blinda og sjóndapra. Það er ákveðin færni sem felst í því að lýsa verkum eins og þau standa án þess að fylla lýsinguna sínum eigin túlkunum eða með of sterkum lýsingarorðum. Þórunn ætlar að vera með sjónlýsingu á verkunum eins og þau standa núna og segja gestum frá því hvernig hún vinnur lýsingarnar.

UA-76827897-1