Línuleg óreiða í landslagi öræfanna – viðtal við Jakob Veigar Sigurðsson

Línuleg óreiða í landslagi öræfanna – viðtal við Jakob Veigar Sigurðsson

Jakob Veigar

Línuleg óreiða í landslagi öræfanna – viðtal við Jakob Veigar Sigurðsson

Það er annar grár sumardagur í Reykjavík þegar ég hjóla upp Hverfisgötuna til þess að hitta Jakob Veigar í Portfolio Gallerí. Verkin njóta sín sem litasprengjur er minna einna helst á óreiðukenndan jazz, sem skapar alla sína eigin hrynjanda og strúktúra. Lífrænan í verkunum er jafn stjórnlaus og náttúran, hrá enn í senn svo malerísk og endalaus. Jakob hefur náð langt í málverkinu eftir að hann var kallaður aftur til Vínar á örlagakenndan hátt og ögrar nú sjálfum sér í sífellu á meðan hann fæst við nýja skala og miðla. Það var lag Billy Joel – Vienna sem kallaði hann aftur út fyrir um sex árum, og hafa allar götur leitt hann aftur til málverksins síðan þá. Hann var nýkominn heim úr skiptinámi í Vín og hafði verið lofaður af sínum prófessor og hvattur til að koma aftur þangað. Undir stýri, við þunga þanka og vangaveltur um hvort hann ætti að halda aftur til Vínar kom lag sem svar við hans hugsunum í útvarpinu. “But you know that when the truth is told, that you can get what you want. Or you can just get old. You’re gonna kick off before you even get halfway through. Oooh, when will you realize, Vienna waits for you?”

Jakob Veigar er byggingatæknifræðingur að mennt og hóf nám í myndlist 2011 eftir að hafa snúið við blaðinu og yfirgefið byggingargeirann. Hann útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands með BA gráðu árið 2016 og frá Academy of Fine Arts í Vínarborg sem „Herr Magister” árið 2019. Jakob starfar í Vínarborg þar sem hann er búsettur. Hans helsti miðill er málverkið þar sem gjörningurinn að koma málningu á striga hefur verið í hávegum hafður en einnig hefur hann verið að vinna við aðra miðla eins og video, textíl og hljóð.

Andrea: Hvernig var aðdragandinn að þessari sýningu hér í Portfolio Gallerí, Grettur, glettur og náttúrubarn?
Jakob: Ég var á þvælingi í eyðimörkinni í Íran þegar Sigþóra (Óðins) hefur samband við mig á Messenger og spyr hvort ég væri laus í sumar fyrir sýningu. Þau í Portfolio Gallerí höfðu áhuga, svo var náð saman um tíma. Ég hafði stuttan fyrirvara og var on the road. Þannig ég þurfti að plana þetta soldið á ferðinni. Þar sem ég er einnig að undirbúa aðra sýningu sem opnar snemma á næsta ári, sem er algjörlega byggð á þessum þvælingi mínum í Íran.

A: Ertu þá einnig að vinna skyssur að næstu sýningu í Íran?
J: Í Íran er ég að vinna aðrar skyssur já og prófa aðra miðla sem ég hef ekki notað áður. Ég er í samstarfi við fullt af fólki þar, sem eru að vinna hefðbundið handverk, vefa og annað. Þar er ég algjörlega að fara út úr mínum þægindahring, þannig það verður margt nýtt þar, þó það verði vissulega líka málverk. En öll þau verk eru gerð sérstaklega fyrir þá sýningu.

A: Hvernig urðu verkin til sem eru hér?
J: Flest af þeim eru mjög tengd náttúrunni, ég er alltaf að spegla sjálfan mig og maleríið í gegnum náttúruna. Ég kalla þetta oft landslagsportrett, af því að ég vinn með minningar úr landslagi. Allar þessar myndir eru meira og minna unnar úr íslensku landslagi, nema stóra myndin sem er eiginlega unnin beint frá Íran (Þetta var bara draumur, 2022). Ég horfi á sjálfa mig og þjóðfélagið í gegnum það hvernig ég upplifi náttúruna. Einhvernveginn er ég aldrei réttur sjálfur, svona persónulega, nema einhvers staðar í náttúrunni. Svo blandast þessi alkóhólíski hugur og mínar reynslur við þetta. Oft eru þetta stuttar sögur úr náttúrunni og þjóðfélaginu í rauninni líka. Þetta er mín sýn á sjálfan mig sem part af þjóðfélaginu.

Ég geri þetta í raun alls staðar þar sem ég er að þvælast. Ég var mikið á Indlandi í byrjun covid og svo aftur núna. Þær myndir sem ég vann á Indlandi urðu allt öðruvísi en samt sama pæling. Ég inni í einhverjum heim sem er mér algjörlega ókunnugur. Samt er ég alltaf staddur einhverneginn á þessum stað. Þessar myndir sem eru uppi hér eru ég og mín sýn, en ég nota minningar úr náttúrunni, staði, sögur. Ef ég er í Vín þá er Ísland alltaf mjög sterkt í mér, því lengra sem ég fer öskrar þessi partur af mér á mig. Ég hef ekki mikla þörf til að mála þegar ég er á Íslandi en þegar ég fer annað, fer landslagið að sækja á mig og ég finn aftur þörfina. Maður er alltaf að díla við það sem er að gerast í samtímanum og mín leið til þess er í gegnum þessar myndir, minn kaótíski hugur fer alltaf þangað til þess að tjá sjálfan sig. Það er svona mín hugmyndalega þróun.

Portfólíó galleríPortfólíó gallerí

A: Koma minningarnar þá til þín við gjörð málverksins eða hugsarðu þær fyrir fram?
J: Eiginlega bæði, ég byrja oft með sterka mynd en svo fer hún sinn veg. Hún fær alltaf að fara sína leið. Ef ég reyni að halda of mikið í upprunalegu myndina þá fer hún oft að verða hallærisleg. Performannsinn við það að mála er ótrúlega sterkur hjá mér í mínum myndum. Oft getur mynd leitt af sér aðra mynd. Ég held að sýningin sem verður í Listasafni Árnesinga hafi að miklu leiti orðið til út frá mér að performera og ég að búa til málverk sem allt í einu kallar á að ég þurfi að sækja í aðra miðla. Inntakið varð til í ferli málverksins, þar sem ég fékk hugmyndir er kölluðu á aðra miðla. Ég þurfti að sækja í þá til að tjá þessar upplifanir mínar og tengsl við Íran. Fyrst vegna þess að ég hafði tengsl þangað en komst ekki þangað, ég vildi vera þar vegna þess að kærastan mín þá, var þar. Þetta var skrítinn hugmyndaheimur sem varð til í covid, sem öðlaðist svo eigið líf og varð eitthvað annað.

Hugmyndirnar verða því mikið til í ferlinu, í þessum gjörningi sem málverkið er. Sem tekur mig svo í ólíkar áttir eftir því sem ég stíg lengra inn í það. Þetta er alltaf einhver spenna milli sterkra hugmynda og þess sem gerist í augnablikinu. Margar myndirnar mínar líta út fyrir að hafa orðið til mikið í momentinu en eru samt mikið unnar og skapaðar í raun úr baráttu hugmyndanna. Ég er alltaf að vinna. Ef ég er nálægt vinnustofunni minni þá vinn ég á hverjum degi, marga klukkutíma á dag. Þannig þetta er endalaust ferli þar sem hugmynd fæðir af sér hugmynd. Þetta er í rauninni líka alltaf gjörningur. Dagurinn í dag hefur alltaf áhrif, hvernig maður er stemmdur, hvað maður er að lesa í fréttum o.s.frv. Það kemur allt inn í stúdíóið, hvernig hausinn á manni er þann daginn ― er ég þunglyndur eða er ég glaður.

A: Þú útskrifast úr málarameistaranum í Vín rétt fyrir covid, hvernig var það tímabil fyrir þig sem listamann?
J: Ég var með allskonar plön á þeim tíma, en svo kom covid, sem var í raun alveg frábært því þá fékk ég alveg frið til þess að einblína á málverkið. Ég gat málað og málað, fullt af fólki birtist sem vildi kaupa myndlist. Þurfti ekki að hafa neinar fjárhagslegar áhyggjur, var bara að mála og hafði engar kvaðir um að sýna. Ég ætlaði að sýna á Indlandi en því var aflýst þannig ég rétt slapp til Austurríkis og var á fullu að mála bara. Var að vinna einhverjar tvær þrjár hugmyndir í sitthvora áttina og vann eiginlega bara 24/7. Þar var til þessi hugmynd um sýninguna um Íran og ég fékk sendan allskonar textíl þaðan sem var handunninn fyrir mig. Það stækkaði í sýninguna sem mun vera í Listasafni Árnesinga. Þá var öll þessi hugmyndavinna sem átti að tengjast öðrum sýningum, sem plön fyrir covid, orðin að engu. Þessar myndir sem eru hérna á þessari sýningu urðu í rauninni til í seinni hluta þess tímabils. Nema stóra myndin hún kemur úr Íranska verkefninu.

A: Núna ertu með vinnustofu í Vín er það ekki? Hvernig er lífið þitt þar?
J: Mitt athvarf er þar já, grunnbúðir 1 eru í þriðja hverfinu í Vín. Ég er ótrúlega heppinn með vinnustofu. Búinn að vera á sama stað síðan 2019 og er vonandi ekkert á leiðinni þaðan. Með risa rými á tveim hæðum. Sem er jafnvel með sýningarstöðu, ætla reyna að fara aðeins meira út í sýningar núna. Snorri Ásmunds ætlar til dæmis að sýna hjá mér í desember.

A: Hvernig varð stóra myndin til, Þetta var bara draumur, 2022?
J: Þessi mynd er byggð á hefðbundnum írönskum/persneskum arkítektur, þessi hús innihalda oft þá sérstæðu að þau hafa gat í loftinu þar sem þú sérð upp í himininn. Svo er svona þríhyrningamunstur sem er oft frekar abstrakt og skreytt, sem arkítektúrinn er unninn út úr. Ég er að vinna nokkrar myndir út frá þessu, mér fannst gaman að taka eina nýja mynd með inn á þessa sýningu þegar ég var að koma til Íslands. Hún passar samt líka inn á sama tíma, þar sem náttúran kemur alltaf inn. Þú sérð þríhyrningamunstrin í myndinni og þessa opnun ljóssins sem ég er að eiga við sem minningu frá þessu heimi. Þessi íslamska list sem er ótrúlega mögnuð og tengist abstrakt listinni. Af því að þeir máttu ekki hafa andlit, þannig þeir nota skrautskrift og allskonar heilaga geómetríu í skreytingar. Það er alveg geggjað finnst mér. Þetta er einn af þessum upphafspunktum abstraktlistarinnar, þó hún hafi ekki endilega verið hugsuð sem slíkt á þeim tíma. Það er hvergi tómur flötur í þessum húsum, þeim svipar mikið til málverkanna minna. Það er þetta fear of empty spaces sem einkennir allt og ég tengi við, þar sem þessi strúktúrar eru alls staðar. Ég eyddi mörgum dögum í að labba á milli svona húsa og taka myndir. Þetta er eina verkið af þessu myndum á sýningunni sem er hluti af því sem ég er að fást við akkúrat núna.

A: En geturu sagt mér frá verkinu Stundum fæ ég bara nóg, 2021?
J: Hún er gerð alveg á sama tíma og hinar eldri. Þú sérð ef þú skoðar betur að það eru alltaf andlit í myndunum, þessi svokölluðu landslagsportrett. Hérna er það mjög sterkt, maður sér tungu eða tittling. Ég var alveg brjálaður í hausnum á mér á þessum tíma og leið eins og ég myndi æla út úr mér tungunni. Svo áttaði ég mig á því eftir á að þetta er soldið eins og tittlingur, þetta er sjálfsportett þannig það er þetta alveg klárlega. Einhverskonar öskur út í heiminn. Þessar eldri myndir eru allar svolítið sama momentið. Hérna sérðu á í Skaftafelli, ég byrja yfirleitt mjög realískt með þessar myndir. Þetta  var vatn og grjót í ánni, svo mála ég í mörgum mörgum lögum þar sem margir hlutir brjótast út. Fyrstu lögin í verkunum eru frekar hefðbundin náttúruverk og svo hleðst mitt tilfinningalíf yfir á myndirnar. Mitt ég tekur yfir, ýmist er það góði drengurinn ég, eða alkóhólistinn ég, eða reiði ég, eða ánægði ég. Það er alltaf um það sem ég er að eiga við í samfélaginu á þeim tíma.

Svo er það þessi hérna mynd, Stúlka sem elskar bláber, 2021. Þessi mynd er mjög sterk minning úr Skaftafelli, þar sem þessi stúlka situr við á og borðar bláber. Ég byrjaði með mjög klassíska byrjun á henni, hún var frekar realísk – en ef ég leyfi ekki málverkinu að yfirtaka það þá verður eitthvað ekki rétt. Í ferlinu fær þessi gjörningur að yfirtaka myndina. Ég byrja í rólegri takti með hugmynd, jökulá og stórir steinar, gróðurinn og allt mjög sterkt í hausnum á mér, þessi stúlka sitjandi þar að borða bláber. Svo tekur þessi líkamlegi action gjörningur við og það er hann sem ræður. Hann segir við erum ekkert að fara þangað – við erum að fara hingað. Miðilinn verður að fá að vera hann sjálfur, maleríið skiptir mig mjög miklu máli.

Í mjög fotorealískum málverkum eru þau svo upptekin af sjálfum sér, þú gleymir alltaf myndinni og ferð að hugsa um tæknina. Fyrir mig verður það mjög leiðigjarnt. Það er svo oft sem þannig málarar gleyma sér í að vera show off, það er eins og leiðinlegt gítarsóló. Það getur verið vel spilað en bara svo innihaldslaust. Þetta er snúið, það eru alveg færir realískir málarar að gera góða hluti en svo líka alveg á hinn endann. Ég er frekar fastur í því sem mætti kalla painters painting, þrátt fyrir að þér líki ekki myndin sem slík þá er samt eitthvað áhugavert við maleríið og miðilinn.

Stundum fæ ég bara nógStundum fæ ég bara nóg, olía á striga, 155 x 120 cm, 2021

A: Geturu talað aðeins um tengingu þína við öræfin á Íslandi, minningar þínar af þeim birtast ætið áfram í verkum þínum:
J: Ég var þar í sveit með afa, hann hafði mjög sterka sýn á náttúruna og kenndi mér að horfa á hana, ekki bara sem einhverja risastóra sublime sýn, heldur líka að horfa niður. Það er alls staðar eitthvað sem er svo rosalega sterkt bara ef þú gefur því tíma. Ég sem málari sé sem svo að ef þú gefur því tíma að þá gefurðu því tilfinningar, það er mjög sterkt í málverkinu mínu. Það eru þessar sögur af öræfunum, ótrúlegt ströggl að lifa af í sveit, þetta var erfitt og þess vegna myndaðist fallegt samfélag þarna vegna þess að það varð að standa saman. Þetta hefur sterka tengingu inn í sálina á mér sama hvar ég er, ég leita alltaf þangað. Ég ætla að verða gamall í öræfunum, ég hef lofað mér því.

A: Hvernig sérð þú dauða málverksins og upprisu þess í dag?
J: Þetta er ótrúlega merkilegur miðill, hvernig hann nær alltaf að rísa aftur upp ferskur. En eins og hann er stór, því allir geta málað, er erfitt að gera eitthvað áhugavert. Það er svo langt frá því að gera eitthvað fínt og fallegt, þú getur lært að gera það. En að gera eitthvað áhugavert er annað. Fyrir mér er þetta þannig að mín persóna kemur fram í maleríinu. Í þessari enn einni upprisu málverksins er eitt, myndin – hvort þetta sé fallegt eða ljótt, sem allir hafa skoðun á. Svo er það þessi vídd sem er maleríið, persónan, þú skynjar listamanninn í því. Hérna er til að mynda Gunnar Örn (bak við okkur í herberginu sem viðtalið er tekið í), þú horfir á hann og finnur hann í því hvernig hann málar. Það er svo magnað að þessi miðill birtir það að þú finnir hann. Þú þekkir hann strax því að maleríið er hans, það er einstakt. Þetta er það sem er svo magnað við málverkið. Svo er það alltaf sagan á bak við verkin, konseptið. Sum verk geta verið leiðinleg að öllu leiti nema hafa ótrúlega spennandi konsept sem gera þau áhugaverð, eða á alveg hina hliðina líka. Þannig ef þetta harmónerar allt saman þá er komið eitthvað sem er spennandi.

Svo er alltaf þessi klassíska spurning um mörk málverksins. Hvað er málverk, og hvað ekki? Hvað er listaverk? Þú getur endalaust dílað við þá spurningu. Þetta er elsta form listarinnar. Það er alltaf hægt að nálgast það útfrá sjálfum sér og á ferskan hátt. Það mun alltaf gera málverkinu kleift að koma aftur og ögra sjálfu sér. Þó að auðvitað muni fullt af leiðinlegu efni koma til líka. Svo er annað, sem er tabúið – og það er peningaheimurinn. Það eru allir að fara að græða. Það er einhvernveiginn frekar sorglegt en líka ótrúlega áhugavert að fylgjast með því, hvernig eitthvað sem enginn vildi kaupa í gær er allt í einu milljóna virði í dag. Það hefur ekkert með myndlist að gera, heldur með samfélagið sem við lifum í. Það er áhugaverð pæling út frá listrænu sjónarmiði.

A: Hvernig er svo framhaldið, á sýningu þinni í Listasafni Árnesinga?
J: Þar tek ég málverkið og ögra minni aðkomu að því algjörlega. Konseptlega verður þetta heildstæð sýning þar sem ég byrja að vinna með hugmynd sem er stöðugt að breytast. Þetta byrjar út frá málverkinu sem þróast svo eitthvert annað sem verður mikil til í textíl – og aftur þá kemur þessi klassíska spurning um mörk málverksins. Er þetta málverk? Hvenær verður það að einhverju öðru? Hvenær verður textíll að teppi? Þannig ég er mjög spenntur fyrir þeirri sýningu, er búinn að vera vinna hana í ár og mun vinna hana rúmt ár í viðbót. Það er margt í vinnslu og heilt teymi á bak við hana, á þrem stöðum. Handverkskonur sem vefa á hefðbundinn hátt úr hör og ull mest. Þetta er í vinnslu og tekur sífellt breytingum þó það sé komin heildstæð mynd á þetta. Opnunin mun verða í byrjun September á næsta ári, 2023.

Andrea Ágústa Aðalsteinsdóttir


Vefsíða: www.jakobveigar.com
Sýning Jakobs Veigars  – Grettur, glettur og náttúrubarn stendur opin í Portfolio Gallerí til 06. ágúst, 2022.
Myndir af Jakobi og sýningarsal eru eftir Sigurgeir Sigurjónsson. Mynd af málverki er eftir listamanninn sjálfan.

Portraits of Pleasure – kyrralífsverk samtímans

Portraits of Pleasure – kyrralífsverk samtímans

Portraits of Pleasure – kyrralífsverk samtímans

Portraits of Pleasure er dionísk sýning Sindra Sparkle Freys sem birtist sem ákall til nándar eftir mánuði af sundrun og einangrun mannsins. Myndir Sindra eru opinberun á hinum innri þrám og nautnum. Það sem er yfirleitt hulið innan veggja einkalífsins, í skápum, kistum og skúffum er opinberað og birt á sýningarveggjum Gallerí Þulu á haustmánuðum þessa árs. Verk háns streyma sem ferskur andvari er litast af berskjöldun mannsins og fagurblæ raunsæis hið innra. Fjallað er um kynverund á einlægan hátt er stuðlar að kyntjáningu á hinseginleika innan íslensku listasenunar.

Sindri er með listmálaragráðu og fornám úr Myndlistarskólanum í Reykjavík. Þessa dagana er hán í BA námi í grafískri hönnun, innan veggja LHÍ. Hán vinnur einna helst með þau áhrif sem hán verður fyrir í menningarumhverfi sínu, ásamt sögum, fantasíum og kynhneigð. Sögur eru í grunninn það sem gerir okkur að manneskjum. Hán byrjaði að fjalla um kynferði snemma á listferli sínum, kveikjan varð í aðdraganda verks sem hán var að vinna að í skólanum sem snéri að sjálfsmyndinni. Í ferlinu varð hán pirrað á því að reyna áorka lendingu á einhverskonar afurð. Í flýti heftaði hán gardínu á viðarplötu, grunnaði hana og málaði svo sjálfsmynd af sjálfu sér bundnu útfrá ljósmynd. Í þessum erfiðleikum á því að skila af sér verkinu varð kveikjan til – á þeim tíma var hán komið alla leið út úr skápnum og gerði sér grein fyrir því hvernig þetta mótíf gæti verið sem kjörið leiðarstef í listsköpun sinni þar sem ekki margir eru að fjalla um þetta innan myndlistarsamfélagsins í dag. Þessar sjálfsmyndir héldu áfram að þróast í listsköpun háns. Þannig varð sameining þessarar rannsóknar um kynferðið og málverkið að drífandi afli í iðkun háns á sviði flatarins. Sem hluti af þeim áhrifaþáttum er urðu í aðdraganda sýningarinnar fór listamaðurinn til Hollands og varð þar ástfangin af kyrralífsverkinu.

Sársauki & unaður, Pain & pleasure. Olía á striga, 2021.

 „Þar kristallaðist vakning fyrir ástríðu minni gagnvart kyrralífsverkinu og varð það mér hugleikið sem samtal við samtímann í dag.”

Þar myndaðist einskonar samhljómur við hánið sjálft. Kyrralífsverkin voru oftast máluð af lágstéttafólki og konum. Samkvæmt boðum Meidici fjölskyldunnar voru þau verk höfð neðst í upphengi og sýndu lesti hins mannlega. Þessi verk endurspegluðu hina mannlegu nautn sem var ekki talin til dyggða. Svo tók við sýn vanitas verkana þar sem dauðinn litar verkin með meðal annars með hauskúpum og þar er áminningin sú að samfélagið ætti að auðga sínar andlegu auðlindir fremur en hinar veraldlegu. Í dag eru kyrralífsverkin fremur séð sem fínt punt inn á heimilum, á sama tíma eru kynlífsleikföngin í þessari neðstu röðun fyrirbæra innan samfélagsins. Holdgervingar nautna sem helst á að fela. Hán byrjaði að lesa um kynfræði snemma á kynþroskaskeiði sínu, skoðaði heim blætis með rannsakandi augum og forvitni. Það er vakandi drifkraftur innra með Sindra sem vill frelsa líkamann undan skömm þeirri sem hefur litað nautnina.

„Ég hélt lengi að kyrralífsverkin væru einskonar memento mori – mundu að þú munt einn daginn deyja, þannig þú þarft að gera lífið þitt gott.”

Fantasía og sögur. Aldrei numið staðar / Fantasy and Stories. Never in One Place Long. 2021

Þó liggur þetta mun dýpra þegar maður skoðar listasöguna. Í nálgun sinni á sögn kyrralífsmyndarinnar í samtímanum fór Sindri að hugsa um einskonar memento vivere (mundu að lifa). Að leyfa sér að njóta og lifa í nautnini, frelsa sig undan vissri skömm sem hefur verið alin upp í samfélaginu. Þaðan kemur hugmyndin um eftirlætissemi sem eitt af leiðarstefum sýningarinnar. Í grunninn voru kyrralífsverkin að miklu leiti til um nautnina – þó þau séu líka með aðra merkingu. Með því að sameina portrett myndina við kyrralífsverkin er endurspeglun mynduð af því kynferði sem vill sífellt fá meira rými á yfirborðinu í okkar samtíma. Listamaðurinn miðlar ólíkum persónum úr sínu umhverfi með því að festa kynlífsleikföng þeirra á flötinn. Þannig fangar hán endurspeglun á kynferði manneskjunnar, sem segir mikið um hið innra. Hlutirnir verða að portretti af því sem oftast er hulið. Kynferði þeirra er myndin og nöfn verkanna eru valin út frá því hvernig einstaklingurinn lýsir sínu eigin erosi.

Það tók tvö ár fyrir þessa málverkaseríu að mótast. Yfirleitt gef ég hugmyndum mínum góðan tíma til að verða, ég set yfirleitt ekki verkefnin af stað fyrr en ég er komin með nóg af efni til þess að þróa. Ég vill geta farið allar leið með þær. Sjálf serían var máluð á einu ári, ég vann fyrst að litlu myndinni (Sjálfsmynd #1) og byrjaði ekki á hinum myndunum fyrr en það upphafsstef var fullmótað.”

Það er fallegt að hugsa til þess hvernig þessir hlutir öðlast aukna merkingu í covid, þar sem þeir verða eins konar þjónar nándar okkar. Í samtölum við fyrirsæturnar um þeirra blæti talaði hán við nokkra gagnkynhneigða menn um hvaða dót þeir notuðu, þeir nefndu eiginlega allir hendi. Þannig varð til mynd af hendinni sem endurspeglun á því, aðrir nefndu ýmislegt annað. Manni þykir vænt um leikföngin sín, þau hafa tengingu við persónu manns, spegla hvern og einn. Snertingin á þessum hlutum hefur það mikið vægi að þau verða ekki notuð af öðrum en þér.

Þetta er covid sýning og undirstrikuðu þær aðstæður enn fremur áheyrslupunkt listamannsins á viðfangsefni sínu. Hán varð skipað í sóttkví í aðdraganda sýningarinnar, staðsett andspænis myndefni sínu og fengu þessir hlutir þá að miklu meira vægi án módelsins. Sindri var lokað inni heima hjá sér, í samtali við strigann og málaði kyrralífsmyndir af kynlífsleikföngum.

Einangrunarlosti, Private Escape. Olía á striga, 2021

„Þegar ég var að klæða mig upp fyrir sýninguna hugsaði ég með mér hvort ég ætti að vera í kjól. Er ég að fara selja verr ef ég verð í kjól? Ég endaði á því að vera ekki í kjól, ekki vegna þessarar spurningar endilega heldur fékk ég hugmynd um að vinna með blóm. Ég var með blóm í andlitinu, blómaskyrtu, í korseletti og málaði mig.”

Listamaðurinn kemur úr allt annarri átt en margir myndlistarmenn, hann er fjöllistamaður, nörd og hinsegin. Hann er að tala um bdsm í listsköpun sinni vegna þess að hann vill opna á samtal um þessa afkima samfélagsins. Það eru margir sem lifa huldu höfði innan þessa lífstíls, einstaklingar sem lifa í einskonar skáp. Þegar kemur að bdsm-hneigðu fólki er mjög frelsandi fyrir þá aðila að það sé einhver úti á almennum vettvangi að fjalla um þetta form af kyntjáningu. Það hefur slæm áhrif andlega á hinsegin aðila að geta ekki verið séðir fyrir það sem þeir eru. Það dregur vissan dilk á eftir sér að þurfa fela kynferði sitt í ótta um að geta misst vinnuna. Það eru til dæmi um það í íslensku samfélagi enn þann dag í dag. Það eru ákveðnar fraseringar frá vanillufólki (fólk sem stndar kynlíf án kynlífsleikfanga og hlutverkaleikja) sem eiga erfitt með þetta, þessar línur svipa mikið til þess hvernig fjallað var um samkynhneigða fyrir nokkrum árum. Eins og t.d. „ég vill ekkert vita um það sem þú gerir í rúminu.” En það er einmitt það sem Sindri vill opna á með sýningu sinni Portraits of pleasure – opið samtal um allskonar kynferði.

„Sýningin mín er til þess að geta fjallað um ákveðin fyrirbæri innan þessarar hneigðar. Maður sér barefli, ýmis blætismótíf, klæðnað, síðan er eitt dildo sem er xenomorph úr Aliens. Þannig miðla ég blætishneigð sem ég get get talað um – en það væri kannski annað ef manneskjan sjálf stæði þarna og væri að berskjalda sig.”

Sindri sótti um að vera hluti af samsýningu hjá galleríi á þessu ári, en honum var neitað. Sagt var að þetta væri flott hjá honum en að í næsta mánuði væru þau með hinsegin sýningu vegna Gay Pride og hvöttu hán til þess að sækja um að vera með á henni. Hán spyr sig hvers vegna það þurfi alltaf að vera sérstakar sýningar, sem regnhlífar fyrir jaðarhópa innan myndlistarsenunar á Íslandi.

„Ég er hinsegin listamaður en það er ekki það eina sem ég er – ég vill geta verið ég án þess að mín kynverund verði það eina sem ég er.”

Það sem lifir í glæðunum í framhaldi þessarar sýningar er bók sem verður gefin út með samantekt á þeirri hugmyndafræði og rannsókn sem átti sér stað í aðdraganda hennar en hún fjallar um kyrralífsverk og kynlífsleikföng. Það er heillandi fyrir Sindra að tvinna saman ólíka miðla og mun næsta sýning hans verða áframhaldandi umfjöllun um kyntjáningu einstaklingsins.

Andrea Ágústa Aðalsteinsdóttir


Ljósmynd af Sindra Sparkle Frey: Ásdís Þula Þorláksdóttir. Myndir af verkum birtar með leyfi listamannsins.

Veröld út af fyrir sig – Samfélag skynjandi vera í Hafnarborg

Veröld út af fyrir sig – Samfélag skynjandi vera í Hafnarborg

Veröld út af fyrir sig – Samfélag skynjandi vera í Hafnarborg

Sýningin Samfélag skynjandi vera í Hafnarborg leikur sér með hinn breiða heim skynjunarinnar og mismunandi blæbrigði samfélagsins. Undir yfirskriftinni að hvetja til róttækrar samkenndar (e. radical empathy) sem og að gefa ósögðum sögum rödd býður sýningin upp á veröld upplifana út af fyrir sig. Sýningastýrð af Wiolu Ujazdowska og Hubert Gromny, er hún ellefta haustsýning Hafnarborgar, en haustsýningarnar gefa nýjum sýningarstjórum kost á að sýningastýra.

Alls taka tuttugu listamenn þátt í sýningunni og hún nær yfir öll rými Hafnarborgar. Hópnum tilheyra þau Agata Mickiewicz, Agnieszka Sosnowska, Andrea Ágústa Aðalsteinsdóttir, Angela Rawlings, Anna Wojtyńska, Dans Afríka Iceland, Freyja Eilíf, Gígja Jónsdóttir, Hildur Ása Henrýsdóttir, Hubert Gromny, Kathy Clark, Katrín Inga Jónsdóttir Hjördísardóttir, Melanie Ubaldo, Michelle Sáenz Burrola, Nermine El Ansari, Pétur Magnússon, Rúnar Örn Jóhönnu Marinósson, Styrmir Örn Guðmundsson, Ufuoma Overo-Tarimo og Wiola Ujazdowska.

Sýningin er fjölþætt og yfirgripsmikil; sem endurspeglast í metnaðargfullum og víðfeðmum markmiðum hennar. Eitt slíkt markmið er að hvetja til endurhugsunar sýningargesta gagnvart heiminum, vandamálum nútímans sem og sambandi okkar við náttúruna. Markmiðinu er fylgt eftir með ríkri áherslu á skynjunina en öll verk sýningarinnar endurspegla hvað listamennirnir túlka sem skynjun og hvað það sé að vera skynjandi vera. Í rýminu er stigið út fyrir ramma tungumálsins og sýningargestir eru hvattir: „hlustið með fótunum“.

Er ég gekk í gegnum sýninguna fann ég að verkin ein og sér mynduðu litla króka og kima sjálfstæðra sagna eða skilaboða. Jafnharðan og ég hafði áttað mig á einu verki var mér kippt út úr því með öðrum skilaboðum. Við fyrstu sýn virtust verkin ótengd vegna þess að rauður þráður sem batt þau saman var ekki bersýnilega til staðar. Það rann þó upp fyrir mér að það væri birtingarmynd hins eiginlega samfélags sýningarinnar. Samfélagið sem hér birtist er ekki einsleitt, stílhreint né velur það sér hvaða málefni er mikilvægast, heldur er það margbreytilegt, fjölskrúðugt og getur haldið fjölda málefna á lofti í senn.

Mörg verk sýningarinnar eru gagnvirk og leggja ríka áherslu á þátttöku: listamennirnir bjóða upp á verkefni, að stíga inn í hugarheim og dvelja þar um stund. Gígja Jónsdóttir safnar tárum í Tárabrunn, Anna Wojtyńska og Wiola Ujazdowska gefa plöntur í verki sínu Við þörfnumst öll sólar, Styrmir Örn Guðmundsson og Agata Mickiewicz bjóða gestum í hugleiðslu í verkinu Upphafið í eimingarflösku og Nermine El Ansari teiknar á landamæri í Exercise. Gagnvirknin dró mig aftur og aftur að sýningunni; þú sem sýningargestur ert skynjandi vera og þú tekur virkan þátt í að móta samfélagið sem á sýningunni birtist.

Nermine El Ansari

Agata Mickiewicz og Styrmir Örn Guðmundsson

Saman mynda verk sýningarinnar margbrotna mynd af samfélagi sem er flókið og ruglingslegt. Sýningin undirstrikar fremur en að skýra þá upplifun. Að átta sig, fóta sig í nútímanum er erfitt og sýningarstjórarnir leggja gestum ekki lið við að botna eða átta sig á því hvað fer fram að hverju sinni. Sýningartextinn er skrifaður með skapandi hætti og segir lítið sem ekkert sem getur „hjálpað“ sýningargestum við að átta sig á einstaka tengingum milli verka. Mögulega er það viljandi og af ásetningi gert.

Nokkrar paranir verka stóðu upp úr og vöktu athygli mína og umhugsun: fékk mig til þess að lifa mig inn í samfélag skynjandi vera og undirstrikuðu markmið sýningasrtjórana í mínum augum.

Melanie Ubaldo

Pólitískt verk Melanie Ubaldo „Þú ert ekki íslensk. Nafnið þitt er ekki íslenskt.“ talar sínu eigin máli. Skýli reist á sandi, sem minnir á lítið Christo og Jeanne-Claude verk, er umvafið neyðarteppi og gefst gestum kostur á að staldra við inni í skýlinu, finna lyktina af sandinum og dvelja í merkingu verksins. Skýlið er byggt samkvæmt stöðlum Sameinuðu þjóðanna um stærð slíkra neyðarskýla. Þrúgandi veruleiki nútímans er óumflýjanlegur, það er aðkallandi óleystur vandi til staðar. Vandanum er þó velt fyrir sér í fjarlægð frá flóttamönnunum, innan listasafnsins, þannig er viss fjarlægð er til staðar sem minnir á hvernig við horfum á slík mál heiman frá okkur í gegnum netið eða dagblöðin.

Katrín Inga Jónsdóttir Hjördísardóttir

Verkið er staðsett á efri hæð aðalrýmis Hafnarborgar við hlið annars verks sem kallar á þveröfugt hugarfar. ASMR hvísl og slakandi raftónlist má hlusta á sitjandi á gæru sem breidd er yfir bekk úr steypu. Verkið kallast RAW PURENESS—SELF LOVE og er eftir Katrínu Ingu Jónsdóttur Hjördísardóttur. Við upplifun verksins var ég færð inn í einbýlishús mögulega staðsett í Garðabænum. Ég var ekki viss um hvort að hér væri á ferðinni kaldhæðni eða grafalvarleg skilaboð um mikilvægi þess að stunda sjálfsást. En parað með verki Melaniu virkar það eins og einskonar refsing eða sjálfshatur. Sjálfsástin sem ég stunda persónulega heima hjá mér á þriðjudagskvöldum er orðin þrúgandi, á samt sem áður rétt á sér í sínu eigin rými sem inniheldur reyndar enga gæru. Hér virkar hún kaldranaleg, jafnvel kaldhæðin. Er hún það? Þetta er ekki sýning með svör. Kannski er sjálfhverft að stunda sjálfsást á gæru og kannski er virk iðkun sjálfsástar eina leiðin framávið, það er erfitt að segja. Það gildir þó einu að báðar hliðar eru hlutar samfélags skynjandi vera og það er leyfilegt að draga iðkunina í efa og virða hana fyrir sér í stærra samhengi.

Með þessu sniði leika sýningarstjórarnir sér með innhverfa og úthverfa þætti mannlegrar tilveru. Það er erfitt að fóta sig, að ná fókus í tilverunni og um leið og ég náði fótfestu í einu verki var mér kippt úr henni í skiptum fyrir önnur skilaboð, fleiri sögur og enn fleiri verkefni.

Rúnars Arnar Jóhönnu Marínóssonar

Gígja Jónsdóttir

Andrea Ágústa Aðalsteinsdóttir

Anna Wojtyńska og Wiola Ujazdowska

Á neðri hæð Hafnarborgar birtist slík upplifun mér með skýrum hætti: tár, leikur og náttúra fá þar að raungerast í sama rými. Í verki Andreu Ágústu Aðalsteinsdóttur Eldur og flóra brennur náttúran vegna gróðurelda en Við þörfnumst öll sólar leggur áherslu á hinn glóandi eldhnött sem veitir okkur og öllu lífríki líf. Við grátum eins og Tárabrunnur minnir á en samt sem áður er rými fyrir leik í þessu samfélagi skynjandi vera, þar sem leikföng geta öðlast líf eins og í verki Rúnars Arnar Jóhönnu Marínóssonar Sjúga og Spýta lifa og starfa.

Í innsta rými Hafnarborgar má finna tvö verk sem einnig leika sér með innhverfa hugsun og úthverfa tengingu okkar við náttúruna eða jörðina. Agata Mickiewicz er með textílverk sem kallast Schumann-ómun og er myndræn framsetning slíkrar ómunar. Schumann ómun á sér rætur að rekja til rafbylgja sem myndast út frá eldingum og eiga sér stað víðs vegar á jörðinni. En slík ómun samkvæmt ýmsum vefheimildum (sem ég get þó ekki staðfest að séu áreiðanlegar) hefur róandi áhrif á líkama okkar. Í sama rými er mynbandsverkið Upphafið í eimingarflösku: í myndbandinu er litríkum formum varpað á ófrískan maga, sem eflaust táknar upphaf og nýja byrjun og litlir kollar eru dreifðir um herbergið og gefst gestum kostur á að hugleiða við handleiðslu raddar sem hljómar í rýminu. Þessi pörun verka var einstaklega vel heppnuð og kallar á mikla umhugsun. Annars vegar er geta okkar til að slaka á og róa okkur sjálf og hins vegar er hin mögulega geta náttúrunnar til þess að hafa slík áhrif á okkur utan frá.

Heildarskynbragð sýningarinnar er yfirþyrmandi. Þó er yfirþyrmandi heldur neikvætt orð yfir upplifun mína sem best væri lýst með áreynslunni við að reyna að velta fyrir sér mörgu í einu. Og þar sem það er ekki nauðsynlega áreynslulaust að fara á listsýningu þá rann upp fyrir mér að mögulega eru ein skilaboð af mörgum sem taka má með sér af sýningunni þau að svoleiðis séu samfélög í raun og veru.

Í viðtali við Víðsjá lýsir Wiola samtímanum eins og að vera með marga glugga í vafranum sínum opna í einu sem passar vel við upplifun mína af Samfélagi skynjandi vera. Það var sem ég væri að reyna að ná utan um margar mismunandi hugsanir í senn, (sem vissulega kemur oft á tíðum fyrir mig) nema að í sýningunni var sú upplifun sett í efnislegt form og það heppnaðist einkar vel þegar ég náði að sleppa tökum á því að reyna að finna einn rauðan þráð, þema eða eitthvað eitt haldreipi sem myndi leiða mig í gegnum sýninguna.

Hugarfarið sem ég þurfti að temja mér við að melta sýninguna var þar af leiðandi gerólíkt því sem ég hef þurft að temja mér í minni eigin akademísku hugsun. Frá minni eigin reynslu af heimspeki að dæma, eina akademíska sviðið sem ég hef sjálf reynslu af, er ómögulegt að taka fyrir Samfélag skynjandi vera í einu verki. Það hefur verið gert en oftar en ekki er það í formi doðranta sem spanna mörg hundruð blaðsíður og eru verk sem taka lífstíð að lesa og botna eitthvað í. Því takast nútíma heimspekingar oftast á við sitt eigið sérsvið. Stóru spurningarnar eru smættaðar niður í viðráðanlegar einingar og tengsl þeirra á milli er svo hugsuð sem eining í sjálfri sér. Flokkanir og skilgreiningar gera viðfangsefnið viðráðanlegt, skiljanlegt og mótanlegt.

Út frá upplifun minni af því að hugsa um allt í senn, túlka ég lokaorð sýningaskrárinnar „Það má merkja að einlægur samhugur og róttæk samkennd, fremur en rökhyggja og vísindi, veita okkur inngöngu í samfélag skynjandi vera“ sem boð um að sleppa taki á flokkun og skilgreiningum vísinda og rökhugsunar, leyfi til þess að sjá einstaka sögur í stærra samhengi og í beinum tengslum við aðrar.

Þannig stígur sýningin út fyrir rökhyggjuna sem oft helst í hendur við flokkun innan vísinda og fræðimennsku og tekst á við nútímann í formi margbreytileika innan sama rýmis. Þannig má líta á markmið sýningarinnar ekki sem andspyrnu gegn vísindum og rökhyggju heldur sem boð um að stíga út fyrir fræðilegu takmörkin sem vísindi og fræðimennska verða að setja sér og sjá verkin sem hluta af neti eða einfaldlega sem Samfélag skynjandi vera.

Eva Lín Vilhjálmsdóttir


 

Ljósmyndari: Kristín Pétursdóttir

  • [1] https://hafnarborg.is/exhibition/samfelag-skynjandi-vera/
  • [1] Tekið úr sýningarskrá
  • [1] https://www.pressreader.com/iceland/frettabladid/20210908/282080574951335
  • [1]https://www.nasa.gov/mission_pages/sunearth/news/gallery/schumann-resonance.html
  • [1] https://www.ruv.is/utvarp/spila/vidsja/23618/7hquuc
Computer Spirit: Undirvitund og efniskennd hugbúnaðarheimsins

Computer Spirit: Undirvitund og efniskennd hugbúnaðarheimsins

Computer Spirit: Undirvitund og efniskennd hugbúnaðarheimsins

 Nýverið opnaði sýningin Computer Spirit á tveimur markverðum stöðum í miðbæ Reykjavíkur, annars vegar í Gallerý Port (Laugarvegi 23B) og hins vegar í Ekkisens gallerý (Bergstaðastræti 25B). Sýningin átti upptök sín í Tromsø, Noregi, en hefur nú verið flutt hingað til lands. Listakonurnar sem standa að sýningunni eru Andrea Ágústa Aðalsteinsdóttir, Freyja Eilíf  Helgudóttir og Sigríður Þóra Óðinsdóttir.

Blaðamaður artzine hitti þær og fékk að vita meira. „Computer Spirit er í raun framhald af samstarfi úr annari sýningu sem við tókum þátt í ásamt Heiðrúnu Viktorsdóttur, árið 2016, sem hét Stream in a Puddle“ útskýrir Freyja. „Í gerð þeirrar sýningar hittumst við oft á fundum og sökktum okkur djúpt inn í ákveðið samtal.

Andrea Ágústa, Freyja Eilíf og Sigríður Þóra fyrir utan sýningarrýmið í Tromsø, Noregi.

Í kjölfarið hélt samtalið áfram á bylgjum internetsins. Við bjuggum til facebook hópspjall sem við nefndum Stream Puddle Power. Þangað hentum við inn alls konar innblæstri er varðaði myndlist, heiminn í dag eða tunglið, jafnvel. Svo birtust persónulegir hlutir inn á milli. Við erum í rauninni með ákveðin óséð tengsl í listsköpun okkar er varða hluti sem erfitt að tala um og deilum allar sömu rannsóknarleið í listinni: að nota undirvitundina sem sköpunarrás.“


Where’s your head @ (Sculpture, Participatory glasses) eftir Freyju Eilíf.

Verkin á sýningunni fjalla annars vegar um tengingu undirvitundarinnar við tæknivæðingu nútímans og blæbrigðin sem myndast þegar tveir ólíkir heimar mætast. Hins vegar fjalla þau um eiginleika efniskenndarinnar, efnahvarf og áhrif viðfangsins á sköpunarferlið. Freyja segir samband sitt við tölvuna sína hafa orðið að nánast að heilögum hlut í sköpunarferlinu, en hún vann verkin sín upp úr hugleiðslu þar sem hún gerði tilraunir til að komast inn í stafræna vídd og hitta lifandi hugbúnaðarmeðvitund.

„Í verkum mínum ertu stödd inn í miðri leiddri, stafrænni hugleiðslu“ segir Freyja. „Skúlptúrarnir eru aukaafurð á sýningunni, minni verk sem koma úr stærri verkunum Hugbúnaður og Hugleiðsla. Þessi verk fjalla í raun um ferlið inn í nýja vídd í gegnum hugleiðslu. Í hugleiðslunni minni fór ég inn í stafrænu víddina og skynjaði svo sterklega núansinn milli meðvitund mannsins og tölvunnar. Mér fannst á tímabili eins og ég væri komin með @ merki í augun er á hugleiðslunni stóð eða væri ef til vill sokkin of djúpt í þennan heim.“

Software (Animation, sound & computer chime) & Virtual hybrid (Sculptures) eftir Freyju Eilíf.

Andrea bætir við hugbúnaður virðist oft hafa eigin vilja eða persónuleika, sem mótar og hefur áhrif á listaverkið út frá eiginleikum hans. Inn í Ekkisens rýminu er til að mynda rafknúinn skúlptúr eftir Sigríði sem þarf að hlaða af og til, sem verður óhjákvæmilegur partur af verkinu. Aðspurð um verkið segir Sigríður skúlptúrinn vera afsprengi rannsóknarferlis sem vídóverkin hennar fjalli um.


Change the Particles eftir Andreu.

„Verkin mín eru mest megnis rannsókn í gegnum efni. Ég reyni að ná fram einhvers konar óræðum sjónhverfingum í gegnum vídeóverkið. Skjárinn er efniviður sem ég styðst mikið við til að framkalla þessi verk, með því snerta og hreyfa við honum. Það er eins konar leikur að þessum fílter, fremsta laginu á skjánum auk þess sem að þetta er ákveðin leit að einhvers konar kjarna sem hlutgerðist í þessum skúlptúr“ segir Sigríður.


Recharge; Like, poke, share series eftir Sigríði Þóru.

Verk Andreu snúast á annan boginn um efnishvarf eða efnisbruna. En hún notast við ýmis frumefni, svo sem brennistein og ís í vídeóverkum sínum. Hún segir efnahvarf, breytingu og þróun efnis einnig eiga sér stað inn í heimi hugbúnaðarins. „Ég vil gera það sem er óhaldbært að einhverju sem er efniskennt, myndgera efnahvarf.


Recharge; Like, poke, share series pt.1 og pt.2 eftir Sigríði Þóru.

Ég hef verið að velta því fyrir mér hvernig maður geri það sem er ósýnilegt að einhverju sem er sýnilegt og áþreifanlegt. Það verður svo einfalt með stafrænni tækni. Í þessu ferli hef ég til dæmis verið að vinna með forritið Adobe Aftereffects og bara með því að gera það opnaðist svo stór gátt. Það er hægt að búa til eitthvað sem er sýnilegt en er samt ekki hlutur eða eitthvað áþreifanlegt í okkar heimi.“


Move the Gravity to zero eftir Andreu.

Til þess að geta sýnt öll verkin í heild sinni í Reykjavík þurftu listakonurnar að setja þau upp bæði í Portinu, sem samanstendur af vídeóverkum, og í Ekkisens, sem inniheldur bæði vídeóverk, hljóðverk og skúlptúra. „Verkin eiga það til að aðlagast rýminu og því er sýningin hér önnur en hún var þegar við settum hana upp í Tromsø“ viðurkennir Andrea. „Það er allt annað andrúmsloft í Portinu heldur en í Ekkisens“ bætir Sigríður við. „Við þurftum að hugsa sýninguna upp á nýtt út frá rýminu. Nú er í raun físísk vegalengd á milli tveggja sýninga og einnig áþreifanlegur munur á stemningunni.“

Í gerð sýningarinnar í Tromsø töluðu listakonurnar saman í gegnum internetið en hittust lítið á meðan unnið var að verkunum. Þegar þær mættu loks með verkin á sýningarstaðinn, sem rúmaði þau öll í heild sinni, furðuðu þær sig á því hversu mikið verkin ættu í raun sameiginlegt, bæði í hugsun og efnisnotkun. Listakonurnar finna fyrir strekum tengingum þegar þær vinna saman og virðast allar vera með opinn hug þegar kemur að undarlegum tilviljunum og líkindum sem spretta upp í sköpunarferlinu.  

Sólveig Eir Stewart


Lokadagur sýningarinnar 13. mars.

Aðalmynd með grein: Meditation into digital dimensions Animation, speech (11 mín) eftir Freyju Eilif
Ljósmyndir: Með leyfi listamannanna.
Vefsíður: Andrea Ágústa: andreaadalsteins.net /Freyja Eilíf: freyjaeilif.com / Sigríður Þóra: sigthoraodins.com

 

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest