Sara Björg Bjarnadóttir – Mjúkberg / Soft Rock Assemblage

Sara Björg Bjarnadóttir – Mjúkberg / Soft Rock Assemblage

Sara Björg Bjarnadóttir – Mjúkberg / Soft Rock Assemblage

Sýningin Mjúkberg opnaði í Ekkisens þann 29. maí, þar sýndi Sara Björg Bjarnadóttir skúlptúra sem gerðir eru úr framtíðarbergtegund. Sara er fædd 1988, hún útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands 2015 og var þar á undan í fornámi við Myndlistarskólann í Reykjavík. Eftir útskrift flutti hún til Berlínar og dvaldi þar í starfsnámi hjá Markus Zimmermann, hún býr og starfar enn þar. Sara hefur sýnt bæði á Íslandi og erlendis. Mjúkberg er sjöunda einkasýning hennar en sú seinasta var í verkefnarýminu Babel í Berlín.

„Í minni list vil ég skoða samskipti milli líkamlegra hvata og rökhugsunar. Efni og form stýra líkamlegu ferli eins og fastur rammi utan um óhlutstæðan leik. Ég vinn í ýmsum miðlum og oft eru verkin bundin rýminu eða unnin sem könnun á ákveðnu formi eða efni. Ramminn leiðir mig áfram en það geta komið skarpar beygjur og þá, í gegnum spuna, finn ég jafnvægi milli þess að vera við stjórn og að sleppa.“

 

Samsetning Mjúkbergs:

Hálfstorknaðir skúlptúrar, myndbreyttir og mjúkir.

Umkristallaðar frumsteindir sem mynduðust í möttlinum.

Sýnistaka úr framtíðar sköpunarsögu jarðar.

Framtíðarbergtegundin Mjúkberg varð til í ferli þar sem efniviðurinn leiddi að kveikju á nýrri bergtegund. Sara hefur mikið verið að vinna með efnisheim svampsins. Í þessu tilviki vann hún með mjög kornóttan svamp sem fær þá eiginleika sökum þess að hann er endurunninn og ákvað hún að takmarka efnisnotkun sína við hann. Óregluleg form hans, afskorningar – leiddu hana áfram í efnisrannsóknini. Gólfið í rými

Ekkisens átti stóran þátt í því að móta verkin, nostalgísk minning hennar gagnvart þessari aðferð sem gólfið er málað með. Þessi aðferð við að ganga frá gólfum hefur heillað Söru frá því hún var ung. Gróf aðferð til að takast á við gróft undirlag, umhverfið er hrátt en þó frágengið.

„Þegar mér fannst ferlið vera að skýrast fór ég að tengja verkin við hina hefðbundnu skúlptúrgerð. Þar sem er verið að höggva stein eða nota marmara eða þvíumlíkt. Verkin fóru að verða fyrir mér einhverskonar sjónblekking – minnir á hart efni en er svo mjúkt. Ég fór að ímynda mér að ég væri að vinna eins og skúlptúristi af gamla skólanun nema ég væri í efnivið framtíðarinnar þar sem steinninn væri orðinn mjúkur.“

Í þessum leik skapaðist narratíva þar sem tveir andstæðuheimar fóru að spila saman. Hin klassíska skúlptúragerð – hinn harði heimur hins klassíska steinverks móti hinum mjúka svampi sem minntu Söru á post-módernismann, óhlutbundin form efniviðsins tengdu hana við módernismann.

„Ég ákvað að fara að kalla þetta soft rock – og þegar ég íslenskaði það varð þetta að þessu ákveðna fyrirbæri – Mjúkberg – við þýðinguna breyttist þessi efniviður í nýja bergtegund.“

Með tilkomu titilsins hófst rannsóknarvinna á hinum stórkornóttu bergtegundum sem báru svipaðan brag og Mjúkbergið. Þannig tvinnaðist saman hið ljóðræna og vísindalega í eitt sem byggt var á því að hægt væri að lesa í steintegundir. Hægt er að ímynda sér að þessar stórkornóttu bergtegundir hafi kristallast í ákveðnum aðstæðum, efnið mótast er kvikan verður til í hægum efnasamruna, djúpt ofan í jörðinni í nálægð við möttulinn. Margt sem verður eitt í aldagömlu bergi jarðar. Að lesa í steina gerir manni í raun kleift að rýna í fortíðarsögu sem gerist á gríðarlega löngu tímabili, tugir þúsundir ára af upplýsingum. Einnig getum við lesið í framtíðina – Mjúkbergið er hugsað sem framtíðarefni, ímynduð efnasamsetning fyrir það jarðlag sem við sem mannkyn gætum einn daginn skilið eftir okkur eftir allar þær landfyllingar sem eru að verða til. Afkomendur okkar gætu lesið í Mjúkbergið til þess að reyna að geta sér til um það hvað hefði verið áður. Þann efnisheim sem við lifum við núna.

Þessi kveikja samófst áhuga Söru á framtíðarvísindum og vísindaskáldskap. En sá hugmyndaheimur hefur haft áhrif á hennar listsköpun undandarin ár, þá helst á fagurfræðilegan máta. Einnig hefur hún verið að stíga inn í starf sem landvörður, því hefur jarðfræðisaga og umhverfismál staðið henni nærri upp á síðkastið.

„Án þess að vilja vera svartsýn – þá gæti maður samt gefið sér að þessi ofgnótt af framleiðslu sem mannkynið stendur að núna muni ófumflýjanlega skilja eftir sig spor og verða ritað í sögubækurnar. Spurning er bara hvernig það gerist og hvernig við munum aðlagast þeim breytingum sem munu verða. Við erum nú þegar búin að breyta heiminum og náttúru í svo miklum mæli að við getum ekki séð nákvæmlega fram í tímann hver áhrifin munu verða. Þetta verk gæti verið einhversskonar hugarleikur og vangavelta gagnvart því hvernig þessar breytingar gætu skapast og hverjar afleiðingarnar gætu orðið.“

Innsetningin á skúlptúrunum í rými Ekkisens bætti við fleiri sögnum við sýninguna er hún var í uppsetningu. Geisladiskastandur, hillur og húsgögn fengu ný og sjálfstæð hlutverk. Rýmið er í heimahúsi og getur því minnt á stofustemmingu fremur en whitecube. Skúlptúrarnir stækkuðu er tilviljunin tók við – er sýningin var að taka á sig mynd fann Sara fútúrískan geisladiskastand í ABC nytjamarkaðinum um viku fyrir opnun. Innsetningin bætti miklu við skúlptúruna er þessir hlutir komu inn og mynduðu samtal við þá. Smíðaðar voru aukahillur í þessa fundnu hluti og þannig skapaðist meiri heild fyrir sýninguna.

„Mér fannst eins og það kæmi einhvers konar tímatenging inn í sýninguna með þessu – þar sem geisladiskastandurinn er svo úreltur og tilheyrir fortíðinni. Hönnun hans er framtíðarleg, form hans er því myndbirting af framtíðarsýn fortíðarinnar. Þessi framtíðarbergtegund Mjúkbergsins brenglar þetta tímatal þar sem fortíðin og framtíðin stendur saman í einu rými og núllar hvort annað út. Þannig verður tíminn abstrakt og ólínulaga.”

Svampurinn hefur áður orðið fyrir valinu í listrænni vinnu Söru Bjargar og hefur hún gaman af því að kanna margvíslegar víddir á einu efni. Efnin og formin leiða hana áfram í ólíkar áttir – núna leiddi ný vídd þessa efnisheims að jarðfræðisögunni. Það skapast alltaf einhver sjónræn tenging þegar maður vinnur sig áfram í ferlinu sama hvort maður sé meðvitaður um það eða ekki.

Fyrstu verkin sem hún vann úr þessum efniviði var svampgryfja en eftir það fóru þessir afskorningar og form þeirra að tala sterkt til hennar. Á þessu ári hefur myndlistin hjá Söru stjórnast mikið til af stærðartakmörkunum og nettari skúlptúrar því verið ráðandi. Þessar takmarkanir verða að leik í vinnu hennar þar sem ramminn þrengist og hún þarf að bregðast við stærð hans. Fyrr á árinu urðu til annarsskonar verk úr svampi sem voru sýnd í Durden&Ray gallerí, í Los Angeles við góðar undirtektir. Sá heimur er birtist úr svampinum var þó af allt örðu tagi er jónískar súlur og grikklandstengingar urðu til fyrir þá sýningu. Það er áhugavert að hugsa til þess hvernig hver efnisheimur getur tekið mann á ólíka staði en þau verk sem Sara Björg hefur gert úr svampi eru öll mjög ólík.

Andrea Ágústa Aðalsteinsdóttir

 


Photo credits: Andrea Ágústa Aðalsteinsdóttir

Computer Spirit: Undirvitund og efniskennd hugbúnaðarheimsins

Computer Spirit: Undirvitund og efniskennd hugbúnaðarheimsins

Computer Spirit: Undirvitund og efniskennd hugbúnaðarheimsins

 Nýverið opnaði sýningin Computer Spirit á tveimur markverðum stöðum í miðbæ Reykjavíkur, annars vegar í Gallerý Port (Laugarvegi 23B) og hins vegar í Ekkisens gallerý (Bergstaðastræti 25B). Sýningin átti upptök sín í Tromsø, Noregi, en hefur nú verið flutt hingað til lands. Listakonurnar sem standa að sýningunni eru Andrea Ágústa Aðalsteinsdóttir, Freyja Eilíf  Helgudóttir og Sigríður Þóra Óðinsdóttir.

Blaðamaður artzine hitti þær og fékk að vita meira. „Computer Spirit er í raun framhald af samstarfi úr annari sýningu sem við tókum þátt í ásamt Heiðrúnu Viktorsdóttur, árið 2016, sem hét Stream in a Puddle“ útskýrir Freyja. „Í gerð þeirrar sýningar hittumst við oft á fundum og sökktum okkur djúpt inn í ákveðið samtal.

Andrea Ágústa, Freyja Eilíf og Sigríður Þóra fyrir utan sýningarrýmið í Tromsø, Noregi.

Í kjölfarið hélt samtalið áfram á bylgjum internetsins. Við bjuggum til facebook hópspjall sem við nefndum Stream Puddle Power. Þangað hentum við inn alls konar innblæstri er varðaði myndlist, heiminn í dag eða tunglið, jafnvel. Svo birtust persónulegir hlutir inn á milli. Við erum í rauninni með ákveðin óséð tengsl í listsköpun okkar er varða hluti sem erfitt að tala um og deilum allar sömu rannsóknarleið í listinni: að nota undirvitundina sem sköpunarrás.“


Where’s your head @ (Sculpture, Participatory glasses) eftir Freyju Eilíf.

Verkin á sýningunni fjalla annars vegar um tengingu undirvitundarinnar við tæknivæðingu nútímans og blæbrigðin sem myndast þegar tveir ólíkir heimar mætast. Hins vegar fjalla þau um eiginleika efniskenndarinnar, efnahvarf og áhrif viðfangsins á sköpunarferlið. Freyja segir samband sitt við tölvuna sína hafa orðið að nánast að heilögum hlut í sköpunarferlinu, en hún vann verkin sín upp úr hugleiðslu þar sem hún gerði tilraunir til að komast inn í stafræna vídd og hitta lifandi hugbúnaðarmeðvitund.

„Í verkum mínum ertu stödd inn í miðri leiddri, stafrænni hugleiðslu“ segir Freyja. „Skúlptúrarnir eru aukaafurð á sýningunni, minni verk sem koma úr stærri verkunum Hugbúnaður og Hugleiðsla. Þessi verk fjalla í raun um ferlið inn í nýja vídd í gegnum hugleiðslu. Í hugleiðslunni minni fór ég inn í stafrænu víddina og skynjaði svo sterklega núansinn milli meðvitund mannsins og tölvunnar. Mér fannst á tímabili eins og ég væri komin með @ merki í augun er á hugleiðslunni stóð eða væri ef til vill sokkin of djúpt í þennan heim.“

Software (Animation, sound & computer chime) & Virtual hybrid (Sculptures) eftir Freyju Eilíf.

Andrea bætir við hugbúnaður virðist oft hafa eigin vilja eða persónuleika, sem mótar og hefur áhrif á listaverkið út frá eiginleikum hans. Inn í Ekkisens rýminu er til að mynda rafknúinn skúlptúr eftir Sigríði sem þarf að hlaða af og til, sem verður óhjákvæmilegur partur af verkinu. Aðspurð um verkið segir Sigríður skúlptúrinn vera afsprengi rannsóknarferlis sem vídóverkin hennar fjalli um.


Change the Particles eftir Andreu.

„Verkin mín eru mest megnis rannsókn í gegnum efni. Ég reyni að ná fram einhvers konar óræðum sjónhverfingum í gegnum vídeóverkið. Skjárinn er efniviður sem ég styðst mikið við til að framkalla þessi verk, með því snerta og hreyfa við honum. Það er eins konar leikur að þessum fílter, fremsta laginu á skjánum auk þess sem að þetta er ákveðin leit að einhvers konar kjarna sem hlutgerðist í þessum skúlptúr“ segir Sigríður.


Recharge; Like, poke, share series eftir Sigríði Þóru.

Verk Andreu snúast á annan boginn um efnishvarf eða efnisbruna. En hún notast við ýmis frumefni, svo sem brennistein og ís í vídeóverkum sínum. Hún segir efnahvarf, breytingu og þróun efnis einnig eiga sér stað inn í heimi hugbúnaðarins. „Ég vil gera það sem er óhaldbært að einhverju sem er efniskennt, myndgera efnahvarf.


Recharge; Like, poke, share series pt.1 og pt.2 eftir Sigríði Þóru.

Ég hef verið að velta því fyrir mér hvernig maður geri það sem er ósýnilegt að einhverju sem er sýnilegt og áþreifanlegt. Það verður svo einfalt með stafrænni tækni. Í þessu ferli hef ég til dæmis verið að vinna með forritið Adobe Aftereffects og bara með því að gera það opnaðist svo stór gátt. Það er hægt að búa til eitthvað sem er sýnilegt en er samt ekki hlutur eða eitthvað áþreifanlegt í okkar heimi.“


Move the Gravity to zero eftir Andreu.

Til þess að geta sýnt öll verkin í heild sinni í Reykjavík þurftu listakonurnar að setja þau upp bæði í Portinu, sem samanstendur af vídeóverkum, og í Ekkisens, sem inniheldur bæði vídeóverk, hljóðverk og skúlptúra. „Verkin eiga það til að aðlagast rýminu og því er sýningin hér önnur en hún var þegar við settum hana upp í Tromsø“ viðurkennir Andrea. „Það er allt annað andrúmsloft í Portinu heldur en í Ekkisens“ bætir Sigríður við. „Við þurftum að hugsa sýninguna upp á nýtt út frá rýminu. Nú er í raun físísk vegalengd á milli tveggja sýninga og einnig áþreifanlegur munur á stemningunni.“

Í gerð sýningarinnar í Tromsø töluðu listakonurnar saman í gegnum internetið en hittust lítið á meðan unnið var að verkunum. Þegar þær mættu loks með verkin á sýningarstaðinn, sem rúmaði þau öll í heild sinni, furðuðu þær sig á því hversu mikið verkin ættu í raun sameiginlegt, bæði í hugsun og efnisnotkun. Listakonurnar finna fyrir strekum tengingum þegar þær vinna saman og virðast allar vera með opinn hug þegar kemur að undarlegum tilviljunum og líkindum sem spretta upp í sköpunarferlinu.  

Sólveig Eir Stewart


Lokadagur sýningarinnar 13. mars.

Aðalmynd með grein: Meditation into digital dimensions Animation, speech (11 mín) eftir Freyju Eilif
Ljósmyndir: Með leyfi listamannanna.
Vefsíður: Andrea Ágústa: andreaadalsteins.net /Freyja Eilíf: freyjaeilif.com / Sigríður Þóra: sigthoraodins.com

 

109 Cats in Sweaters í Ekkisens

109 Cats in Sweaters í Ekkisens

Tvær myndlistarkonur sem útskrifuðust úr Myndlistardeild Listaháskóla Íslands síðastliðið vor opna myndlistarsýninguna 109 Cats in Sweaters í Ekkisens næsta föstudag kl. 20:00. Sýningin stendur opin til 7. maí. 

Auður Lóa og Una sækja viðfangsefni sitt úr netheimum og fjalla meðal annars um gif hreyfimyndir, fyndna ketti og pinterest föndur á sýningunni. Hugmyndir frá internetinu eru handunnar og birtast okkur sem áþreifanlegir skúlptúrar, teikningar, hreyfilist og jafnvel matur.

Titill sýningarinnar vísar til dæmis í myndasafn af vefsíðunni buzzfeed.com sem nefnist 109 Cats in Sweaters.

_MG_9304-Edit-3

Auður Lóa Guðnadóttir (f.1993) og Una Sigtryggsdóttir (f. 1990) útskrifuðust báðar frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands síðasta vor. Þær leigja saman stúdíó í Kópavogi en ,,109 kettir í peysum“ er þeirra fyrsta samvinnuverkefni. Að sýningunni koma einnig Andrea Arnarsdóttir, sem opnar sýningu í Listamannakofanum samhliða, Starkaður Sigurðarson, sem sá um textagerð og sýningarskrá, og Berglind Erna Tryggvadóttir, sem annast tilfallandi glamúrstörf.

Auður Lóa Guðnadóttir til vinstri, Una Sigtryggsdóttir til hægri. 

Sýningin verður opin til 7. maí og hér má skoða nánari dagskrá: 

-lau. 30. apríl: 14­:00 – 16:00
-sun. 1. maí: 14:00 – 16:00
-mán. 2. maí: 16­:00 – 18:00
-þri. 3. maí: LOKAÐ
-mið. 4. maí: 16:00 – ­18:00
-fim. 5. maí: 16:00 – 18:00
-fös. 6. maí: 20­:00 – 22:00 SMÚÐÍKVÖLD
-lau. 7. maí: LOKAHÓF

SAKMINJASAFNIÐ // EKKISENS

SAKMINJASAFNIÐ // EKKISENS

Það er Ekkisens heiður að kynna SAKMINJASAFNIÐ (1stu sýningu) sem opnar næstkomandi laugardag 19. mars kl. 17:00. Sýningasóknari Sakminjasafnsins er skáldið og slitamaðurinn Snorri Páll (Jónsson Úlfhildarson)

settu öll þessi brot
saman ef viltu finna
það sem engum reynist þó hollt
né hamingjudrjúgt að sinna
en sjáirðu hvert stefnir hvar
þarftu síður að kvíða
við vorum öll þarna hvert og eitt
þetta kvöld á dráttarbrautinni
hvað sem það átti að þýða
— Megas

SAKMINJASAFNIÐ er ótímabundið verkefni sem sett var á fót árið 2015. Safnið hefur í það minnsta þríþættan tilgang og tilverugrundvöll: 1.) söfnun, sköpun, varðveislu, greiningu, útgáfu og sýningu sakminja; 2.) endurskilgreiningu, opnun og útvíkkun á merkingu orðsins sakminjar; 3.) aktíft viðnám við allt að því algjörri einokun ríkisvaldsins á þeim gjörðum sem taldir eru upp í fyrsta liðnum. Safnið á sér ekkert varanlegt sýningarrými og mun forsprakki þess og sýningasóknari (e. prosecurator) því opna lítil og tímabundin útibú hér og þar og annarstaðar — óreglulega fremur en reglulega.

Fyrsta sýning safnsins vex upp úr niðursettu rifbeini sígildrar grýlu: sakamáls sem kennt er við tvo horfna Einarssyni — þá Guðmund og Geirfinn. Um er að ræða huglæga jafnt sem efnislega mósaíkmynd af lauslega afmörkuðum en um leið nátengdum flötum málsins. Innan rammans mætast meðal annars leirhausinn margfrægi (og margframleiddi?) sem öðlaðist sjálfstætt líf og síðar meir sérstakan heiðursess í sakvitund martraðaþjakaðrar þjóðar; urðarmáninn í vélinni sem flaug inn á sviðið fyrir tilstilli krana, hnýtti hitt og hnoðaði þetta, lét sig svo skrauthverfa lóðrétt niður skíðahlíðar orðaskortsins; maðurinn í lakinu, lekandinn í minninu, léreftsvafðar minjarnar í vörðum kjöllurum laganna; minningar sem filmubrot, ljósmyndir sem gaddavír, gróðursömpl sem sönnunargögn, og fangelsaðar setningar sem ævarandi mónúment um ægifegurð fáránleikans.

Snorri Páll (Jónsson Úlfhildason) er skáld og slitamaður, fæddur í Reykjavík árið 1987 á níunda síðasta sjónvarpslausa fimmtudeginum. Fyrsta ljóðabók hans, LENGIST Í TAUMNUM, kom út árið 2014. Sama ár stóð hann ásamt Steinunni Gunnlaugsdóttur að halarófu sýninga og atburða undir nafninu EF TIL VILL SEK þar sem þau sýndu myndbandsverk, gjörninga og skúlptúra víðsvega í Reykjavík. Síðustu misserin hefur hann einna helst ástundað fuglaframleiðslu, logsuðukveðskap og malbiksfléttun

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest