Peysa með öllu – og fyrir alla!

3.05. 2021 | Umfjöllun

Hugvekja Ýrúrarí um ofneyslu textílefna

Hver er algengasta orsök þess að fötin okkar lenda í ruslinu? Líklegasta orsökin gæti verið sú að fötin hafa annað hvort rifnað eða einhverskonar blettir eru fastir í þeim. Textílhönnuðurinn Ýr Jóhannsdóttir öðru nafni Ýrúrarí hefur komist að þeirri niðurstöðu í gegnum samstarf sitt við fatasöfnun Rauða kross Íslands að ein algengasta orsök þessara bletta í fötum Íslendinga gæti stafað af pulsuáti. Pulsa með öllu varð því að útgangspunkti og megin þema verkefnisins þar sem pulsan virðist vera aðal skaðvaldur fyrra lífs fatanna og megin orsök örlaga þeirra í ruslatunnum landsmanna.

Peysa með öllu er samstarfsverkefni Ýrar og fatasöfnunar Rauða kross Íslands þar sem Ýr finnur nýjar og skapandi leiðir til að bjarga þeim peysum sem sökum smávægilegs útlitsgalla frá fyrri eiganda hefur valdið því að þær komast ekki í hendur nýrra eigenda. Með húmor, skapandi hugsun og miklu hugmyndaflugi tekst henni að blása nýju lífi í peysurnar og og gefa þeim sjálfstæðan karakter. Peysurnar lifna við og verða að einstökum listaverkum sem bæði er hægt að sýna inni á listasöfnum eða klæðast við hin ýmsu tilefni. Þannig hefur listaverkið öðlast sitt eigið líf bæði innan og utan listasafnsins þar sem Ýr hefur fundið myndlistinni leið út úr safnrýminu í átt til almennings. En á Hönnunarmars 2020 mátti einnig sjá peysurnar úti í göngutúr niður Laugarveginn.

Húmorinn sem sjá má í peysunum felst einna helst í því að gera grín af græðgi mannfólksins með óhefðbundnum leiðum og textílaðferðum til þess að laga útlitsgallaðar peysurnar með því að myndskreyta þær með allskonar gráðugum munnum og tungum sem sleikja út um og sulla svo niður á sig matarleifunum sem Ýr breytir síðan í skemmtileg munstur. Í verkefninu felst því ákveðin vitundarvakning um neyslusamfélagið, umhverfið og tímann. Í stað þess að kaupa nýtt hefur Ýrúrarí sýnt okkur nýjar leiðir og aðferðir til þess að endurnýta gömlu fötin og vekja okkur til umhugsunar um það hvernig við upplifum hraða nútímans með því að skapa tíma og rými til þess að hugsa um fötin okkar í stað þess að henda í ruslið og kaupa ný, sem veldur stanslausri hringrás streitu nútímasamfélagsins og hefur skaðleg áhrif á umhverfið. Í staðinn leggur hún til að við gætum frekar eytt tímanum í að efla hugmyndaflugið og mannleg samskipti með nokkurskonar baðstofustemmingu í anda liðins tíma.

Í framhaldi verkefnisins Peysa með öllu, sem sýnt var á Hönnunarmars 2020 bauð Ýrúrarí gestum að taka þátt með opnun vinnustofu í Hönnunarsafni Íslands er bar heitið Peysa með öllu fyrir alla. Þar bauðst gestum og gangandi að ættleiða peysu með ákveðnum skilyrðum. Gestir máttu velja sér peysu og skoða hana vel og vandlega, því næst átti að athuga úr hvaða efni peysan væri og máta, hreyfa líkamann í henni, skoða sig vel í spegli og athuga á hvaða viðgerðum peysan gæti hugsanlega þurft á að halda. Að því loknu átti að hugsa sér þrjár flíkur sem væru heima í fataskápnum og gætu hugsanlega passað við peysuna. Eftir að hafa fylgt þessum leiðbeiningum og svarið væri þess eðlis að peysan yrði notuð mátti skrá sig í facebook hóp í þeim tilgangi að deila hugmyndum sínum og viðgerðarferli peysunnar.

Vinnustofuheimsóknin í Hönnunarsafni Íslands var mjög hvetjandi og skemmtileg, gengið var inn á Hönnunarsafnið þar sem Ýr hafði komið sér vel fyrir í einu horni safnsins. Þar héngu peysur sem hún hafði þegar gert við og breytt með óhefðbundnum aðferðum yfir í glænýjar mjög framandi en flottar peysur. Upp við vegginn var svo slá með allskonar peysum sem gestum var boðið að skoða og máta.

Ýrúrarí sýnir hvernig hún hefur fundið óhefðbundnar leiðir til þess að losna við sósublettina, lykkjuföllin og götin sem fá ýmist fleiri göt eða þeim er umbreytt í ný form eða munstur. Mjög vinalegt andrúmsloft tók á móti gestum en upplifunin var líkt og að heimsækja góða vinkonu í saumaklúbb þar sem gestum var gefinn kostur á að njóta augnabliksins, spjalla, skiptast á hugmyndum og deila mismunandi textílaðferðum. Vinnustofan var því frábær vettvangur til að tengja fólk saman, ýta undir samvinnu og stoppa tímann um stund. Verkefnið Peysa með öllu er því í heild sinni afar hvetjandi hugvekja til almennings í amstri dagsins.
Um þessar mundir gefst kostur á að skoða tvær peysur eftir Ýrúrari í Hafnarhúsinu en þar tekur hún þátt í samsýningu Errós og 15 annarra myndlistarmanna þar sem ýmis verk Errós eru sett í samhengi við íslenska samtímalist.

Rakel María Róbertsdóttir


Ljósmyndari: Axel Sigurðarson

The article is a part of a collaboration between Artzine and a new MA in Curatorial Practice at the Iceland University of the Arts.

Umfjöllunin er hluti af samstarfsverkefni Artzine og nýrrar meistaranámsleiðar í sýningagerð við myndlistardeild Listaháskóla Íslands á vorönn 2021.

UA-76827897-1