Lús í góðu skapi: Nervescape í Helsinki

Lús í góðu skapi: Nervescape í Helsinki

Lús í góðu skapi: Nervescape í Helsinki

Sýningin Nervescape VIII er nafnið á sýningu Hrafnhildar Arnardóttur, eða Shoplifter, í Kiasma, nýlistasafn í miðborg Helsinki. Nervescape VIII er áttundi hluti sýningarraðarinnar sem einkennist af litríkum uppsetningum af gervihári sem gjörbreytir rýminu í litríkt landslag tauga.

Gleði yfir litadýrðinni er sú tilfinning sem ég fann er ég labbaði inn í rýmið seinnipart föstudags. Mikið var af fólki á efstu hæð Kiasma og það var ekki þögn eins og á hinum hæðunum, heldur ljúfur kliður. Ótrúlegt magn af gervihári í öllum regnbogans litum var búið að hengja þvers og kruss um rýmið í formum sem minna á taugakerfi. Börn hlupu um og knúsuðu hárið sem náði næstum niður á gólf. Í miðju sýningarinnar voru púðar á gólfinu þar sem hægt var að liggja og njóta litanna líkt og við gerum þegar við setjumst niður og komum okkur fyrir til þess eins að njóta útsýnis.

Á meðan ég labbaði um rýmið fékk ég sterka löngun til þess að snerta, finna fyrir því hvernig það væri. En mér til mikillar furðu var það ekki mjúk og góð tilfinning sem mér bar við fingurgóma heldur minnti áferðin mig helst á gamla trúðahárkollu sem ég átti þegar ég var barn. Örlítil klígjutilfinning læddist að mér, en ég held að hún sé alveg eðlileg. Venjulegt hár framkallar svipaðar tilfinningar. Það ógeðslegasta sem ég geri er að tæma niðurfall sem er fullt af hári, jafnvel þótt það sé bara mitt eigið hár, en á hinn boginn stend ég fyrir framan spegilinn á hverjum einasta morgni og tek “listræna” ákvörðun um hvernig ég vilji hafa hárið mitt þann daginn.

Við hugsum öll óheyrilega mikið um hárið okkar þótt að sum okkar væru frekar til í að sleppa því. En þessar vangaveltur um hégómleika okkar gagnvart okkar eigin hári blikna í samanburði við það magn af hári sem umkringdi mig á efstu hæðinni í Kiasma. Í fyrri verkum Hrafnhildar vann hún meira með hégómleikann í tengslum við alvöru hár en í Nervescape seríunni notast hún við gervihár sem er í raun skoplegt því allt þetta hár hangandi úr loftinu er eingöngu framleitt til þess að bæta við eða upp fyrir venjulegt hár, til hárlenginga og skreytinga á okkur sjálfum.

Þannig vakti litadýrðin upp hugsanir um þann fjölda af ákvörðunum sem mögulegt sé að taka. Hvernig sköpun okkar getur þanist út í það óendanlega og táknrænir möguleikar einhvers eins hversdagslegs og hárs séu í raun ótæmandi. Allt sem mér myndi mögulega geta dottið í hug væri hægt að framkvæma eingöngu ef viljinn væri fyrir hendi, það virðist yfirþyrmandi. Enda segist Hrafnhildur, í viðtali við Grapevine [1], breyta áhorfandanum í lús og ég tek undir það með henni; lús í góðu skapi.

En hver er tengingin á milli hárlenginga og tauga? Í spjalli við sýningarstjóra á Listasafni Íslands, vegna sýningarinnar Nervescape VII sem var árið 2017 [2], minnist hún á það hvernig við gleymum því oft hvað við erum með magnað landslag innra með okkur. Við eyðum oft svo miklu púðri í hið ytra, til dæmis hárið, en taugarnar ná yfir allan líkamann, nema og færa boðin. Hér er taugakerfið túlkað, stækkað og málað upp í nýjum skala. Vísindamenn nota einnig margvíslega liti til þess að tákna greinarmun hinna mismunandi tauga í heilanum og sú mynd sem þau skapa er alls ekki ólík Nervescape.

Eins og fyrr hefur komið fram er Nervescape hér í Helsinki númer 8 í sýningarröðinni en hugmyndin ætti að vera kunnugleg þeim sem fóru að sjá hana á Listasafni Íslands fyrir tveimur árum. Nervescape serían samanstendur alltaf af sama efni, en tekur öllum rýmum með mismunandi hætti þannig verður hver og ein sýning einstök enda rýmin misjöfn. Efsta hæð Kiasma er til að mynda gríðarstórt og bjart rými með stórum gluggum og þar af leiðandi fallegri dagsbirtu. Það verður því spennandi að sjá hvað hún, ásamt sýningarstjóra Birtu Guðjónsdóttir sem hefur meðal annars unnið með Shoplifter að nokkrum fyrri Nervescapes, munu gera með íslenska skálann á Feneyjartvíæringnum í sumar. [3] Það má búast við litadýrð og gervihári en líklega allt öðrum tilfinningum en í björtu Kiasma.

Eva Lín Vilhjálmsdóttir


Ljósmyndir birtar með leyfi Kiasma safnsins.

[1] https://grapevine.is/culture/art/2017/06/01/hypernature-shoplifter-showers-the-world-with-colour/

[2] https://www.youtube.com/watch?v=nvYpHfmlgDU

[3] https://icelandicartcenter.is/projects/venice-biennale/hrafnhildur-arnardottir-shoplifter-represents-iceland-at-58th-venice-biennale/

Rósa Gisladóttir’s Mesh of Material and Light

Rósa Gisladóttir’s Mesh of Material and Light

Rósa Gisladóttir’s Mesh of Material and Light

Mediums, or the channels through which cultural practices are transmitted, have been subject of extensive research and re-defining in recent years. Irrespectively, the material world itself often seems absent, or non-relevant. In this exhibition, mediums are rethought in context of the intellectual and physical substance of Matter. Aristotle’s understanding of Matter is that any material object/substance is generated by receiving Form, therefore it becomes Substance. It can be neither independent nor inseparable from its surrounding environment. Τhe other elements that define Matter are Energy and Purpose. Altogether they fabricate actuality and an undeveloped potentiality.

Medium of Matter strikes the visitor as a gathering of forms, studied in relation to their environment: their roots and their footprint on the space. The works exhibited are of two general natures, intermingling together through spatial continuity and the antithesis of light.

In the hall, furthest from the entrance of the gallery space, extended windows allow the natural light to shed onto sculptures made of plaster. Placed on an illuminated plexiglass platform, they lie there resembling a still-life snapshot. The objects cast glowing shadows on the surface transpiring a sensation that they are wafting over it. The lines are clear, the angles sharp yet softened and harmonic. Time and gravity are ever-present. There lies a certain fascination of re-inventing potential everyday-use objects into new forms. Aesthetically, they depict an obvious Greco-Roman influence with a minimalistic twist. A connection can be traced to the artist’s 2012 project Like Water Like Gold (2012, Trajan’s Market, Rome), where large-scale sculptures of a similar nature became an attempt to experiment with ancient forms and modern materials – the element of light always playing a predominant role.

In the rest of the space, wooden, featherweight architectural structures extend through invisible lines towards the skies and the three dimensions, or sole windows – open gates to new ones. The large structures in the centre are slender and transparent, allowing the viewers’ eyes to linger on apparent impalpable forms and to follow on all surrounding surfaces their large, intimidating dark shadows, which multiply their spatial impact. Intense beams of light of artificial source accentuate the delicacy of the material and the frames, that comes into controversy with their constructivist references.

An installation of ancient temple pediment-like molds hung on one wall appears as an anamnesis of classical-period remnants. Which as in the rest of the works, comes perhaps as an attempt to communicate the inborn symbiotic relationship between architecture and sculpture, deriving from material and utility.

Katerína Spathi


Photo credit: Irini Spathi

Versatile Uprising: Lifandi formleysa

Versatile Uprising: Lifandi formleysa

Versatile Uprising: Lifandi formleysa

Undanfarinn mánuð hefur Wind and Weather Gallery, að Hverfisgötu 37, hýst sýninguna Versatile Uprising (ísl. Margræð uppreisn) sem er samvinnuverk frönsku listamannana Claire Paugam og Raphaël Alexandre, en þau hafa búið og starfað á Íslandi í rúm fimm ár. Í listsköpun sinni leggur Claire mikla áherslu á formleysi; hvar það má finna í náttúrunni eða líkamanum og hvar það gæti leynst í borgarumhverfinu – þar sem konkret form og beinar línur virðast ráða ríkjum. Á hinn bóginn er efniviður Raphaëls oftar en ekki rafmagnstengdur: ljós, hljóð og skynjun sem hægt er að forrita á kerfisbundinn og samræminn hátt. Bakgrunnur listamannanna er nokkuð frábrugðinn hvor frá öðrum.

Claire útskrifaðist með MFA úr Listaháskóla Íslands árið 2016 en Raphaël er menntaður tölvunarverkfræðingur. Leiðir þeirra lágu saman í gegnum starfsemi Listastofunnar sem leiddi í kjölfarið til frekara samstarfs. Claire bauð Raphaël að vinna með sér að sýningunni í Wind and Weather Gallery og úr þeirri samvinnu spratt sýningin sem blasir við augum ef gengið er upp Hverfisgötuna. Niðurstaða samvinnunnar er gagnvirk innsetning sem dregur fram mynd af dulrænum, slímkenndum, skúlptúrískum og formlausum massa. Dökkur massinn dreifist smátt og smátt yfir þrjá sýningarglugga gallerísins og virðist hafa það fyrir stafni að leggja rýmið undir sig. Sýningin dregur titil sinn úr því hvernig innsetningin breytist og stigmagnast með hverjum glugga, líkt og verið sé að segja frá ákveðnu ferli eða frásögn.

Versatile Uprising er fyrsta gagnvirka innsetningin sem sett hefur verið upp í Wind and Weather Gallery. Hún minnir,  á margan hátt, á þrívíðar uppstillingar sem eru tíðir þættir í bæði sögu- og náttúruminjasöfnum, en í stað þess að lýsa sögulegum atburði eða varpa ljósi á virkni tiltekins hlutar, vísar innsetningin til þess ókunnuga eða óskiljanlega. Formlausi massinn getur ýmist minnt á landslag, hraun eða sjaldgæfar, glitrandi steindir. Hann er alsettur díóðum sem gefa frá sér daufan bjarma og speglast í gljáandi yfirborðinu. Ef eyrun eru vel sperrt, heyrist í lágum drunum sem stafa frá aðal sýningarglugganum. Glugginn virkar að mörgu leyti eins og gátt inn í annan heim sem er rétt utan seilingar.

Gestir og gangandi geta haft áhrif á innsetninguna og rýmið sem liggur handan rúðunnar, með því að leggja hönd á glerið þar sem við á. Þegar það er gert verða ljósin skærari og virðast dansa á lífljómalegan máta um innsetninguna alla. Snertingin við glerið hefur einnig áhrif á hljóðið. Drunurnar dýpka og breyta um tón, því meir sem glerið titrar. Allt er þetta gert með hjálp næmra skynjara sem hafa verið forritaðir til að sýna samspil ljósanna á tilviljanakenndan hátt í hvert skipti sem þau eru virkjuð. Á þann hátt er innsetningin í stöðugri breytingu og er aldrei fullkomlega eins og hún var áður. Wind and Weather Gallery, sem hefur verið rekið af listakonunni Kathy Clarke síðan 2014, er einstakt sýningarrými vegna þess að það snýr beint út til almennings. Það þarf því ekki að ganga meðvitað inn í sýningarrýmið til að verða aðnjótandi listarinnar sem þar fer fram. Með því að horfa inn um gluggann eru gangandi vegfarendur Hverfisgötunnar umsvifalaust orðnir að áhorfendum.

Þessi vettvangur hentaði því hugmyndum Claire og Raphaël fullkomlega. Að sögn listamannana svipar gagnvirki þáttur innsetningarinnar til þess þegar farið er í dýragarð. Fólk horfir inn um gluggann sem aðskilur það frá dýrunum. Kannski bankar einhver á glerið til að sjá hvort hann fái viðbrögð; reynir eflaust að tengjast dýrinu á einn eða annan hátt, speglar sjálfið í andliti þess, fyllist hræðslu eða væntumþykju og reynir eflaust að finna til einhvers konar skilnings með dýrinu.

Innsetningunni er ætlað að vekja svipaðar tilfinningar hjá áhorfendum; barnslega forvitni í bland við tortryggni, jafn vel skliningsskort. Fólk hefur oft þá tilhneigingu að afmarka hluti, troða þeim í ákveðið form eða hugtak svo það geti öðlast betri skilning – en ef það mistekst eru þessi hlutir afskrifaðir. En með Versatile Uprising gera Claire og Raphaël vel heppnaða tilraun til að fanga fegurðina í formleysunni og í því sem nær handan lógískra skilningarvita. Heimurinn handan glersins er skáldaður heimur. Þegar aðnjótendur listaverksins snerta glerið tengjast þeir skáldheiminum og með því að mynda einstaklingsbundin áhrif á virkni hans með hjálp skynjaranna. Á sama tíma verður sá sem snertir glerið fyrir áhrifum skáldaða heimsins sem liggur fyrir innan.

Sólveig Eir Stewart

 


Síðasti sýningardagur Versatile Uprising er á þriðjudaginn, 26. febrúar í Wind and Weather Gallery. 

Aðalmynd: Claire Paugam ogRaphaël Alexandre. Allar myndirnar eru birtar með leyfi listafólksins.

Heimasíður listamannanna:

Claire Paugam: http://www.clairepaugam.com

Raphaël Alexandre: http://www.facebook.com/raphael.alexandre.art  

Listrænt Rorschach-próf í Port.

Listrænt Rorschach-próf í Port.

Listrænt Rorschach-próf í Port.

Upptaka / Unboxing er titill einkasýningar Fritz Hendriks sem var til sýnis í Gallery Port frá 2. Febrúar til 14. febrúar. Titillinn Upptaka / Unboxing nær nánast að lýsa öllum verkum sýningarinnar, sem eru 11 talsins, en í ofureinföldu máli sýnir Fritz áhorfandanum endurtekið kassa sem eru í þann mund að vera opnaðir. Þrátt fyrir takmarkaða sjónræna fjölbreytni og lítið sýningarrými þá er úr miklu að moða frá sýningu Fritz.

Við það að ganga inn í sýningarrýmið fylltist ég strax ánægju við að sjá að rýmið hafði verið endurmálað frá hvítu yfir í fremur pappakassalegan ljósbrúnan sem myndaði góða hliðstæðu við verk sýningarinnar sem eru flest drapplituð og vona ég að fleiri sýningar Gallery Port í framtíðinni geri slíkt hið sama.

(Verk talin frá hægri til vinstri) Fritz Hendrik IV, Upptaka, myndbandsverk, 6:43 mín á lengd. Yfirborð 2, Olía á striga. Kassar, 3D prent, Krossviðarhilla. Leiðarvísir 1 & 2, Olía á striga, 3D prent.

Sýningarskráin er skrifuð af Jóhannesi Dagssyni og setur hún tóninn fyrir heimspekilegu hlið sýningarinnar. Jóhannes nefnir m.a. hugmyndafræði endurtekningar, neysluhyggju samfélagsins og hlutveruleika (objective reality) málverksins sem dæmi um þemu sem Fritz tekst á við.

Fritz notar þrjá mismunandi miðla til takast á við þessi þemu sem eru málverkið, myndband og löng runa af þrívíddar prentuðum kössum. Verkin og miðlar þeirra tala sín á milli og maður finnur fyrir því þegar maður hefst við að skoða sýninguna.

Augu mín leituðu strax til myndbandsverksins sem sýnir í byrjun hendur sem leggja gráan kassa ofan á gráan flöt sem leiðir að upptöku kassans sem stendur yfir í þónokkrar mínútur. Það var áhugavert að byrja áhorfið þegar myndbandið var þegar byrjað þar sem hægra megin við skjáinn standa í enda rýmisins þrívíddar prentuðu kassarnir. Að geta fylgst með kassanum minnka á skjánum og í raunveruleikanum á sama tíma gefur verkinu frekara vægi. Ennfremur, þá eru málverkin á móti skjánum máluð í hálfgerðum trompe l’oeil stíl svo þau líta mjög raunverulega út. Þessi sniðuga heild skapar þetta áðurnefnda tal milli verkanna.

Fritz Hendrik IV, Leiðarvísir 2, Olía á striga, 3D prent.

Þegar ég horfði yfir sýningarrýmið þá leið mér eins og ég væri genginn inn í dystópískan heim þar sem öll menning hefur verið þurrkuð út. Þessi tilfinning skapaðist vegna þeirrar tengingar sem ég geri milli þeirri illsku sem fylgir neysluhyggju og pappakassa sem neysluvöru þ.e.a.s. vörusendingar frá t.d. stórfyrirtækinu Amazon. Það eru jafnframt myndrænar leiðbeiningar fyrir því hvernig eigi að opna kassana á verkunum Leiðarvísir 1 & 2 sem gefa þessum dystópíska heim hálf trúarleg markmið í anda boðorðanna tíu.

Þú skalt opna kassann aftur og aftur þar til hann verður að engu og síðan opna nýjan kassa. Það er tilgangur lífsins. Sýsifos í nýjum búningi neysluhyggjunnar.

Mér var þarnæst hugsað til auglýsingar[1] sem Baldvin Z gerði um jólin 2013 fyrir Bandalag íslenskra listamanna og var hugsuð sem stuðningur við listamannalaunin. Í auglýsingunni eru mjög svipaðir drapplitaðir kassar og í sýningunni nema í formi jólapakka. Einn jólapakki er opnaður sem inniheldur „iPad“ sem virkar ekki sökum þess að enginn smáforrit hafa verið búin til fyrir hann þar sem engin skapandi menning er til.

Ádeila Baldvins Z var sú að án menningar höfum við ekkert til að njóta og því þurfi að styrkja við þá sem skapa hana. Nú 5 árum seinna glímir menning við annarskonar vandamál, aukins hraða sjónmenningar. Aðgengi að sjónmenningu í gegnum internetið hefur aldrei verið meira og nýtt efni er skapað á sekúndu fresti og tiltækt nánast öllum aldurshópum.

Í mjög áhugaverðri grein[2] eftir James Bridle sem nefnist „Something is wrong on the internet,“ er óhugnarlegur afkimi Youtube, stærstu myndbanda gagnaveitu heimsins, skoðaður en það eru myndbönd sem beint er að börnum. Það sem Bridle skoðar fyrst er fyrirbrigði sem kallast „surprise egg videos“ sem sýna manneskju sem opnar mismunandi Kinder Egg fyrir áhorfandann. Eins og margir vita innihalda Kinder súkkulaði egg lítið leikfang úr plasti sem er óvænt fyrir þann sem opnar eggið og vegna þess er eggið eins vinsælt og það er.

Þessi myndbönd standa yfir í þónokkrar mínútur þar sem mörg egg eru opnuð til þess að svipta hulunni af innihaldi þeirra og eru þau til í þúsunda tali og hafa milljónir áhorfenda. Þetta er í raun ekki afkimi heldur spegilmynd af stöðu samtímans þar sem internetið er orðið staðgengill raunveruleikans fyrir marga þar sem hægt að sjá nánast hvaða hlut sem manni dettur í hug á internetinu.

Myndbandsverk Fritz inniheldur nákvæmlega sömu fagurfræði og sjá má í áðurnefndum Youtube myndböndum nema kassinn inniheldur ekkert óvænt heldur er einungis endurtekning af sjálfum sér.

Fritz Hendrik IV, Upptaka, myndbandsverk, 6:43 mín á lengd.

Að sjá kassana fyrir framan sig er því sterk áminning á tækninni sem við búum yfir í dag. Þrívíddar prentun er orðin algeng í listheimi nútímans og fullkomnun þeirrar tækni skín í sýningunni. Það er afar hnyttið og viðeigandi að sjá þessa tækni vera notaða í sýningu sem hæðist að neysluhyggju samtímans.

Fritz Hendrik IV, Kassar, 3D prent, Krossviðarhilla.

Upptaka / Unboxing er mjög persónubundin sýning sem er það sem heillar mig við hana. Skrifin hér eru einungis út frá þeim hugsunum sem komu upp á sýningunni sjálfri en ég ímynda mér að persónulegar upplifanir áhorfandans spili stórt hlutverk í mati á sýningunni. Mér leið því eins og ég væri að taka einhverskonar listrænt Rorschach-próf við að skoða sýninguna þar sem verkin ýttu undir einstaklingsmat og ímyndunarafl.

Nú á dögunum var Fritz tilnefndur til Hvatningarverðlauna ársins hjá Íslensku myndlistarverðlaununum fyrir sýninguna Draumareglan sem var sýnd í Kling og Bang. Það verður því spennandi að fylgjast með honum í framtíðinni.

 

Steinn Helgi Magnússon


Myndir: Fritz Hendrik IV

[1] https://www.youtube.com/watch?v=CJh_U6Wx2Ms

[2] https://medium.com/@jamesbridle/something-is-wrong-on-the-internet-c39c471271d2

Úthugsuð merkingarleysa

Úthugsuð merkingarleysa

Úthugsuð merkingarleysa

Það var með mikilli eftirvæntingu að ég steig inn í gallerí i8 á dögunum til að berja nýjustu afurð Ragnars Kjartanssonar augum. Verk sem unnið er fyrir nýbyggingu Kaupmannahafnarháskóla, Maersk turninn, sem hýsir heilbrigðisvísindasvið skólans. Verkið nefnist Fígúrur í landslagi, eins konar óður til klassíska málverksins. Við fyrstu sýn virðist verkið einmitt vera lifandi málverk og vegna skorts á líkingu sem hefur jafn breiða skírskotun: líkt og málverk úr sögunum um galdrastrákinn Harry Potter.

Líkingin er þó heldur ódýr þar sem verkið spannar í heild 168 klukkustundir sem kann að þykja handahófskennd tala en er í raun slétt vika. Ég vil eyða sem fæstum orðum í lýsingu á verkinu, en í skólanum er það sýnt á skjá í anddyri byggingarinnar, í lyftum sem og í skjávörpum í skólastofum þegar þeir eru ekki í notkun vegna kennslu. Verkið endurtekur sig því með vikumillibili. Það sem fyrir augu ber eru einfaldlega fígúrur í læknasloppum sem settar eru inn í leikmynd í formi landslags, rómantísk leiktjöld og leikmunir í formi grjóts og blóma. Hver dagur hefur þannig sína leikmynd og þegar nýr dagur hefst á miðnætti hefst nýr dagur í nýju landslagi innan verksins.

RAGNAR KJARTANSSON
Fígúrur í landslagi (fimmtudagur), 2018

vídeó, 24 klst.
Verkið Fígúrur í landslagi var gert að undirlagi Mannvirkja- og eignasviðs danska ríkisins fyrir heilbrigðissvið Kaupmannahafnarháskóla.
Birt með leyfi listamannsins, Luhring Augustine, New York & i8 gallerís, Reykavík.

Fyrir þá sem hafa kynnt sér verk Ragnars minna Fígúrur í landslagi um margt á eldri verk frá ferli listamannsins. Helst eru það rómantísku leiktjöldin sem maður kannast við úr eldri verkum, t.a.m. minnir Miðvikudagur um mjög á verkið Heimsljós – líf og dauði listamanns, en gestir yfirlitssýningar Ragnars sem haldin var í Hafnarhúsi árið 2017 ættu að vera því verki góðu kunnir. Skali þessa tveggja verka er auk þess óneitanlega sambærilegur. Það er að minnsta kosti á færi fárra að komast í gegnum þessi tvö verk í heild sinni. En það leiðir svo aftur að spurningunni um hvort maður þurfi í raun og veru að innbyrða hverja einustu sekúndu verks á borð við Fígúrur í landslagi. Nær maður til dæmis einhvern tímann að fullskoða málverk?

Uppsetning verksins í sýningarsal i8 er með ögn öðru sniði. Í rýminu eru sjö skjáir svo hver vikudagur fær þannig sinn eigin skjá og rúllar því hver dagur við hlið þess næsta samtímis. Í glugga gallerísins er svo áttunda verkinu varpað, hinu viku langa heildarverki, jafnt dag sem nótt. Með því að sýna hvern dag fyrir sig á sínum eigin skjá verður til hálfgert kraðak í annars stílhreinum sýningarsalnum. Þetta þýða verk með sína hægu framvindu verður því að hálfgerðu áreiti, enda eru augun þannig innréttuð að við leitumst við að elta uppi hreyfingar og maður kemst þar af leiðandi ekki hjá því að hlaupa með augunum frá einum skjás til annars. Svo því sé annars haldið til haga þá eru þetta átta verk í heildina. Hver dagur er eitt verk og heildin er hið áttunda.


RAGNAR KJARTANSSON
Fígúrur í landslagi (miðvikudagur), (fimmtudagur) og (föstudagur), 2018

vídeó, 24 klst.
Verkið Fígúrur í landslagi var gert að undirlagi Mannvirkja- og eignasviðs danska ríkisins fyrir heilbrigðissvið Kaupmannahafnarháskóla.
Birt með leyfi listamannsins, Luhring Augustine, New York & i8 gallerís, Reykavík.

Eins og áður hefur komið fram er verkið t.a.m. sýnt sem skjávari (e. screensaver) í skólastofum sem og í lyftum skólabyggingarinnar. Fyrirbærin skjávarar og lyftutónlist eru án efa einhverjar þekktustu birtingarmyndir klisja. Ég vil síst af öllu ýja að því að verk Ragnars séu orðin að klisju, en er það ekki einmitt samnefnari listaverka sem standa upp úr í listasögunni að þau hafa verið gerð að klisjum með aðstoð varnings sem hægt er að kaupa í safnbúðum, hvort sem það sé í formi lyklakippa, póstkorta, ísskápssegla eða strandhandklæða?

Það sem kannski skilur Fígúrur í landslagi frá klisjunni er sú staðreynd að verkið staðnar ekki. Það er jú lifandi málverk. Það er nánast lögmál að alltaf mun eitthvað verða eftir fyrir nemendur Kaupmannahafnarháskóla að sjá. Vissulega munu nemendur ekki geta varist því að sjá suma búta aftur og aftur, viku eftir viku. Verkið hefur enda virkni álíka klukku sem bókstaflega fylgir stundatöflu nemenda.

En hvað er listamaðurinn að segja okkur? Listfræðingar, jafnt sem listfræðinemar, verða sífellt fyrir barðinu á spurningum er varða merkingu hinna ýmissa listaverka. Það er jú vel þekkt að listamenn komi einhverjum skilaboðum áleiðis í verkum sínum, að verk séu merkingarþrungin, að í þeim megi finna gagnrýni á núverandi stjórnkerfi eða pólitíkusa, áminning um eyðileggingu náttúrunnar eða heróp femínískra listamanna gegn feðraveldinu, svo dæmi séu tekin. Sjálfur þykist Ragnar eiginlega ekkert vita hvert hann sé að fara með þessu verki svo vitnað sé í nýlegt útvarpsviðtal við hann í Víðsjá Ríkisútvarpsins.[1]

Það er ekkert nýtt að Ragnar láti sig merkingu listaverka sinna litlu varða. Í sýningarskrá sem gefin var út samhliða sýningu hans, The End, á Feneyjartvíæringnum 2009 birtust tölvupóstsamskipti Ragnars og Andjeas Ejiksson. Þar kemst Ragnar m.a. svo að orði: „Ég umfaðma merkingarleysi verka minna vegna þess að ég held að í því felist kjarni sannleika míns.“[2]

Það er staðföst skoðun mín að almenn hylli verka Ragnars megi að einhverju leyti rekja til þessa meinta merkingarleysis. Það gerir áhorfendanum kleift að nálgast verkin án þess að vera þjakaður þeirri pressu að þurfa að ráða í merkingu verksins. Ekki nóg með það að áhorfandinn getur notið verksins án þess að skilja það, þá tel ég að með því að leysa áhorfendann undan viðjum pressunnar til að finna merkingu verksins verður merkingarleysið að einskonar efnahvata. Með öðrum orðum, hugmyndaflug áhorfandans nýtur góðs af því að þurfa ekki að glíma við að ráða í dulmálið.

RAGNAR KJARTANSSON
Fígúrur í landslagi (sunnudagur), 2018

vídeó, 24 klst.
Verkið Fígúrur í landslagi var gert að undirlagi Mannvirkja- og eignasviðs danska ríkisins fyrir heilbrigðissvið Kaupmannahafnarháskóla.
Birt með leyfi listamannsins, Luhring Augustine, New York & i8 gallerís, Reykavík.

Þannig tekst Ragnari meðvitað eða ómeðvitað í sífellu að tala inn í samtímann í verkum sínum. Fólk fær að sjá, eða öllu heldur hugsa það sem það vill. Þannig getur verkið Fígúrur í landslagi til dæmis auðveldlega orðið áminning um þá miklu vá sem steðjar að náttúrunni. Ekki það að okkur birtist einhver heimsendaspá í verkinu. Læknarnir sem eigra um rómantískt landslagið gera það einkar hversdagslega. Þeir eru hvorki á þönum við að bjarga því né heldur virka þeir á nokkurn hátt líkt og vísindamenn sem að eru að krukka í því, að beisla það, mannkyninu til hagsbóta og náttúrunni til óbóta. Læknarnir einfaldlega eru. Hvort sem landslagið er grýtt strönd, frumskógur, snævi þakið fjalllendi, eða eyðimörk þá þurfa fígúrurnar ekkert að aðlagast, hvert landslag út af fyrir sig virkar eins og þeirra náttúrlega umhverfi (e. habitat).

RAGNAR KJARTANSSON
Fígúrur í landslagi (laugardagur) og (sunnudagur), 2018

vídeó, 24 klst.
Verkið Fígúrur í landslagi var gert að undirlagi Mannvirkja- og eignasviðs danska ríkisins fyrir heilbrigðissvið Kaupmannahafnarháskóla.
Birt með leyfi listamannsins, Luhring Augustine, New York & i8 gallerís, Reykavík.

Fyrir einhverja kosmíska tilviljun hefur það líka gerst að hér er sett upp sýning á verki sem pantað var af opinberri stofnun í Kaupmannahöfn á sama tíma og hér á Íslandi á sér stað frumskógarheit umræða um opinber listaverk. Mér þykir leitt að þurfa að draga pálmatrén í fyrirhugaðri Vogabyggð enn og aftur inn í umræðuna, en mér finnst þessi kaldhæðni alheimsins svo ótrúleg og þar að auki rímar hún líka þægilega við stóran hluta ferils Ragnars. Á sama tíma og fréttir eru fluttar af tómum Listskreytingasjóði, hvers allt fjármagn fer í að halda innantóma kaffifundi til þess eins að komast að þeirri niðurstöðu að hafna þurfu öllum umsóknum til sjóðsins vegna fjárskorts[3], þá getum við að minnsta kosti gengið að þessu tímamótaverki Ragnars um stundar sakir, þökk sé frændum okkar, Dönum.

Grétar Þór Sigurðsson


[1] http://www.ruv.is/frett/hviti-sloppurinn-er-geggjad-takn

[2] The End, Ragnar Kjartansson (2009)

[3] http://www.ruv.is/frett/styrktarsjodur-sem-getur-ekki-veitt-styrki

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest