Magnaður gjörningur Katrínar Ingu Hjördísardóttur

Mengi á mánudagskvöldi. Tilefnið eru gjörningar. Listakonan Katrín Inga Hjördísardóttir er síðust á svið til að fremja gjörninginn HÖFNUN – Ofar mannlegum hvötum í samstarfi við Futuregrapher. Hljómflutningsgræjum hefur verið komið fyrir á eikarskenk aftast í hvítu sýningarrýminu. Fyrir miðju gólfsins stendur lítið trampólín og búið er að raða tólf eggjum á blátt efnið í miðju þess. Tveir hljóðnemar standa sitthvoru megin við trampólínið og tveir stórir svartir hátalarar standa í sínu hvoru horninu fyrir aftan. Katrín Inga gengur í salinn með lítinn rafmagnsgítar, gulan að lit. Hún er klædd í bláan hlýrabol og svartar blúndunærbuxur og fyrir andliti hennar er hvít gríma. Hún byrjar að hoppa á trampólíninu og þenur gítarinn. Eggin taka að brotna eitt af öðru og innihald þeirra rennur í gegnum bláan dúkinn undir fótum Katrínar og niður á gólfið. Futuregrapher stjórnar græjunum á skenknum í bakrunni, klæddur appelsínugulum regnstakk. Katrín Inga heldur áfram að hoppa og fer með frumsaminn texta sem hljóðnemarnir nema sitthvoru megin við hana. Sýnin er eins og málverk, þar sem listamaðurinn hefur hugsað út í myndbyggingu og litaval, nema hvað að málverkið er á hreyfingu.

Í texta Katrínar Ingu segir: „Þú veist alveg hvernig mér líður – ég hef alveg tekið nógu mörg dramaköst þar sem þráhyggjan mín hefur leikið aðalhlutverkið – ég er bara að fókusa á sjálfsaga – er með tilfinningarnar mínar í einskonar ritskoðun – en ég sakna tíma okkar saman – það virkar ekki að þröngva nærveru manns inn í mengi – inn í mengi þar sem nærverunni er ekki óskað – en ég veit ekki hvernig þér líður.“[1]

Gjörningar eru lifandi atburður eða uppákoma sem á sér stað í rauntíma, þar sem listamaður eða listamenn koma fram í eigin persónu fyrir framan áhorfendur.[2] Gjörningurinn er milliliðalaus túlkunarmiðill sem þarfnast aðeins viðveru listamannsins og áhorfenda. Hann býður upp á mismunandi tjáningaraðferðir og áhorfandinn er í beinu sambandi við listamanninn á meðan á gjörningi stendur.[3] Áhorfandinn verður þar af leiðandi hluti af gjörningnum og upplifir hann á lifandi hátt, ekki ósvipað sviðslistum. Gjörningalistamaðurinn, sem er allt í senn rithöfundur, framleiðandi, leikstjóri og leikari, er þó fyrst og fremst myndlistarmaður sem hefur litla eða enga reynslu af leiklist.[4] Í gjörningum ríkir frelsi til athafna, miðillinn er aðgengilegur áhorfendum og því hentugur til að koma persónulegum og/eða pólitískum hugmyndum til skila.

Halldór Björn Runólfsson listfræðingur hefur eftir Magnúsi Pálsyni í upphafi bókarinnar Icelandic Art Today að gjörningar séu „the craziest of all artistic activity“.[5] Jaðarform voru þeir vissulega og geta að sjálfsögðu verið brjálæðir og vissulega brjálæðislegastir af öllum listrænum athöfnum. Gjörningar eru þó einn angi margbreytileika myndlista og gjörningurinn á rætur að rekja allt aftur til þess að fútúturistar notuðu líkamstjáninguna til að koma hugmyndum sínum á framfæri í byrjun 20. aldar.[6] Hugmyndafræði Dadahreyfingarinnar í byrjun aldarinnar og síðar Fluxus og hugmyndalista upp úr 1960 áttu sinn þátt í að þróa gjörningalistformið. Hugmyndalistin kveikti á sinn hátt í gjörningnum en inntak hugmyndalista er sú að hugmyndin er æðri listaverkinu sjálfu.[7] Gjörningar urðu á því tímabili eins konar leikin aðgerð á þeim hugmyndum. Gjörningarnir gáfu hugmyndinni líf og gerðu hana raunverulega.[8] Gjörningar urðu þó fyrst til sem sjálfstætt myndlistarform í eiginlegri merkingu orðsins á áttunda áratug síðastu aldar.[9]

Gjörningur Katrínar Ingu er dramatískur og afar persónulegur eins og oft á við um gjörninga kvenna. Af textanum má álykta að Katrín sé að takast á við eigin tilfinningar eftir sambandsslit. Hún leggur þær á borð fyrir almenning og berskjaldar sig. Það er aðdáunarvert og meira en margur gæti hugsað sér. Þrautsegja hefur einkennt Katrínu Ingu og verk hennar í gegnum árin. Hún heldur ótrauð áfram og er óhrædd við að reyna á þolmörk listarinnar sem og sín eigin mörk, líkamleg og andleg. Gjörningurinn HÖFNUN – Ofar mannlegum hvötum er líkamlega og andlega erfiður. Tónarnir í gítarnum eru í takt við endurtekið hopp listakonunnar. Gjörningurinn dregst á langinn og síðustu metrarnir eru teygðir eins og oft á við um sambönd sem komin eru á endastöð. Að endingu snýr hún baki í áhorfendur og slær einn og einn tón en er hætt að tala. Þögnin, hoppið og einstaka tónn er það sem stendur eftir. Katrín nær með einlægni sinni og hæfileikum að fanga áhorfandann í frábærum og mögnuðum gjörningi.

Katrín Inga Hjördísardóttir útskrifaðist af myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2008. Árið 2012 útskrifaðist hún með BA próf í listfræði og listasögu frá Háskóla Íslands. Því næst hélt hún til New York og lagði stund á meistaranám í myndlist við School of Visual Arts og útskrifðist þaðan með MFA árið 2014.[10] Katrín Inga hefur verið iðin við sýningarhald síðan hún útskrifaðist úr LHÍ. Hún áttaði sig á því hvað gjörningaformið er öflugt myndlistarform þegar hún stundaði nám í Listaháskóla Íslands og hefur verið iðin við að fremja gjörninga síðan ásamt því að vinna í aðra miðla.

Gjörningurinn HÖFNUN – Ofar mannlegum hvötum var fluttur í tónlistarhúsinu Mengi þann 7. mars 2016.

Ástríður Magnúsdóttir

Listfræðingur og myndlistarmaður

[1] Katrín Inga Hjördísardóttir. Gjörningur í Mengi. 7. mars 2016.

[2] Michael Bird, 100 Ideas that changed Art, 183.

[3] Harpa Þórdsóttir, „Gjörningar, tímatengd verk og myndbandalist“, 147.

[4] Withers, „Feminist Performance Art: Performing, Discovering, Transforming Ourselves“, 158.

[5] Magnús Pálsson í Icelandic Art Today, 21.

[6] Goldberg, Performance Art: From Futurism to the Present, 11-13.

[7] Sama, 7-8.

[8] Harpa Þórdsóttir, „Gjörningar, tímatengd verk og myndbandalist“, 145.

[9] Goldberg, Performance Art: From Futurism to the Present, 7.

[10] Heimasíða Katrínar Ingu Hjördísardóttur, sótt 21. maí 2016, http://dottir.info

Heimildir:

Bird, Michael. 100 Ideas that changed Art, London, Laurence King Pubishing, 2012.

Goldberg, Rosalee. Performance Art: From Futurism to the Present, London: Thames  and Hudson, 2011.

Harpa Þórsdóttir. „Gjörningar, tímatengd verk og myndbandalist“, Íslensk Listasaga:  frá síðari hluta 19. aldar til upphafs 21. aldar, V bindi: Nýtt málverk,  gjörningar og innsetningar, 143-213, Reykjavík: Forlagið og Listasafn  Íslands, 2011.

Katrín Inga Hjördísardóttir. Gjörningur í Mengi. 7. mars 2016.

Katrín Inga Hjördísardóttir. Heimasíða. http://dottir.info Sótt 21. maí 2016.

Withers, Josephine. „Feminist Performance Art: Performing, Discovering, Transforming Ourselves“, The Power of Feminist Art, Norma Broude og Mary  D. Garrard ritstj., 158-173, New York: Harry N. Abrams, 1994.

Halldór Björn Runólfsson. „Times of Continuous Transition: Icelandic Art from the  1960s to Today“, Icelandic Art Today, Christian Schoen og Halldór Björn Runólfsson ritstj., 10-27, Ostfildern: Hatje Cantz, 2009.

UA-76827897-1

Pin It on Pinterest

Share This