List og listmarkaðir I. Hluti

10.05. 2016 | Umfjöllun

London, Kaupmannahöfn og Reykjavík

Doktorsritgerð mín Commercial Galleries in Copenhagen, London and Reykjavík: a comparative study of the formations, contexts and interactions of galleries founded between 1985 and 2002, er samanburðar rannsókn á samhengi og samskiptaferlum gallerista og sölu gallería í Austur-London (East End), Íslandsbryggju í Kaupmannahöfn og Reykjavík á ofangreindu árabili. Hvatinn að rannsókninni var velgengni ,,YBA‘‘ hópsins á Bretlandi og skyndileg sprenging í fjölda samtímalista gallería í Austur-London. Þessi umskipti orsökuðu bylgjuhreyfingar um gjörvallan listheiminn og skyndilegum sýnileika sölugallería og gallerista. Þetta efni hafði að mestu verið látið afskiptalaust af menningar- og safnafræðingum og skapaði því sóknarfæri fyrir rannsókn sem myndi leggja grunn að nýjum skilningi á þessum mikilvægu menningarsrofnunum.

Rannsóknir og útgefnar bækur um gallerista og gallerí eru fjölbreyttar og innihalda bæði almenna og sérhæfða sýn á gallerista sem óþarfa meðalmenni sem rúin eru sköpunarhæfileikum. Í margra augum eru þeir ekkert annað en sérhæfðar búðarlokur í þjónustu yfirstéttarinnar sem hafa ómerkilegt stuðningshlutverk. Sjóaðri gagnrýnendur hafa litið á gallerista sem feimulegt samsærisfólk og siðlausar afætur: nauðsynlega en ógeðfelda kapítalista sem notfæra sér söluvænleika myndlistar fremur en að vera merki um frumkvöðlastarf og sköpunarhæfileika. Í gagnrýnu mati sínu á galleristum hafa bæði listamenn og fræðimenn haft tilhneigingu til að líta á sölugallerí á grundvelli markaðsmisnotkunar og hagfræði. Af þeim sökum eru galleristar faldir leikarar í umræðum um listheima sem byggðir eru upp af rétthærri þátttakendum á borð við listamenn, sýningarstjóra, fræðimenn, gagnrýnendur, safnara og fleiri. Jafnvel í almennu lesefni um stefnumál stjórnvalda, æsandi list, samsæriskenningar, hátt verð, smygl og falsanir ber lítið á galleristum. Að þessu gefnu er þessari rannsókn ætlað að líta á þessa listheima frá fersku sjónarhorni og kynna til sögunnar dýpri lestur á galleristanum.

Mikilvægasta uppgötvun þessarar rannsóknar hvað þetta varðar er að benda á að galleristar líta á fyrirtæki sín á afar listrænum forsendum: þeir líta á gallerí sín líkt og listamaður á eigin innsetningu. Á fremur óvæntan hátt skortir gallerista oft viðskiptalega innsýn, en í stað þess fylgja þeir sinni eigin skapandi listrænu sýn. Þeir eiga ekki einvörðungu þá ósk heitasta að gallerígestir kaupi list heldur einnig að þeir sjái listrænar innsetningar þeirra; galleríin sem myndverk í sjálfum sér. Þessi gallerí gera ekki einfalda og yfirborðslega kröfu um stíl því margir galleristar hafa djúpa tilfinningu fyrir því sem þeir gera. Að hluta til á þetta rætur að rekja til þátttöku þeirra í framvarðarsveit listræns frumkvöðlastarfs og þeirri sköpunargáfu sem fólgin er í því að bera kennsl á listrænar nýungar. Í heimi sem er samhliða listrænum árangri listamanna eru galleristar að virkja list í samfélaginu og leggja sinn skerf til almennrar viðurkenningar á sjónlistum. Þeir eru gagnrýnir á listamenn og tengsl þeirra eru byggð á gagnkvæmu flæði fremur en að galleristinn sé afæta.

Í rannsókninni er leitast við komast handan ofur-einföldunar á galleristum með samanburðar greiningu á galleristum í mis stórum og mis einanguruðum evrópskum borgum og á ólíkum stigum fjölþjóðlegra samskipta. Í og á milli þessara samhangandi þátta hefur þessi rannsókn leitað eftir fíngerðari frásögn af sambýli listamanna og gallerista þar sem báðir aðilar deila með sér hugmyndinni um nýungar. Hér eru á ferðinni – andstætt kenningum Bourdieus sem lagði mikið til viðvarandi vantrausts á galleristum[1] – sameiginlegur áhugi á gagnkvæmum stuðningi og sköpunarkrafti gallerista og listaamanna.

Rannsóknin leiddi einnig í ljós breytilegt mikilvægi staðbundinnar, þjóðlegrar og alþjóðlegrar framleiðslu og samskipti samkvæmt aljóðlegri stöðu staðbundins markaðar og raunar stærð og mikilvægi hlutaðeigandi borgar og þjóðar. Á þessuum grundvelli er byggð sú hugmynd að rétt sé að nota fleirtölumyndina list heimar. Rannsóknin hefur því stigið inn í þessa ólíku listheima í þeim tilgangi að staðsetja og skilja gallerista á grundvelli þess að greina viðtöl við þá.

Sýn galleristans
Á sama tíma og ritgerðinni er ætlað að gefa skýrari mynd af galleristanum er ljóst að galleristar vinna að því að auka sýnileika listamanna fremur en sinn eigin sýnileika. Þannig hafa galleristar lagt fram mikilvægan skerf til menningarumhverfis sem snýst um listamenn. Þetta er mikilvægur þáttur í listrænni sýn gallerista; fyrir utan það að skapa sínar eigin gallerí innsetningar, snýst sýn þeirra um að framleiða listamenn og kynna þá eins víða og mögulegt er.

Þessi viðskiptalegu og sýningarstjóralegu áhugamál eru í huga danska galleristans Nicholai Wallner sameining listrænnar sköpunar og skapandi viðskipta.[2] Og, líkt og East-End galleristinn Andrew Mummery minnir á þá búa listamennirnir til listina sem sýnd er í galleríinu[3] sem að auki sýnir að galleríið er afkvæmi skapandi samruna sem byggir á hæfileikum galleristans til að byggja upp samskiptanet innan galleríheimsins, á listkaupstefnum og í fjölmiðlum. Á þennan hátt eru gallerí útkoman úr skapandi samruna.

Hugmynd Wallners um ,,skapandi viðskipti‘‘ virðist vera rétt þar sem galleristarnir sem rætt var við virðast ekki hafa verið fyllilega meðvitaðir um stöðu listmarkaðarins þegar þeir stofnuðu gallerí sín. Þó nokkrir galleristanna muni eftir kreppu eða lifnandi markaði um það leyti sem þeir stofnuðu galleríin hafði sú vitneskja engin áhrif á ákvarðanir um stofnun galleríanna þeirra. Þrátt fyrir þetta hafa nokkur galleríana náð að vaxa og dafna og orðið sýnileg í fjölþjóðlegu samhengi. Til að ná þessum árangri hljóta galleristarnir að hafa haft einhvern skilning á því hvernig listmarkaðurinn virkar, jafnvel þó ekki væri nema óbeint. Meirihluti galleristanna á Íslandsbryggju[4] í Kaupmannahöfn og Edda Jósdóttir[5] í i8 fundu fljótt þörf fyrir það að byggja upp markað erlendis og kynna alþjóðlegan hóp listamanna. Þatta var vegna þess að staðbundni markaðurinn myndi aldrei hafa burði til að standa undir framtíðar markmiðum þeirra. Þessar breytingar ýta undir þá sýn að persónuleg löngun og og sköpunarkraftur eru drifkraftur farsæls gallerís fremur en nákvæm markaðskönnun og viðskiptaáætlun. Eini galleristinn sem nefndi viðskiptaáætlun var Þóra Þórisdóttir, en það var þegar hún sá frammá að þurfa að loka og hún neytti allra bragða til að finna fjárhagslegan bakhjarl og forða þannig galleríinu frá lokun.[6]

Það liggur í hlutarins eðli að mikilvægur hluti þessa skapandi verkefnis er framboð á framsækinni list og listamönnum. Galleristar þarfnast þessa í viðleitni sinni til skilja sig frá öðrum og skapa sér listræna sérstöðu og á þennan hátt að marka sér rými í staðbundnum, þjóðlegum og alþjóðlegum listheimum. Með þessu virðast þeir búa yfir bjartsýni sem jaðrar við að vera einfeldningsleg og blind.

Hvað varðar sýn, þá er ekki hægt að skilja galleríin einungis í efnahagslegu tilliti. Í rauninni virðist sannari lestur á löngunum þessara gallerista vera fólgin í listrænum sköpunarkrafti. Þeir búa yfir öllum draumórum listamanna þótt flestir beini þessum frumkrafti í kynningar og uppbyggingu tengslanets. Með þessum aðferðum telja þeir sig hafa grundvallar hlutverk varðandi það að auka skilning og þekkingu á list.

Greinin er byggð á doktorsritgerð höfundarins.

Mynd frá London Art Fair 2016, fengin að láni frá blouinartinfo.com

Eftir Dr. Magnús Gestsson

  1. Pierre Bourdieu, The Field of Cultural Production: Essays on Art and Literature. Ritstjórn og ritun inngangs Randal Johnson (Cambridge: Polity Press, 1993), bls. 75.
  2. Viðtal höfundar við Nicholai Wallner 10. apríl 2003.
  3. Viðtal höfundar við Andrew Mummery 22. maí 2003
  4. Um og uppúr árinu 2000 varð til hópur gallería á Íslandsbryggju sem flúðu miðborg Kaupmannahafnar og fundu ódýrt húsnæði utan hinnar hefðbundnu miðju listheimsins og ýttu þannig undir hugmyndina um að það væru margir listheimar.
  5. Viðtal höfundar við Eddu Jónsdóttur 20. mars 2003.
  6. Viðtal höfundar við Þóru Þórisdóttur 18. mars 2003.
UA-76827897-1

Pin It on Pinterest

Share This