Salur til sölu

1.05. 2016 | Umfjöllun

Greinin hefur verið uppfærð

Þær fréttir hafa borist úr búðum ASÍ að stjórnin þar hafi ákveðið að selja húseign sem stendur við Freyjugötu 41 og hefur hýst Listasafn ASÍ undanfarin 20 ár. Tilkynning frá stjórn safnsins hljómar svo: „Listasafn ASÍ mun hætta starfsemi sinni að Freyjugötu 41 þann 3. október n.k. og til stendur að selja húsið. Safnið mun starfa áfram með breyttu fyrirkomulagi, án þess að reka eigið sýningarrými þar til annað verður ákveðið. Meginástæða þessara breytinga er rekstarvandi safnsins. f.h. rekstrarstjórnar Listasafns ASÍ Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, formaður rekstarstjórna.

Húsið hefur gengið undir nafninu Ásmundarsalur í höfuðið á Ásmundi Sveinssyni en húsið var byggt árið 1933. Arkitekt hússins var Sigurður Guðmundsson. Húsið hafði verið í eigu Ásmundar og fyrri konu hans Gunnfríðar Jónsdóttur, myndhöggvara og þar voru vinnustofur þeirra og íbúðarhúsnæði.

Húsið hefur frá upphafi verið miðstöð lista og menningar. Þar hafði Myndlistarskóli Reykjavíkur aðsetur og eiga margir starfandi myndlistarmenn minningar um að hafa verið þar á barnanámskeiðum og öðrum námskeiðum. Lífeyrissjóður Arkitekta eignaðst húsið 1978 og var Arkitektafélag Íslands þar með skrifstofur sínar sem og sýningarsal. Reykjavíkurborg keypti húsið 1995 með það fyrir augum að þar yrði starfræktur leikskóli. Þau áform féllu í grýttan jarðveg og það varð úr að Listasafn ASÍ keypti húsið undir starfsemi sína.

Safneignin sem Listasafn ASÍ heitir eftir kom til árið 1961 þegar Ragnar Jónsson í Smára iðnrekandi og bókaútgefandi gaf Alþýðusambandinu listaverkasafn sitt sem samanstóð af verkum þekktustu myndlistarmanna Íslands. Í þeim hópi voru meðal annars Ásgrímur Jónsson. Gunnlaugur Scheving, Jóhannes Kjarval, Nína Tryggvadóttir, Svavar Guðnason og Þorvaldur Skúlason. Ósk Ragnars var sú að stofnað yrði listasafn sem kæmi listinni á framfæri við vinnandi fólk í landinu.

Að sjálfsögðu er það ekki skylda ASÍ að eiga og reka þessa húseign en það hefði verið eðlilegt að fagfélög myndlistarmanna hefðu vitað af þessum áformum áður en húsið var sett á almenna sölu. Það er afar mikilvægt að þetta hús sé áfram vettvangur myndlistar eins og því var ætlað í upphafi. Ef rétt reynist að rekstrarvandi vegna ónógra fjárveitinga sé ástæða sölu þessa merkilega húss sýnir það að stjórnvöld eru áhugalaus um menningastarfsemi og líta í raun á fjárveitingar til menningar sem óþarfa fjáraustur og tíma þ.a.l. ekki að koma til móts við stofnanir sem þessa.

Fyrir hina öflugu listasenu sem starfar á Íslandi væri það mikil skellur að missa þetta hús, þennan vettvang. Það eru sífellt færri kostir í boði hvað varðar sýningarvettvang í miðborginni en flest gallerí sem störfuðu þar hafa horfið af svæðinu vegna óviðráðanlegs kostnaðar við að halda úti húsnæði.

Sterk þjóð heldur utanum og nærir menningarstarfsemi sína. Þó það hafi aldrei vafist fyrir talsmönnum þjóðarinnar að monta sig af afrekum hennar á sviðum hinna skapandi greina, virðist skorta á þann skilning að það þurfi að hlúa að jarðveginum sem listirnar spretta úr. Vonandi förum við að skoppa upp af botni aumingjaskaparinns en margt bendir því miður til að við munum fara enn neðar því það sér ekki fyrir endann á plebbismanum sem herjar af sligandi þunga á samtímann.

Myndlistin og aðrar listgreinar eiga á undir högg að sækja og það er lífsspursmál fyrir menninguna í landinu að þessari þróun verði snúið við hið snarasta.

Helga Óskarsdóttir

Ljósmynd fengin að láni hjá ja.is
Þakkir Sirra Sigrún Sigurðardóttir
Heiminldir: Tímarit.is
Vefur Listasafnd ASI
Wikipedia

Viðtal við Ragnar í Smára á pdf: hér

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest

Share This