27. maí – 21. ágúst 2016

Ummerki vatns er samsýning sex listamanna sem öll eiga það sameiginlegt að styðjast við ummerki vatns í verkum sínum þar sem litur, vatn og uppgufun þess er meðal annars til umfjöllunar. Listamennirnir finna sköpun sinni farveg í einhverskonar flæði og nota til þess ólíka miðla.

Listamennirnir sem eiga verk á sýningunni eru þau Anna Rún Tryggvadóttir, Florence Lam, Harpa Árnadóttir, Hulda Stefánsdóttir, John Zurier og Margrét H. Blöndal. Sýningarstjórar eru Ágústa Kristófersdóttir, forstöðumaður Hafnarborgar og Birgir Snæbjörn Birgisson, myndlistarmaður.

Anna Rún Tryggvadóttir (f. 1980) útskrifaðist úr myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2004 og lauk mastersnámi við Concordia háskólann í Montreal árið 2014. Innsetningar hennar eru oft og tíðum helgaðar kerfum sem stuðla að hreyfingu og umbreytingu ólíkra efna.

Florence Lam (f.1992) fæddist í Vancouver í Kanada en ólst upp í Hong Kong. Árið 2014 lauk hún BA gráðu í myndlist frá Central Sait Martins Collage of Art & Design og stundar nú meistaranám við Listaháskóla Íslands. Í verkum sínum tekur hún sér stöðu stjórnanda þegar á sama tíma hún hefur enga stjórn á efninu sem hún vinnur með og dregur þannig fram grunneiginleika efnisins.

Harpa Árnadóttir (f.1965) lagði stund á myndlist við Myndlista- og handíðaskólann og síðan framhaldsnám við Konsthogskolan Valand í Gautaborg. Verk Hörpu fela í sér tilraunakennda rannsókn á yfirborði og gegnsæi en grunnur margra verka hennar er hugmyndin um að líta megi á málverk sem sjónræna ljóðlist.

Hulda Stefánsdóttir (f. 1972) lærði myndlist á Íslandi og í New York. Myndlistarferill hennar spannar um tvo áratugi, auk þess sem hún hefur kennt og gengt stöðu prófessors við Listaháskóla Íslands. Verk Huldu virðast í fyrstu sýn vera einföld þannig að áferð yfirborðsins verður ekki aðeins að bakgrunni heldur líka að áberandi aðalatriði málverksins.

John Zurier (f. 1956) býr og starfar í Californíu.  Hann málar óhlutbundin, næstum einlit málverk sem fanga eiginleika ljóss og veðurs minninga hans um einstaka staði og tíma.  John hefur heimsótt Ísland töluvert á undanförnum árum þar sem Íslensk náttúra og birta hefur verið honum innblástursefni.

Margrét H. Blöndal (f.1970) lauk námi frá fjöltæknideild Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1993 og meistaraprófi í skúlptúr frá Rutgers háskólanum í New Jersey. Vatnslitaverk Margrétar bera keim af því viðkvæmislega jafnvægi sem hún leitar milli hluta og rýmis.

Dagskrá:

Sunnudagur 29. maí kl. 14 – Sýningarstjóraspjall
Sunnudagur 29. maí kl 15 – Gjörningur Florence Lam – ef veður leyfir.


Nánari upplýsingar á www.hafnarborg.is og hjá:
Áslaugu Írisi Friðjónsdóttur, upplýsingafulltrúi Hafnarborgar, s. 585 5790
og Ágústu Kristófersdóttur, forstöðumaður Hafnarborgar og sýningarstjóri, s. 585 5790
UA-76827897-1

Pin It on Pinterest

Share This