Sálnasafnið – súrrealísk óvissuferð

Gjörningaklúbburinn framdi á dögunum afar sérstakan og marglaga gjörning á gjörningalistahátíðinni Everybody´s Spectacular. Reykjavík Dance Festival og Lókal stóðu að hátíðinni og stóð hún yfir frá 24.-28. ágúst. Gjörningaklúbburinn samanstendur af Eirúnu Sigurðardóttur, Jóní Jónsdóttur og Sigrúnu Hrólfsdóttur. Gjörningaklúbburinn var stofnaður árið 1996 og kom fyrst fyrir sjónir almennings með eftirminnilegum gjörningi í sjónvarpssal þegar þær tóku að sér að kynna gjörningakvöld með gjörning sem nefndur var Kossagjörningur þar sem þær kysstu hver aðra á skjá allra landsmanna.

Að þessu sinni situr Sigrún hjá en hún er í starfsleyfi frá Gjörningaklúbbnum vegna annarra verkefna, en Jóní og Eirún hafa fengið til liðs við sig fagfólk úr ýmsum listrænum áttum og skapað óvissuferð sem ætlað er að vekja spennu og gleði. Farið er á margbrotinn stað og gestir eru leiddir í gegnum sögu staðarins og aldurskeið manneskjunnar. Titill verksins á ensku er Psychography en hefur fengið hina íslensku þýðingu Sálnasafn. Fyrsta vísbendingin um innihald verksins er falin í titli þess. Óvissuferð gefur rými fyrir upplifun, dulúð, leiðangur, spennu og skemmtilegheit.

Allt þetta fengu gestir í gjörningnum Sálnasafni að upplifa. Farið var inn í rými og víddir sem undirritaðri fannst súrrealískar og óraunverulegar en á sama tíma nærtækar og þægilegar. Í raun mætti kalla uppákomuna framsetningu á lífinu og hinu liðna og mismunandi tónum þess þar sem hugarheimur, saga og hugmyndafræði Gjörningaklúbbsins og félaga þeirra úr listheiminum er sett fram.

Myndskreyttar aðstæður og drungaleg skúmaskot, minningar og langanir, þjóðsagnir og persónulegar hugrenningar. Gestunum er gert kleift að ganga inn í gjörninginn, inn í listina, með sínar hugmyndir í farteskinu en eru á sama tíma matreiddir með hugmyndum og sögu Gjörningaklúbbsins og staðarins þar sem gjörningurinn fer fram. Úr þessu verður skemmtilegt og litríkt samspil raunveruleikans og listarinnar. En hefjum nú ferðalagið.

UPPHAF

Áhorfendur eru aðeins sextán talsins og hafa fengið þær einu upplýsingar að vera vel skóaðir og klæddir eftir veðri, og að gjörningurinn taki að hámarki fjóra klukkutíma. Lagt er af stað með rútu frá Hallgrímskirkjutorgi, nánar tiltekið frá Listasafni Einars Jónssonar. Þeir sem hafa keypt sér aðgöngumiða, hittast á torginu og eiga sæti í rútunni. Það ríkir mikil spenna og tilhlökkun þegar fólk mætir. Hvergi sést þó til Gjörningaklúbbsins. Fólk hittist og spjallar saman, er þó feimið og veit í raun ekki hvað er í vændum. Það hvílir dulúð yfir verkefninu og spennan liggur í loftinu. Stúlka frá gjörningalistahátíðinni heldur á spjaldi og á því stendur Psychography. Hún safnar gestunum saman og leiðir þá inn í rútuna. Rútan leggur af stað og innan skamms fer í gang hljóðupptaka þar sem gestir rútunnar heyra að talað er um stað og hús, fólk sem þar hafi átt heima og fyrrverandi íbúa hússins sem neitar að yfirgefa staðinn þó löngu dauður sé. Gjörningamaddömurnar hafa fengið miðilinn Brynju Magnúsdóttur Lyngdal á staðinn til að hrekja út óæskilega anda til að hægt sé að fremja þar gjörning. Grafarþögn er í rútunni og gestirnir hlusta einbeittir á frásögnina. Þar heyrist að gengið er um húsið og miðillinn sér fyrri ábúendur. Það læðast um rútugesti blendnar tilfinningar og örlar á ótta hjá sumum.

eirunogjoni1Veðrið er yndislegt, birtan leggst á fjöllin og umvefur rútugesti en upplýsingarnar sem hljóma á hljóðbandinu eru dulúðlegar og drungalegar. Gestir spekúlera hvert förinni er heitið og koma með getgátur og að endingu staðnæmist rútan í Hvalfirði við bæinn Hvammsvík í landi Hvamms í Kjós. Samkvæmt Landnámabók er Hvammur gömul landnámsjörð þar sem Hvamm-Þórir nam land og bjó en fram kemur í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns að Hvammsvíkur er fyrst getið sem hjáleigu á 17. öld. Hernaðarumsvif voru í Hvalfirði í síðari heimsstyrjöldinni og segir Friðþór Eydal í grein sem hann birtir í Morgunblaðinu að bandamenn hafi komið sér upp aðstöðu hér á landi „til að fylgjast með og hefta siglingar þýskra herskipa og verja skipaleiðir sínar á norðaustanverðu Altantshafi“. Í Hvammsvík var reist birgðastöð fyrir skotfæri og djúpsprengjur flotans og einnig var þar tómstundaheimili fyrir skipshafnir Bandaríkjaflota. Mikil saga einkennir staðinn og Eirún og Jóní segja þær hafi fundið fyrir þeirri sögu á meðan á undirbúningi stóð. Miðill þurfti til að mynda frá að hverfa og annar kom í hans stað til að hægt væri að halda áfram með verkefnið.

Maddömurnar Eirún og Jóní taka á móti gestum þegar rútan rennur í hlað í Hvammsvík. Þær eru klæddar í upphlut í stríðslitum og plíseraðar ferskjulitaðar silkiblússur. Búningurinn er hannaður af Gjörningaklúbbnum sérstaklega fyrir verkið og saumaður af Söru Maríu Skúladóttur klæðskera. Maddömu eru með snúða sem má líkja við skúlptúra í hárinu og appelsínugula málningu á augum undir Ray Ban sólgleraugum en förðun og hár er í höndum Fríðu Maríu Harðardóttur förðurnarmeistara. Maddömurnar eru ákveðnar og kotrosknar eins og maddömur eiga að sér að vera, bjóða gesti velkomna og vísa þeim í hús neðst á landareigninni. Þar er gestum gert að setja síma og aðra hluti í glæra plastkassa til geymslu. Því næst er þeim sagt að safnast í hring og loka augunum. Ákveðinn ótti við staðinn og það sem framundan er hefur læst um sig í áhorfendum eftir að hafa hlýtt á sögu staðarins í rútunni. Gestum er því létt þegar tekið er mjúklega um hönd þeirra, band dregið á úlnliðinn og þeim sagt að opna augun. Liturinn á bandinu segir til um hvaða hóp þeir tilheyra, nánar tiltekið hvaða fjölskyldu. Maddömurnar leiða gesti sína yfir í næsta rými, sem er fjárhúsið.

FJÁRHÚS

11

Þar eru fjögur borð og á hverju þeirra liggur leiðsögukort. Þeir gestir sem eru með brúnt band tilheyra Ewing fjölskyldunni, Kennedy fjölskyldan skartar gulu bandi, Kardashian klanið ber rauð bönd og Von Trapp fjölskyldan hvít. Þær sækja í kunnulegan efnivið og böndin eru klippt nælonsokkabuxnabönd en nælonsokkabuxur hafa oft verið sýnilegar í verkum Gjörningaklúbbsins á 20 ára ferli þeirra og jafnframt algengur efniviður í verkum femínískra listkvenna. Þær stöllur Eirún og Jóní taka það strangt fram, með sinni staðföstu röggsemi að nú eigi hver fjölskylda að fara í hópum og þræða gjörninginn, þær megi hjálpast að við að leysa verkefnið og nú reyni á samheldni og samvinnu, en að sjálfsögðu megi spyrja staðarhaldara ef eitthvað kunni að vera óskýrt. Samvinna hefur verið leiðarstef Gjörningaklúbbsins frá upphafi og þannig hafa þær virkjað kraftinn sem í þeim býr. Nú reynir á fjölskyldurnar að gera slíkt hið sama. Leiðsögukortin sýna Upphaf og Endi, Fjárhúsið, Hól, Vernd, Húsið, Völl og Losun og einnig Náðhús ef einhverjum skyldi verða mál. Þetta eru jú fjórir klukkutímar sem þykir býsna langt fyrir listviðburð á íslenskan mælikvarða en er álíka langt og japanskt Kabuki leikhús. Undirrituð tilheyrir Von Trapp fjölskyldunni sem er kát fjölskylda og músíkölsk en hefur þurft að flýja heimkynni sín vegna stríðs. Þeim er bent á að byrja í Hóli. Fjölskyldan skundar upp hæðina, upp að Hóli þar sem huldukona tekur á móti þeim, litrík og fögur í kunnulegum búningi úr eldri gjörningi, með litríka ofna slá og höfuðfat úr fléttuðum nælonsokkabuxum. Álfkonan er túlkuð af Sögu Sigurðardóttur dansara.

03

Hún gefur hópnum krukku með mjöð og áfram er haldið upp hlíðina þar sem valkyrjan býður fjölskyldunni að setjast inn í svart tjald sem alsett er hvítri blúndu og litríkum vafningum. Hún segir ekki orð og gestir ekki heldur. Hún ber gull um hálsinn og þjóðsagnaminni liggja í loftinu. Þarna ríkir algjör kyrrð og yndisleg þögn, eftirvænting og spenna. Út um tjaldopið má sjá Hvalfjörðinn í allri sinni dýrð sveipaðan sólargeislum og undirrituð upplifir hið undurfagra, hið súblíma í miðjum gjörningi á mánudagssíðdegi á meðan dansarinn hellir upp á íslenskt te úr gullmöðru í anda japanskrar tehefðar.

Það er áhugavert hvernig Eirún, Jóní og félagar ná að vísa í marga áðurframda gjörninga og áðurkveðin minni með kunnulegum munum og búningum. Aðspurðar hvort femínisminn sé á undanhaldi í gjörningum þeirra segja þær svo ekki vera, og enn séu þær að ögra samfélaginu með litlum myndrænum skrefum er hrófla við feðraveldinu og hinu karllæga samfélagi myndlista. Maddömmurnar eru jú konur og þær ráða ríkjum á jörðinni, þær gætu verið par eður ei sem vísar í nútímasamfélag þar sem rými er fyrir alla, konur og karla, samkynhneigða og gagnkynhneigða eða hvernig sem því er háttað.

01

VERND

Von Trapp fjölskyldan kveður Hól og hina undurfögru kynlausu veru er þar hefst við og tekur stefnuna í Vernd þar sem maddama Jóní fer með hvern gest inn í rými sem er umlukið brúnum þungum klæðum. Þar blessar hún gestinn og veitir honum styrk og vernd áður en leið hans um Húsið hefst, sama hús og kom fyrir í hljóðupptökunni á leið gesta að Hvammsvík og hússins sem getið er í Landnámu og ku hafa verið reimt. Þar skín titill verksins í gegn, Sálnasafn, því þar taka á móti gestum ýmsar sálir, sem bera sína krossa. Fjölskyldumeðlimir fara einn og einn inn í húsið og fylgja fyrirmælum Eirúnar. Á utanverðum húsveggnum hanga heiðagæsir og búið er að loka fyrir einn glugga með þykku laxableiku efni í plíseringum. Þessi sýn er falleg og húsið er fagurt þar sem það stendur í hlíðinni. Venjulegt gamalt steinhús sem stendur yfirgefið, eður ei, og raunveruleikinn er settur í leiktjöld eða gjörningatjöld öllu heldur. Myndlistin og leikhúsið mætast hér í samruna beggja miðla sem er þó skilgreindur sem myndlistargjörningur af þeim Eirúnu og Jóní.

Undirrituð heldur fyrst upp á efstu hæð hússins um mjóan teppalagðan stiga og er þangað er komið gengur hún inn í unglingaherbergið sem er rautt og hvítt, alsett poppkorni. Svo óraunverulegt en samt svo raunverulegt ef í það er spáð. Þar finn ég fyrir unglinginn sem Valgerður Rúnarsdóttir dansari túlkar. Unglingurinn er ófeiminn, spjallar og spyr hvort ég vilji naglalakk og ég játa því. Fæ eina nögl málaða túrkísbláa og því næst reynir unglingurinn að koma sér út um gluggann án mikils árangurs en þó með fögrum og fallega klaufskum og barnslegum hreyfingum að hætti atvinnudansara. Ég ákveð að vitja þess sem er í næsta rými en þar er að finna svartnætti rýmis og tíma. Ég er tvístígandi við að ganga inn í óvissuna sem býður mín en tek þó áhættuna því ég finn að í raun er ekkert er að óttast. Það reynist rétt og inn í rýminu er svartur hægindastóll og taktmælir í glugganum sem slær taktinn frá hægri til vinstri, tikk, takk, tikk, takk. Ég sit þarna í dálitla stund, dreg andann djúpt og hugsa um söguna af fólkinu í húsinu en finn ekki fyrir neinu nema góðu. Enda ekki nema von því í næsta rými er vonin og lífið, þar sem hægt er að gægjast inn um vagínuop þar sem allt er hvítt og mjúkt. Þar inni má sjá hitalampa, dúnsængur, bómul og fleira sem vísar í ljósmæður og fæðingu ungviðis. Þær Eirún og Jóní höfðu einmitt fengið fregnir af ljósmóður úr handanheimum sem sæist stundum í vesturglugga hússins. Þarna er gott að vera en að endingu dreg ég andlitið út úr leggöngunum og færi mig niður á næstu hæð.

05

Á þeirri hæð tekur eldhúsið á móti mér. Þar hitti ég fyrir mann sem er gömul lifuð sál og er leikinn af Sveini Ólafi Gunnarssyni leikara. Hann er góðlegur og vingjarnlegur en samt sem áður fær maður á tilfinninguna að ekki sé allt sem sýnist. Hann býður mér að setjast niður og þiggja kaffi og kleinur. Tilvísanir í gamla siði og húsmóðurstörf má sjá í eldhúsinu en nú er hlutverkunum snúið við og karlmaður stendur þar við borð og segir sögur á meðan hann hellir upp á kaffi. Umgjörðin er sjúskuð og langt frá því að vera mínimalísk. Þurrkaður gróður hangir á víð og dreif og það glittir í haglabyssu sem ég hef áður séð í gjörningnum Dynasty frá árinu 2007.

06

Eftir smá spjall og kaffisopa biður maðurinn mig um að dýfa höndum mínum í deig á borðinu og fara með þulu, síðan leiðir hann undirritaða að dyrum sem vísa að næsta herbergi og segir: „Þú snýrð ekki hingað aftur og leyniorðið er: Ástin sigrar allt“.

Handan við dyrnar tekur við rými sem er bjart og kalt á sama tíma með einkennilegri lykt sem undirrituð áttar sig ekki á. Inni í nælonsokkabuxum sem festar hafa verið í loftið hanga steinar og gestir þurfa að komast þarna í gegn ætli þeir sér í næsta herbergi. Herbergið eða innsetninguna kalla þær Eirún og Jóní Sátt og á þessum stað í húsinu fann miðillinn mikla neikvæða orku sem stafaði frá manninum sem vildi ekki yfirgefa húsið fyrr en degi fyrir frumsýningu gjörningsins. Út um gluggann sem snýr í suður má sjá stórt fótboltamark niðri á velli alsett köðlum og þráðum í hinum ýmsu litum. Karlmaður með svartan pípuhatt og tölvu dansar þar um í einhvers konar samtali við sjálfan sig. Ég staldra aðeins við en mér finnst ekki þægilegt að vera í þessu rými þannig að ég banka á næstu hurð. Þar tekur á móti mér frönsk stúlka frá stríðsárunum leikin af Eddu Björg Eyjólfsdóttur leikkonu.

07

Herbergið lyktar af ódýru ilmvatni, viskí og vindlareyk. Þungar flauelsgardínur eru fyrir gluggum og stúlkan sem virðist hafa lifað eitt og annað talar við undirritaða á frönsku. Við ræðum yfirborðslega um hvað megi bjóða mér; frönsk ilmvötn, sígarettur eða nælonsokkabuxur. Andi stríðsáranna liggur í loftinu og greinileg vísun í þau í munum sem hefur verið raðað upp í herberginu og í útliti og fasi maddömmunar sjálfrar. Skemmtanalíf og taumlaus „gleði“ einkennir rýmið eins og gerði í raun á stríðsráunum í húsinu öllu.

08

Á fyrstu hæðinni er magnað rými þar sem búið er að mála herbergið í ljósum ferskjulit, ljósdrappaður sandur er á gólfum og ljós og létt tjöld á veggjum hylja gluggana. Mjög hlýlegt er í herberginu en óraunverulegt á sama tíma. Þar inni stendur píanóskemmtari og harmónikka og yfir hangir stór spegill. Sitthvoru megin við standa tveir hátalarar. Þar tekur á móti mér afar líflegur og jákvæður píanókennari að nafni Vera Helgadóttir sem leikinn er af Thelmu Marín Jónsdóttur leikkonu. Þetta rými er engu líkt og vellíðan færist yfir undirritaða. Ég og annar meðlimur úr Von Trapp fjölskyldunni erum þar inn á sama tíma. Kennarinn spyr til nafns og býður okkur velkomin í tímann og býður mér að setjast. Ég sest við hljóðfærið og hún biður mig að spila. Hvetur mig áfram og hrósar á meðan hinn meðlimur fjölskyldunnar spilar á harmóníkuna. Eftir nokkra stund kíkir hún út um gluggann og segir að það sé komið að sækja mig, lætur staðar numið og kveður. Það er erfitt að lýsa stemmningu og tilfinningu en þarna var eitthvað alveg sérstakt á ferðinni, eitthvað ólýsanlegt sem nær tökum á áhorfandanum og leiðir hann í skemmtilegar víddir, eitthvað sem minnir á bernskuna, eitthvað sem ekki er hægt að festa fingur á. Eirún maddama kallar á undirritaða úr gjallarhorni fyrir utan hús og biður mig vinsamlegast um að drífa sig.

Maddömurnar standa fyrir utan hús og spjalla við bústörfin með skóflur í hendi og hætta ekki að vinna þó við göngum fram hjá. Þegar undirrituð snýr sér við og horfir upp hlíðina má sjá fjórar sængurkonur, klæddar í dúnsængur úr gjörningnum Von sem Gjörningaklúbburinn framdi árið 2000. Þær fikra sig rólega upp með hlíðinni í birtunni og vísa í vonina. Þetta er alveg mögnuð sýn.

 LOSUN

09

Næst á dagskrá hjá Von Trapp fjölskyldunni er losun í innsetningunni Losun. Þar er dregill upp að dyrum, þó ekki rauður og dyravörður túlkaður af Sigrúnu Gyðu Sveinsdóttur sem hamlar fjölskyldunni inngöngu. Einn fjölskyldumeðlimur má fara inn í einu og undirrituð fær að fara inn eftir nokkra stund vegna góðrar hegðunar í röðinni. Inni í rýminu er eins manns diskó með diskókúlu og tónlist. Undirrituð er mjög meðvituð um að hægt er að sjá hana í gegnum gluggann og þetta rými er hvað erfiðast af öllum þeim rýmum sem hafa verið þrædd, því þarna er gesturinn á eigin vegum með sjálfum sér og enginn er til þess að skemmta honum nema hann sjálfur. Ég dansa aðeins en þó feimnislega og fer ekki á flug þó sumir gestir missi sig þarna inni og dansi hömlulausir í takt við tónlistina. Má gera ráð fyrir að þetta rými sé vísun í verkið Diskló þar sem Gjörningaklúbburinn setti diskótek upp á klósetti með diskókúlu og danstónlist og gat fólk þá dansað í einrúmi á klósettinu.

Þegar Von Trapp fjölskyldan hefur lokið við að losa um höftin í Losun bjóða maddömurnar upp á heimabakaðar rúllutertur og sandkökur og malt og appelsín. Þar sem við sitjum og ræðum upplifunina, eilítið feimin ennþá eftir losunina þá koma maddömurnar aðvífandi á fjórhjóli, Lórunni eins og þær kalla farartækið.

10

Þessi sýn er yndislega kómísk, þær mega nú ekki vera að neinu hangsi en spjalla við gesti og athuga birgðastöðu á veitingum. Að því búnu stíga þær aftur upp í lóruna og bruna á brott, önnur standandi kotroskin og svöl á sætinu. Von Trapp fjölskyldan hlær og spjallar saman og undirrituð lítur upp að húsinu þar sem unglingurinn hangir hálfur út um gluggann á húsgaflinum og reynir að ná sambandi við gesti, klædd rauðu og hvítu og litaðir kaðlar eru þræddir út í tré. Fegurðin í innsetningum og sviðsetningum í Sálnasafni er dásamleg og erfitt að lýsa því hvernig áhrif þær hafa.

Þegar fjölskyldan hefur lokið við að fá sér hressingu átta þau sig á því að þau eiga að snúa aftur á byrjunarreit; í upphafið, sækja föggur sínar og fara um borð í rútuna sem skilar þeim á upphafsreit hjá Hallgrímskirkjutorgi. Á leiðinni heim spjalla gestir saman og ræða upplifunina sín á milli. Gestirnir sextán eru kátir og glaðir eftir skemmtilega og fjölbreytta upplifun. Samt sem áður örlar á spurningum og óvissuþáttum á meðal gesta sem þeir ræða af áhuga í rútunni. Gestirnir sem voru feimnir og þöglir á leið á gjörning hjá Gjörningaklúbbnum eru nú málglaðir og spjalla um óvissuþætti og upplifunina alla. Takmarkinu hjá þeim Eírúnu og Jóní er líklega náð því í viðtali við Júlíu Marínósdóttur sem birtist í artzine segja þær að óvissan, bæði hin daglega óvissa og hin menningarlega sé eitt af markmiðum verksins.

ENDIR

Gjörningurinn Sálnasafn er marglaga óvissuferð sem lætur engan ósnortinn. Þessar safaríku sviðsmyndir eru greiptar í hugann. Smáatriðin eru óteljandi og áhugaverð og undirrituð er enn að hugsa um eitt og annað sem átti sér stað á þessu fjögurra tíma ferðalagi. Persónusköpunin er vel unnin og skemmtilegt er hvernig þær stöllur fá félaga sína, listamennina í lið með sér í þeirri vegferð. Árið 2011 fékk Gjörningaklúbburinn frjálsar hendur við gjörning sem þær frömdu í Lilith Performance Studio í Malmö og þar stóð þeim til boða mannskapur til að taka þátt í gjörningnum með þeim. Áhugafólk sem var til í að vera með. Upp frá því fór að gerjast hugmynd um að fá fólk og fagfólk með sér í lið. Það gerðu þær í gjörningnum Hugsa minna, skynja meira í Listasafni Íslands árið 2014 þar sem þær könnuðu mörkin milli myndlistar og leiklistar og „sameinuðu óbeislaða óvissu gjörningalistar og dramatíska persónusköpun leikhússins“ eins og segir á heimasíðu þeirra.

vef-hopmyndtil

Sálnasafn er einnig á mörkum myndlistar, leiklistar, danslistar og annarra listforma og byggir á fyrrnefndum gjörningi en það sem er nýtt á nálinni í Sálnasafni er að Eirún og Jóní fá til liðs við sig fagfólk úr listheiminum; leikara, dansara, myndlistarmenn, miðil, förðunarfræðing og klæðskera til að mynda og í stað þess að segja þeim nákvæmlega hvað viðkomandi á að gera, gefa þær hverjum fyrir sig útgangspunkta og hugmyndir og síðan fær fagfólkið að spinna sinn eigin vef í þeirra heimi. Þetta gerir það að verkum að verkið verður marglaga og dýnamískt og jafn áhrifaríkt og raun ber vitni. Samt sem áður vilja þær stöllur meina að verkið sé ekki háð tilviljunum heldur hafi allt átt að gerast á þennan hátt, á þessum stað.

Gjörningaklúbburinn fer sínar eigin leiðir. Svo mikið er víst. Þær Eirún Sigurðardóttir, Jóní Jónsdóttir og Sigrún Hrólfsdóttir hafa á síðustu tveimur áratugum haldið gjörningum á lofti í íslenskri myndlistarsenu og haft metnað, jafnrétti, samfélagsádeilu, umhverfisvernd og húmor að leiðarljósi. Í lok október opnuðu þær sýningu í AROS listasafninu í Arhus sem ber titilinn Ástin sigrar allt og framundan er framhaldssaga Sálnasafns þar sem verkið öðlast nýtt líf í öðrum miðlum. Það eru spennandi tímar framundan og vert að fylgjast með.

Ástríður Magnúsdóttir 

 

HEIMILDIR:
Friðþór Eydal. „Hernaðarumsvif í Hvalfirði eftir heimsstyrjöldina síðari“, Morgunblaðið, 3. janúar 1999.
Gjörningaklúbburinn/ The Icelandic Love Corporation. Listasafn Reykjavíkur. 2007.
Heimasíða Everybody´s Spectacular. http://www.spectacular.is/icelandic-love-corporation
Heimasíða Gjörningaklúbbsins. http://www.ilc.is
Íslenzk fornrit. Landnámabók, Reykjavík.
Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns I-XIV, Kaupmannahöfn 1913-43, Reykjavík. 1990.
Samtal greinahöfundar við Gjörningaklúbbinn; Eirúnu Sigurðardóttur og Jóní Jónsdóttur, 15. september 2016.

LJÓSMYNDIR:
Gjörningaklúbburinn © Ljósmyndari: Ásta Kristjánsdóttir
Mynd af leiðsögukorti: Ástríður Magnúsdóttir

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest

Share This